• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

17
Aug

Samanburður á óverðtryggðum húsnæðisvöxtum

Það er sorglegt hvernig níðst er á íslenskum neytendum þegar kemur að okurvöxtum, verðtryggingu og þeim þjónustugjöldum sem neytendum er gert að greiða í þeirri fákeppni sem ríkir á íslenskum fjármálamarkaði.

Formaður félagsins hefur verið að kanna þau vaxtakjör sem eru í boði í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þá kemur í ljós eins og margoft hefur komið fram að gríðarlegur munur er á þeim vaxtakjörum sem íslenskum heimilum er gert að greiða í húsnæðisvexti miðað við þau lönd sem við berum okkur oft við þegar kemur að lífgæðum.

Á Íslandi eru breytilegir óverðtryggðir húsnæðisvextir í dag 6,2% en það þýðir að íslensk heimili sem eru með 25 milljóna húsnæðislán þurfa að greiða rúma 1,5 miljón í vexti á ári eða sem nemur rúmum 129 þúsundum á mánuði.

Ef íslenskum heimilum stæði til boða sambærilegir vextir og eru t.d. Danmörku þá væri vaxtakostnaður á ári 550 þúsund eða sem nemur tæpum 46 þúsundum á mánuði. Þetta þýðir að íslensk heimili greiða miðað við 25 milljóna húsnæðislán 83 þúsundum kr. meira í vaxtagreiðslur í hverjum mánuði eða sem nemur tæpri 1 milljón á ársgrundvelli.

Munurinn væri enn meiri ef íslenskum heimilum væri boðið upp á sömu vaxtakjör og eru í Finnlandi, en þá væru íslensk heimili að greiða 1,3 milljónum minna á ári eða sem nemur 106 þúsundum í hverjum mánuði.

Það er morgunljóst að það er verið að níðast í íslenskum neytendum eins og enginn sé morgundagurinn og því verður íslensk verkalýðshreyfing að taka á þessu skefjalausa ofbeldi sem íslensk heimili þurfa að þola af fullri hörku í komandi kjarasamningum.

Svo eru atvinnurekendur og stjórnvöld hissa á að verkalýðshreyfingin þurfi að sækja af alefli fram í launakröfum þegar það blasir við að neytendur eru að greiða allt að 106 þúsundum meira í vaxtakostnað á mánuði miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við!

Hérna að neðan má sjá samanburð á óverðtryggðum húsnæðisvöxtum og vaxtakostnaði miðað við 25 milljóna húsnæðislán:

 

Húsnæðislán óverðtryggt

Vaxtakostnaður á ári

Vaxtakostnaður á mánuði.

Ísland

25.000.000 kr

1.550.000

129.167 kr

Bandaríkin

25.000.000 kr

                     925.000

77.083 kr

Kanada

25.000.000 kr

                     875.000 

72.917 kr

Tékkland

25.000.000 kr

                     750.000 

62.500 kr

Noregur

25.000.000 kr

                    600.000 

50.000 kr

Danmörk

25.000.000 kr

                     550.000 

45.833 kr

Bretland

25.000.000 kr

                     550.000 

45.833 kr

Þýskaland

25.000.000 kr

                     525.000 

43.750 kr

Svíþjóð

25.000.000 kr

                     475.000 

39.583 kr

Spán

25.000.000 kr

                     400.000 

33.333 kr

Austurríki

25.000.000 kr

                     375.000 

31.250 kr

Ítalía

25.000.000 kr

                      375.000 

31.250 kr

Finnland

25.000.000 kr

                     225.000 

18.750 kr

15
Aug

Meðallaun hæst í Norðuráli

Það er nokkuð athyglisvert að skoða meðallaun nokkurra fyrirtækja sem félagsmenn VLFA starfa hjá en félagið skoðaði meðallaun hjá 16 launagreiðendum fyrir febrúar mánuð og það þarf ekki að koma á óvart að meðallaun hjá Norðuráli eru hæst.

Hins vegar er rétt að geta þess að hér er um heildar meðallaun að ræða þar sem ekki er tekið tillit til vinnustundafjölda, vaktafyrirkomulags, né hvort um skert starfshlutfall sé að ræða.

Meðal heildarlaun hjá starfsmönnum Norðuráls sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness voru í febrúarmánuði rétt tæp 660 þúsund á mánuði og hjá starfsmönnum Skagans voru meðallaunin rétt tæp 650 þúsund á mánuði. En meðallaun hjá Norðuráli, Skaganum, Þoreir og Ellert og Elkem Ísland voru öll frá 640 þúsundum í tæp 650 þúsund á mánuði.

Lægst voru meðallaunin hjá starfsmönnum á Sjúkrahúsi Akraness og Akraneskaupstað en rétt er að vekja sérstaka athygli á að fjölmargir sem starfa á þessum stöðum eru í skertu starfshlutfalli og því gefa meðallaunin á þessum stöðum ekki rétta mynd af launum fyrir 100% starf.

Hins vegar liggur fyrir að langflestir eru í 100% störfum hjá öllum hinum fyrirtækjunum og því eiga meðal heildarlaunin að gefa rétta mynd þar en að sjálfsögðu er vinnustundafjöldin misjafn á milli fyrirtækja.

 

Hérna eru meðallaun þessara 16 fyrirtækja og stofnanna:

 

Norðurál

       659.832  

Skaginn

       647.713  

Þ&E

       641.415  

Elkem

       640.754  

Smellinn

       603.282  

Snókur

       592.885  

Akraborg

       584.538  

Klafi

       554.113  

Spölur/Gjaldskýli

       472.192  

ÞÞÞ

       451.940  

Norðanfiskur

       431.739  

Kynnisferðir

       404.133  

Vignir G Jónsson

       372.252  

N1

       298.996  

Akraneskaupstaður

       251.941  

Sjúkrahúsið

       217.042  

Meðaltal

       489.048  

27
Jul

VLFA mun stefna Norðuráli fyrir Félagsdóm

Í gær fundaði formaður með framkvæmdastjóra og mannauðsstjóra Norðuráls þar sem farið var yfir hin ýmsu mál. Þau kynntu fyrir formanni átak fyrirtækisins í öryggismálum sem ber heitið „Öll saman“ en það gengur út á að gera vinnustaðinn eins öruggan og kostur er og að allir komi ætíð heilir heim.

Einnig fóru þau yfir hugsanlega stækkun á Steypuskálanum en það er framkvæmd sem mun kosta allt að 12 milljarða króna en ef af stækkuninni verður þá mun hún taka allt að tvö ár í framkvæmd. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir enda mun stækkun á Steypuskálanum leiða til fjölgunar á starfsmönnum og getur sú fjölgun numið allt að 30 til 40 starfsmönnum.

Formaður tók einnig upp mál á fundinum sem lýtur að ágreiningi sem félagið hefur átt við forsvarsmenn fyrirtækisins um túlkun á grein 2.13.5 í kjarasamningi félagsins við Norðurál en þetta er grein sem lýtur að svokölluðum vikulegum frídegi eða með öðrum orðum að ef starfsmenn vinna samfellt í 7 daga þá eigi þeir rétt frítöku sem nemur 8 tímum á dagvinnulaunum.

Um þetta mál hefur verið ágreiningur en fyrirtækið telur að þessi grein kveði ekki á um skyldu fyrirtækisins til greiðslu með þeim hætti sem VLFA telur að eigi að vera ef menn vinna meira en 7 daga samfellt.

Formaður fór yfir með framkvæmdastjóra og mannauðstjóra Norðuráls að nýlega hafi VLFA unnið svona mál fyrir Hæstarétti þar sem viðurkennt væri að ef starfsmenn vinna meira en 7 daga samfellt og starfsmenn fá ekki vikulegan frídag þá beri að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir það.

En stjórnendur og lögmenn Norðuráls telja hins vegar að grein í samningi Norðuráls sé ekki eins og í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði og því eigi þessi dómur ekki við hvað starfsmenn Norðuráls varðar. Þessu er Verkalýðsfélag Akraness algerlega ósammála og því var það niðurstaðan að VLFA og Norðurál eru sammála um að vera ósammála um túlkun á þessari grein og fá dómstóla til að skera úr um hvort VLFA eða Norðurál hafi rétt fyrir sér í þessu máli.

Því mun VLFA stefna Norðuráli fyrir félagsdóm vegna þessa ágreinings í haust til að fá niðurstöðu í málið og er það gert í fullri sátt við forsvarsmenn Norðuráls enda eru dómstólar til þess að skera úr ágreiningi um túlkun á kjarasamningum ef aðilar koma sér ekki saman um túlkun.

27
Jul

Starfsmenn Hvals hf. geta valið á milli Verkalýðsfélags Akraness og Stéttarfélags Vesturlands

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá meinaði Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðfélagi Akraness á yfirstandandi hvalvertíð.

Ástæða fyrir því að forsvarsmenn Hvals hf. meinuðu starfsmönnum um að vera í VLFA liggur fyrir að mati formanns VLFA en það liggur í því að félagið stefndi Hval hf. vegna brota á kjörum starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningi sem og vegna brota á greinum í gildandi kjarasamningi.

En eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness þetta mál bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti og þurfti Hvalur hf. að greiða starfsmanni um 700 þúsund krónur með dráttarvöxtum. En rétt er að geta þess að fordæmisgildi dómsins er gríðarlegt enda allir ráðningarsamningar starfsmanna nákvæmlega eins og því mun þessi dómur getað kostað Hval hf. allt að 300 milljónir.

Til að reyna að ná sér niður á Verkalýðsfélagi Akraness þá vildi Hvalur hf. meina öllum starfsmönnum að vera í VLFA og tjáðu forsvarsmenn Hvals hf. starfsmönnum að þeir yrðu að vera í Stéttarfélagi Vesturlands. Rétt er að vekja athygli á því enn og aftur að Hvalstöðin í Hvalfirði er að félagssvæði beggja stéttarfélaganna þ.e.a.s VLFA og Stéttarfélags Vesturlands, einnig eru bæði stéttarfélögin með gildandi kjarasamning um þau störf sem innt eru að hendi í Hvalstöðinni.

Rök Hvals hf. fyrir því að starfsmenn mættu ekki vera í VLFA var sú að fyrirtækið reyndi að telja starfsmönnum í trú um að í gildi væri kjarasamningur frá árinu 1977 þar sem kveðið væri á um að forgangur að störfum í Hvalstöðinni tilheyrði Verkalýðsfélaginu Herði sem sameinaðist Stéttarfélagi Vesturlands árið 2006.

Að sjálfsögðu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness þessu harðlega, enda ekkert annað en dulbúnar hefndaraðgerðir vegna þess að VLFA stóð sína vakt við að verja réttindi sinna félagsmanna með því að höfða dómsmál vegna vangoldina launa eins og áður sagði sem vannst fyrir Hæstarétti.

Þessu grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals hf. mætti Verkalýðfélag Akraness af fullri hörku og stefndi Hval hf. fyrir félagsdóm en málið verður tekið þar fyrir í ágúst. En núna berast fréttir af því að forsvarsmenn Hvals hf. séu að bakka í þessu máli vegna þess að VLFA lætur ekki vaða yfir sig þegar kemur að réttindum sinna félagsmanna.

En samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur fengið frá starfsmönnum þá eiga starfsmenn núna að skrifa á blað sem forsvarsmenn Hvals hf. hafa dreift, í hvoru stéttarfélaginu starfsmenn vilja vera. En rétt er að geta þess að yfir 50 starfsmenn Hvals hf.  höfðu undirritað beiðni sem VLFA útbjó fyrir þá, þar sem þeir óskuðu eftir að vera í Verkalýðsfélagi Akraness.

Formaður hefur t.d. fundað með starfsmönnum vegna þessa máls og það var gríðarlega ánægjulegt að verða vitni að þeirri miklu samstöðu starfsmanna í þessu máli enda neituðu þeir að skrifa undir ráðningarsamninga þar sem kveðið var á um að þeim væri hafnað að greiða til VLFA.

Það lítur allt út fyrir að núna muni starfsmenn geti valið á milli VLFA og Stéttarfélags Vesturlands og því ljóst að festa starfsmanna og Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli hefur sett þetta mál í þennan farveg sem nú virðist liggja fyrir. Það er mikilvægt fyrir atvinnurekendur að átta sig á því að VLFA lætur ekki vaða yfir sig og félagið vílar ekki fyrir sér að mæta slíku ofbeldi atvinnurekenda að fullri hörku

04
Jul

Formaður VLFA fundaði með félags- og jafnréttismálaráðherra í gær

Félags- og jafnréttismálaráðherra Ásmundur Einar Daðason óskaði eftir að funda með formanni félagsins og fór fundurinn fram í gær í Velferðarráðneytinu.

Þetta var ágætis fundur þar sem farið var yfir hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum launafólks og heimilanna.

Að sjálfsögðu fór mikill tími í umræður um komandi kjarasamninga, þann gríðarlega húsnæðisvanda sem nú ríkir í íslensku samfélagi og það neyðarástand sem er á leigumarkaðnum. En eins og allir vita þá hefur húsaleiga hækkað gríðarlega á undanförnum árum og frá 2011 nemur þessi hækkun um 84%.

Formaður var ekkert að skafa af því að líkurnar á mjög alvarlegum átökum á íslenskum vinnumarkaði eru umtalsverðar þegar kjarasamningar renna út um næstu áramót. Við erum með lágmarkslaun og taxta verkafólks sem duga engan veginn fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og því ljóst að lagfæra verður ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert í komandi kjarasamningum.

Það liggur algerlega fyrir að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum þarf að vera mikil ef hægt á að vera komast hjá verkfallsátökum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður fór yfir með ráðherranum að VR, Efling, Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness kalla eftir róttækum kerfisbreytingum þar sem tekið verði á okurvöxtum, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Það liggur líka fyrir að þessi félög kalla eftir lagasetningu á húsaleigulögum þar sem neytendavernd leigjenda verði tryggð mun betur en nú er gert enda með öllu ólíðandi að um eða yfir 50% launa fari í greiðslu á húsaleigu.

Þessi stéttarfélög vilja endurreisa verkamannabústaðakerfið enda ljóst að það verður að taka á þessu neyðarástandi sem ríkir á íslenskum húsnæðismarkaði.

Einnig fór formaður yfir að létta þurfi skattbyrði á launafólki sem er á tekjubilinu 300 til 600 þúsund og hækka þurfi skerðingarmörk barnabóta umtalsvert enda ótrúlegt að barnabætur skuli byrja að skerðast við einungis 241 þúsund króna tekjur.

Það er ljóst að ef atvinnurekendur vilja lagfæra laun tekjulægstu hópanna umtalsvert og ríkisstjórn verði tilbúin að fara í umtalsverðar kerfisbreytingar sem lúta að þessum atriðum sem nefnd hafa verið hér þá verða allavega þessi stéttarfélög tilbúin að gera kjarasamning sem gæti gilt í allt að fjögur ár.

Enda liggur fyrir að þegar stór hluti ráðstöfunartekna launafólks fer í húsaleigu og vaxtakostnað þá er til mikils að vinna við að koma böndum á leigumarkaðinn og lækka vaxtakostnað, afnema verðtryggingu og taka húsnæðisliðinn úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Formaður fór yfir með ráðherranum að ef atvinnurekendur og stjórnvöld verða ekki tilbúin að stíga þessi skerf með verkalýðshreyfingunni þá sé morgunljóst að við munum sjá verkfallsátök á íslenskum vinnumarkaði sem ekki hafa sést í áratugi og kom fram hjá formanni að þetta væri ekki hótun heldur staðreynd.

29
Jun

Almenna leigufélagið vill ekki að flutningsgjaldið verði tekið fyrir hjá Kærunefnd húsamála!

Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur Almenna leigufélagið rukkað leigjendur sína um 120.350 króna flutningsgjald fyrir það eitt að óska eftir flutningi á milli íbúða hjá félaginu. Rétt er að geta þess að ekkert er getið til um slíkt flutningsgjald í leigusamningum hjá Almenna leigufélaginu.

Það var félagsmaður Verkalýðsfélags Akraness sem leitaði til félagsins eftir að Almenna leigufélagið stofnaði kröfu í heimabanka viðkomandi félagsmanns eftir að hann hafði fengið að flytja sig á milli íbúða innan sömu blokkar.

Verkalýðsfélag Akraness í samráði við félagsmanninn ákváðu að fela lögmanni VLFA að kæra þetta flutningsgjald til kærunefndar húsamála enda er það mat lögmanns félagsins að þetta gjald standist ekki lagalegar heimildir.

RUV fjallaði um þetta mál 2. maí og þar var vitnað í skriflegt svar frá Maríu Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins, sem sagði að gjaldið sé rukkað vegna þeirrar þjónustu sem félagið veiti leigjendum sínum vilji þeir til dæmis stækka eða minnka við sig á meðan samningstíma þeirra stendur.

Einnig sagði María Björk lögfræðinga leigufélagsins ekki sammála því að flutningsgjaldið standist ekki skoðun. Þvert á móti eigi þau sér fordæmi hér á landi. „Leigufélagið Klettur, sem Íbúðalánasjóður átti og rak á árunum 2014-2016 innheimti sambærilegt gjald. Fjárhæð þess var jöfn einum auka leigumánuði fyrir þá íbúð sem flutt var úr. Við ákváðum að hafa þetta fast gjald kr. 120.000 til þess að halda kostnaði fyrir leigjendur í lágmarki.“

Enn fremur sagði María Björk að kærunefnd húsamála verði að vísa kærunni frá þar sem gjaldið falli ekki undir lög um húsaleigu. „Þessi þjónusta fellur ekki undir húsaleigulög og því teljum við kærunefndina ekki geta fjallað um það. Þetta er ekki atriði sem snertir leigusamninginn heldur er þetta þjónusta sem félagið býður viðskiptavinum sínum upp á. Þeir hafa svo fullt val um hvort þeir nýta sér hana eða ekki.“

Á þessum svörum frá framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins þá telur félagið sig hafa fulla heimild til að rukka þetta flutningsgjald og vísar í fordæmi hvað það varðar.

Það magnaða í þessu máli er að eftir að lögmaður Verkalýðsfélags Akraness kærði þetta mál til kærunefndar húsmála þá felldi Almenna leigufélagið flutningsgjaldið niður hjá umræddum félagsmanni og bað hann afsökunar eins og kemur fram í málsgögnum og ekki bara það heldur bauð honum helmingsafslátt á leiguverði í einn mánuð.

Það er greinilegt að Almenna leigufélagið vill alls ekki að málið verði tekið fyrir af hálfu kærunefndar húsmála en félagsmaðurinn þáði að gjaldið yrði fellt niður en neitaði að draga málið til baka frá kærunefnd húsamála enda afar brýnt að fá niðurstöðu um hvort þetta gjald sem ugglaust fjöldi leigjenda hefur þurft að greiða standist lagalegar heimildir.

Málið er núna í meðferð hjá kærunefnd húsamála til úrskurðar en ljóst er að Almenna leigufélagið hræðist málið og reynir allt til að fá því vísað frá.

29
Jun

Kristjáni Loftssyni forstjóra fyrir hönd Hvals hf. stefnt fyrir félagsdóm!

Þessa stundina er lögmaður Verkalýðsfélags Akraness að leggja lokahönd á stefnu á Kristján Loftsson forstjóra Hvals hf. fyrir að meina öllum starfsmönnum að vera í Verkalýðsfélags Akraness á þeirri vertíð sem nú er nýhafin. Málinu verður stefnt fyrir félagsdóm og mun það gerast annað hvort í dag eða strax eftir helgi.

Eins og fram hefur komið í nánast öllum fjölmiðlum landsins þá hefur Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. meinað starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðsfélagi Akraness og segist muni greiða öll iðgjöld til Stéttarfélags Vesturlands.

Eins og einnig hefur komið fram þá er þessi aðgerð forstjórans gróf hefndaraðgerð vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness stefndi Hval hf. árið 2016 fyrir dómstóla vegna brota á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Bæði Héraðsdómur Vesturlands og Hæstiréttur tóku undir kröfur Verkalýðsfélags Akraness og var Hvalur hf. dæmdur til að greiða starfsmanni 700 þúsund kr. með dráttarvöxtum en dómur Hæstaréttar mun klárlega hafa gríðarlegt fordæmisgildi og getur náð til á annað hundrað starfsmanna sem störfuðu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015. En á þessum vertíðum voru rétt tæpir hundrað félagsmenn VLFA sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Rétt er að geta þess sérstaklega að aldrei var neitt vandamál fyrir starfsmenn fyrirtækisins á þessum vertíðum að fá að greiða iðgjöld til VLFA og vera þannig félagsmenn VLFA.

Nú við upphaf hvalvertíðar 2018 var hins vegar öllum starfsmönnum Hvals hf. tilkynnt að fyrirtækið krefjist þess af starfsmönnum sínum að þeir eigi ekki aðild að Verkalýðsfélagi Akraness vegna starfa sinna hjá fyrirtækinu á yfirstandandi vertíð og öllum iðgjöldum verði skilað til Stéttarfélags Vesturlands.

Það er morgunljóst að þetta er ekki bara gróf hefndaraðgerð af hálfu forstjóra Hvals hf. heldur er þessi krafa Kristjáns Loftssonar kolólögleg. Nægir að nefna í því samhengi að Verkalýðsfélag Akraness ásamt Stéttarfélagi Vesturlands eru með kjarasamning um þau störf sem gilda við vinnslu á Hvalaafurðum í Hvalfirði, einnig er rétt að geta þess að Hvalfjarðasveit er hluti af félagssvæði VLFA.

Það liggur fyrir að þessi krafa Hvals hf. er skýrt brot á 4.gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en skv. því ákvæði er atvinnurekendum óheimilt að hafa áhrif á félagsaðild og stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna.

Rétt er að ítreka enn og aftur að Hvalur hf. tapaði nýlega dómsmáli fyrir Hæstarétti sem Verkalýðsfélag Akraness rak fyrir félagsmann sinn, blasir því við að um grófa og alvarlega hefndarráðstöfun atvinnurekanda er að ræða gagnvart Verkalýðsfélagi Akraness og félagsmönnum þess eins og ASÍ hefur m.a. bent á.

Starfsgreinasamband Íslands hefur einnig bent á að Verkalýðsfélag Akraness og Stéttarfélag Vesturlands hafa í gildi kjarasamning um störf starfsmanna Hvals hf. sem gerður var sameiginlega undir merkjum Starfsgreinasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins og sem Hvalur hf. er bundinn af.

Það er því hvellskýrt að starfsmenn hafa fullt frelsi til að velja hvoru félaginu þeir kjósa að eiga aðild að.

Atvinnurekendur hafa ekki heimild til þess að ákveða stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna eða hvert iðgjöldum skv. kjarasamningum og lögum er skilað. Þegar tvö félög eða fleiri eru með kjarasamning um sömu störf á sama svæði er það alveg ljóst að starfsfólkið sjálft getur valið til hvaða félags iðgjöldum skal skilað og þar með hvaða félag ver hagsmuni þess.

Ef atvinnurekendur ætla sér að hlutast til um það og beina starfsfólki í eitt félag frekar en annað er verið að vega að réttindum launafólks og frjálsrar verkalýðshreyfingar með ósvífnum hætti. Rétt er að geta þess að Alþýðusamband Íslands hefur í yfirlýsingu fordæmt afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna og krefst þess að fyrirtækið láti af þeim nú þegar.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness lætur ekki vaða yfir sína félagsmenn á skítugum skónum og verður öllum slíkum aðgerðum mætt af fullri hörku!

22
Jun

ASÍ tekur undir með VLFA að um hefndaraðgerð forstjóra Hvals hf. sé að ræða!

Alþýðusamband Íslands tekur undir með Verkalýðsfélagi Akraness í málinu með yfirlýsingu er lýtur að því að forstjóri Hvals hf. skuli skilyrða að starfsmenn séu ekki í Verkalýðsfélagi Akraness. Einnig fordæmir Alþýðusamband Íslands afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna og krefst þess að fyrirtækið láti af þeim nú þegar.

Einnig kemur einnig fram í yfirlýsingu frá ASÍ sú staðreynd að að Hvalur hf. tapaði nýlega dómsmáli fyrir Hæstarétti sem Verkalýðsfélag Akraness rak fyrir félagsmann sinn. ASÍ tekur líka undir með VLFA að það blasi við að um grófa og alvarlega hefndarráðstöfun atvinnurekanda sé að ræða gagnvart tilteknu stéttarfélagi og félagsmönnum þess.

Það er rétt að geta þess að vænta má yfirlýsingar frá formönnum VR og Eflingar þar sem þessum grófu og kolólöglegu afskiptum forstjóra Hvals hf. verði harðlega mótmælt.

22
Jun

Skrifstofan lokar kl 14:00 í dag

Í dag, föstudaginn 22. júní lokar skrifstofa VLFA kl. 14:00

Þeir sem eiga bókaðan bústað verða að sækja leigusamning fyrir þann tíma.  

Ef erindið er mjög brýnt eftir kl 14, er hægt að hafa samband við formann í síma 865-1294.

Áfram Ísland 

21
Jun

Hvalur hf. reynir að refsa VLFA fyrir að hafa unnið mál gegn fyrirtækinu í Hæstarétti

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness dómsmál fyrir Hæstarétti gegn Hvali hf. þar sem starfsmanni sem starfaði á hvalvertíðinni 2015 voru dæmdar tæpar 700 þúsund krónur með dráttarvöxtum.  En málið laut að því að Verkalýðsfélag Akraness taldi að Hvalur væri ekki að greiða samkvæmt fyrirliggjandi ráðningasamningi og svokallaðan vikulegan frídag vantaði þegar starfsmenn ynnu meira en samfellt í sjö daga. Þessa kröfu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness staðfesti síðan Hæstiréttur í dómi sem féll 14. Júní síðastliðinn.

Í ljósi þess að ráðningarsamningar allra starfsmanna voru nákvæmlega eins þá liggur fyrir að fordæmisgildi dóms Hæstaréttar getur klárlega verðið umtalsverður og skilað öllum starfsmönnum umtalverði leiðréttingu vegna vertíða sem voru 2013, 2014 og 2015. Hæglega getur þessi leiðrétting numið allt að 300 milljónum ef fordæmisgildið nær til allra starfsmanna.

Eins og hefur komið fram í fréttum er þessa daganna að hefjast hvalvertíð eftir 2 ára hlé og núna virðist fyrirtækið ætla að grípa til hefndaraðgerða vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness vogaði sér að standa þétt með sínum félagsmönnum við að leita réttar síns fyrir dómstólum og uppfylla þannig lögbundnar skyldur sínar sem eru m.a. að tryggja að atvinnurekendur fari eftir gildandi ráðningar- og kjarasamningum.

Það er rétt að vekja sérstaka athygli á því að með dómi Hæstaréttar hefur Verkalýðsfélag Akraness tryggt að laun starfsmanna á komandi hvalvertíð hækkar um allt að 250 þúsund á mánuði eða sem nemur 750 þúsundum yfir alla vertíðina sem stendur yfirleitt í 3 mánuði. Já dómurinn tryggði starfsmönnum á vertíðinni sem nú er að hefjast launahækkun sem nemur allt 750 þúsundum. En starfsmaður á 5 ára launataxta mun hafa allt að 1,3 milljón á mánuði. Vissulega er umtalsvert vinnuframlag að baki slíkum launum.

Eins eins og áður sagði að þegar starfsmenn komu til fundar með forsvarsmönnum Hvals í gær, var þeim tilkynnt að enginn mætti vera í Verkalýðsfélagi Akraness heldur yrðu allir að vera í Stéttarfélagi Vesturlands þrátt fyrir að starfsstöð Hvals í Hvalfirði sé einnig á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness,

Forsvarsmenn Hvals héldu þeirri rakalausu þvælu fram við starfsmenn sína að Hvalstöðin í Hvalfjarðasveit heyrði ekki undir félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness en orðrétt segir í 1. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness:   „Félagið heitir Verkalýðsfélag Akraness. Félagssvæði þess er Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit. Félagið og deildir þess eru aðilar að viðkomandi sérsamböndum, sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands".  Enda óumdeilt að Hvalfjarðasveit er hluti af félagssvæði VLFA.

Í ljósi þess að forsvarsmenn Hvals hf. reyndu að blekkja starfsmenn sína með þessum ósannindum í gær til að koma höggi á Verkalýðsfélag Akraness, óskaði VLFA eftir staðfestingu frá yfirlögfræðingi ASÍ um að Hvalstöðin í Hvalfjarðasveit væri á félagssvæði VLFA til að hrekja þessa rakalausu þvælu frá forsvarsmönnum Hvals hf.. Enda stenst þetta ekki nokkra skoðun, því starfsmenn Hvals hf. hafa allt frá því að vertíð hófst árið 2009 verið að stórum hluta félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en núna eftir að félagið fór í mál gegn Hvali fyrir hönd síns félagsmanns á að meina öllum starfsmönnum aðild að félaginu.

Það er morgunljóst að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. ætlar að reyna að refsa Verkalýðsfélagi Akraness með því að meina starfsmönnum að vera í VLFA vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness uppfyllti sínar lagalegu skyldur við að tryggja og varðveita réttindi sinna félagsmanna gagnvart fyrirtækinu.

Formaður er afar stoltur af tugum félagsmanna sem eru nú að hefja störf hjá Hval hf. sem neituðu að skrifa undir ráðningarsamning í gær með þessum ólöglegu þvingunaraðgerðum sem forsvarsmenn Hvals hf. reyndu að knýja í gegn á fundinum í gær.

Það er rétt að geta þess að lögmaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sent forsvarsmönnum Hvals hf. bréf þar sem þessum kolólöglegum aðgerðum er harðlega mótmælt. „Þetta ofbeldi Kristjáns Loftssonar er gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 og andstætt öllum leikreglum á hinum almenna vinnumarkaði og svona gera atvinnurekendur ekki sem vilja láta taka sig alvarlega á íslenskum vinnumarkaði.

Þetta grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals hf. mun Verkalýðsfélag Akraness mæta af fullri hörku því aðgerðin er siðlaus og lítilmannleg sem er fólgin í að stilla starfsmönnum upp með þeim hætti þessum hætti og refsa stéttarfélaginu fyrir að uppfylla sínar lagalegu skyldur sem hvíla á öllum stéttarfélögum um að verja réttindi sinna félagsmanna gegn kjarasamningsbrotum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image