• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Dec

Stefnir í gríðarleg átök við útgerðamenn

Eins og alþjóð veit þá kolfelldu sjómenn í vikunni nýgerðan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi með um 80% atkvæða. Rétt er að geta þess að þetta var í annað sinn á árinu sem sjómenn fella kjarasamning við útgerðamenn en í júní felldu sjómenn samning með 66% atkvæða.

Það er því morgunljóst að skollið er á grjóthart verkfall á milli sjómanna og útgerðamanna og staðan grafalvarleg. Krafa sjómanna er hvellskýr, að útgerðamenn komi fram við þá af virðingu og hlustað sé á þeirra sanngjörnu kröfur. Það liggur fyrir að sjómenn sem hafa verið kjarasamningslausir frá 1. janúar 2011 eða í ein 6 ár krefjast þess að tekið verði tillit til þeirra hófværu kröfugerðar.

En hvaða atriði vilja sjómenn ná fram í nýjum kjarasamningi og eru þetta ósanngjarnar kröfur? Förum yfir nokkur atriði sem sjómenn hafa farið fram á:

Tekið verði strax á mönnunarmálum á uppsjávarskipum og ísfisktogurum: Af hverju vilja sjómenn taka á þessum mönnunarmálum? Jú, vegna þess að sjómenn telja að búið sé að fækka það mikið um borð t.d. í uppsjávarskipum að það sé farið að ógna öryggi þeirra við sín störf. Vissulega er rétt að geta þess að búið var að setja saman nefnd sem á að rannsaka þessi mönnunarmál, en sjómenn vilja að tekið sé á þessu strax því öryggi þeirra er í húfi.

Tekið verði á fæðiskostnaði sjómanna: Hvaða hemja er það að sjómenn þurfi að greiða sjálfir fæði um borði í skipum þar sem þeir eru innilokaðir? Fjölmörg fyrirtæki í landi greiða fæðiskostnað sinna starfsmanna og sem dæmi þá fá allir starfsmenn í stóriðjunum á Íslandi frítt fæði því starfsmenn komast ekkert heim í mat, en þeir borga hinsvegar fæðisskatt sem nemur um 450 krónum á dag.

Nýsmíðaálag verði endurskoðað: Í dag þurfa sjómenn að vissum skilyrðum uppfylltum að greiða allt að 10% af sínum launum í nýsmíðaálag í 7 ár eftir að nýtt skip er smíðað. Í samningum sem var felldur var gert ráð fyrir að þetta nýsmíðaálag myndi fjara út á 14 árum, en eðlilega sætta sjómenn sig ekki við að þurfa að greiða þetta álag enda sjá allir viti bornir menn hversu ósanngjarnt það er að láta sjómenn taka þátt í slíkum kostnaði. Því er krafan skýr: að þetta nýsmíðaálag verði endurskoðað og komið verði meira til móts við sjómenn hvað þetta álag varðar.

Endurskoða þarf olíugjaldið: Í dag eru 30% af aflaverðmæti dregin frá vegna olíugjaldsins og því standa eftir 70% til skipta til áhafnar. Það er skýlaus krafa sjómanna að þessi viðmið verði endurskoðuð.

Sjómannaafsláttur komi inn: Það var þyngra en tárum taki þegar ríkisstjórnin sem var við stjórnartaumanna árið 2009 tók þá ákvörðun að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum, en í árslok 2014 féll hann endanlega út. Árið 2010 nam sjómannaafslátturinn 987 kr. á dag eða sem nam tæpum 30 þúsund krónum á mánuði. Þetta var tekið af sjómönnum með einu pennastriki án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Rétt er að geta þess að flestar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við umbuna sínum sjómönnum með sjómannaafslætti. Það er því ljóst að aðkoma stjórnvalda að lausn þessarar deilu þarf að vera í formi þess að sjómenn fái aftur einhvern sjómannaafslátt eins og aðrir sjómenn í þeim löndum við viljum bera okkur saman við.

Þetta eru nokkur af þeim atriðum sem sjómenn telja nauðsynleg til að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi og íslenskir sjómenn eiga það skilið að hafa góð laun og komið sé fram við þá af virðingu. Það á að vera öllum ljóst að sjómenn vinna oft og títt við afar erfiðar, krefjandi og hættulegar aðstæður þar sem allra veðra er von og það víðsfjarri sinni fjölskyldu og sínum nánustu.

Það er viss fórn að vera sjómaður við Íslandsstrendur enda liggur fyrir að sjómenn hafa mun minni möguleika að taka þátt í uppeldi barna sinna og horfa á þau vaxa úr grasi.

Það er mikilvægt að almenningur átti sig á þessari fórn sem sjómenn færa við sín störf eins t.d. að vera staddir úti á rúmsjó þegar alvarlegir atburðir gerst í fjölskyldu sjómanna. Dæmi eru um sjómenn sem hafa misst einhvern nákomin og það tekur kannski einhverja daga að komast heim til fjölskyldunnar. Svona dæmi hafa svo sannarlega gerst, eins og til dæmis sjómaður sem tilheyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Hann var á kolmunnaveiðum við Færeyjar þegar hann fékk tilkynningu um að dóttir hans hefði látist í bílslysi og það tók sjómanninn um tvo sólarhringa að komast heim í faðm fjölskyldu sinnar.

Fórn sjómanna birtist í fleiri þáttum eins og öryggismálum því það er ekkert grín að veikjast alvarlega eða slasast um borð í skipi út á ballarhafi víðsfjarri allri læknisþjónustu. Við slíkar aðstæður þurfa sjómenn að reiða sig algerlega á kraftaverkamennina sem starfa á þyrlum Landhelgisgæslunnar, en núna eru meira að segja blikur á lofti með að sjómenn geti stólað á þá þjónustu vegna fjárskorts hjá Landhelgisgæslunni. Það er með ólíkindum að Alþingi tryggi ekki Landhelgisgæslunni þá fjármuni svo að hægt sé að tryggja fulla þjónustu hjá þyrlusveitum Landhelgisgæslunnar, enda eru þyrlunar lífæð sjómanna ef einhver vá á sér stað um borð í fiskiskipum. Þessar fórnir íslenskra sjómanna eru blákaldar staðreyndir sem ekki á að gera lítið úr og því mikilvægt að kjör og aðbúnaður sjómanna sé með þeim hætti að sómi sé af.

Oft heyrist að kjör sjómanna sé gríðarlega góð og já, vissulega hafa kjör sjómanna verið blessunarlega góð og þá sérstaklega eftir hrun þegar krónan veiktist mikið. En slíku er ekki til að dreifa í dag enda hefur ekki aðeins krónan styrkst mikið að undanförnu heldur hefur afurðaverð einnig lækkað umtalsvert og hefur þetta gríðarleg neikvæð áhrif á kjör sjómanna. Að sjálfsögðu vita sjómenn að þeir eru á hlutaskiptum og kjör þeirra geta sveiflast upp og niður. Þannig hefur það alltaf verið.

En það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þeir hafa verið kjarasamningslausir í 6 ár og vilja að komið sé fram við þá af virðingu og störf þeirra séu metin að verðleikum og hlustað sé á þeirra kröfur sem eru þegar allt er á botninn hvolft sanngjarnar, réttlátar og hóflegar.

Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur átti sig á því að það er íslenskur sjávarútvegur með sjómenn og fiskvinnslufólk í broddi fylkingar sem hefur gert það að verkum að okkur hefur tekist að byggja upp þá innviði samfélagsins sem við búum nú við. Án sjómanna og sjávarútvegs væri okkar samfélag ekki í þeim gæðaflokki sem við þekkjum og teljum sjálfsagt. Það vita allir að sjómenn hafa í gegnum áratugina skapað langmestu gjaldeyristekjurnar fyrir íslenskt þjóðarbú sem hefur gert okkur kleyft að byggja upp heilbrigðis- mennta- og okkar velferðakerfi. Ábyrgð útgerðamanna er mikil við að leysa þessu deilu og þeir verða að fara að láta af þessum hroka, virðingaleysi og skilningsleysi sem þeir sýna sjómönnum og þeir verða að ganga að sanngjörnum kröfum sjómanna því mikið er í húfi fyrir þjóðfélagið allt.

Við Alþingismenn vil formaður Verkalýðsfélags Akraness segja: látið ykkur ekki detta í hug að setja lög á þessa kjaradeilu sjómanna við útgerðamenn enda væri það stórundarlegt ef svo myndi gerast í ljósi þess að læknar og heilbrigðisstarfsmenn voru í löngu verkfalli fyrir nokkrum misserum síðan án þess að fá á sig lög þrátt fyrir að mannslíf væru jafnvel í hættu. Formaður VLFA segir þetta því sjómenn hafa oft þurft að búa við það að fá á sig lög. Hins vegar er mikilvægt að Alþingi komi að þessari alvarlegu deilu með því að skila til baka þeirri kjaraskerðingu sem Alþingi framkvæmdi árið 2009 þegar sjómannaafslátturinn var tekinn af sjómönnum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er nú kominn í samninganefnd Sjómannasambandsins og hann mun klárlega leggja sig allan fram við að reyna að leysa þessa deilu með sínum samherjum með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi. Það er þó ljóst að framundan eru gríðarlega átök ef útgerðamenn verða ekki tilbúnir að brjóta odd af oflæti sínu og mæta réttlátum kröfum sjómanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image