• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

26
Oct

Ræða sem ég flutti á 43. þingi ASÍ

Þingforseti, forseti ASÍ ágætu þingfulltrúar.

Fréttir síðustu daga herma að sést hafi til sérsveitar ríkislögreglustjóra grárrar fyrir járnum bruna með alla ráðamenn þjóðarinnar, fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins og frá Seðlabankanum rakleiðis í höfuðstöðvar almannavarna í Skógarhlíðinni. Ástæðan var sú að búið var að hækka áhættustig almannavarna upp í efsta þrep vegna kröfugerðar Starfsgreinasambands Íslands og VR.  

Fréttir herma einnig að öllum stálhurðum í stjórnstöð almannavarna hafi verið skellt aftur og kröfugerðinni varpað upp á skjávarpa þar sem fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Seðlabankans og stjórnvalda hafi gripið um höfuð sér og  horft með angistarsvip á hvern annan þar sem blasti við þeim sú gereyðingarkrafa sem fól í sér að hækka lágmarkslaun á Íslandi dygðu fyrir framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út

Heimildir herma að fulltrúi SA hafi í mikilli geðshræringu öskrað hátt og skýrt: „Eru menn virkilega svo ruglaðir að gera kröfu um að fólk geti lifað af laununum sínum?“ Ekki var minni geðshræring hjá fjármálaráðherra á þessum fundi almannavarna þar sem hann ætlaði ekki að trúa því að verið væri að gera kröfu um að létta ætti skattbyrði lágtekjufólks og óttaðist hann innilega að geta ekki haldið áfram á þeirri vegferð sem hann hefur verið á á liðnum árum sem lýtur að því að létta skattbyrði hátekjufólks. Reyndar sturlaðist hann þegar hann sá að krafa var um að hækka fjármagnstekjuskattinn og hafði miklar áhyggjur af því ef það ætti að gera kröfu um að ríkasta eina prósentið greiddi meira til samneyslunnar.

Af þeim aðilum sem voru á þessum fundi var ástandið alvarlegast á seðlabankastjóra en eftir að hann sá kröfugerðina þá ráfaði hann um stjórnstöð almannvarna eins og hann væri hálfvankaður eftir að hafa fengið þungt högg frá Gunnari Nelson. Seðlabankastjóri muldraði í hljóði: „Er þetta fólk virkilega að fara fram á að tekið verði á okurvöxtum fjármálakerfisins og er það svo vitlaust að heimta sambærilegt vaxtastig og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við?“

Niðurstaða þessa fundar í höfuðstöðvum almannavarna var að önnur eins „vá“  hefði ekki steðjað að íslensku þjóðinni frá því að þjóðin óttaðist að Þjóðverjar myndu hernema landið í seinni heimstyrjöldinni. Vildu sumir fundarmenn meina að þessi kröfugerð væri meiri vá heldur en þegar Svarti dauði herjaði á þjóðina á 14. öld.

Fram kom síðan í fundagerðarbók frá þessum fundi að forsætisráðherra prísaði sig sæla yfir því að Ísland væri ennþá í Nató og var henni falið að hafa samband við bandaríska sjóherinn til að taka létta heræfingu hér á landi eins og hann gerði í síðustu viku til að vera klár í alvöru átök ef ræstingarfólk og annað lágtekjufólk vogaði sér að fylgja kröfum sínum eftir um að geta lifað af sínum launum frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

Ágætu félagar.

Það er varla hægt að gera grín að þeim ofsafengnu viðbrögðum sem hafa birst í fjölmiðlum frá því kröfugerðir SGS og VR komu fram en hvað er annað hægt að gera en að brosa að þessum aðilum sem reyna enn og aftur að hræða alþýðuna til hlýðni.

En núna þegar einungis 22 virkir vinnudagar eru þar til  kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verða lausir þá mun hræðsluáróðurinn og varnaðarorðin frá lobbíistum og lukkuriturum efnahagslegu forréttindahópanna óma um allt íslenskt samfélag af fullum krafti og þau eru reyndar svo sannarlega byrjuð að heyrast.

Varnaðarorð eins og: „Þið verðið að gera afar hófstillta samninga, það er ekkert svigrúm.“ „Verðbólgan rýkur upp, gengið fellur og stöðugleikinn verður rústir einar!“

Þessari rispuðu plötu hefur ætíð verið skellt á fóninn þegar kemur að því að semja um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði. Því miður eru æði margir sem syngja sönginn um að alþýða þessa lands eigi ein að bera ábyrgð á stöðugleika í íslensku samfélagi.

Það er hins vegar ömurlegt og dapurlegt að ekki skuli heyrast eitt einasta varnaðarorð frá þessum aðilum þegar efri lög samfélagsins og embættismannaelítan raka til sín launahækkunum sem nema frá 300 þúsundum upp í allt að 1,2 milljónum í hækkun á mánaðarlaunum sínum eins og birst hefur í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum. 

Hver man til dæmis ekki eftir því þegar forstjóri N1 fékk hækkun á sínum launum upp á eina milljón á einu bretti eða þegar bankastjóri Landsbankans hækkaði um 1,2 milljón á mánuði.  Hvað sagði ekki bankaráð Landsbankans þegar fjölmiðlar kölluðu eftir útskýringum á þessari gríðarlegri hækkun á launum bankastjórans, jú, svarið var að hér hafi verið um hóflega hækkun að ræða!

Já, launahækkun hjá bankastjóra Landsbankans fyrir nokkrum mánuðum síðan upp á 1,2 milljón var hófleg. Það heyrist aldrei eitt einasta orð frá lobbíistum hinna ríku þegar efri lög samfélagsins moka til sín launahækkunum eins og enginn sé morgundagurinn og þá er nægt svigrúm til og engum stöðugleika ógnað.

Kæru félagar.

Eins og við vitum öll þá hefur Starfsgreinasamband Íslands og félagar okkar í VR lagt fram metnaðarfulla kröfugerð þar sem m.a. er gerð krafa um að lágmarkslaun hækki á þremur árum úr 300.000 krónum í 425.000 krónur.

Einnig kemur fram í þessum kröfugerðum frá SGS og VR að ráðast þurfi í þjóðarátak í húsnæðismálum, létta skattbyrði á lág-og millitekjufólk svo ekki sé talað  um kröfuna um að taka á okurvöxtum, verðtryggingu og taka húsnæðisliðin úr lögum um vexti og verðtryggingu.  

Já kröfugerð SGS og VR byggist á að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert þannig að þau dugi frá mánuði til mánaðar og lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að hækka lágmarkslaun umtalsvert, létta skattbyrði, draga út tekjutengingum barna-og vaxtabóta og taka á þeim blóðuga vígvelli sem íslenskur leigumarkaður er orðinn um þessar mundir. Leigumarkaður þar sem græðgin hefur heltekið marga leigusalana og leigufélög.

Það er lýðsheilsumál og skylda okkar að lagfæra kjör okkar félagsmanna sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og við skulum aldrei gleyma að það eru félagsmenn okkar sem taka laun eftir þessum skammarlegu lágu launatöxtum, lág og lægri millitekjuhópar er nauðbeygt að vera á leigumarkaði og eyða stórum hluta ráðstöfunartekna í húsaleigu.

Já kröfugerð SGS og VR byggist á þeirri sanngjörnu og réttlátu kröfu að rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi, ekki bara með beinum launahækkunum heldur einnig með aðkomu stjórnvalda eins og áður hefur komið fram.  Við hljótum öll í verkalýðshreyfingunni að vera sammála að það er algjört metnaðarleysi og okkur til skammar að vera með lágmarkslaun sem ekki ná þeim lágmarks framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðuneytið og Umboðsmaður skuldara hafa gefið út.

Það er ekki bara að algjör samhljómur sé um þessi atriði í kröfugerðum SGS og VR heldur er einnig samhljómur um að samið verði um flata krónutöluhækkun á alla sem ekki taka laun eftir launatöxtum. Við vitum flest að prósentulaunahækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi. 

Tökum dæmi: Krafan er að lágmarkslaun hækki um 42.000 kr. 1.janúar 2019 eða um 14%  Nú liggur fyrir samkvæmt Kjarnanum.is að meðallaun forstjóra skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni eru 4,7 milljónir á mánuði og ef þeir fengu 14% launahækkun þá myndu laun þeirra hækka um 658.000 á mánuði.  Kröfugerð SGS og VR hafnar svona misskiptingu og óréttlæti eins og þetta grófa dæmi sýnir enda gerð karfa um að allir fái sömu krónutöluna.

Munum að prósentur blekkja og það fer enginn og verslar með prósentum í matinn eða greiðir reikninga eða húsaleigu með prósentum.

Kæru þingfulltrúar. Það er ekki hægt að komast hjá því að nefna í þessari ræðu að nú eru 10 ár liðin frá bankahruninu og við munum flest þær skelfilegu hamfarir sem alþýða og heimili þessa lands þurftu að þola í kjölfar hrunsins. Stjórnvöld á hrunárunum sögðust vera í slökkvistarfi en allt slökkvistarfið miðaðist við að slökkva elda í viðskiptabönkunum þremur og í fjármálakerfinu í heild sinni, skítt með heimilin þau máttu mörg hver standa í björtu báli enda liggja fyrir í dag opinberar upplýsingar um að minnsta kosti 10 þúsund íslenskum heimilum hafi verið fórnað á altari fjármálagræðginnar í hruninu.

Það sorglega í þessu öllu saman er að það er ekkert að breytast, enn búa íslensk heimili við okurvexti, verðtryggingu og himinhá þjónustugjöld. Maður spyr sig hver hefði t.d. trúað því að 10 árum eftir að viðskiptabankarnir þrír sem ollu þessum hamförum sem íslensk heimili þurftu að þola séu þeir búnir að skila yfir 750 milljörðum í hagnað frá hruninu.

Ég vil trúa í hjarta mínu að öll íslensk verkalýðshreyfing muni láta kné fylgja kviði við að kalla eftir réttlátara fjármálakerfi í komandi kjarasamningum. Við megum t.d. aldrei láta fortíðarvanda verðtryggðra húsnæðislána verða aftur að framtíðarvanda enda megum við aldrei gleyma því að verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust á einni nóttu um 400 milljarða!

Við þurfum sem verkalýðshreyfing að spyrja okkur að því hví í ósköpunum við látum það viðgangast að raunvextir á Íslandi séu allt að 3% hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við þurfum líka að spyrja okkur hvort ekki sé kominn tími á að stoppa það af að heimilin þurfi að greiða allt að 100 þúsundum meira í vaxtakostnað af 30 milljóna húsnæðisláni í hverjum mánuði en heimilin í þeim löndum sem við berum okkur hvað oftast saman við?

Íslensk verkalýðshreyfing verður að standa í lappirnar í komandi kjarasamningum og krefja stjórnvöld um að hagsmunir íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar. 

Kæru félagar.

Ég verð að lokum að nefna þá gríðarlegu samstöðu sem náðst hefur innan Starfsgreinasambandsins en í fyrsta skipti í sögu sambandsins hafa öll 19 aðildarfélög SGS sameinast sem eitt sterkt afl fyrir komandi kjarasamninga.

Ég verð einnig að lýsa gríðarlegri ánægju með VR þar sem samhljómur í kröfugerð okkar í SGS er mjög mikill og einnig þeim mikla vilja forystumanna VR að vinna þétt saman í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld. Það er morgunljóst að þessi mikla samstaða skiptir miklu máli og vonandi mun iðnaðarsamfélagið einnig koma með okkur í þessa vegferð og ef það gerist þá yrði það ugglaust í fyrsta skipti sem öll aðildarfélög ASÍ yrðu samstíga í kjaraviðræðum.

Það liggur fyrir að framundan eru gríðarlega erfiðar kjaraviðræður en með samstöðu okkar allra eiga okkur að vera allir vegir færir.

Munum kæru félagar að misskipting,óréttlæti og ójöfnuður eru ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk, sem hægt er að breyta- allt sem til þarf er kjarkur,vilji og samstaða!

Takk fyrir mig.

23
Oct

Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.

Miðvikudaginn 24. október 2018 mun skrifstofa VLFA loka kl 14:55


Þann 24. október næstkomandi, á kvennafrídeginum, eru konur hvattar til að ganga út úr vinnunni klukkan 14:55. Í ár verður gengið út undir kjörorðunum: „ Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!”. 

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74 prósent af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru samkvæmt því með 26 prósent lægri atvinnutekjur að meðaltali. Ef miðað er við það hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir fimm klukkustundir og 55 mínútur ef miðað er við fullan vinnudag sem hefst klukkan níu og lýkur klukkan 17. 

Segir í tilkynningu frá aðstandendum kvennafrídagsins í ár að samkvæmt því sé daglegum vinnuskyldum kvenna því lokið klukkan 14:55 og að með sama áframhaldi muni konur ekki fá sömu laun og karlar fyrr en árið 2047, sem er eftir 29 ár. 

Árið 2016, þegar síðast var gengið út, lögðu konur niður störf klukkan 14:38 og fyrir það, árið 2010, lögðu nær niður störf klukkan 14:25.   Þetta mjakast áfram, en alls ekki nógu hratt !

Starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness senda konum baráttukveðjur.

12
Oct

Fyrirtækið Skaginn hf. dæmt í Landsrétti til að greiða félagsmanni VLFA á aðra milljón króna!

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi lögmaður Verkalýðsfélags Akraness fyrirtækinu Skaganum fyrir dómstóla á síðasta ári vegna tveggja félagsmanna sem störfuðu hjá Skaganum. Annað málið laut að ólöglegri uppsögn starfsmanns en hitt málið laut að kjarasamningsbrotum hvað varðaði hvíldartíma og svokallaðan vikulegan frídag.

Þann 22. janúar sl. féll svo dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í báðum málunum þar sem Verkalýðsfélag Akraness vann það mál er laut að ólöglegri uppsögn en Skaganum var gert að greiða starfsmanninum 400 þúsund í uppsagnarfrest ásamt dráttarvöxtum. Einnig var Skaginn dæmdur til að greiða félaginu 400 þúsund í málskostnað.

Seinna málið sem laut að hvíldartímunum og vikulega frídeginum tapaðist fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en Verkalýðsfélag Akraness ákvað ásamt lögmanni sínum að áfrýja því máli fyrir Landsrétti enda var félagið og lögmaður félagsins algerlega á því að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur væri kolrangur enda öll gögn málsins sem staðfestu kjarasamningsbrot Skagans.

Það er skemmst frá því að segja að Landsréttur var algerlega sammála Verkalýðsfélagi Akranes og lögmanni félagsins, enda var Skaginn dæmdur í dag til að greiða starfsmanninum rétt rúma eina milljón króna ásamt dráttarvöxtum frá 19. febrúar 2017 í vangöldin laun vegna hvíldartíma og vikulegs frídags. Skaginn var einnig dæmdur til að greiða eina milljón í málskostnað til Verkalýðsfélag Akraness.  Sjá dóm Landsréttar frá því í dag hér

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega stolt og ánægð með að bæði málin sem félagið sótti á hendur Skaganum hafi unnist, annað fyrir Héraðsdómi og hitt fyrir Landsrétti.

Með öðrum orðum þá vannst fullnaðarsigur í þessum málum sem hafa skilað samtals tæpum tveimur milljónum til þessara tveggja félagsmanna VLFA og einnig er það ánægjulegt að Skaginn hafi verið dæmdur til að greiða samtals málskostnað upp á 1,4 milljón vegna þessara mála.

Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að verja ætíð með kjafti og klóm ef því er að skipta réttindi okkar félagsmanna og ef félagið telur að verið sé að brjóta á réttindum okkar manna og ekki næst að innheimta það í sátt þá fara slík mál fyrir dómstóla og félagið gefur ekki nokkurn afslátt á kjarasamningsbrotum!

11
Oct

Kröfugerð SGS - Það er lýðheilsumál að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa

Nú hefur kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands litið dagsins ljós og það er afar ánægjulegt að allar megináherslur Verkalýðsfélags Akraness náðu fram í endanlegri kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands. Ekki bara er lýtur að launalið kröfugerðarinnar heldur einnig áherslur sem lúta að þeim kröfum sem gera á hendur stjórnvöldum. En eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að Verkalýðsfélag Akraness hefur kallað eftir í sinni kröfugerð að gerðar verið róttækar kerfisbreytingar er lýtur m.a. að okurvöxtum, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. En öll þessi atriði eru inni í kröfugerð SGS og því fagnar formaður VLFA innilega enda hafa þessi brýnu hagsmunamál alþýðunnar og heimilanna verið eitt að aðalbaráttumálum VLFA um langt árabil. Það er og verður krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnvöld taki stöðu með hagsmunum alþýðunnar og íslenskum heimilum og hætti stöðugri hagsmunagæslu fyrir fjármálakerfið á kostnað heimilanna.

Aðalkrafa SGS hvað launaliðin varðar á hendur Samtökum atvinnulífsins er að lágmarkslaun verkafólks hækki úr 300.000 krónum í 425.000 krónur í þriggja ára samningi eða sem nemur 41.666 krónur að meðaltali á ári.  

SGS leggur gríðarlega áherslu á að samið verði um krónutölur ekki prósentur enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og eykur bara á ójöfnuð launa í íslensku samfélagi. SGS vill flata krónutöluhækkun á alla þá sem ekki taka laun eftir taxtakerfum. Það er alls ekki hugmynd SGS að krónutöluhækkun lágmarkslauna verði umreiknuð í prósentur og hátekjuhópar komi síðan og kefjist hækkun launa útfrá þeim sem numið gætu hundruðum þúsunda á mánuði. Nei - slíkt kemur ekki til greina. Allir sem ekki taka laun eftir lágmarkstöxtum skulu fá sömu krónutöluna óháð því hvort fólk er t.d. með 700.000 þúsund á mánuði eða 4,7 milljónir eins og t.d. meðallaun forstjóra í Kauphöllinni eru.

Það blasir við að það þarf þjóðarsátt um að lagfæra laun þeirra tekjulægstu þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út en slíku er alls ekki til að dreifa í dag. Það verður að lagfæra þessa launataxta umtalsvert þannig að verkafólk nái að eiga fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn. Það er lýðheilsumál að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Til þess að það markmið náist gerir SGS kröfu um að lágmarkslaun verði skattlaus sem og að barna- og vaxtabætur hækki. Einnig vill SGS að ráðist verði í þjóðarátak í húsnæðismálum um allt land enda hefur húsnæðismarkaðurinn verið eins og vígvöllur sem birtist m.a. í okurleigu og húsnæðisskorti.

Það gleður mig sem formann Verkalýðsfélags Akraness sérstaklega eins og áður sagði að í kröfugerð SGS eru róttækar kerfisbreytingar þegar kemur að okurvöxtum og verðtryggingu. SGS vill að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin og þak verði sett á húsnæðisvexti. Einnig vill SGS að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu en bæði þessi mál hafa verið lengi baráttumál Verkalýðsfélags Akraness.

 

Kröfugerð SGS gagnvart Samtökum atvinnulífsins, sjá hér : SGS - SA

Kröfugerð SGS gagnvart stjórnvöldum, sjá hér: SGS - stjórnvöld

05
Oct

Gríðarleg samstaða innan aðildarfélaga SGS við gerð kröfugerðar

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til tveggja daga fundar á Selfossi en tilgangur fundarins var að koma á laggirnar sameiginlegri kröfugerð.

Formaður verður að segja alveg eins og er að sú samstaða sem var innan raða Starfsgreinasambandsins við gerð kröfugerðarinnar var gríðarlega góð og ljóst að þessi samstaða er sú langbesta sem formaður hefur orðið vitni að frá því hann hóf aðkomu að verkalýðsmálum.

Nú er verið að hreinskrifa og fara yfir kröfugerðina en hún verður afgreidd með formlegum hætti á fundi samninganefndar SGS á miðvikudaginn í næstu viku og fram að þeim tíma er ekki hægt að greina frá innihaldi hennar.

En það er ljóst að megináherslur sem Verkalýðsfélag Akraness lagði fram í sinni kröfugerð verða inni í sameignlegri kröfugerð SGS en það er skemmst frá því að segja að mjög mikill samhljómur var í kröfugerðum aðildarfélaga SGS og því var bara nokkuð auðvelt að koma saman kröfugerðinni þótt vissulega séu alltaf skiptar skoðanir um einstaka þætti.

Það er rétt að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness leggur mikla áherslu á að Starfsgreinasamband Íslands myndi bandalag með VR í komandi kjarasamningum en SGS og VR eru með um 75% félagsmanna innan ASÍ. Því er ljóst að slagkrafturinn sem myndast í samfloti þessara aðila innan verkalýðshreyfingarinnar verður mikill. En samninganefnd SGS mun taka endanlega afstöðu til þess á fundinum á næsta miðvikurdag hvort farið verði í samflot með VR eða ekki. En formaður Verkalýðsfélags Akraness er mjög vongóður um að af þessu samstarfi verði.

05
Oct

Í gær var tekin skóflustunga að 33 nýjum leiguíbúðum fyrir tekjulágar fjölskyldur á Akranesi

Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að 33 nýjum leiguíbúðum á vegum íbúðafélagsins Bjargs fyrir tekjulágar fjölskyldur á Akranesi en þetta er verkefni sem verkalýðshreyfingin kom á laggirnar til að styðja við tekjulágar fjölskyldur eins og áður sagði.

Það er frábært að geta sagt frá því að fyrstu íbúðirnar verða afhentar um mitt sumar 2019. Akraneskaupstaður fær átta íbúðir til ráðstöfunar í íbúðarkjarnanum af þessum 33.

Bjargi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Íbúðirnar sem verða í Asparskógum verða því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn á Akranesi. Það er ljóst að eftirspurnin er meiri en framboðið á þessum íbúðum. Alls hafa 81 umsókn borist nú þegar um þessar 33 íbúðir sem eru í byggingu á Akranesi.

Það er rétt að geta þess að Modulus mun sjá um byggingu húsanna og arkitekt er Svava Björg Jónsdóttir en formaður félagsins fundaði með henni í gær þar sem farið var yfir verkefnið og er bygging á þessum íbúðum gríðarlega spennandi. En rétt er að geta þess að áætlað er að byggingartíminn verði afar stuttur en reiknað er með að byrjað verði að reisa þessar byggingar í mars og er áætlað að verklok verði 1. júní til 1. júlí 2019 eða sem nemur 4 til 5 mánuðum

Um er að ræða 40,4 fermetra stúdíóíbúðir, 52 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 77 fermetra þriggja herbergja íbúðir og 93 fermetra fjögurra herbergja íbúðir.

Rétt er að geta þess að opið er fyrir umsóknir og skráningu á biðlista hjá Bjargi á heimasíðu félagsins, www.bjargibudafelag.is.

26
Sep

Róttækar kerfisbreytingar- verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar!

Það er morgunljóst að komandi kjaraviðræður verða gríðarlega erfiðar og allt eins líklegt að það muni koma til harðra átaka á íslenskum vinnumarkaði. Enda blasir það við að margt íslenskt verkafólk býr við afar kröpp kjör enda launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði með þeim hætti að útilokað er fyrir þá sem eru á slíkum töxtum að þeir nái endum saman frá mánuði til mánaðar.

Það verður að vera forgangskrafa í komandi kjarasamningum að launatöflur verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði lagfærðar umtalsvert. Rétt er að geta þess að lægsti launataxtinn er einungis 266.735 krónur fyrir fulla vinnu og hæsti gildandi launataxtinn rétt slefar í 300.000 krónur.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að bilið á milli byrjanda og starfsmanns sem hefur unnið í til dæmis 15 ár hjá sama vinnuveitanda er einungis rétt rúm 2%. Einnig eru launabil á milli launaflokka einungis rúm 0,6%. Þetta er algjör skandall sem verður að leiðrétta umtalsvert í komandi kjarasamningum þannig að verkafólk fái starfsreynslu sína metna mun meira en nú er og einnig þarf að auka bilið á milli launaflokka.

En það er alls ekki það eina að lagfæra þurfi launatöflu verkafólks umtalsvert heldur verða stjórnvöld að létta verulega á skattbyrði lágtekjufólks t.d. með hækkun persónuafsláttar og einnig þarf að finna leið til að lágmarkslaun verði skattlaus.

Verkalýðsfélag Akraness vill að samið verði til þriggja ára og að allir sem taki ekki laun eftir launatöxtum fái sömu krónutöluna og ekki verði samið um prósentur á hinum almenna vinnumarkaði. Hví í ósköpunum eiga t.d. hátekjuhóparnir að þurfa að fá tugþúsunda eða jafnvel hundruð þúsunda launahækkun umfram þá sem eru á lægri laununum? En slíkt gerist ætíð þegar samið er í prósentum og því verðum við að hætta því enda eru prósentu launahækkanir aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Róttækar kerfisbreytingar

Samhliða þessu þarf að knýja stjórnvöld til þess að koma á róttækum kerfisbreytingum. Kerfisbreytingum sem lúta t.d. að því að hagsmunir alþýðunnar og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins. En eins og allir vita þurfa íslenskir neytendur að búa hér við okurvexti, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu. Íslensk heimili eru að greiða allt að 100 þúsundum meira í vaxtakostnað í hverjum mánuði miðað við heimili á Norðurlöndunum miðað við 25 milljóna húsnæðislán. Þessu til viðbótar liggur fyrir að fjögurra manna fjölskylda er að greiða allt að 150 þúsundum meira í vexti og matarinnkaup í hverjum mánuði miðað við sambærilega fjölskyldu á Norðurlöndunum. Við verðum að ná niður kostnaði við að lifa hér á landi og það gerum við m.a. með því að endurskipuleggja fjármálakerfið þannig að ekki sé einvörðungu horft á fjármálalegan stöðugleika fjármálakerfisins og að fjármálalegur stöðugleiki alþýðunnar og heimilanna sé ekki látinn víkja fyrir stöðugleika fjármálakerfisins, eins og ætíð er gert!

Við þurfum líka að ráðast í þjóðarátak í húsnæðismálum og það getum við gert með því að taka 1% af samtryggingarhlutanum sem við greiðum í lífeyrissjóðina eins og hugmyndir VR ganga út á. En með þeirri hugmynd væri hægt að endurreisa verkamannabústaðakerfið á nokkrum árum.

Við verðum að fara í þessa vinnu enda er leigumarkaðurinn orðinn eins og vígvöllur þar sem græðgi og aftur græðgi ráða ríkjum með skelfilegum afleiðingum fyrir lágtekjufólk og allt ungt fólk.

Við þurfum líka að snúa við af þeirri braut er lýtur að svokallaðri tilgreindri séreign og breyta henni í frjálsa séreign. Enda óskiljanlegt að forysta ASÍ hafi stuðlað að því að koma þessari tilgreindu séreign á vegna þess að hún er háð mun strangari skilyrðum en frjáls séreign. T.d. má ekki byrja að leysa tilgreinda séreign út 60 ára eins og frjálsu séreignina heldur 65 ára, því til viðbótar má ekki nota tilgreindu séreignina til niðurgreiðslu á fasteignalánum eða til uppsöfnunar á útborgun í fyrstu húseign. Rétt er hins vegar að vekja sérstaka athygli á því að þessi tilgreinda séreign á að verða skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun og ótrúlegt að verkalýðshreyfingin skuli voga sér að koma slíku á í ljósi þess að eitt af mikilvægustu atriðum lífeyriskerfisins er að draga úr skerðingum frá greiðslum frá Tryggingastofnun en ekki auka á þær.

Verkalýðsfélag Akraness vill breyta þessari tilgreindu séreign í frjálsa séreign og gefa launafólki færi á að niðurgreiða húsnæðislán sín og safna fyrir útborgun á kaupum á fyrstu húseign.

Þetta eru nokkur atriði sem Verkalýðsfélag Akraness vill gera og nú er tækifæri til að knýja stjórnvöld til kerfisbreytinga þar sem hagsmunir alþýðunnar verði nú einu sinni hafðir að leiðarljósi. Við verðum að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks með blandaðri leið launahækkana og kerfisbreytinga.

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki tilbúið til að gefa neinn afslátt hvað það varðar og félagið trúir ekki öðru en að verkalýðshreyfingin í heild sinni standi saman í því að kalla eftir þessum róttæku kerfisbreytingum og það á vel við á 10 ára „afmæli“ hrunsins!

 

Hérna að neðan má sjá kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness á hendur stjórnvöldum:

 

Kröfugerð á stjórnvöld

  • Hækkun persónuafsláttar til handa þeim tekjulægstu
  • Lágmarkslaun verði skattlaus
  • Þjóðarátak í húsnæðismálum. (Verkamannabústaðakerfið verði endurreist, byggt á hugmyndum VR.)
  • Róttækar kerfisbreytingar verði gerðar á fjármálakerfinu þar sem hagsmunir almennings verði teknir fram yfir hagsmuni fjármálakerfisins. Þessar kerfisbreytingar þurfa að leiða til mikillar lækkunar á kostnaði neytenda
  • Stjórnvöld komi á lægra vaxtastigi. (Raunvextir 3% hærri en í nágrannalöndunum)
  • Verðtrygging verði afnumin og þak sett á húsnæðisvexti. (Verðtrygging þekkist ekki í neinum löndum sem við viljum bera okkur saman við)
  • Húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. (Hefur hækkað um 118 milljarða frá 2013 til 2017)
  • Launafólk fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á fasteignum.
  • Launafólk fái að ráðstafa 2,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða niðurgreiðslu fasteignalána.
  • Sjóðsfélagar geti valið sér lífeyrissjóð.
  • Félagsleg undirboð og gróf kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð og sektir verði lögfestar við slíkum brotum.
  • Skerðingarmörk barnabóta hækki í 350 þúsund.
  • Dregið verði stórlega úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu.
  • Stjórnvöld, sveitarfélög og verslunareigendur skuldbindi sig til að halda aftur af verðlagshækkunum.
  • Ójöfnunarstuðull/Öryggisventill á launahækkanir hálaunahópanna.
  • Afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun.

 

18
Sep

Þing ASÍ-UNG var haldið á föstudaginn

Þing ASÍ-UNG var haldið föstudaginn 14. september á Icelandair Hótel Reykjavík Natura en fulltrúi Verkalýðsfélags Akraness á þessu þingi ASÍ-UNG var Allan Freyr Vilhjálmsson.

Á nýafstöðnu þingi ASÍ-UNG mátti greina mikinn samhug og baráttuvilja hjá ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Málþing um hlutverk stéttarfélaga og þær áherslur sem ungt fólk vill sjá í komandi kjarasamningum bar einna hæst á þinginu.

Meðfylgjandi ályktun var samþykkt í lok þingsins en hún sýnir ágætlega hvar áherslur ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar liggja í komandi kjaraviðræðum.

 

  • Þing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess marka skýra stefnu í húsnæðismálum til þess að tryggja ungu fólki húsnæði við hæfi. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum.
  • ASÍ-UNG krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattlaus.
  • ASÍ-UNG krefst þess einnig að aldurstengd launamismunun verði afnumin með öllu enda er hún klárt brot á mannréttindum. Jafnframt gerir ASÍ-UNG kröfu um að ungt fólk eigi sæti við samningaborðið til þess að tryggja hagsmuni þess.
  • ASÍ-UNG leggur ríka áherslu á að vinnueftirlit verði aukið og viðurlög vegna brota á vinnustað verði hert.
  • Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Brúa þarf bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla og auka orlofsrétt vegna vetrarfría í skólum.

 

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness forysta verkalýðshreyfingarinnar verði að hlusta vel á áherslur ungliðanna í komandi kjarasamningum, ekki bara í húsnæðismálunum heldur einnig hvað kjaramálin varðar. Það verður t.d. að vera forgangsmál að vinda ofan af því sem gert var í síðustu samningum þegar ungu fólki var fórnað á þann hátt að 18 og 19 ára ungmenni njóti ekki 100% launa fyrir fullt starf. Það atriði í samningunum 2015 var íslenskri verkalýðshreyfingu til skammar.

06
Sep

Ferð eldri félagsmanna 2018

Þriðjudaginn 4. september síðastliðinn var komið að hinni árlegu ferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Þessar ferðir eru ómissandi þáttur í starfi félagsins og margir bíða þeirra með eftirvæntingu. Þetta árið fórum við um suðurlandið.

Fararstjóri ferðarinnar var Gísli Einarsson og stóð hann sig einstaklega vel í því hlutverki. Hann hafi harmonikkuna með sér og spilaði og söng við góðar undirtekir félagsmanna ásamt því að segja skemmtilegar sögur og fróðleiksmola. Farið var í tveimur rútum og sáu bílstjórarnir Atli og Sigurbaldur um aksturinn eins og oft áður í þessum ferðum. Veðrið sem hópurinn fékk var mun betra en spár höfðu sagt til um og talaði Gísli um að Vilhjálmur hefði náð þessu í gegn með góðum samningum við veðurguðina. 

Fyrsta stoppið var í Skálholti, þar sem nýji vígslubiskupinn Kristján Björnsson tók á móti okkur. Hann sagði okkur frá kirkjunni, listaverkunum sem þar eru og aðeins frá sögu staðarins. Næst var ferðinni heitið í Lava center á Hvolsvelli. Þar tóku þau Arna og Helgi á móti hópnum sem byrjaði á því að fá sér hádegismat. Eftir matinn var safnið skoðað, hópurinn fór á stutta en áhrifamikla bíósýningu um eldgos á Íslandi og skoðaði mjög metnaðarfulla sýningu þar sem meðal annars  var hægt að prufa að finna fyrir jarðskjálfta í þremur styrkleikum, hvernig þróun Íslands hefur verið og hinar ýmsu tegundir af hrauni. 

Þá var ferðinni heitið á Forsæti í flóanum en þar heimsóttum við þau hjón Ólaf og Bergþóru sem reka safnið Tré og list.  Þetta safn er með gríðarlegt magn af fallegu handverki, bæði gömlu og nýju.  Einnig er þarna mikið af fallegum gömlum áhöldum sem tengjast handverki. Sigga á Grund var einnig á staðnum, en hún hefur gert ótrúlega mikið af fallegu tréverki sem er á safninu. Meðal þess sem sjá má á safninu er pípuorgelið sem var í Vestmannaeyjakirkju fyrir gos en eftir gosið var það dæmt ónýtt. Ólafur tók það þá allt saman í sundur og flutti það heim til sín þar sem hann hefur hreinsað, lagað og endurbætt hvern einasta hlut í því. Hann hefur nú sett það saman og er það eins og nýtt.  

Hótel Selfoss var svo næsti viðkomustaður þar sem hópurinn settist niður og fékk sér kaffi og kökur. Síðasta stoppið var svo á Veiðisafninu á Stokkseyri þar sem Páll Reynisson tók á móti okkur og fræddi okkur um það sem mátti sjá á safninu. Á Veiðisafninu er mikið að skoða en þar má meðal annars sjá gíraffa, sebrahesta, hvítabirni, krókódíl og margt fleira. Hann sagði  okkur m.a. frá því helsta um stærstu dýrin, hver veiddi þau, með hverju og hvernig kjötið bragðaðist. Það var alveg einstaklega skemmtilegt að hlusta á allar sögurnar sem hann sagði okkur, bæði þær sönnu og þessar sem voru minna sannar.  

Hér má skoða myndir úr ferðinni.

 

 

28
Aug

Krafan í komandi kjarasamningum verður m.a. róttækar kerfisbreytingar

Það verður nú að segjast alveg eins og er að það er eilítið grátbroslegt að forsætisráðherra Íslands skuli hafa kallað eftir því að Gylfi Zoega gerði skýrslu um þjóðhagslegt umhverfi kjarasamninga á komandi vetri.

Það er eins og við manninn mælt þegar kemur að því að semja fyrir íslenskt verkafólk að þá er svigrúmið til launabreytinga ætíð afar takmarkað, en í skýrslunni sem Gylfi Zoega gerði kemur fram að hann telji að svigrúm til launabreytinga sé 4%. Hefði ekki verið þjóðráð fyrir forsætisráðherrann okkar að kalla eftir skýrslu um hvaða áhrif það myndi hafa á vinnumarkaðinn í heild sinni þegar kjararáð hækkaði æðstu ráðmenn þjóðarinnar og forstjóra ríkisstofnanna um 45% eða þegar forstjóri Landsvirkjunar fékk launahækkun sem nam 1,2 milljónum á mánuði sem og bankastjóri Landsbankans.

Nei, núna eru margir lukkuritarar forréttindahópanna kallaðir fram og þeirra hlutverk er að vara við því að íslenskt láglaunafólk fái ekki meira en sem nemur 4% launahækkun því annars sé "stöðugleikanum" illilega ógnað. Það heyrðist ekkert í lukkuriturum forréttindahópsins þegar margir í efri lögum samfélagsins hækkuðu í mánaðarlaunum sem námu frá 250 þúsundum króna uppí allt að 1,2 milljón á mánuði. Það er einnig grátbroslegt að lukkuritarar forréttindahópsins hafa aldrei neinar áhyggjur að stöðugleikanum sé ógnað þegar efrilög samfélagsins taka sér launahækkanir sem nema hundruðum þúsunda á mánuði.  Það er rétt að geta þess að það liggur fyrir að meðallaun forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni eru 4,7 milljónir eða sem nemur tæplega 18- földum lægsta launataxta verkafólks.

Bara þannig að því sé haldið til haga þá er og verður alls ekki samið um 4% launahækkun til handa íslensku verkafólki sem tekur laun sín eftir launatöxtum en rétt er að geta þess að lægsti launataxti verkafólks nemur rétt rúmum 266 þúsundum á mánuði og hæsti virki launataxti verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði slefar rétt rúmum 300 þúsundum á mánuði. En flestir verkamenn á hinum almenna markaði taka laun eftir launatöxtum sem nema frá 270 til 285 þúsund á mánuði.

Að halda það að samið verði um 4% til handa verkafólki sem tekur laun eftir lágmarkstöxtum er fásinna enda verður það aldrei samþykkt og verkafólk er tilbúið að láta kné fylgja kviði við að hækka launataxta sína þannig að þau dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og það geti haldið mannlegri reisn. Enda er það lýðheilsumál að lagfæra og leiðrétta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er eins og áður sagði lýðheilsumál að lagfæra kjör og auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert og það er hægt að gera það á fleiri vegu en með beinum launahækkunum.

Það var því ömurlegt að sjá einn af lukkuriturum forréttindahópsins skrifa að hann hefði bara haft það "skrambi gott" á lágmarkslaunum, en rétt er að geta þess að hér er um hagfræðing Viðskiptaráðs um að ræða.  Formaður félagins vill rifja það upp í þessu samhengi að hann átti orðið fjögur börn 27 ára og þurfti að framfleyta sér og sinni fjölskyldu á verkamannalaunum hér á árum áður og sá tími var svo sannarlega ekki „skrambi góður“ og það síður en svo enda kom það oft fyrir að mörgum dögum fyrir mánaðarmót að ekki voru til fjármunir fyrir nauðþurftum.  Þessi reynsla formanns hefur svo sannarlega hjálpað honum í því starfi sem hann gegnir í dag því það er mikilvægt að þekkja það af eigin raun að ná ekki endum saman frá mánuði til mánaðar.

Kerfisbreytingar

Verkalýðsfélag Akraness vill kalla eftir róttækum kerfisbreytingum. Kerfisbreytingum þar sem hagsmunir almennings verði t.d. teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins. Það er hægt að gera með því að lækka vexti, afnema verðtryggingu og taka húsnæðisliðinn út út lögum um vexti og verðtryggingu. Það er sorglegt að neytendur séu að greiða allt að 110 þúsund meira í vaxtakostnað á mánuði en í sumum af þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við.

Það verður líka að létta á skattbyrði á lág- og lægri millitekjuhópinn en rétt er að rifja upp að árið 1998 var t.d. ekki greiddur skattur af lágmarkslaunum en í dag þarf verkafólk á lágmarkslaunum að greiða um 52 þúsund krónur á mánuði í skatt. Það er verið að skattleggja fátækt á Íslandi sem er sorglegt.

Það er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á því að uppundir 15 þúsund foreldrar hafa misst barnabæturnar sínar á liðnum árum, vegna þess að skerðingarmörk þeirra eru svo skammarlega lág en barnabætur hjá einstaklingi byrja að skerðast við 241 þúsund krónur sem er gjörsamlega galið. Þessu verður að breyta í komandi kjarasamningum þannig að skerðingarmörk barnabóta fari uppí allt að 350 þúsund hjá einstæðu foreldri eða 700 þúsund hjá sambúðarfólki.

Hins vegar blasir við að stærsta áskorun í komandi kjarasamningum verður að koma böndum á húsnæðismarkaðinn og nægir að nefna í því samhengi sú tryllta græðgisvæðing sem er að eiga sér stað á leigumarkaðnum sem hefur leikið lágtekjufólk gríðarlega illa. Enda liggur t.d. fyrir að leiguverð hefur hækkað um 86% frá árinu 2011 og núna er lágtekjufólki gert skylt að leiga tveggja til þriggja herbergja íbúðir á 200 til 300 þúsund á mánuði.

Það er ekki bara það að vaxtakostnaður og leigukostnaður hér á landi sé mörgum tugum þúsunda hærra en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við í hverjum mánuði heldur liggur einnig fyrir að fjögurra manna fjölskylda þarf að greiða um 80 þúsundum meira í matarinnkaup en neytendur á Norðurlöndum. Það er einnig rétt að geta þess að frá árinu 2010 hefur Orkuveita Reykjavíkur hækkað gjaldskrár sínar á heitu vatni um 80%

Það er morgunljóst að kallað verður eftir róttækum kerfisbreytingum þar sem hagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi og því þarf að kalla eftir róttækum aðgerðum við að draga úr kostnaði neytenda við að lifa í þessu landi.

Það er þyngra en tárum taki að hlusta lukkuritara forréttindahópanna tala um að lágtekjufólk hafi hækkað mest í kaupmætti og dregið hafi úr ójöfnuði og misskiptingu. Það blasir við að allur þessi samanburður byggist á prósentuhagfræði en sú hagfræði stenst ekki nokkra skoðun enda fer lágtekjufólk ekki með prósentur og verslar í matinn né greiðir húsleigu með prósentum.  Það verður því að vera skýr krafa í komandi kjarasamningum að samið verði í krónum en ekki prósentum enda eru prósentur aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka ójöfnuð hér á landi.

Staðreyndin er sú að lægsti taxti launafólks er einungis 266 þúsund á mánuði sem er langt undir öllum framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að tala um að það sé bullandi kaupmáttaraukning hjá þeim tekjulægstu er svo sorglegt rugl að það nær ekki nokkru tali.

Sem dæmi þá hafa lægstu launataxtar verkafólks hækkað um 57% frá 2011 en leiguverð hefur hækkað á sama tíma um 86%. En eins og allir vita þá er það tekjulægsta fólkið sem er að langstærstum hluta sem þarf nauðbeygt að vera á leigumarkaði vegna þess að það á hvorki fyrir útborgun til húsakaupa né stenst greiðslumat hjá fjármálastofnunum.

Það þarf að verða þjóðarsátt um að koma þessu fólki verulega til hjálpar í komandi kjarasamningu en eitt er víst að ekki verður nokkur afsláttur gefin í þeirri baráttu í komandi kjarasamningum.

Það liggur fyrir að ef stjórnvöld munu ekki sýna vilja til að taka þátt í því að ráðast í róttækar kerfisbreytingar íslenskum almenningi og lágtekjufólki til góða þá mun verkalýðshreyfingin þurfa að sækja af alefli á atvinnulífið í komandi kjarasamningum til að rétta hlut lágtekjufólks og millitekjufólks af. Núna er boltinn hjá stjórnvöldum og því hvílir hinn ímyndaði stöðugleiki og friður á vinnumarkaði á herðum stjórnvalda!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image