• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

02
Jan

Fyrsti fundur hjá ríkissáttasemjara

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá hafa VR, Efling-stéttarfélag og Verkalýðsfélag Akraness vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara. En þessi þrjú stéttarfélög hafa ekki bara myndað sameiginlega samninganefnd heldur einnig bandalag í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir við Samtök atvinnulífsins.

Fyrsti fundurinn hjá ríkissáttasemjara var haldinn á síðasta föstudag en á þeim fundi kallaði ríkissáttasemjari eftir hinum ýmsu gögnum er lúta að kröfugerð félaganna og var sáttasemjari að átta sig á stöðunni sem upp er komin.

Formenn stéttarfélaganna þriggja leggja mikla áherslu á að tryggt verði að kjarasamningarnir verði afturvirkir frá 1. janúar 2019 , en þá renna fyrri samningar út. Formenn áðurnefndra félaga telja þetta mjög mikilvægt og það myndi gefa samningsaðilum meira andrými við að ná saman samningi ef þetta atriði liggur fyrir. En ríkissáttasemjari óskaði eftir að Samtök atvinnulífsins svari þessari ósk félaganna á næsta fundi sem verður 9. Janúar næstkomandi.

Formaður VLFA lagði fram gögn sem sýndu að í síðustu samningum varð launafólk af 39 milljörðum vegna þess að kjarasamningsgerðin dróst í 4 mánuði og því skiptir miklu máli að kjarasamningurinn gildi frá 1. Janúar 2019, en við hvern mánuð sem dregst að ganga frá samningi verður launafólk á hinum almenna vinnumarkaði af allt að 4 milljörðum.

27
Dec

Verkalýðsfélag Akraness, VR og Efling vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara

Verkalýðsfélag Akraness, VR og Efling hafa vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins en bæði VLFA og Efling ákváðu að afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandi Íslands og fyrir því voru aðallega tvær ástæður.  Sú fyrri var að meirihluti formanna SGS vildu ekki að VR og SGS mynduðu sameignlega samninganefnd en það var mat þessara félaga að slíkt myndi klárlega styrkja samningstöðu okkar umtalsvert enda hefði SGS og VR verið með um 75% félagsmanna innan ASÍ á bakvið sig.  Síðara atriðið laut að því að meirihlut SGS vildi ekki vísa deilunni til ríkissáttasemja þátt fyrir að Samtök atvinnulífsins hafi ekki lagt neitt á borðið hvað lýtur að spurningunni um svigrúm til launabreytinga og því til viðbótar hefur skilningsleysi stjórnvalda að þessari kjaradeilu verið algert og hafa þau engu svarað um þær kröfur sem verkalýðshreyfingin gerir á stjórnvöld.

Megin krafa þessara stéttarfélaga er að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðuneytið hefur gefið út en í dag vantar um 114.000 krónur til að svo sé sem er algerlega óásættanlegt.

 

Yfirlýsing vegna vísunar kjaraviðræðna til ríkissáttasemjara:

Lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði eru 300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Húsnæðiskreppa og tilfærsla skattbyrði frá þeim ríku yfir á þá efnaminni gerir það að verkum að ekki er hægt að lifa af þessum launum. Efnahagsuppsveifla síðustu ára hefur ekki skilað láglaunafólki ábata og er löngu tímabært að snúa við þeirri öfugþróun.

Stéttarfélög verslunarfólks og almenns launafólks standa sameinuð í þeirri kröfu að dagvinnulaun dugi fyrir mannsæmandi lífi. Krafa okkar er um krónutöluhækkanir sem leiði til sanngjarnari skiptingar kökunnar, ekki um prósentuhækkanir og launaskrið.

Samtök atvinnulífsins hafa svarað kröfum okkar með gagnkröfu um uppstokkun á vinnutíma og breytingum á grundvallarréttindum launafólks – réttindum sem náðust með áralangri baráttu vinnandi fólks. Tólf tíma vinnudagur var raunveruleiki hér á landi á árum áður. Slíkt verður aldrei liðið aftur á íslenskum vinnumarkaði. Skilgreiningar á vinnutíma eru ávinningur af kjarabaráttu síðustu alda sem aldrei verður fórnað fyrir nafnlaunahækkanir sem geta brunnið upp í verðbólgu.

Við höfum gert kröfu um róttækar breytingar á núverandi kerfi, sanngjarnar launaleiðréttingar og boðlegt líf en fáum lítil sem engin svör. Þeir sem vilja tryggja sanngirni og réttlæti á vinnumarkaði eru sakaðir um ábyrgðarleysi og jafnvel öfgar. Eini kosturinn sem boðinn er vinnandi fólki er kyrrstöðusamningar. Enn og aftur er til þess ætlast að láglaunafólk á Íslandi sitji eftir á meðan þeir launahæstu skammta sjálfum sér tugprósenta launahækkanir án þess að blikna.

Verkalýðshreyfingin stendur sterk og mun berjast til að ná fram kröfum fólksins um mannsæmandi líf.

Við undirrituð teljum að sögulegt tækifæri sé fólgið í breiðri samstöðu stéttarfélaga almenns verkafólks og verslunarfólks um krónutöluhækkanir og hækkun lægstu launa.

Við undirrituð teljum að viðræður síðustu vikna við Samtök atvinnulífsins hafi verið árangurslausar. Við teljum afstöðu stjórnvalda skýra vísbendingu um að þau hyggist ekkert gera til að liðka fyrir viðræðum.

Við höfum því tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum þeirra stéttarfélaga sem við veitum forystu við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness

20
Dec

Verkalýðsfélag Akraness afturkallar samningsumboð sitt til SGS

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur tilkynnt Birni Snæbjörnssyni formanni Starfsgreinasambands Íslands með formlegu bréfi að VLFA hafi ákveðið að draga samningsumboð sitt til baka frá SGS.

Það liggur fyrir að það er einlægur vilji innan Verkalýðsfélags Akraness að mynda sameiginlega samninganefnd með VR og Eflingu og jafnvel fleiri félögum innan SGS.

Það er ljóst að verkefnið framundan er gríðarlega erfitt en það er okkar hlutverk og ábyrgð að ná fram kjarasamningum þar sem lágtekjufólk getur látið laun sín duga fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðarráðuneytið hefur gefið út. En það er meginkrafa okkar í verkalýðshreyfingunni enda ætti hreyfing sem ekki gerir svoleiðis kröfu að finna sér eitthvað annað að gera.

Nú liggur líka fyrir að VLFA og mjög líklega VR og Efling muni vísa deilunni til ríkissáttasemjara í dag eða í síðasta lagi á morgun.

Ástæða þess að mikilvægt er að vísa deilunni strax til sáttasemjara liggur í því að ef kjarasamningsgerð dregst um einn mánuð þá getur launafólk á hinum almenna vinnumarkaði orðið af allt að 4 milljörðum króna ef samningurinn er ekki afturvirkur frá 1. janúar.

Eins og staðan er núna þá er ljóst að himinn og haf eru á milli samningsaðila ekki bara hvað lýtur að Samtökum atvinnulífsins heldur er skeytingarleysi og aðgerðaleysi stjórnvalda algjört.

Það er ljóst að framundan er gríðarlega harður kjaravetur þar sem aðalkrafan er að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðarráðuneytið hefur gefið út.

Einnig að ráðist verði í róttækar kerfisbreytingar íslenskum almenningi til hagsbóta. Kerfisbreytingar sem byggjast á þjóðarátaki í húsnæðismálum, tekið verði á okurvöxtum, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu, ásamt því að skattbyrði verði létt af lág-og millitekjufólki.

19
Dec

Opnunartími skrifstofu VLFA yfir jól og áramót

Opnunartími skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness yfir jól og áramót verður með eftirfarandi hætti:

21. desember - Opið 8:00-12:00
24. desember Aðfangadagur - Lokað
25. desember Jóladagur - Lokað
26. desember Annar í jólum - Lokað
27. desember - Opið 8:00-16:00
28. desember - Lokað
31. desember  Gamlársdagur - Lokað
1. janúar  Nýársdagur - Lokað
2. janúar – Opið 8:00-16:00

Styrkir og sjúkradagpeningar verða greiddir út þann 27. desember og þurfa gögn í tengslum við þær umsóknir að hafa borist í síðasta lagi kl. 12:00 þann dag.
Þeir sem eiga bókaðan bústað yfir jólin þurfa því að koma í síðasta lagi fyrir hádegi 21. desember og þeir sem eiga bókað um áramót í síðasta lagi fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 27. desember.

Við bendum félagsmönnum okkar á að dagbækur fyrir árið 2019 eru komnar í hús.

18
Dec

Launafólk getur orðið af 4 milljörðum ef kjarasamningar dragast um einn mánuð!

Það er óhætt að segja að það nánast þurfi kraftaverk til að hægt verði að ganga frá kjarasamningi fyrir áramót, enda eru núna einungis 5 virkir vinnudagar þar til kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði rennur út.

Það er í raun og veru sorglegt í ljósi þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa talað um að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð við kjarasamningsgerð þannig að nýr kjarasamningur taki við af þeim gamla. 

Eins og áður sagði eru engar líkur á að svo verði enda ber gríðarlega mikið í milli hjá samningsaðilum þótt vissulega sé erfitt að slá föstu hversu mikið enda hafa SA ekki viljað svara spurningum um hvert svigrúm til launahækkana sé og einnig hver sé afstaða þeirra til launaliðar í kröfugerð SGS.

Hins vegar liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins vilja umturna vinnufyrirkomulagi á íslenskum vinnumarkaði sem gengur út á að lengja dagvinnutímabilið þannig að dagvinna sé frá 06:00 til 19:00 eða í 13 tíma á dag. Einnig vilja SA að kaffitímar verði keyptir sem þýðir að dagvinna verður ekki 173,33 tímar í mánuði heldur 160. En þessa styttingu á launafólk að kaupa fullu verði þannig að það eigi ekki rétt á kaffitímum. Þeir vilja einnig að hægt verði að færa dagvinnutíma á milli mánaða jafnt á milli ára. Þetta vilja SA menn gera til að koma til móts við kröfu okkar um að dagvinnulaun hækki umtalsvert. Þetta þýðir á mannamáli að launafólk á að kaupa sína launahækkun að langstærstum hluta sjálft með því að hella á milli yfirvinnunnar og dagvinnunnar.

Þessum hugmyndum hefur Starfsgreinasamband Íslands hafnað alfarið sem þýðir að viðræður eru nánast á byrjunarreit og það þegar einungis fimm virkir vinnudagar eru eftir þar til samningarnir renna út. Þessu til viðbótar liggja fyrir umtalsverðar kröfur á hendur stjórnvöldum eins og t.d. þjóðarátak í húsnæðismálum, að létta skattbyrði af lág-og millitekjuhópum, sem og að taka á okurvöxtum, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. Að ógleymdri kröfu um að launafólk fái að auka hluta samtryggingar í lífeyrissjóðum í frjálsa séreign sem hægt verði að nota til niðurgreiðslu á fasteignalánum sem og til uppsöfnunar á útborgun í húseign.

Í ljósi alls þessa þá vildu formenn sjö aðildarfélaga SGS vísa deilunni strax til ríkissáttasemjara á formannafundi SGS sem haldinn var á síðasta föstudag en því miður voru ellefu formenn sem vildu ekki gera það strax og töldu það ekki tímabært. Þessi afstaða fannst formanni VLFA óskiljanleg því það liggur fyrir að samningurinn er að renna út og himinn og haf er í raun á milli samningsaðila.

Þegar þessi afstaða formannanna ellefu lá fyrir þá lagði formaður VLFA aðra tillögu fram sem gekk út á að fela formanni SGS að hringja í framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og gera honum tilboð sem gekk út á að SA myndi viðurkenna skriflega að kjarasamningshækkanir myndu gilda afturvirkt frá 1. janúar 2019 og ef SA myndi ekki gangast við því myndi SGS vísa deilunni strax til Ríkissáttasemjara.

Hafi formaður verið undrandi og gapandi yfir að fyrri tillagan hafi ekki verið samþykkt, þá missti hann andlitið þegar sömu formenn felldu tillöguna um að setja SA mönnum þessa afarkosti að samningurinn gilti afturvirkt frá 1. janúar ellegar vísa til sáttasemjara.

Rétt er að geta þess að ef kjarasamningsgerð dregst í einn mánuð þá verður launafólk á hinum almenna vinnumarkaði af um 4 milljörðum. Já takið eftir með hverjum mánuði sem það dregst að semja þá verða félagsmenn okkar af 4 milljörðum og því óskiljanlegt að stilla SA ekki uppvið vegg með þetta.

Það er ljóst að það hefur myndast töluverð gjá á milli formanna sem vildu vísa deilunni til sáttasemjara og þeirra sem ekki vildu það en rétt er að geta þess að þessir sjö formenn eru með um 66% félagsmanna á bakvið sig innan SGS.

Þetta er svo sem ekki eini ágreiningurinn sem hefur verið innan SGS heldur hafa Verkalýðsfélag Akraness og Efling lagt gríðarlega áherslu á að mynduð verði sameiginleg samninganefnd með VR enda eru kröfugerðir SGS og VR í 99% tilfella eins. Rétt er að geta þess að bæði VLFA og Efling gerðu þetta atriði sem eitt af skilyrðum fyrir því að samningsumboðið yrði veitt SGS.

En því miður vildi meirihluti formanna SGS alls ekki mynda sameiginlega samninganefnd með VR þrátt fyrir að bæði VLFA og Efling legðu mikla áherslu á það enda er það staðföst trú þessara félaga að slíkt myndi styrkja samningsstöðu og samtakamátt okkar verulega. Hins vegar var meirihluti formanna tilbúinn að vera í samstarfi við VR en ekki eins og áður sagði með sameiginlega samninganefnd. En eins og áður sagði þá hefði það ekki bara styrkt samtakamátt okkar heldur einnig sent skýr skilaboð um að þessi félög muni starfa þétt saman ef til átaka kemur á vinnumarkaði.

Þessi niðurstaða hefur valdið formönnum Eflingar og VLFA verulegum vonbrigðum en formenn þessara félaga hafa ætíð reynt að brjóta ekki samstöðuna. En eftir þessa atburðarás á síðasta föstudag um að vilja ekki vísa deilunni til sáttasemjara þá eru allt eins líkur á því að Verkalýðsfélag Akraness, Efling og hugsanlega fleiri félög innan SGS muni afturkalla umboð sitt frá SGS.

Ef til þess kemur er næsta víst að þessi félög munu mynda þétt bandalag með VR í komandi kjaraviðræðum en þessi félög mynda um eða yfir 50% af félögum innan ASÍ.

Hvað muni gerast mun væntanlega skýrast á morgun, en þá mun t.d. stjórn Eflingar koma saman til fundar þar sem þessi mál verða væntanlega öll á dagskrá.

04
Dec

Óskiljanlegt að neysluviðmið Velferðarráðuneytisins lækki um rúm 30.000 milli áranna 2017 og 2018!

Í gær var haldinn fundur í Stjórnarráði Íslands þar sem verið var að kynna nýtt neysluviðmið fyrir árið 2018 sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Velferðarráðuneytið ef formaður VLFA hefur skilið þetta rétt.

Það stórundarlega í þessu öllu saman er að nú komast þeir aðilar sem reikna út þetta neysluviðmið að því að hið dæmigerða neysluviðmið lækki á milli áranna 2017 og 2018 um 30.657 krónur eða sem nemur 14,7%

Já núna á framfærsluviðmið Velferðarráðuneytisins að lækka um rúmar 30 þúsund krónur á milli ára eða úr 223.046 kr. í 192.389 kr. en hér er um dæmigert neysluviðmið hjá einstaklingi að ræða. En rétt er að geta þess að ekki er um húsnæðiskostnað að ræða í þessu neysluviðmiði sem er reyndar gjörsamlega óskiljanlegt enda húsnæðiskostnaður einn dýrasti neysluþáttur hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu.

Formaður veltir því fyrir sér hvernig stendur á því að menn fái það út að dæmigerða neysluviðmiðið lækki um rúmar 30.000 krónur á milli ára. Vissulega veltir formaður Verklýðsfélags Akraness því fyrir sér hvort ástæðan sé sú að verkalýðshreyfingin hafi ítrekað verið að benda á þá bláköldu staðreynd að lágmarkslaun og bætur almannatrygginga séu langt undir framfærsluviðmiðum sem Velferðarráðuneytið hefur gefið út og því sé eina leiðin að lækka neysluviðmiðið með einhverjum nýjum aðferðum!

Það er allavega stórundarlegt að þegar kostnaður heimila og einstaklinga hefur verið að hækka á milli ára þá komist þeir aðilar sem reikna út þetta neysluviðmið að því að það hafi lækkað. Óskiljanlegt!

Það er líka ljóst að það er með algjörum ólíkindum að þegar verið er að reikna út þessi framfærsluviðmið þá kjósi Velferðarráðuneytið að sleppa húsnæðiskostnaði sem er einn dýrasti kostnaðarliður fólks. Hví í ósköpunum er það gert? Og núna verður Alþýðusamband Íslands að krefjast þess að húsnæðiskostnaður verði tekinn allur inn í heildarneysluviðmið og þar þarf að horfa til þeirra sem eru á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Einnig þarf að hafa inn í húsnæðiskostnað þeirra sem búa í eigin húsnæði bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.

Formaður ítrekar það að þessi tilraun stjórnvalda til að hafa áhrif á neysluviðmið með því að lækka það á milli ára er að mati hans aumkunarverð tilraun til að slá á kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun lægstu launa. Allavega hefur formaður VLFA ekki nokkra aðra skýringu á því að neysluviðmið sé að lækka um 30 þúsund á mánuði og það á sama tíma og vöruverð hefur hækkað töluvert eins og neysluvísitalan staðfestir!

28
Nov

Margir eru skiljanlega í áfalli eftir uppsagnir í Norðuráli í dag

Enn og aftur fáum við Akurnesingar bylmingshögg í kviðinn þegar kemur að atvinnuöryggi á okkar félagssvæði en í dag var 20 frábærum starfsmönnum með gríðarlegan og farsælan starfsaldur að baki sagt upp störfum hjá Norðuráli.

Af þessum 20 starfsmönnum eru 7 sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og hafa þeir flestir haft samband við formann félagsins í dag og eðli málsins samkvæmt eru þeir og samstarfsfólk þeirra í miklu áfalli.

Formaður VLFA lýsir undrun sinni á þessari aðgerð stjórnenda Norðuráls í ljósi þess að um eða yfir 10% af heildarkostnaði fyrirtækisins er launakostnaður og því telur formaður að hægt hefði verið að leita hagræðingar í hinum 90% sem liggja í rekstrarkostnaði fyrirtækisins.

Það liggur fyrir að Norðurál er vel rekið fyrirtæki sem hefur nánast skilað hagnaði hvert einasta ár frá því að það hóf starfsemi 1997 að undanskildum 2 árum ef formaður man rétt.

Það er mikilvægt fyrir stjórnendur Norðuráls að muna að það er fólkið á gólfinu sem hefur helgað sig starfi sínu og starfsævinni sem skapar hagnaðinn í fyrirtækinu og því er það dapurlegt að þegar örlítið blæs á móti að þá sé fólkið á gólfinu og millistjórnendur leitt í uppsagnarfallexina.

Eins og áður sagði þá höfum við Akurnesingar svo sannarlega fengið að finna fyrir bylmingshöggum í kviðinn þegar kemur að atvinnuöryggi starfsfólks á okkar svæði. Nægir að nefna þegar HB Grandi sagði upp hátt í 100 manns fyrir rúmu ári síðan og því segir formaður: Við erum búin að fá nóg af svona vinnubrögðum og köllum eftir að fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega á íslenskum vinnumarkaði sýni samfélagslega ábyrgð!  Það er allavega að áliti formanns afar harðneskjulegt gagnvart fólki sem hefur margt unnið nánast frá upphafi starfsemi verksmiðjunnar að teyma það út eins og sauðfé til slátrunar ef þannig má að orði komast.  Allavega er ömurlegt að fólk sem mætir grunlaust til vinnu sé kallað inn á skrifstofu, fái uppsagnarbréfið, sé látið tæma starfsmannaskápinn sinn og sé síðan teymt út fyrir girðingu og ekið heim. Svona gera menn ekki!

22
Nov

Formaður VLFA stýrði miðstjórnarfundi í gær

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er 1. varaforseti ASÍ þurfti að stýra miðstjórnarfundi ASÍ í gær í fjarveru forseta ASÍ en Drífa Snædal var að sinna erlendum embættisverkum í Osló.

 

Það að formaður VLFA hafi verið að stýra miðstjórnarfundi ASÍ í gær sýnir þá gríðarlegu breytingu sem orðið hefur á æðstu forystu ASÍ, en fyrir nokkrum misserum síðan hefði það verið óhugsandi að formaður VLFA ætti eftir að stýra slíkum fundi hjá ASÍ.

 

Þessi mikla breyting sem hefur átt sér stað á forystu Alþýðusambands Íslands eftir þing sambandsins hefur gert það að verkum að það ríkir mikil samstaða og einurð innan miðstjórnar um að láta verkin tala í komandi kjarasamningum.

Á fundinum í gær var samþykkt ályktun þar sem stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd en í umræddri ályktun segir meðal annars:

„Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld sýni í verki vilja sinn til að jafna kjörin og byggja í haginn til framtíðar og komi strax með aðgerðir sem mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.“

 

Undir liðnum önnur mál lagði 1. varaforseti fram tillögu um að fela hagdeild ASÍ að kanna og bera saman útgjaldaliði hjá fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum. Þessir útgjaldaliðir lúta að vaxtakostnaði, leiguverði, matarkostnaði, tryggingum og rekstri bifreiðar svo eitthvað sé nefnt.

Það liggur fyrir að það er mjög dýrt að búa á Íslandi og hefur verið nefnt í því samhengi að það kosti allt að 150 þúsundum meira fyrir fjögurra manna vísitölufjölskyldu að lifa á íslandi miðað við Norðurlöndin og er þá einungis verið að tala um matar-og vaxtakostnað.

 

Þessi tillaga 1. varaforseta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og kom fram í máli miðstjórnarmanna að hagdeild VR hafi t.d. tekið saman að vaxtakostnaður af 30 milljóna húsnæðisláni sé 70 þúsundum hærri í hverjum mánuði miðað við Norðurlöndin og því hægt að styðjast við þá vinnu hjá VR.

Einnig kom fram að miðstjórnarmenn telji mikilvægt að kalla fram þessar tölur til að sýna fram á hversu gríðarlega dýrt er að lifa hér á landi og þessi gögn geta reynst mikilvæg til að sýna fram á mikilvægi þess að rétta hlut launafólks af til að hægt sé að láta enda ná saman frá mánuði til mánaðar.

20
Nov

Forsetateymi ASÍ fundaði með seðlabankastjóra

Eins og allir vita þá er eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar, heimilanna, fyrirtækja og launafólks alls að tekið sé á verðtryggingu og okurvöxtum fjármálakerfisins. En rétt er að geta þess að bæði í kröfugerð Starfsgreinasambandsins og VR er kveðið á um að vextir þurfi að lækka og verðtrygging verði afnumin sem og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Það liggur t.d. fyrir að verkalýðshreyfingin hefur m.a. gagnrýnt Seðlabankann harðlega fyrir að hafa hækkað stýrivextina um 0,25% í síðustu stýrivaxtaákvörðun og nema þeir núna 4,50% sem er mjög hátt miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við.

Á þessari forsendu m.a. óskaði Már Guðmundsson seðlabankastjóri eftir að funda með forsetateymi ASÍ og var sá fundur haldinn í gær. Á þessum fundi gagnrýndi formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrsti varaforseti ASÍ harðlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans og kom fram í máli hans að þessi ákvörðun væri alls ekki til þess fallin að auðvelda gerð nýs kjarasamnings.

1. varaforseti gagnrýndi harðlega þá hávaxtastefnu sem ríkir hér á landi en það liggur fyrir að íslensk heimili eru að greiða uppundir 3% hærri raunvexti af húsnæðislánum miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. En það þýðir að íslensk heimili sem skulda um 1900 milljarða eru að greiða um 66 milljörðum meira í vaxtakostnað á hverju ári miðað við þau vaxtakjör sem bjóðast t.d. á Norðurlöndunum. Hann benti seðlabankastjóra einnig á að af 35 milljóna húsnæðisláni væru neytendur að greiða á bilinu 70 til 100 þúsundum meira í vaxtakostnað í hverjum mánuði miðað við þau lönd sem við erum að bera okkur saman við.

1. varaforseti spurði hvað þyrfti að koma til svo að hægt yrði að lækka vexti til samræmis við það sem gerist t.d. á Norðurlöndunum og nefndi hann sem dæmi að þegar gengið var frá kjarasamningum 2015 hafi stýrivextir verið 4,25% en seðlabankinn hafi hækkað þá fljótlega í þremur áföngum upp í 5%. 1. varaforseti vildi fá svör við þessu frá seðlabankastjóra því frá kjarasamningum 2015 hafi verðbólgan verið langt undir neðri vikmörkum seðlabankans sem er 2,5% og ef húsnæðisliðurinn er tekinn út var bullandi verðhjöðnun allan samningstímann en þrátt fyrir þessa stöðu hafi Seðlabankinn ekki séð ástæðu til að lækka vextina sem neinu næmi.

Hann fór einnig yfir það að þessar stýrivaxtahækkanir séu alls ekki að virka sem skyldi enda liggur fyrir að stór hluti verðtryggðra skulda heimilanna eru með fasta vexti en hinsvegar bitnar þetta mest á unga fólkinu sem er að berjast við að kaupa sér sína fyrstu eign. Hann nefndi það einnig að það eina sem þessar vaxtahækkanir gerðu væri að færa fé frá þeim skuldsettu yfir til fjármálakerfisins sem og fjármagnseigenda.

Svör seðlabankastjóra voru afar rýr og byggjast á nákvæmlega sömu svörum og fram koma í rökstuðningi þegar ákvarðanir um stýrivaxtahækkanir eru teknar.  Hann sagði einnig að síðasta stýrivaxtahækkun uppá 0,25% væri gerð fyrir lágtekjufólk til að vernda það fyrir þeim verðbólguþrýstingi sem nú væri komin upp.  Þessum rökum mótmælti 1. varaforseti harðlega  en varaforseti kom öllum sínum áherslum vel á framfæri og ítrekaði að lækkun vaxta og afnám verðtryggingar sem og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu séu eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar og heimilanna og ekkert verður gefið eftir í þeirri baráttu.

19
Nov

SGS fundaði með Samtökum atvinnulífsins

Á síðasta föstudag kom samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands saman til samningafundar með Samtökum atvinnulífsins en nú er farið að styttast illilega í að kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði lausir en það er um næstu áramót eins og flestir vita.

Á þessum fundi gerðist afar lítið en formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði gríðarlega áherslu á að núna myndu samningsaðilar spýta verulega í lófana og funda jafnt og þétt til að reyna að ná samningum.

Formaður VLFA fór yfir að þegar ákveðið var að segja ekki upp samningum á formannafundi ASÍ sem haldinn var 28. febrúar þrátt fyrir að grófur forsendubrestur hafi átt sér stað hafi samningsaðilar talað um að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð og hefja strax vinnu að nýjum kjarasamningi. Það hefur hins vegar ekki gerst þrátt fyrir að forsvarsmenn SA hafi nefnt mikilvægi þess að byrja viðræður að nýjum samningi 1. maí og því hljómar allt tal um öguð og vönduð vinnubrögð afar illa í eyrum formanns VLFA.

Formaður VLFA nefndi sem dæmi að SGS hafi lagt fram kröfugerð sína fyrir 5 vikum síðan og ekkert hafi heyrst eða gerst sem heitið getur allan þann tíma. Því lagði formaður VLFA til og var það samþykkt að fundað yrði stíft fram til 10. desember og þá ætti að vera komið í ljós hvort samningsaðilar nái saman eða séu í það minnsta að nálgast hvorn annan. Ef það liggur fyrir að SA og SGS séu langt frá hvoru öðru hvað samningsvilja varðar er ljóst að málinu verður vísað til ríkissáttasemjara um miðjan desember og allt eins líklegt að undirbúningur að átökum hefjist ef ekkert gerist hjá sáttasemjara.

Það er allavega morgunljóst að vinnubrögð eins og hafa tíðkast þar sem menn dútla og gaufa við samningsgerðina er liðin tíð og því mikilvægt að reyna til 10. desember hvort hægt sé að ná saman eða ekki enda telur formaður VLFA það ekkert vera ýkja flókið að sjá hvort einhvern samningsvilja sé að finna af hálfu atvinnurekenda.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image