• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Nov

Forsetar ASÍ fóru á opinn fund í Valhöll

Í síðustu viku fór forsetateymi Alþýðusambands Íslands á opinn fund í Valhöll þar sem fundarefnið var vinnumarkaðurinn og komandi kjarasamningar. En forsetar ASÍ eru núna Drífa Snædal, Vilhjálmur Birgisson sem er fyrsti varaforseti og Kristján Þórður sem er annar varaforseti.

Framsögur voru fluttar af Halldóri Benjamín framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífisins, Helgu Ingólfsdóttur varaformanni VR og Ásgeiri Jónssyni forstöðumanni hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sem er eins og áður sagði einnig fyrsti varaforseti ASÍ sá sig knúinn til að koma á framfæri okkar kröfum og um hvað komandi kjarasamningar snúast. Hann taldi t.d. mjög mikilvægt að fundarmenn áttuðu sig á þeim hræðilegu kjörum sem verkafólk þarf að búa við og nefndi sem dæmi að lágmarkstaxtar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði séu einungis frá 266 þúsundum króna upp í 300 þúsund sem er langt undir öllum þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Formaður VLFA sagði að það væri dapurt að heyra sönginn um hinn mikla kaupmátt sem hinir tekjulægstu eiga að hafa notið á liðnum árum og benti mönnum á að þetta væri bara alls ekki rétt. Enda liggur fyrir að leiguvísitalan hefur hækkað frá árinu 2011 um tæp 90% á meðan lægstu launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði hafa hækkað um 65%. Hvaða kaupmáttaraukningu er verið að tala um hjá fólki sem er á hinum almenna leigumarkaði þar sem leiga hefur hækkað um 90% á meðan laun hafa hækkað frá sama tíma um 65%? Að sjálfsögðu er ekki um neina kaupmáttaraukningu að ræða hjá þessu fólki. Hann taldi líka rétt að minna fundarmenn á að þeir sem væru á hinum blóðuga leigumarkaði væri tekjulægsta fólkið og nefndi dæmi af einstæðri móður með 2 börn sem væri að leigja þriggja herbergja íbúð á 285 þúsund á mánuði. Ætlar einhver að reyna að halda því fram að það sé eitthvert góðæri eða kaupmáttaraukning hjá þessari einstæðu móður?

Fyrsti varaforseti ASÍ fór einnig yfir þá okurvexti, verðtryggingu og þau himinháu þjónustugjöld sem neytendur þurfa að búa hér við og tók sem dæmi að heimilin og fyrirtæki eru að greiða yfir 3% raunvexti hér á landi miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur hvað helst saman við. Heimilin eru að greiða 66 milljörðum meira í vaxtakostnað en neytendur á Norðurlöndunum á hverju ári.

Hann fór einnig yfir hvernig verðtryggingin er eins og ryksugubarki sem sogar allt fá frá heimilum yfir til fjármagnseigenda og enginn segir eitt eða neitt. Hann nefndi að bara í síðasta mánuði hefði íslenskum heimilum verið sendur reikningur upp á 10 milljarða vegna þess að neysluvísitalan hefði hækkað um 0,57% á milli mánaða. Já verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu um 10 milljarða á 31 degi vegna þessa og er það álíka upphæð og veiðileyfagjöldin nema á útgerðina á heilu ári!

Hann sagði einnig í ræðu sinni að við værum með alla vega tvær krónur í íslensku hagkerfi: verkamannakrónu þar sem allri ábyrgð á efnahagslegum óstöðugleika er varpað á herðar alþýðunnar og heimilanna og síðan séríslenska verðtryggða krónu auðmanna og fjármagnseignenda sem eru varðir í bak og fyrir gegn öllum efnahagslegum óstöðugleika. Ekki bara að fjármálakerfið krefjist verðtryggingar á fjárskuldbindingum heimilanna heldur heimtar það einnig að vera með breytilega vexti á verðtryggðum vöxtum.

Í salnum voru nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hann beindi orðum sínum til þeirra og bað þá um að hlusta gaumgæfilega á sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar er lúta að stjórnvöldum. Fram kom í máli hans að ef stjórnvöld munu ekki koma til móts við þessar kröfur sé ljóst að verkalýðshreyfingin muni láta kné fylgja kviði við að bæta stöðu þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi!

Það er allavega löngu tímabært að stjórnmálamenn og stjórnvöld taki hagsmuni alþýðunnar og heimilanna framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar. Formaður VLFA og fyrsti varaforseti ASÍ spurði að lokum: Hver hefði trúað því að 10 árum eftir hrun séu viðskiptabankarnir þrír sem ollu hruninu sem kostaði almenning miklar hamfarir búnir að skila um 750 milljörðum í hagnað?!

Hann vonar svo innilega að þeir sjálfstæðismenn sem þarna voru hafi skilið það sem hann var að segja en það lýtur að því að við sem samfélag tökum utan um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi þannig að allir geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn, ekki bara sumir!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image