• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

27
Dec

Lausn fannst á ágreiningi við Hvalfjarðasveit

Í október leituðu ófaglærðir starfsmenn Heiðarskóla til Verkalýðsfélags Akraness vegna ágreinings um uppsögn á 6% umframkjörum sem 6 starfsmenn skólans höfðu haft frá 1. júní 2011.  En sveitastjórn Hvalfjarasveitar hafði tilkynnt umræddum starfsmönnum að þessum umframkjörum yrði sagt upp frá og með 1. desember síðastliðnum.

Ástæður fyrir uppsögn á umframkjörum þeirra starfsmanna sem um ræðir væru þær að hugmyndum um sveigjanleika í starfi hafi ekki komið til framkvæmda en einnig vildi sveitafélagið eyða launamisrétti á meðal almennra starfsmanna á grundvelli jafnræðis.

Formaður félagsins átti marga fundi með starfsmönnum Heiðarskóla til að finna lausn á málinu sem og fulltrúum sveitafélagsins.  Á þessum fundum kom fram að þessi uppsögn á þessum 6% umframkjörum væri alls ekki sparnaðaraðgerð heldur liður í að gæta jafnræðis á meðal almennra starfsmanna.  Formanni var tjáð af fulltrúum sveitafélagsins að Hvalfjarðasveit væri að greiða 16 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra í leik-og grunnskóla sveitafélagsins umfram kjarasamninga.

Verkalýðsfélag Akraness skrifaði sveitastjórn Hvalfjarðasveitar bréf 1. desember sl. þar sem lögð var fram tillaga að sátt í málinu sem laut að því að hækka þessar greiðslur úr 16 þúsundum í 22 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra starfsmanna í leik- og grunnskóla Hvalfjarðasveitar.  Rök VLFA laut að því að ekki yrði um kostnaðarauka fyrir Hvalfjarðasveit að ræða enda yrði sparnaðurinn sem hlytist af því að segja upp 6% umframkjörum hjá þessum 6 starfsmönnum notaður til að hækka þessar mánaðargreiðslur hjá öllum ófaglærðum starfsmönnum sveitafélagsins.  Þessa tillögu lagði VLFA fram á grundvelli þess að uppsögnin á umframkjörum var ekki sparnaðaraðgerð heldur gerð til eða eyða launamisrétti.

Það ánægjulega er að sveitastjórn Hvalfjarðasveitar féllst á þessa tillögu Verkalýðsfélags Akraness og munu því mánaðarlegar eingreiðslur sem ófaglærðs starfsfólks í leik-og grunnskóla Hvalfjarðasveitar hækka úr 16.000 krónum á mánuði í 22.000 krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2017 og munu því 20 ófaglærðir starfsmenn hækka um 6.000 krónur á mánuði eða sem nemur 72.000 krónur á ársgrundvelli.

Það er ljóst að þessi ágreiningur var gríðarlega erfiður og tók mjög á þá starfsmenn sem áttu hlut að máli en miðað við aðstæður þá var þetta farsæl lausn í mjög svo erfiðu máli.

22
Dec

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Hefðbundinn opnunartími verður yfir hátíðarnar, nema hvað skrifstofa félagsins verður lokuð á morgun, Þorláksmessu. Opnum á ný þriðjudaginn 27. desember kl. 8.

Ef áríðandi mál koma upp er hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

21
Dec

Gríðarleg samstaða meðal sjómanna

Rétt í þessu var að ljúka kynningar- og samstöðufundi félaga í Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni skall verkfall sjómanna á þann 14. desember sl.

Formaður fór ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og niðurstöðu fundar deiluaðila hjá Ríkissáttasemjara í gær, en eins og fram hefur komið í fréttum er himinn og haf á milli deiluaðila í þessum kjarasamningaviðræðum og lýsti formaður yfir miklum áhyggjum af því að þetta verkfall gæti orðið langt og strangt.

Á fundi sjómanna í dag fór þó ekki á milli mála að mikil samstaða er í hópnum og var það afar ánægjulegt að finna. Fundurinn veitti formanni fullt umboð til að leiða þessar viðræður fyrir hönd þeirra sjómanna sem tilheyra Sjómannadeild VLFA og var formaður nestaður með nokkrum atriðum sem sjómenn telja að þurfi að koma til, svo hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi sjómönnum til heilla.

Formaður þakkaði sjómönnum traustið og fór yfir mikilvægi þess að menn stæðu saman og lofaði því að halda sjómönnum vel upplýstum um gang viðræðna og greindi frá því að ef svo kynni að það sæist til lands með nýjan kjarasamning, þá myndi formaður koma með hann til kynningar áður en skrifað yrði undir slíkan samning. En eins og staðan er í dag er ljóst að fátt bendir til þess að deilan leysist á næstu vikum. Til þess þurfa útgerðarmenn að brjóta odd af oflæti sínu og hlusta á sanngjarnar kröfur sjómanna.

19
Dec

Sjómenn - áríðandi fundur á miðvikudaginn kl. 14:00 á Gamla Kaupfélaginu

Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni og allir sjómenn vita þá hófst ótímabundið verkfall hjá sjómönnum 14. desember síðastliðinn. Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness boðar sjómenn til fundar á Gamla kaupfélaginu miðvikudaginn 21. desember og hefst fundurinn klukkan 14:00.

Dagskrá fundarins er að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaraviðræðum sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eftir að kjarasamningur sjómanna hefur verið felldir í tvígang. Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir stöðuna en rétt er að geta þess að fyrsti fundurinn með forsvarsmönnum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi verður haldinn á morgun og mun formaður greina frá niðurstöðu þess fundar.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að það er himinn og haf sem skilur á milli deiluaðila í þessum kjaraviðræðum og því mikilvægt að sjómenn mæti á fundinn til að fara yfir stöðuna.

16
Dec

Stefnir í gríðarleg átök við útgerðamenn

Eins og alþjóð veit þá kolfelldu sjómenn í vikunni nýgerðan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi með um 80% atkvæða. Rétt er að geta þess að þetta var í annað sinn á árinu sem sjómenn fella kjarasamning við útgerðamenn en í júní felldu sjómenn samning með 66% atkvæða.

Það er því morgunljóst að skollið er á grjóthart verkfall á milli sjómanna og útgerðamanna og staðan grafalvarleg. Krafa sjómanna er hvellskýr, að útgerðamenn komi fram við þá af virðingu og hlustað sé á þeirra sanngjörnu kröfur. Það liggur fyrir að sjómenn sem hafa verið kjarasamningslausir frá 1. janúar 2011 eða í ein 6 ár krefjast þess að tekið verði tillit til þeirra hófværu kröfugerðar.

En hvaða atriði vilja sjómenn ná fram í nýjum kjarasamningi og eru þetta ósanngjarnar kröfur? Förum yfir nokkur atriði sem sjómenn hafa farið fram á:

Tekið verði strax á mönnunarmálum á uppsjávarskipum og ísfisktogurum: Af hverju vilja sjómenn taka á þessum mönnunarmálum? Jú, vegna þess að sjómenn telja að búið sé að fækka það mikið um borð t.d. í uppsjávarskipum að það sé farið að ógna öryggi þeirra við sín störf. Vissulega er rétt að geta þess að búið var að setja saman nefnd sem á að rannsaka þessi mönnunarmál, en sjómenn vilja að tekið sé á þessu strax því öryggi þeirra er í húfi.

Tekið verði á fæðiskostnaði sjómanna: Hvaða hemja er það að sjómenn þurfi að greiða sjálfir fæði um borði í skipum þar sem þeir eru innilokaðir? Fjölmörg fyrirtæki í landi greiða fæðiskostnað sinna starfsmanna og sem dæmi þá fá allir starfsmenn í stóriðjunum á Íslandi frítt fæði því starfsmenn komast ekkert heim í mat, en þeir borga hinsvegar fæðisskatt sem nemur um 450 krónum á dag.

Nýsmíðaálag verði endurskoðað: Í dag þurfa sjómenn að vissum skilyrðum uppfylltum að greiða allt að 10% af sínum launum í nýsmíðaálag í 7 ár eftir að nýtt skip er smíðað. Í samningum sem var felldur var gert ráð fyrir að þetta nýsmíðaálag myndi fjara út á 14 árum, en eðlilega sætta sjómenn sig ekki við að þurfa að greiða þetta álag enda sjá allir viti bornir menn hversu ósanngjarnt það er að láta sjómenn taka þátt í slíkum kostnaði. Því er krafan skýr: að þetta nýsmíðaálag verði endurskoðað og komið verði meira til móts við sjómenn hvað þetta álag varðar.

Endurskoða þarf olíugjaldið: Í dag eru 30% af aflaverðmæti dregin frá vegna olíugjaldsins og því standa eftir 70% til skipta til áhafnar. Það er skýlaus krafa sjómanna að þessi viðmið verði endurskoðuð.

Sjómannaafsláttur komi inn: Það var þyngra en tárum taki þegar ríkisstjórnin sem var við stjórnartaumanna árið 2009 tók þá ákvörðun að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum, en í árslok 2014 féll hann endanlega út. Árið 2010 nam sjómannaafslátturinn 987 kr. á dag eða sem nam tæpum 30 þúsund krónum á mánuði. Þetta var tekið af sjómönnum með einu pennastriki án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Rétt er að geta þess að flestar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við umbuna sínum sjómönnum með sjómannaafslætti. Það er því ljóst að aðkoma stjórnvalda að lausn þessarar deilu þarf að vera í formi þess að sjómenn fái aftur einhvern sjómannaafslátt eins og aðrir sjómenn í þeim löndum við viljum bera okkur saman við.

Þetta eru nokkur af þeim atriðum sem sjómenn telja nauðsynleg til að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi og íslenskir sjómenn eiga það skilið að hafa góð laun og komið sé fram við þá af virðingu. Það á að vera öllum ljóst að sjómenn vinna oft og títt við afar erfiðar, krefjandi og hættulegar aðstæður þar sem allra veðra er von og það víðsfjarri sinni fjölskyldu og sínum nánustu.

Það er viss fórn að vera sjómaður við Íslandsstrendur enda liggur fyrir að sjómenn hafa mun minni möguleika að taka þátt í uppeldi barna sinna og horfa á þau vaxa úr grasi.

Það er mikilvægt að almenningur átti sig á þessari fórn sem sjómenn færa við sín störf eins t.d. að vera staddir úti á rúmsjó þegar alvarlegir atburðir gerst í fjölskyldu sjómanna. Dæmi eru um sjómenn sem hafa misst einhvern nákomin og það tekur kannski einhverja daga að komast heim til fjölskyldunnar. Svona dæmi hafa svo sannarlega gerst, eins og til dæmis sjómaður sem tilheyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Hann var á kolmunnaveiðum við Færeyjar þegar hann fékk tilkynningu um að dóttir hans hefði látist í bílslysi og það tók sjómanninn um tvo sólarhringa að komast heim í faðm fjölskyldu sinnar.

Fórn sjómanna birtist í fleiri þáttum eins og öryggismálum því það er ekkert grín að veikjast alvarlega eða slasast um borð í skipi út á ballarhafi víðsfjarri allri læknisþjónustu. Við slíkar aðstæður þurfa sjómenn að reiða sig algerlega á kraftaverkamennina sem starfa á þyrlum Landhelgisgæslunnar, en núna eru meira að segja blikur á lofti með að sjómenn geti stólað á þá þjónustu vegna fjárskorts hjá Landhelgisgæslunni. Það er með ólíkindum að Alþingi tryggi ekki Landhelgisgæslunni þá fjármuni svo að hægt sé að tryggja fulla þjónustu hjá þyrlusveitum Landhelgisgæslunnar, enda eru þyrlunar lífæð sjómanna ef einhver vá á sér stað um borð í fiskiskipum. Þessar fórnir íslenskra sjómanna eru blákaldar staðreyndir sem ekki á að gera lítið úr og því mikilvægt að kjör og aðbúnaður sjómanna sé með þeim hætti að sómi sé af.

Oft heyrist að kjör sjómanna sé gríðarlega góð og já, vissulega hafa kjör sjómanna verið blessunarlega góð og þá sérstaklega eftir hrun þegar krónan veiktist mikið. En slíku er ekki til að dreifa í dag enda hefur ekki aðeins krónan styrkst mikið að undanförnu heldur hefur afurðaverð einnig lækkað umtalsvert og hefur þetta gríðarleg neikvæð áhrif á kjör sjómanna. Að sjálfsögðu vita sjómenn að þeir eru á hlutaskiptum og kjör þeirra geta sveiflast upp og niður. Þannig hefur það alltaf verið.

En það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þeir hafa verið kjarasamningslausir í 6 ár og vilja að komið sé fram við þá af virðingu og störf þeirra séu metin að verðleikum og hlustað sé á þeirra kröfur sem eru þegar allt er á botninn hvolft sanngjarnar, réttlátar og hóflegar.

Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur átti sig á því að það er íslenskur sjávarútvegur með sjómenn og fiskvinnslufólk í broddi fylkingar sem hefur gert það að verkum að okkur hefur tekist að byggja upp þá innviði samfélagsins sem við búum nú við. Án sjómanna og sjávarútvegs væri okkar samfélag ekki í þeim gæðaflokki sem við þekkjum og teljum sjálfsagt. Það vita allir að sjómenn hafa í gegnum áratugina skapað langmestu gjaldeyristekjurnar fyrir íslenskt þjóðarbú sem hefur gert okkur kleyft að byggja upp heilbrigðis- mennta- og okkar velferðakerfi. Ábyrgð útgerðamanna er mikil við að leysa þessu deilu og þeir verða að fara að láta af þessum hroka, virðingaleysi og skilningsleysi sem þeir sýna sjómönnum og þeir verða að ganga að sanngjörnum kröfum sjómanna því mikið er í húfi fyrir þjóðfélagið allt.

Við Alþingismenn vil formaður Verkalýðsfélags Akraness segja: látið ykkur ekki detta í hug að setja lög á þessa kjaradeilu sjómanna við útgerðamenn enda væri það stórundarlegt ef svo myndi gerast í ljósi þess að læknar og heilbrigðisstarfsmenn voru í löngu verkfalli fyrir nokkrum misserum síðan án þess að fá á sig lög þrátt fyrir að mannslíf væru jafnvel í hættu. Formaður VLFA segir þetta því sjómenn hafa oft þurft að búa við það að fá á sig lög. Hins vegar er mikilvægt að Alþingi komi að þessari alvarlegu deilu með því að skila til baka þeirri kjaraskerðingu sem Alþingi framkvæmdi árið 2009 þegar sjómannaafslátturinn var tekinn af sjómönnum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er nú kominn í samninganefnd Sjómannasambandsins og hann mun klárlega leggja sig allan fram við að reyna að leysa þessa deilu með sínum samherjum með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi. Það er þó ljóst að framundan eru gríðarlega átök ef útgerðamenn verða ekki tilbúnir að brjóta odd af oflæti sínu og mæta réttlátum kröfum sjómanna.

14
Dec

Sjómenn kolfelldu kjarasamninginn - verkfall skellur á kl. 20 í kvöld

Þá liggur það fyrir að sjómenn hafa kolfellt nýgerðan kjarasamning í atkvæðagreiðslu, en talningu atkvæða var rétt í þessu að ljúka. 75,64% þeirra sem greiddu atkvæði sögðu nei við samningnum, sem þýðir einfaldlega að verkfall sjómanna mun hefjast kl. 20 í kvöld á nýjan leik, enda var verkfallinu einungis frestað til þess tíma. Með öðrum orðum, íslenski fiskiskipaflotinn mun taka inn veiðarfæri sín og halda til hafnar kl. 20 í kvöld. Ljóst er að framundan eru gríðarlega erfiðar kjaraviðræður við útgerðarmenn, en niðurstaða úr þessari kosningu er afdráttarlaus: innihald síðasta samnings var of rýrt og því ber aðilum að setjast að nýju við samningsborðið og reyna að finna lausn á deilunni.

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness mun halda fund með sjómönnum í byrjun næstu viku, en fundurinn verður auglýstur nánar síðar, en það er ljóst að nú þarf að heyra í sjómönnum til að fara yfir hvað það er sem þarf nákvæmlega að koma til til að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi og mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum að reyna að leysa þessa deilu.

Nánari niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var með eftirfarandi hætti:

Á kjörskrá voru 1.098 sjómenn og af þeim greiddu 743 atkvæði eða 67,7%.

Já sögðu 177 eða 23,82% þeirra sem greiddu atkvæði.

Nei sögðu 562 eða 75,64% þeirra sem greiddu atkvæði.

Auðir seðlar voru 4 eða 0,54% greiddra atkvæða.

14
Dec

Sjómenn kosningu lýkur kl. 12:00 í dag!

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness vill minna sjómenn á að kosningu um nýgerðan kjarasamning lýkur klukkan 12:00 í dag.  Félagið hvetur sjómenn eindregið til að nýta sér kosningarrétt sinn og kjósa, en rétt er að geta þess að í gær var kosningarþátttaka rétt rúm 60%

Í ljósi þeirra umræðu á meðal sjómanna sjálfra þá eru umtalsverðar líkur á að kjarasamningurinn verði felldur og ef það gerist mun verkfall hefjast klukkan 20:00 í kvöld.

Niðurstaðan um atkvæðagreiðsluna ætti að leggja fyrir um klukkan 13:00 í dag.

13
Dec

ASÍ og SA slá skjaldborg um stjórnarval í lífeyrissjóðunum

Í ljósi þess að þann 21. desember næstkomandi muni miðstjórn Alþýðusambands Íslands staðfesta endurskoðun á samningi á milli ASÍ og SA um lífeyrismál, þá er rétt að það komi fram að gert er ráð fyrir nánast óbreyttu fyrirkomulagi við val á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóðanna, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness barist um langt árabil fyrir því að lýðræði við stjórnarkjör í lífeyrissjóðunum verði stóraukið og aðkoma sjóðsfélaga sjálfra að ákvörðunartöku sjóðanna verði efld til muna.

Sem dæmi um þessa baráttu Verkalýðsfélags Akraness þá nægir að rifja upp tillögu sem félagið lagði fram að þingi ASÍ 2009 um að atvinnurekendur víki úr stjórnum sjóðanna og sjóðsfélagar kjósi alla stjórnarmenn í beinni kosningu.

Það er rétt að það komi skýrt fram að í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ um lífeyrismál frá árinu 1995 var samið um helmingaskipti á milli atvinnurekanda og verkalýðshreyfingarinnar í stjórnum lífeyrissjóðanna. Í þeirri tillögu sem VLFA lagði fram á þingi ASÍ 2009 var skorað á miðstjórn ASÍ að taka upp þann kjarasamning og leggja til breytingar á honum og hætta helmingaskiptum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekanda í stjórnum lífeyrissjóðanna. VLFA lagði til á þinginu 2009 að í þessum samningi yrði stjórnarvali í sjóðunum breytt þannig að sjóðsfélagar myndu kjósa alla stjórnarmenn lífeyrissjóðanna beinni kosningu og atvinnurekendur vikju úr stjórnum sjóðanna.

Miðstjórn ASÍ skrifaði umsögn vegna tillögu VLFA og í þeirri umsögn hafnaði miðstjórnin því að atvinnurekendur myndu fara úr sjóðunum og sjóðsfélagar myndu kjósa alla stjórnarmenn, en lagði hins vegar til að samþykkt yrði að fela miðstjórn að standa að víðtækri og almennri umræðu meðal aðildarsamtaka sinna um endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál.

ASÍ ákvað í febrúar 2010 að halda stefnumótunarfund um lífeyrismál á Selfossi þar sem stjórnarskipan lífeyrissjóðanna var mikið til umfjöllunar og á þeim fundi komu klárlega sterkar raddir fram um að efla þyrfti lýðræðið við stjórnarval í sjóðunum, en þessi stefnumótunarfundur átti að verða einn liður í því að undirbúa endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál.

Á þessum stefnumótunarfundi á Selfossi kynnti Verkalýðsfélag Akraness niðurstöður skoðanakönnununar sem félagið lét gera en í þeirri könnun voru 1200 manns spurð eftirfarandi spurningar: „Ert þú hlynnt(ur) því eða andvíg(ur) að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum þannig að stjórnarmenn verði að vera sjóðsfélagar og sjóðsfélagar sjálfir kjósi alla stjórnarmenn í beinni kosningu?“  Niðurstaðan var að 72% töldu það brýnt að sjóðsfélagar myndu kjósa alla stjórnarmenn í lífeyrissjóðina.  Vilji sjóðsfélaga var hvellskýr!

Í ein 6 ár eða frá árinu 2010 hefur lítið sem ekkert heyrst um þessa vinnu þar til í síðustu viku að boðað var til fundar með formönnum stéttarfélaganna og þeim tilkynnt að nefnd á vegum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins væri ná samkomulagi um drög að tillögum um breytingar á stjórnskipan á lífeyrissjóðunum. Breytingar sem eru í sjálfu sér afar takmarkaðar enda áfram gengið út frá helmingaskiptum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekanda í stjórnum sjóðanna og áfram sé stuðst við svokallað fulltrúalýðræði við val á stjórnarmönnum. Stéttarfélögunum voru gefnir nokkrir dagar til að andmæla eða koma með tillögur og það er skemmst frá því að segja að VLFA mótmælti þessum drögum harðlega á grundvelli þess að ekki væri verið að fara eftir tillögum frá Rannsóknarnefnd um lífeyrissjóðina né hefur nánast ekkert samtal átt sér stað við hinn almenna sjóðfélaga um þessar breytingar.

Í ljósi þessa telur formaður Verkalýðsfélags Akraness þessi vinnubrögð langt frá því að vera lýðræðisleg. Gleymum því ekki að miðstjórn ASÍ talaði um á þingi ASÍ 2009 að eiga víðtæka og almenna umræðu um lífeyrismál. Varla kalla menn það víðtæka og almenna umræðu að halda einn fund fyrir 6 árum síðan?

Það liggur fyrir að hinn almenni sjóðsfélagi hefur verið að kalla eftir opnu og auknu lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og það vita það allir sem eitthvað fylgjast með umræðunni um þessi mál að sjóðsfélagar vilja aukið lýðræði í lífeyrissjóðunum og gríðarlega margir telja að atvinnurekendur eigi ekki að víla og díla með kjarasamningsbundin réttindi launafólks í stjórnum lífeyrissjóðanna og eigi því að víkja úr stjórnum þeirra.

Það sem vekur einnig furðu í þessum drögum er að það er ekki einu sinni farið eftir ábendingum sem fram koma í Rannsóknarskýrslu um lífeyrissjóðina sem kom út í febrúar 2012, en þar leggja skýrsluhöfundar til að alla vega einn sjóðsfélagi sé kosinn í beinni kosningu af sjóðsfélögum. Meira að segja fjalla skýrsluhöfundar um að fulltrúalýðræðið við val á stjórnarmönnum sé ekki að virka sem skyldi.  Það verður að teljast undarlegt að í þessum drögum sé ekki tekið tillit til ábendinganna sem fram koma í rannsóknarskýrslunni.

Orðrétt segir í Rannsóknarskýrslu um lífeyrissjóðina varðandi stjórn og starfshætti:  „Óeðlilegt virðist að eigendur lífeyrissjóðanna (sjóðfélagar) eigi almennt ekki fulltrúa í stjórnum sjóðanna og hafi enga aðkomu að því hverjir sitji þar (Sjá kafla 5.2.2). - Úttektarnefndin leggur til að lífeyrissjóðir á almennum markaði og opinberum móti sér þá stefnu að einn eða fleiri stjórnarmenn séu kosnir beinni kosningu á ársfundi lífeyrissjóðsins. Fimm árum héðan í frá verði reynslan af þessu fyrirkomulagi metin og athugað verði hvort lengra skuli haldið.

Að hugsa sér að einhver sjálfskipaður hópur innan ASÍ hefur nú í samvinnu við Samtök atvinnulífsins ákveðið að sáralitlar breytingar verði gerðar á stjórnarskipan í lífeyrissjóðina og áfram verði svokölluð helmingaskiptaregla við lýði.  Ekkert tillit verði tekið til ábendinga sem fram komu í rannsóknarskýrslunni um að óeðlilegt sé að eigendur lífeyrissjóðanna (sjóðfélagar) eigi almennt ekki fulltrúa í stjórnum sjóðanna og hafi enga aðkomu að því hverjir sitji þar. Þessar ábendingar eru hunsaðar algerlega.

Það er með svo miklum ólíkindum og grátlegt að ekki hafi átt sér stað samtal við hinn almenna sjóðsfélaga og hann spurður að því hvernig hann vilji að sjá að stjórnarkjöri í lífeyrissjóðum verði háttað í framtíðinni.  Nei, í staðinn er fámennur hópur innan verkalýðshreyfingarinnar sem ákveður hvort gera eigi einhverjar breytingar á þessum málum eða ekki.

Það er rétt að geta þess að 21. desember næstkomandi mun miðstjórn ASÍ staðfesta endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA og allt eins líklegt að þar verði staðfest að litlar sem engar breytingar verði gerðar á við val á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóðanna. Sem sagt áfram verði helmingaskiptareglan á milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar við lýði og áfram verði stuðst við fulltrúalýðræði við val inn í stjórnir sjóðanna.

Formaður VLFA fullyrðir að ekki er vilji hjá hinum almenna sjóðsfélaga að viðhafa þessa helmingaskiptareglu við stjórnarval í lífeyrissjóðunum með þeim hætti sem verið hefur. Enda liggur fyrir ákall frá almenningi um aukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum en núna er það deginum ljósara að ASÍ og SA ætla sér að slá skjaldborg um veru sína í stjórnum lífeyrissjóðanna og það er gert með því að hunsa ábendingar sem fram komu í rannsóknarskýrslunni um lífeyrissjóðina og einnig með því að hunsa samtal við hinn almenna sjóðsfélaga og spyrja um hans álit á þessum málum.

Það er morgunljóst í huga formanns VLFA að enn og aftur fjarlægist forysta ASÍ sína félagsmenn með því að viðhafa andlýðræðisleg vinnubrögð við endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál  enda liggur fyrir að hinn almenni félagsmaður og sjóðsfélagi mun ekkert hafa um þennan samning að segja, enda á að afgreiða hann án aðkomu hins almenna félagsmanns.     

05
Dec

Mikilvægt að fara yfir launaseðlana!

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það hversu mikilvægt það er fyrir allt launafólk að fara ætíð vel yfir launaseðilinn sinn í hverjum mánuði, enda geta alltaf orðið mistök hjá launafulltrúum við útreikning á launum starfsmanna. Verkalýðsfélag Akraness vill árétta þetta enn og aftur því þótt stundum sé launafólk hlunnfarið vísvitandi, þá er oftar en ekki um mistök um að ræða þegar launafólk fær of lítið útborgað.

Í dag fékk félagið t.d. launaseðil frá einum félagsmanni sem starfar við þjónustustörf og við yfirferð formanns félagsins kom í ljós að viðkomandi starfsmaður var á röngum launataxta og munaði rúmum 15.000 krónum á mánuði og var þessi villa búin að vera um allanga hríð.

Að sjálfsögðu hafði félagið samband við viðkomandi fyrirtæki og óskaði eftir skýringum á þessu og viðurkenndi fyrirtækið um leið og það hafði skoðað viðkomandi starfsmann að hér væri um mistök að ræða og þetta yrði leiðrétt eins langt aftur og villan hafi staðið. Það er því ljóst að viðkomandi starfsmaður mun fá leiðréttingu sem nemur tugum þúsunda og munar launafólk um minna.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á félagsmenn sína að fara ætíð vel yfir launaseðlana og ef einhverjar spurningar vakna þá endilega hafa samband við skrifstofuna.

02
Dec

VLFA vann tvö mál gegn Norðuráli fyrir Félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Norðuráli vegna ágreinings í tveimur málum vegna túlkunar á greinum í kjarasamningi félagsins við Norðurál. Fyrra málið laut að túlkun á réttindaávinnslu starfsmanna til greiðslu orlofs- og desemberuppbóta og seinna málið laut að túlkun á ávinnslu á starfsaldurhækkunum. 

Það er skemmst frá því að segja að Félagsdómur féllst á allar dómskröfur Verkalýðsfélags Akraness í báðum málunum. Norðuráli var gert að greiða Verkalýðsfélagi Akraness 500.000 kr. í málskostnað fyrir hvort málið fyrir sig og var Norðuráli því gert að greiða VLFA samtals 1.000.000 kr. í málskostnað. 

Það er ljóst að umtalsverðir hagsmunir voru í húfi í þessum málum og þá sér í lagi hvað varðar túlkun á réttindaávinnslu starfsmanna til greiðslu á orlofs- og desemberuppbótum. Enda liggur fyrir að um háar upphæðir er að ræða enda eru orlofs- og desemberuppbætur samtals fyrir fullt starf hjá Norðuráli í dag 370.916 kr. eða 185.458 kr. hvor um sig.

Verkalýðsfélag Akraness valdi mál eins starfsmanns til að fara með sem prófmál fyrir félagsdóm til að fá úr því skorið hvort hann ætti rétt á hlutfalli af orlofs- og desemberuppbótum fyrir árin 2014 og 2015 og eins og áður sagði féllst félagsdómur á allar kröfur félagins og mun Norðurál þurfa að greiða umræddum starfsmanni um 200.000 krónur og að sjálfsögðu mun félagið fara fram á að dráttavextir verði greiddir af þeirri upphæð.

Það er morgunljóst að þessi dómur um réttindaávinnslu á orlofs- og desemberuppbótum hefur fordæmisgildi og ljóst að mun fleiri starfsmenn munu eiga rétt til greiðslu á orlofs- og desemberuppbótum en fyrirtækið hefur talið hingað til. Það liggur fyrir að VLFA mun gera kröfu á að allir starfsmenn sem samkvæmt dómnum eiga rétt á orlofs- og desemberuppbótum muni fá þær leiðréttar 4 ár aftur í tímann og er því ljóst er að um umtalsverðar upphæðir getur verið að ræða sem mun klárlega skipta þá starfsmenn sem þar heyra undir töluverðu máli.

Verkalýðsfélag Akraness var búið að reyna ítrekað að leysa þetta mál í sátt og samlyndi við forsvarsmenn fyrirtækisins en þeir töldu að þeim bæri ekki að greiða þetta og því fór Verkalýðsfélag Akraness með málið fyrir dómstóla sem hafa nú kveðið upp sinn endanlega útskurð. Það liggur fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei sætta sig við að brotið sé á réttindum okkar félagsmanna og ef félagið telur að brot hafi verið framin þá reynir félagið að sjálfsögðu að finna lausn á því. Ef það ekki tekst þá fer félagið með slík mál fyrir dómstóla. 

Í gegnum árin hefur félagið stefnt þó nokkrum fyrirtækjum vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga og vangoldinna launa og núna er félagið t.d. með eitt mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands og tvö önnur á leið þangað. Það mikilvægt að atvinnurekendur átti sig á því vel og rækilega að VLFA hefur ekki og mun ekki sætta sig við að brotið sé á réttindum sinna félagsmanna.  

Hægt er lesa dómana í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image