• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

31
Aug

Hundrað ára sögu vinnslu á bolfiski HB Granda á Akranesi lýkur í dag!

Eins og margir vita tók stjórn HB Granda ákvörðun um að hætta allri landvinnslu á bolfiski á Akranesi frá og með 1. september en í þessum töluðu orðum eru síðustu fiskarnir að renna eftir flæðilínu HB Granda en áætlað er að hráefnið klárist um eða eftir hádegi.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að sveitarfélag sem hefur í aldanna rás byggt nánast alfarið á vinnslu á sjávarafurðum standi nú í þeim sporum að verið sé að slökkva ljósin hvað varðar vinnslu á bolfiski.

En rétt að geta þess að fyrirtækið Haraldur Böðvarsson var stofnað árið 1906 og allt frá þeim tíma hafa vinnsla og veiðar verið fjöregg okkar Skagamanna og morgunljóst að samfélagið hér á Akranesi væri alls ekki með þeim hætti í dag ef veiðar og vinnsla á sjávarafurðum hefði ekki verið burðarstólpi í okkar afkomu.

En nú eru færiböndin í frystihúsi HB Granda að stoppa og því miður er alls óvíst hvort eða hvenær þau munu snúnast á nýjan leik.

Það er mikilvægt að rifja það upp að útgerðarfyrirtækið Haraldur Böðvarsson var áður en það sameinaðist Granda árið 2004 með 350 manns í vinnu  og greiddi 2 milljarða í laun og á Akranesi var landað um 170 þúsund tonnum.

Það er líka rétt að rifja upp að Akranes var einn af stærstu vertíðarstöðum á landinu þar sem allt snerist um veiðar og vinnslu á sjávarafurðum en núna er nánast allt horfið þökk sé því galna fyrirkomulagi við stjórnun á fiskveiðikerfinu sem við búum við. Enda er það galið og alls ekki líðandi að útgerðarmenn geti einhliða tekið ákvarðanir um að flytja aflaheimildir eða vinnslu sjávarafurða í burtu frá sveitarfélögunum og skilið fiskvinnslufólk og heilu byggðarlögin eftir með blæðandi sár.

Við höfum í gegnum árin og áratugina horft upp á fjölmörg byggðarlög skilin eftir í þvílíkum sárum eftir að útgerðarmenn hafa tekið ákvarðanir um að selja aflaheimildir úr byggðarlögunum. Það er ólíðandi að fyrirkomulag við stjórnun á fiskveiðum geti í raun og veru slegið heilu byggðarlögin fast í kviðinn þannig að þau séu í keng og geti vart rétt úr sér á nýjan leik.

Ég tel fulla ástæðu til að hvetja stjórnvöld til að vera á tánum en ekki hnjánum þegar kemur að því að verja hagsmuni fiskvinnslufólks og tryggja atvinnu vítt og breitt um landið gagnvart þeim sem fara með tímabundinn umráðarétt yfir sjávarauðlindinni.

21
Aug

Kjarasamningur Klafa samþykktur með öllum greiddum atkvæðum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa við Samtök atvinnulífsins 14. ágúst síðastliðinn.  En á föstudaginn kynnti formaður samninginn fyrir starfsmönnum  og að aflokinni kynningu var kosið um samninginn.

Það var afar ánægjulegt að sjá og heyra að starfsmenn voru mjög ánægðir með nýja samninginn og nægir í því samhengi að nefna að hann var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Það er mat formanns félagsins að hér sé um afar góðan kjarasamning að ræða, enda taka laun Klafamanna alfarið mið af stóriðjusamningi Elkem Ísland en eins og flestir vita eru kjör í flestum stóriðjum umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum nýja kjarasamningi hækka mánaðarlaun frá 63 þúsundum upp í 73 þúsund á mánuði. Einnig munu orlofs- og desemberuppbætur hækka og verða þær samtals 404 þúsund á ári, eða 202 þúsund hvor um sig.

Einnig var samið um að starfsmenn Klafa hafi möguleika á að fara í stóriðjuskóla hjá Elkem Ísland en þegar starfsmenn hafa lokið námi þar mun það skila starfsmönnum 10% launahækkun að auki.

Um önnur kjör starfsmanna mun kjarasamningur Elkem Ísland gilda og eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en fyrir 156 tíma vaktarvinnu í kvöld og dagvinnu mun starfsmaður með 10 ára starfsreynslu vera með um 520 þúsund í heildarlaun.

Samningurinn er afturvirkur og gildir frá 1. febrúar 2017 sem þýðir að starfsmenn munu fá laun leiðrétt frá þeim tíma og getur sú upphæð numið allt að 300 þúsundum króna.

15
Aug

Nýr samningur fyrir Klafamenn- laun hækka um allt að 75 þúsund á mánuði!

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú skrifað undir nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Klafa, en Klafi sér um út- og uppskipanir á Grundartanga og er í helmingseigu Norðuráls og Elkem Ísland.

Það er mat formanns félagsins að hér sé um afar góðan kjarasamning að ræða, enda taka laun Klafamanna alfarið mið af stóriðjusamningi Elkem Ísland en eins og flestir vita eru kjör í flestum stóriðjum umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum nýja kjarasamningi hækka mánaðarlaun frá 63 þúsundum upp í 74 þúsund á mánuði. Einnig munu orlofs- og desemberuppbætur hækka og verða þær samtals 404 þúsund á ári, eða 202 þúsund hvor um sig.

Einnig var samið um að starfsmenn Klafa hafi möguleika á að fara í stóriðjuskóla hjá Elkem Ísland en þegar starfsmenn hafa lokið námi þar mun það skila starfsmönnum 10% launahækkun að auki.

Um önnur kjör starfsmanna mun kjarasamningur Elkem Ísland gilda og eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en fyrir 156 tíma vaktarvinnu í kvöld og dagvinnu mun starfsmaður með 10 ára starfsreynslu vera með um 520 þúsund í heildarlaun.

Samningurinn er afturvirkur og gildir frá 1. febrúar 2017 sem þýðir að starfsmenn munu fá laun leiðrétt frá þeim tíma og getur sú upphæð numið allt að 300 þúsundum króna.

Í ljósi þess að Verkalýðsfélag Akraness hefur tryggt að kjör Klafamanna taki alfarið mið af stóriðjusamningunum er rétt að rifja upp verkfallið og kjaradeiluna hjá Alcan í Straumsvík árið 2015. En í því verkfalli var forgangskrafa fyrirtækisins að fá að bjóða út ýmsa þætti í rekstrinum í verktöku t.d. störf hafnarverkamanna sem störfuðu við út- og uppskipun fyrir fyrirtækið. Alcan fékk þetta í gegn sem leiddi til þess að kjör þeirra sem störfuðu t.d. við út- og uppskipanir hjá Alcan voru gjaldfelld verulega. 

Formaður mun kynna samninginn fyrir starfsmönnum næsta föstudag og að lokinni kynningu munu starfsmenn kjósa um samninginn.

27
Jul

Laun starfsmanna Norðuráls hafa hækkað um tæp 26% á tveimur árum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá gerði Verkalýðsfélag Akraness í kjarasamningum við Norðurál árið 2015 tímamótasamning sem byggist á því að laun starfsmanna taka hækkunum samkvæmt launavísitölunni. En rétt er að geta þess að slíkt er nánast óþekkt á hinum almenna vinnumarkaði hvað verkafólk varðar.

Það er óhætt að segja að þessi tímamótasamningur sé svo sannarlega að skila starfsmönnum góðum ávinningi en á fyrstu tveimur árunum sem liðin eru af samningstímanum hafa laun starfsmanna hækkað um tæp 26%. Sem dæmi þá hafa laun byrjanda á vöktum hækkað á þessum tveimur árum um tæpar 120 þúsund á mánuði með öllu og nema heildarlaun byrjanda þegar allt er talið með um 600 þúsund krónum á mánuði. Hins vegar hefur starfsmaður sem er með 10 ára starfsreynslu hækkað í launum um rúmar 140 þúsund krónur á mánuði og nema launin rétt tæpum 700 þúsund krónum þegar allt er talið með.

Eins og áður sagði er þetta tímamótasamningur þar sem starfsmönnum Norðuráls er tryggt allt það launaskrið sem er á íslenskum vinnumarkaði með þessari tengingu við launavísitöluna en rétt er að geta þess að fyrstu 6 mánuði þessa árs hefur launavísitalan hækkað um 5,33% og því má áætla að launahækkun starfsmanna Norðuráls muni verða þetta á bilinu 7 til 9% 1. janúar á næsta ári.

Einnig er rétt að geta þess að nýverið gekk Verkalýðsfélag Akraness frá öðrum stóriðjusamningi þar sem sama ákvæði um tengingu launahækkana starfsmanna er við launavísitölu.

25
Jul

Fjármálaeftirlitið segir ASÍ og Samtök atvinnulífsins brjóta lög gagnvart launafólki!

Að gefnu tilefni telur Verkalýðsfélag Akraness gríðarlega mikilvægt að rifja upp og upplýsa félagsmenn sína og reyndar allt launafólk á hinum almenna vinnumarkaði um það sem samið var um í kjarasamningum á árinu 2016. En í kjarasamningi SA og ASÍ, dags. 15.1. 2016 var framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð hækkað úr 8,0% í 11,5% í þremur áföngum. Það er að segja að framlag atvinnurekenda var aukið um 0,5% 1. júlí 2016 og síðan um 1,5% 1. júlí 2017 og að lokum mun framlagið hækka aftur um 1,5% 1. júlí 2018 eða samtals um 3,5%

Í þessum sama kjarasamningi kom fram að við endurskoðun kjarasamnings ASÍ og SA um lífeyrismál, sem ljúka átti fyrir lok maí 2016, var sagt að einstaklingum yrði heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, 3,5% auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignarsparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika. Með bundnum séreignarsparnaði er átt við að settar eru þrengri skorður en gilda gagnvart öðrum viðbótarlífeyrissparnaði.

Þessi kjarasamningur var samþykktur af félagsmönnum ASÍ m.a. vegna þess að getið var um að launafólk hefði valmöguleika um að ráðstafa að hluta eða að fullu 3,5% framlagi atvinnurekanda í bundinn séreignasparnað til að auðvelda launafólki starfslok.

Það sem síðan gerist er með svo miklum ólíkindum að erfitt er að koma orðum að því. En ASÍ og SA gerðu samkomulag 15. júní 2016 nánast í reykfylltum bakherbergjum um nýja tegund af séreign sem þeir ákváðu að kalla „tilgreinda séreign“ og þeir ákváðu einhliða í þessu samkomulagi að launafólki sé skylt að vera með þessa „tilgreindu séreign“ í lífeyrissjóðunum. Með öðrum orðum, launafólk má alls ekki velja sér annan vörsluaðila til að sjá um ávöxtun á þessari séreign nema hjá lífeyrissjóðunum.

Ég vil minna á enn og aftur að í kjarasamningum var samið um bundna séreign en hin hefðbundna séreign sem við öll þekkjum er dags daglega kölluð bundin séreign. Forysta ASÍ með forseta ASÍ í broddi fylkingar gerir semsagt samkomulag 15. júní 2016 við Samtök atvinnulífsins þar sem ákvæði um bundna séreign eru að engu höfð og búin til ný séreign sem ber heitið „tilgreind séreign“ og í þessu samkomulagi er launafólk þvingað til þess að setja þetta aukna framlag allt til lífeyrissjóðanna.

Það er gríðarlega mikilvægt að allir átti sig á því að það fór alls engin félags- eða lýðræðisleg umræða eða kosning fram á meðal félagsmanna ASÍ um það samkomulag sem forysta ASÍ og SA gerðu 15. júní 2016 þar sem ákveðið var að öllu launafólki á hinum almenna vinnumarkaði yrði skylt að leggja aukið framlag upp á 3,5% í þessa tilgreindu séreign hjá lífeyrissjóðunum. Semsagt það er enginn kjarasamningur sem kveður á um tilgreinda séreign.

En það sem gerist síðan er að Fjármálaeftirlitið áttar sig á að það sem forysta ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru að reyna að gera með því að þvinga launafólk til að greiða þetta aukna framlag upp á 3,5% einungis til lífeyrissjóðanna stenst ekki lög og reglugerðir.

En í harðorðu bréfi frá Fjármálaeftirlitinu til lífeyrissjóðanna 7. júlí síðastliðinn ít­rek­ar eft­ir­litið að sjóðfé­lag­ar sem ráðstafa hluta í sér­eigna­sjóð ráði sjálf­ir í hvaða sér­eigna­sjóð það verður. Í þessu sama bréfi fer Fjármálaeftirlitið fram á við lífeyrissjóðina að þeir yf­ir­fari heimasíður sín­ar og fjar­lægi vill­andi upp­lýs­ing­ar um fram­an­greint og leiðrétti frétta­flutn­ing til sjóðsfélaga.

Hann er yfirgengilegur hrokinn í forseta ASÍ og forystu Samtaka atvinnulífsins en núna telja þessir aðilar að þeir þurfi nú ekkert að fara eftir alvarlegum athugasemdum sem Fjármálaeftirlitið gerði gagnvart lífeyrissjóðunum og lýtur að valmöguleika launafólks á hinum almenna vinnumarkaði til að velja sér vörsluaðila til að ávaxta aukið framlag atvinnurekanda í séreignasjóð sem samið var um árið 2016.

Forysta ASÍ og Samtaka atvinnulífsins telja sig ekkert þurfa fara eftir þessu harðorða bréfi frá FME ef marka má sameiginlega yfirlýsingu frá forseta ASÍ og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins 19. júní sl. þar sem ýjað er að því að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins séu svo vitlausir að þeir hafi ekkert vit á því sem þeir eru að gera athugasemdir við. Meira að segja krefjast forseti ASÍ og framkvæmdastjóri SA þess að Fjármálaeftirlitið endurskoði þær alvarlegu athugasemdir sem það hafði gert í skriflegu bréfi til lífeyrissjóðanna. Algjörlega magnaður hroki sem er í þessum mönnum!

Fjármálaeftirlitið svarði síðan athugasemdum forseta ASÍ og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins 21. júlí síðastliðinn. En í þessu svarbréfi segir m.a. „Fjármálaeftirlitið hefur yfirfarið þau sjónarmið sem fram koma í bréfi SA og Así hinn 19. júlí sl. og telur ekki tilefni til að FME breyti afstöðu sinni eins og hún kemur fram í dreifibréfi stofnunarinnar hinn 7. júlí sl. Þó lífeyrisréttindi séu viðfangsefni kjarasamninga er það mat Fjármálaeftirlitsins að efni kjarasamninga um lífeyrisréttindi þurfi að rúmast innan ramma laga nr. 129/1997. Telur Fjármálaeftirlitið þannig að aðilar vinnumarkaðarins geti ekki samið þá launamenn, sem kjarasamningur tekur til, undan lögbundnum rétti sjóðfélaga til að velja sér annan aðila til að taka við iðgjaldi sem renna skal til tilgreindrar séreignar skv. 3. mgr. 4. mgr. laganna en þann lífeyrissjóð sem tekur við iðgjaldi renna skal til samtryggingar.“ 

Einnig segir í þessu sama bréfi frá FME: „ Með hliðsjón af efni bréfs SA og Así telur Fjármálaeftirlitið jafnframt rétt að koma á framfæri að eftirfarandi ákvæði samkomulags SA og ASÍ er að mati stofnunarinnar ekki í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga nr. 129/1997:

FME ítrekar að í  2. mgr. 5. gr. laga nr. 129/1997 komi skýrt fram að viðkomandi launagreiðanda eða lífeyrissjóði ber að færa greiðslu skv. ákvörðun sjóðfélaga skv. 1. mgr. 5. gr. sömu laga til annars aðila án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélagann. Að mati Fjármálaeftirlitsins er það lögbundinn réttur sjóðfélaga að velja hvor aðilinn skuli færa greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðfélagans sem verður ekki saminn frá sjóðfélaga með kjarasamningi."

Já takið eftir sjálft Fjármálaeftirlitið segir að forysta ASÍ og Samtaka atvinnulífsins séu að fremja lögbrot á íslensku launafólki með því samkomulagi sem þeir gerðu sín á milli.

Formaður VLFA myndi nú telja það fréttaefni þegar Fjármálaeftirlitið segir í opnu bréfi til forseta ASÍ og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þið eruð að fremja lögbrot á íslensku launafólki.Þið eruð að fremja gróft lögbrot að ætla að þvinga launafólk til að greiða eingöngu þetta auka mótframlag í séreignarsjóð til lífeyrissjóðanna!  FME segir að það sé lögbundinn réttur launafólks að velja sér aðila til að taka við þessu aukna framlagi upp á 3,5%.

FME segir líka að það nægi fyrir launafólk að láta sinn atvinnurekanda vita að það vilji ávaxta sína séreign hjá öðrum vörsluaðila en lífeyrissjóðunum og atvinnurekandanum ber að fara að vilja launamannsins.

Það er svo mikið umhugsunarefni að forysta ASÍ skuli vera tilbúin að fremja lögbrot gagnvart sínum félagsmönnum til að reyna að þvinga sína eigin félagsmenn til leggja allan séreignarsparnaðinn upp á 3,5% inn í lífeyrissjóðina.

Að gera samkomulag við Samtök atvinnulífsins sem er stútfullt af lögbrotum er með ólíkindum og ekki bara það heldur blasir það við að þessi tilgreinda séreign sem forystan er að reyna að koma á er miklu óhagstæðari fyrir allt launafólk.

Af hverju segir formaður VLFA þetta? Í fyrsta lagi þá á þessi tilgreinda séreign að verða skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarstofnun en það var m.a. upplýst á aukaaðalfundi lífeyrissjóðs Festu sem haldinn var fyrir nokkrum vikum.

Já takið eftir að þessi tilgreinda séreign mun leiða til þess að sumt launafólk mun fá minni greiðslur frá Tryggingarstofnun þegar það hefur töku ellilífeyris frá TR. Hvernig má það vera að forystu ASÍ skuli detta til hugar að semja um aukið framlag í séreign sem leiðir til skerðingar á greiðslum frá TR og þá í ljósi þess að almannatryggingakerfið og lífeyriskerfið liggur undir verulegum ámælum vegna þeirra skerðinga sem nú þegar eru í kerfinu. Hvað er forysta ASÍ að pæla að auka á þessar skerðingar og fyrir hvern eru þessir menn að vinna?  Þetta er svo óskiljanlegt vegna þess að sá séreignarsparnaður sem allir þekkja og eru að greiða í skerðir ekki greiðslur frá Tryggingarstofnun. 

Það má alveg með rökum halda því fram að það sé vart hægt að kalla þessa tilgreindu séreign "séreign" í ljósi þess að hún eigi að verða skerðingarhæf frá Tryggingarstofnun.  Munum að lífeyriskerfið átti að vera viðbót við almannatryggingakerfið þegar það var sett á laggirnar 1969. Að hugsa sér að forysta ASÍ skuli síðan búa til nýja tegund af séreign sem á að verða skerðingarhæf. Í þessu samhengi vill formaður VLFA rifja upp orð Ásmundar Stefánssonar sem er fyrrverandi forseti ASÍ en á fundi árið 2012 um lífeyrismál sagði hann orðrétt:  „seg­ist ekki hafa haft hug­mynda­flug til að láta sér detta í hug að stjórn­völd myndu ganga svo langt í tekju­teng­ingu elli­líf­eyr­is eins og þau hafa gert. Það skipti í dag engu máli hvort verka­kona á lág­marks­laun­um hefði greitt í líf­eyr­is­sjóð eða ekki. Hún væri jafn­sett.“

Já hugsið ykkur að núna er forysta ASÍ að koma með nýja séreign, svokallaða tilgreinda séreign sem á að verða skerðingarhæf. Skyldi núverandi forseti ASÍ fá samviskubit yfir því að búa til enn frekari skerðingar en nú þegar eru í kerfinu. Mjög mikilvægt er að allir átti sig á því að sú séreign sem allt launafólk er að greiða í dag er ekki skerðingarhæf af greiðslum frá TR.

Í öðru lagi er óskiljanlegt að ætla að reyna að þvinga launafólk til að leggja þessa tilgreindu séreign einungis til lífeyrissjóðanna. Hví í ósköpunum vill forysta ASÍ ekki leyfa sínum félagsmönnum að hafa val um hjá hvaða séreignarsjóði þeir ávaxta sinn sparnað?

Í þriðja lagi þá skil ég ekki þá forræðishyggju að meina launafólki að nota þennan lífeyrissparnað til niðurgreiðslu á húsnæðisskuldum því betri ávöxtun er ekki hægt að fá enda þessi niðurgreiðsla skattlaus.

Í fjórða lagi þá skil ég ekki af hverju launafólk má ekki hefja töku á þessum séreignarsparnaði þegar 60 ára aldri er náð eins og með hefðbundinn séreignarsparnað, tilgreindu séreignina má ekki taka út fyrr en 62 ára aldri er náð.

Mat formanns er að forysta ASÍ og SA ætli sér að tryggja að allir þessir fjármunir renni til lífeyrissjóðanna og komið verði í veg fyrir að launafólk hafi val og allt var þetta gert án þess að nokkur félagsleg eða lýðræðisleg umræða ætti sér stað inní stéttarfélögunum eða með hinum almenna launamanni.

Þetta var gert eins og áður sagði inni í reykfylltum bakherberjum þar sem menn telja sig ekkert þurfa að spyrja eða bera svona stórar ákvarðanir undir sína félagsmenn en þeir telja sig orðið ráða svo miklu að þeir ætla vart að hlusta á Fjármálaeftirlitið sem segir að verið sé að fremja lögbrot á launafólki. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að félagsmenn innan ASÍ geti alls ekki látið það átölulaust að forysta ASÍ búi til samkomulag sem er stútfullt af lögbrotum og vinni gegn hagsmunum þeirra.

24
Jul

Verkalýðsfélag Akraness stefnir Hval hf. vegna 97 félagsmanna sinna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagins þá var kveðinn upp dómur 28. júní í Héraðsdómi Vesturlands í máli Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. Kröfuliðir stefnunnar voru í fjórum liðum og vannst aðalkröfuliðurinn en Hvalur var sýknaður af hinum þremur kröfuliðunum og mun VLFA klárlega áfrýja þessum þremur kröfuliðum til Hæstaréttar.

Rétt er rifja upp að Verkalýðsfélag Akraness ákvað að fara með málefni eins starfsmanns fyrir héraðsdóm sem prófmál og náði krafan einungis fyrir eina hvalvertíð eða nánar tiltekið vertíðina 2015.

Það liggur fyrir að sérstöku greiðslunnar sem vannst fyrir Héraðsdómi Vesturlands 28. júní er getið í öllum ráðningarsamningum starfsmanna fyrir vertíðirnar 2013,2014 og 2015 og því er fordæmisgildi þessa dóms ótvírætt.

Krafan sem vannst og var aðalkrafa félagsins laut að sérstakri greiðslu sem getið er um í ráðningarsamningi starfsmanna, en dómurinn féllst á kröfu félagsins og dæmdi Hval hf. til að greiða umræddum starfsmanni sem er félagsmaður VLFA 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2016. Hvalur hf. var einnig dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað.

Aðalkrafa félagsins byggðist á því að í ráðningarsamningi starfsmanna er getið um að fyrir hverja 12 tíma vakt séu greiddar 33.142 kr. á virkum dögum og 36.997 kr. fyrir helgarvaktir.

Í öðrum lið í ráðningarsamningi starfsmanna kveður á um að í sérstakri greiðslu séu greiddar 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.

Ágreiningurinn laut að því að Hvalur hf. vildi meina að þessi sérstaka greiðsla upp á 5.736 kr. fyrir hverja vakt vegna skerðingar á hvíldartíma og ferða til og frá vinnustað hafi verið inni í vaktakaupinu, en dómurinn tók undir það með VLFA að starfsmenn hefðu klárlega mátt skilja ráðningarsamninginn þannig að þessi greiðsla væri til viðbótar vaktarkaupinu.

En rétt er að geta þess að ekki nokkur sundurliðun um þessa sérstöku greiðslu kom fram á launaseðlum starfsmanna enda þurftu lögmenn Hvals að koma með ótrúlega reikniformúlu til að láta greiðslur á launaseðli ganga upp eins og kom fram við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Vesturlands.

Það er ljóst að þessi dómur hefur klárlega fordæmisgildi eins og áður sagði gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að þessi dómur muni geta kostað Hval hf. um eða yfir 200 milljónir ef hann verður staðfestur í Hæstarétt.

En núna hafa forsvarsmenn Hvals tilkynnt lögmanni Verkalýðsfélags Akraness að fyrirtækið muni áfrýja þessari niðurstöðu er laut að sérstöku greiðslunni til Hæstaréttar.

Í ljósi þessi að Hvalur ákvað að áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar þá óskaði lögmaður Verkalýðsfélags Akraness eftir því við forsvarsmenn Hvals að fyrirtækið myndi gefa út yfirlýsingu sem byggðist á því að Hvalur hf. myndi ekki beita fyrir sig fyrningu hvað varðar kröfu annarra starfsmanna  vegna vertíðanna 2013 og 2014.  En áætla má að niðurstaða frá Hæstarétti liggi ekki fyrir fyrr en seint á næsta ári. Það myndi þýða að kröfur vegna vertíðanna 2013 og 2014 myndu fyrnast.

Það kom okkur í Verkalýðsfélagi Akraness verulega á óvart að forsvarsmenn Hvals hf. hafi þvertekið fyrir það að gefa slíka yfirlýsingu út og því var Verkalýðsfélag Akraness nauðbeygt til að stefna fyrir hönd 97 félagsmanna þess sem störfuðu hjá Hval á vertíðunum á árunum 2013, 2014 og 2015 til þess að rjúfa fyrninguna. Það var mjög undarlegt og hálf harðneskjulegt að forsvarsmenn Hvals hafi ekki verið tilbúnir að gefa slíka yfirlýsingu út og bíða síðan eftir niðurstöðu frá Hæstarétti.

Það blasir við að umtalsverðir hagsmunir eru hér í húfi fyrir þá starfsmenn sem um ræðir og því var mjög mikilvægt fyrir VLFA að stefna fyrir alla sína félagsmenn til að rjúfa fyrninguna og var forsvarsmanni Hvals hf. afhent stefna á síðasta föstudag fyrir 97 félagsmenn VLFA. Það þýðir að fyrningin hefur verið rofin frá og með 21. júlí 2017.

Eins og áður sagði þá var Hvalur dæmdur til að greiða starfsmanni vegna vertíðarinnar 2015 tæpar 500.000 krónur og það þýðir að starfsmaður sem var allar þrjár vertíðarnar 2013, 2014 og 2015 getur klárlega átt vangreidd laun sem nema um eða yfir 1,5 milljón.

Það er yfirlýst stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að standa ætíð vörð um réttindi og kjör sinna félagsmanna og verja þau með öllum tiltækum ráðum ef með þarf en gríðarleg vinna og tími hefur farið í þessi mál því það er ekkert smá mál að þurfa að stefna fyrirtæki fyrir 97 starfsmenn.

14
Jul

Fundað með forstjóra HB Granda og starfsmönnum fyrirtækisins

Rétt í þessu lauk fundi formanns Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmanna með forstjóra HB Granda og forsvarsmönnum fyrirtækisins. Í framhaldi af þeim fundi var síðan fundur með öllum starfsmönnum HB Granda.

Tilefni fundarins var að fara yfir stöðuna varðandi þá staðreynd að HB Grandi tók ákvörðun um að hætta allri vinnslu á bolfiski á Akranesi frá og með 1. september næstkomandi. En aðaltilefnið var að fara yfir og kynna hversu mörgum starfsmönnum væri boðin áframhaldandi vinna á Akranesi og í Norðurgarði í Reykjavík. 

En eins og flestir vita var öllu starfsfólki HB Granda í bolfiskvinnslu fyrirtækisins sagt upp störfum 11. maí sl. eða samtals 92 starfsmönnum og því hefur ríkt mjög mikil óvissa hjá starfsmönnum í rúma tvo mánuði um framtíð sína hjá fyrirtækinu. Sumir starfsmannanna hafa starfað í tugi ára fyrir HB Granda.

Á fundinum með forstjóra HB Granda var tilkynnt að flestum hafi verið tryggt áframhaldandi starf hjá HB Granda eða dótturfélögum þess eða samtals 57 starfsmönnum. Allir sem völdu Norðurgarð í Reykjavík fengu starf eða samtals 29 en 28 starfsmenn fá áframhaldandi starf á Akranesi hjá dótturfélögum HB Granda það er að segja hjá Vigni G Jónssyni, Norðurfiski og einnig við sameiginlega þjónustu þ.e. umsjón með tækjum, lóðum og fasteignum fyrirtækisins.

Það kom fram að 21 starfsmaður hefur  farið til annarra vinnuveitenda eða í nám eða jafnvel tekið ákvörðun um að sækja ekki um neinn af þeim valmöguleikum sem í boði voru.

Það er morgunljóst að þetta langa ferli sem leitt hefur til umtalsverðar óvissu starfsmanna hefur tekið verulega á starfsmenn enda aldrei gott þegar launafólk er í óvissu með lífsviðurværi sitt.

Það er rétt að geta þess að þótt 29 manns bjóðist starf í Norðurgarði í Reykjavík er ekki ljóst hversu margir munu þiggja það þegar á hólminn verður komið, enda höfðu starfsmenn 3 valmöguleika þegar þeir sóttu um starf hjá fyrirtækinu. Valmöguleikarnir voru semsagt á Akranesi hjá Vigni G Jónssyni eða hjá Norðanfiski og síðan í Norðurgarði í Reykjavík. Formaður veit að margir höfðu Norðurgarð sem þriðja valmöguleika og því ekki ljóst hvort allir muni á endanum þiggja starfið í Norðurgarði þótt þeir hafi sótt þar um sem þriðja möguleika.

Það er ljóst að þessi ákvörðun HB Granda hefur tekið á alla starfsmenn og reyndar á allt samfélagið hér á Akranesi, enda hefur bolfiskvinnsla verið einn af burðarstólpum í atvinnu okkar Akurnesinga í ein hundrað ár eða svo.  Það er mjög mikilvægt að öll fyrirtæki sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum þjóðarinnar átti sig á þeirri samfélagslegu skyldu sem hvílir á á þeim. Það ömurlegt þegar stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki hunsa þessa samfélagslegu skyldu sína gagnvart þeim samfélögum sem þau starfa í eins og mýmörg dæmi hafa sýnt.

Það verður samt að segjast að úr því sem komið var er ögn ásættanlegra að hægt sé að tryggja allt að 64% starfsmanna áframhaldandi starf þótt vissulega sé það þyngra en tárum taki að 14 manns séu að missa lífsviðurværi sitt.  Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að vonbrigðin hjá okkur skagamönnum er gríðarleg með þessa ákvörðun forsvarsmanna HB Granda með að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi enda höfum við svo sannarlega viljað sá fiskvinnslu hér á Akranesi aukast enda höfum við verið stolt af því að vera hluti af öflugu sjávarútvegsfyrirtæki eins og HB Grandi er.

En við Akurnesingar ætlum svo sannarlega ekki að gefast upp og vonandi náum við að efla atvinnulífið hér á Akranesi enn frekar því málið er að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og því viljum við Skagamenn trúa.

28
Jun

Hvalur hf. dæmdur til að greiða félagsmanni VLFA tæpa hálfa milljón

Rétt í þessu var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Vesturlands í máli Verkalýðsfélags Akraness gegn Hvali hf. Kröfuliðir stefnunnar voru í fjórum liðum og vannst aðalkröfuliðurinn en Hvalur var sýknaður af hinum þremur kröfuliðunum.

Krafan sem vannst og var aðalkrafa félagsins laut að sérstakri greiðslu sem getið er um í ráðningarsamningi starfsmanna, en dómurinn féllst á kröfu félagsins dæmdi Hval hf. til að greiða umræddum starfsmanni sem er félagsmaður VLFA 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2016. Hvalur hf. var einnig dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað.

Aðalkrafa félagsins byggðist á því að í ráðningarsamningi starfsmanna er getið um að fyrir hverja 12 tíma vakt séu greiddar 33.142 kr. á virkum dögum og 36.997 kr. fyrir helgarvaktir.

Í öðrum lið í ráðningarsamningi starfsmanna kveður á um að í sérstakri greiðslu séu greiddar 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.

Ágreiningurinn laut að því að Hvalur hf. vildi meina að þessi sérstaka greiðsla upp á 5.736 kr. fyrir hverja vakt vegna skerðingar á hvíldartíma og ferða til og frá vinnustað hafi verið inní vaktakaupinu, en dómurinn tók undir það með VLFA að starfsmenn hefðu klárlega mátt skilja ráðningarsamninginn þannig að þessi greiðsla væri til viðbótar vaktarkaupinu.

Það er ljóst að þessi dómur hefur klárlega fordæmisgildi gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hvali hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015 en dómurinn getur náð til allt að 130 starfsmanna eða svo. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að þessi dómur mun kosta Hval hf. um eða yfir 200 milljónir.

Verkalýðsfélagi Akraness er ekki kunnugt um það hvort Hvalur muni áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar en fyrirtækið hefur allt að þrjá mánuði til að taka ákvörðun um það. Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar falið lögmanni félagsins að innheimta þessa sérstöku greiðslu fyrir alla þá félagsmenn VLFA sem störfuðu hjá Hvali á áðurnefndum vertíðum og tíminn einn mun leiða það í ljós hvort Hvalur muni hlíta dómnum eða hvort stefna verði Hval vegna allra þessara starfsmanna sem störfuðu hjá fyrirtækinu.

Heilt yfir er formaður og lögmaður Verkalýðsfélags Akraness nokkuð sáttir með dóminn í ljósi Þess að aðalkrafan fékkst viðurkennd fyrir dómi þótt vissulega hefðum við viljað fá viðurkenningu á hinum þremur kröfuliðunum. Það er rétt að geta þess í ljósi þess fordæmisgildis sem dómurinn mun geta haft að þá er þetta langstærsta mál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur unnið fyrir dómsstólum til þessa.

Hægt er að lesa dóminn með því að smella hér.

21
Jun

Formaður fundaði með forsætisráðherra í dag

Formaður VLFA fundaði í ráðherrabústaðnum í dagForsætisráðherra boðaði formann Verkalýðsfélags Akraness til fundar í morgun í ráðherrabústaðnum, en ráðherra hefur verið að funda með nokkrum aðilum vinnumarkaðarins. Með fundunum vildi ráðherra fá fram sjónarmið og hugmyndir þessara aðila í þeim tilgangi að fá sem gleggsta yfirsýn yfir stöðu á vinnumarkaði. Rétt er að geta þess að til stóð að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR yrði einnig á fundinum, en því miður komst hann ekki þar sem hann er erlendis. Því fundaði formaður VLFA einn með forsætisráðherranum í morgun og stóð fundurinn yfir í um klukkutíma.

Formaður VLFA vill koma á framfæri hrósi til forsætisráðherra fyrir að eiga frumkvæði að þessum fundi og gefa formanni VLFA þannig tækifæri til að koma áherslum og sjónarmiðum félagsins á framfæri við stjórnvöld. Það hefur að öllum líkindum ekki farið framhjá neinum að Verkalýðsfélag Akraness hefur alls ekki verið sammála forystu ASÍ í mörgum málum er lúta að hagsmunum launafólks eins og t.d. hugmyndum um nýtt vinnumarkaðsmódel í anda SALEK samkomulagsins.

Á fundinum voru fjölmörg atriði til umræðu sem lúta að hagsmunum verkafólks almennt sem og þeir atburðir sem tengjast atvinnumálum okkar Akurnesinga, en eins og flestir vita hafa stór skörð verið höggvin í atvinnulíf okkar Skagamanna á liðnum vikum og árum. Formaður kom því á framfæri við forsætisráðherra að ef það á að nást sátt á vinnumarkaði þá þurfi nokkur grundvallaratriði að koma til:

- Í fyrsta lagi þarf að hækka kjörin hjá þeim tekjulægstu þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.
- Í öðru lagi  þarf að hætta að nota prósentuhækkanir í kjarasamningum og semja þess í stað um krónutöluhækkanir, enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar á íslenskum vinnumarkaði.
- Í þriðja lagi þarf að lækka húsnæðisvexti niður í 2% og afnema verðtryggingu, eða í það minnsta að taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni hvað varðar lög um vexti og verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna.
- Í fjórða lagi þarf að lækka kostnaðarhlutdeild almennings í heilbrigðisþjónustunni verulega.

Formaður sagði við forsætisráðherra að ef koma ætti á sátt á vinnumarkaði þá þurfi þessi fjögur atriði í það minnsta að koma til og mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki taka þátt í neinni sátt á vinnumarkaði sem byggist á svokölluðu Salek samkomulagi sem gengur út á að skerða samningsfrelsi launafólks með því að beisla og skerða möguleika launafólks til að sækja launahækkanir.

Formaður kom líka inn á hræsnina hjá alltof mörgum stjórnendum fyrirtækja sem eru með margar milljónir í laun á mánuði og tala síðan um mikilvægi þess að beisla þurfi launahækkanir í almennum kjarasamningum. Hann nefndi líka við ráðherra að almenningur í þessu landi líður það t.d. ekki mætingarbónusa á borð við þann sem greiddur var í Framtakssjóði Íslands upp á 20 milljónir fyrir það eitt að framkvæmdastjórinn náði þriggja ára starfstíma hjá sjóðnum. Hann fór líka yfir ofurlaun sumra framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna sem ná allt að 43 milljónum á ári og einnig nefndi hann ofurlaun sumra forstjóra á íslenskum vinnumarkaði sem nema tugum milljóna ári. Það mun aldrei nást sátt á meðal almenns launafólks um nýtt vinnumarkaðsmódel ef þessi misskipting og óréttlæti heldur áfram.

Formaður kom síðan inn á þær hamfarir sem við Akurnesingar höfum þurft að þola á undanförnum vikum og árum í okkar atvinnumálum.  Formaður rifjaði það upp að árið 2011 hafi Sementsverksmiðjan hætt starfsemi, en þar störfuðu þegar mest lét uppundir 180 manns. Það sem er að gerast þessa daganna er svo sú ákvörðun HB Granda að hætta landvinnslu á Akranesi. Formaður upplýsti forsætisráðherra um það að árið 2004, eða fyrir sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda, hafi starfað um 350 manns hjá fyrirtækinu og Haraldur Böðvarsson var að greiða 2 milljarða í laun.  Núna er þetta allt farið og sagði formaður að honum væri það mjög til efs að nokkurt sveitarfélag hefði orðið fyrir jafnmiklum áföllum í atvinnumálum á svo skömmum tíma.

Formaður fór líka yfir það að við höfum ekki eingöngu misst þessi fyrirtæki úr okkar samfélagi heldur gengur Elkem Ísland erfiðlega að ganga frá raforkusamningi við Landsvirkjun, en samningurinn við fyrirtækið rennur út í mars 2019. Elkem Ísland treysti sér ekki til að gera 4 til 5 ára kjarasamning við Verkalýðsfélag Akraness í síðasta mánuði vegna óvissu um raforkumál fyrirtækisins og gildir samningurinn því einungis fram til mars 2019.

Formaður greindi forsætisráðherra frá því að hann hefði verulegar áhyggjur af þessari stöðu og byggir hann áhyggjur sínar á skrifum Ketils Sigurjónssonar sem hefur verið launaður verktaki hjá Landsvirkjun en hann hefur skrifað að vel megi áætla að raforkusamningur Elkem Ísland muni hækka um 100% árið 2019.  Ketill hefur skrifað að raforkureikningur Elkem muni jafnvel hækka um 2 til 2,5 milljarða á ári, til viðbótar þeim 2 milljörðum sem fyrirtækið er að greiða fyrir raforkuna í dag. Ef eitthvað er að marka skrif Ketils sem titlar sig sérfræðing um orkumál og hefur verið eins og áður sagði á launaskrá hjá Landsvirkjun þá er ljóst að allur rekstrargrundvöllur fyrirtækisins verður lagður í rúst og vel það, ef af þessu verður.

Nægir að nefna í því samhengi að það sem Ketill áætlar að raforkusamningur Elkem muni hækka um er meira en allur launakostnaður fyrirtækisins á ári sem er í dag um 2 milljarðar. Þessu til viðbótar er meðaltalshagnaður Elkem rétt rúmar 500 milljónir á ári frá árinu 1998. Hvernig í himninum á rekstur Elkem að geta gengið upp ef hækka á raforkuna um 100% sem er uppundir 2 milljörðum meira en sem nemur meðaltalshagnaði fyrirtækisins á síðustu 20 árum?

Það þarf ekki neinn sérfræðing til að sjá að verið er að ógna rekstrarafkomu þessa fyrirtækis gróflega  ef spá Ketils Sigurjónssonar gengur eftir um 100% hækkun á raforkuverði, og jafnvel hægt að segja að henni verði hreinlega slátrað ef af verður. Formaður fór yfir það með forsætisráðherra að ef eitthvað er að marka þessi skrif sérfræðingsins í orkumálum um hækkun á raforkuverði um allt að 100% þá skjóti það skökku við í ljósi þess að raforkuverð í Kanada, Norðurlöndum og Þýskalandi hefur lækkað um 50% á liðnum misserum.

Formaður taldi mjög brýnt að fara yfir þessar áhyggjur vegna atvinnuöryggis okkar Akurnesinga með forsætisráðherra enda er það hlutverk stéttarfélaga að verja kjör og atvinnuöryggi sinna félagsmanna. Við Skagamenn höfum þurft að þola nóg hvað varðar skerðingar á atvinnumöguleikum okkar svo ekki bætist við óvissa um framtíð Grundartangasvæðisins vegna glórulausrar græðgi hjá einokunarfyrirtækinu Landsvirkjun!

Þetta var mjög góður fundur og mikilvægt að geta komið hagsmunamálum launafólks milliliðalaust til forsætisráðherra með þessum hætti og þetta framtak hans að heyra í fulltrúum launafólks til fyrirmyndar.

09
Jun

Sjómannadagurinn 2017

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um allt land á sunnudaginn kemur. Hefð er fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness gefi leikskólabörnum harðfisk í tilefni dagsins og í morgun fór formaður félagsins fyrir hönd sjómanna á alla leikskóla bæjarins með harðfiskpoka handa börnunum og var hvarvetna tekið vel á móti honum. Hægt er að sjá myndir frá heimsóknunum hér.

Á sjálfan sjómannadaginn verður dagskrá með hefðbundnu sniði. Verkalýðsfélag Akraness mun að vanda annast minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum kl. 10:00. Að henni lokinni verður hátíðarguðsþjónusta í Akraneskirkju kl. 11 þar sem sjómaður verður heiðraður fyrir störf sín, en í ár er það Ingimar Magnússon, fyrrv. skipstjóri, sem hlýtur heiðursmerki Sjómannadagsráðs. Að messu lokinni verður gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi og blómsveigur lagður að því eftir stutta athöfn.

Aðrir dagskrárliðir eru fjölmargir og má þar til dæmis nefna dorgveiðikeppni, róðrarkeppni, dýfingarkeppni, kaffisölu Slysavarnardeildarinnar Lífar og fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu svo eitthvað sé nefnt, og eru bæjarbúar hvattir til að taka þátt í hátíðahöldunum. Upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu Akraneskaupstaðar:

Dagskrá sjómannadagsins á Akranesi 2017

Kl. 9:00-18:00
Frítt í sund í Jaðarsbakkalaug

Kl. 10:00
Minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarði.

Kl. 10:00-18:00  
Frítt í Akranesvita. Ljósmyndasýning Hildar Björnsdóttur prýðir veggi vitans.

Kl. 10:30
Á Breið afhenda félagar í Slysavarnardeildinni Líf fulltrúa Akraneskaupstaðar björgunarhringi að gjöf.

Kl. 11:00  
Sjómannadagsmessa í Akraneskirkju, sjómaður heiðraður. Blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna á Akratorgi að lokinni athöfn.

Kl. 11:00
Dýfingakeppni á vegum Sjóbaðsfélags Akraness. Keppendur og áhorfendur safnast saman við Aggapall við Langasand. Dýfingarnar munu fara fram af nýju björgunarskipi Björgunarfélags Akraness. Keppt verður í tveimur greinum, annars vegar hefðbundinni stungu og hins vegar frjálsri aðferð. Aldursflokkar verða tveir, 49 ára og yngri og 50+. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki.

Kl. 12:00 
Opnun ljósmyndasýningar Hildar Björnsdóttur, Farið á fjörur, í Akranesvita. Travel Tunes Iceland spila við opnunina.

Kl. 13:00-14:00
Dorgveiðikeppni á Sementsbryggjunni.

Kl. 13:30 
Björgunarfélag Akraness vígir nýtt björgunarskip á hafnarsvæðinu, allir velkomnir.

Kl. 13:30-16:30  
Kaffisala í Jónsbúð við Akursbraut á vegum Slysavarnardeildarinnar Lífar. Allir hjartanlega velkomnir.

Kl.14:00-16:00  
Fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu í samstarfi við Akraneskaupstað, Verkalýðsfélag Akraness, HB Granda, Faxaflóahafnir, Runólf Hallfreðsson ehf., Björgunarfélag Akraness og Fiskmarkað Íslands. Á boðstólnum verða m.a.: Róðrarkeppni Gamla Kaupfélagsins, bátasmíði í boði Húsasmiðjunnar, kassaklifur, furðufiskar og ýmislegt fleira. Von er á þyrlu Landhelgisgæslunnar í heimsókn ef aðstæður leyfa og félagar í Sjósportfélaginu Sigurfara verða sýnilegir á svæðinu.Þá verður ýmislegt sjávartengt til sölu, bæði matur til að njóta á staðnum sem og aðrar vörur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image