• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

17
May

Nýr kjarasamningur Elkem kynntur fyrir starfsmönnum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir starfsmenn Elkem Ísland á föstudaginn en formaður félagsins var í gær að kynna samninginn fyrir starfsmönnum Elkem. Þessi kjarasamningur er að mati formanns félagsins mjög góður enda er hann í anda þess samnings sem gerður var fyrir starfsmenn Norðuráls. Ofngæslumenn eru til dæmis að hækka um 9% í heildarlaunum á fyrsta ári samningsins. Heildarlaun ofngæslumanns með 10 ára starfsreynslu voru fyrir samninginn fyrir utan desember- og orlofsuppbætur 517.609 kr. en fara upp í 564.988 kr. sem er tæplega 50.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum eða eins og áður sagði 9,15%

Í samningnum var bónuskerfið lagfært en það getur gefið að hámarki 10,5% Samningsaðilar eru sammála um að það eigi að skila starfsmönnum um eða yfir 80% af hámarkinu sem eru 8,4%. Gamla bónuskerfið var ekki að virka sem skyldi en sá bónus gaf 5,6% að meðaltali á síðasta samningstíma. Orlofs- og desemberuppbætur hækka umtalsvert eða úr rúmum 181.000 kr. hvor fyrir sig eða samtals 362.000 kr. í 202.000 kr. eða samtals 404.000 kr. sem þýðir að hækkun orlofs- og desemberuppbóta nemur 11,3% á fyrsta ári. En orlofs- og desemberuppbætur hjá stóriðjunum á Grundartanga eru langtum hærri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum samningi náðist líka í gegn svokallaður Elkem skóli sem er starfstengt nám sem er tvískipt, annars vegar grunnnám og hinsvegar framhaldsnám og spannar hvort námið fyrir sig 3 annir. Að afloknum skólanum munu starfsmenn fá 5% hækkun fyrir hvort námið fyrir sig eða samtals 10% sem þýðir að þegar starfsmenn hafa lokið bæði grunn- og framhaldsnámi þá mun það skila þeim uppundir 60.000 kr. launahækkun.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. febrúar 2017 en hann gildir til 31. mars 2019 og munu hækkanir í samningnum verða með sambærilegum hætti og gerist hjá Norðuráli á Grundartanga fyrir árið 2018. Ástæða þess að samningurinn gildir bara til 31. mars 2019 er sú að þá rennur raforkusamningur Elkem við Landsvirkjun út og eins og staðan er núna ríkir töluverð óvissa varðandi raforkumál fyrirtækisins þar sem það hefur ekki enn náð samningum við Landsvirkjun. Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verulegar áhyggjur af þeim málum enda hefur okkar atvinnusvæði orðið fyrir nægum áföllum að undanförnu og nægir að nefna í því samhengi uppsagnir uppundir 100 starfsmanna í landvinnslu HB Granda.

En eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að samið var á hinum almenna vinnumarkaði um aukið framlag í lífeyrissjóði sem verður komið upp í 3,5% í júlí 2018. Þetta aukaframlag munu starfsmenn Elkem mega nota í sína eigin séreign allt þar til lögum um lífeyrissjóði verður breytt og ef þeim verður breytt. Semsagt, þeir mega ráða hvort þeir setji þetta í samtryggingu síns lífeyrissjóðs eða í séreignina sem þeir eru nú þegar með hver fyrir sig.

Formaður kynnti þennan samning í gær á tveimur fjölmennum fundum og eru starfsmenn nú að kjósa um samninginn. Kosningu lýkur á næsta föstudag kl. 13:30 og mun niðurstaðan liggja fyrir um kl. 14.

12
May

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær. Það er skemmst frá því að segja að atburðir dagsins í gær settu mark sitt á fundinn en öllum starfsmönnum í landvinnslu HB Granda, 86 manns, var sagt upp störfum.

Þrátt fyrir að þetta mál hafi mikið verið rætt á aðalfundinum þá fór formaður að venju yfir skýrslu stjórnar. Kom fram í hans máli að félagið stendur gríðarlega vel, ekki bara fjárhagslega heldur einnig félagslega. Rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins nam 109 milljónum króna en það hefur verið stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu félagsins með einum eða öðrum hætti, til dæmis í formi hækkunar á styrkjum og öðru sem tengist réttindum félagsmanna í félaginu.

Eins og áður sagði var afkoman góð og því var fæðingarstyrkur félagsmanna hækkaður úr 85.000 kr. í 100.000 kr. og ef báðir foreldrarnir eru í félaginu nemur heildarupphæðin 200.000 kr. Einnig var gleraugnastyrkurinn hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. 

Það kom einnig fram að réttindabarátta félagsins og vinna við varðveislu réttinda félagsmanna hefur verið gríðarlega mikil á liðnum misserum. Félagið rekur nú þrjú mál fyrir dómstólum og hefur frá því að núverandi stjórn tók við árið 2003 innheimt yfir 400 milljónir vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota.

Að sjálfsögðu voru málefni líðandi stundar ofarlega í huga fundarmanna eins og áður kom fram og var sú ákvörðun forsvarsmanna HB Granda að hætta hér landvinnslu eftir yfir 100 ára vinnslu á sjávarafurðum fordæmd harðlega. Fram kom í máli formanns að árið 2002 hafi 170.000 tonnum verið landað á Akranesi, 350 manns hafi þá starfað hjá Haraldi Böðvarssyni og fyrirtækið verið langstærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi með greiðslur sem námu 2 milljörðum króna. Núna væri öll vinnslan að fara héðan og var það mat fundarmanna að það væri ekki hægt að láta slíkt átölulaust. Því var sett fram áskorun til félagsins um að fordæma þessi vinnubrögð harðlega enda liggur fyrir að þær forsendur fyrir þessu sem HB Granda menn gefa sér virðast ekki standast eina einustu skoðun.

Það kom fram í máli formanns að lega Akraness varðandi fiskimið væri mjög hagstæð þar sem veiðar á uppsjávarafla færu að stórum hluta fram við suðurströndina en þrátt fyrir stutta siglingu til Akraneshafnar tækju forsvarsmenn HB Granda ákvörðun um að sigla hringinn í kringum landið með þær afurðir. Vakti hann einnig athygli á því að eftir að HB Granda var gert skylt að fara með beinabræðsluna úr Norðurgarði í Reykjavík þá hefur fyrirtækið þurft að keyra þúsundum tonna af beinum til bræðslu á Akranesi og nam þessi flutningur um 15.000 tonnum í fyrra. Það er óhætt að segja að frá því sameining HB og Granda átti sér stað árið 2004 hafa allar hagræðingaraðgerðir fyrirtækisins bitnað á okkur Akurnesingum. Hér að neðan má sjá ályktun fundarins varðandi ákvörðun HB Granda.

Ályktun aðalfundar Verkalýðsfélags Akraness vegna ákvörðunar HB Granda

"Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness, haldinn þann 11. maí 2017, fordæmir ákvörðun HB Granda um að ætla sér að hætta landvinnslu á Akranesi og færa störfin til Reykjavíkur. Það er mat fundarins að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi ekki sýnt fram á þá hagræðingu sem slíkar aðgerðir eiga að leiða af sér. Aðalfundurinn skorar á Alþingi Íslendinga að byggðafesta aflaheimildir og standa vörð um dreifða byggð í landinu og trygga atvinnu eins og kveðið er á um í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Fundurinn telur það nöturlegt þegar aðilar sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins geta tekið ákvörðun um að svipta fólk lífsviðurværi sínu og skilja samfélögin eftir í sárum. Því ítrekar fundurinn áskorun til Alþingis um að tekið verði á þessari meinsemd við stjórnun fiskveiða."  

12
May

Nýr kjarasamningur undirritaður við Elkem

Rétt í þessu var undirritaður nýr kjarasamningur við Elkem Ísland á Grundartanga. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að samningurinn sé mjög ásættanlegur enda náðust helstu megináherslur kröfugerðarinnar fram. Samningurinn mun verða afturvirkur frá 1. febrúar 2017 og eru ýmis mikilvæg réttindamál inni í þessum nýja samningi. Meðal annars náðist áfangi sem barist hefur verið fyrir í mörg ár sem er svokallaður stóriðjuskóli en þessi skóli mun heita Elkem skólinn. Námið er tvískipt og að loknum hvorum hluta fyrir sig fá starfsmenn 5% launahækkun og er því 2 x 5% launahækkun í boði í gegnum Elkem skólann. 

Einnig var bónuskerfinu breytt umtalsvert sem mun gefa starfsmönnum hærri bónus heldur en í þeim samningi sem nú var að renna út og einnig er ágætis hækkun á grunnlaunum sem hefur margfeldisáhrif á aðra kjaraliði. Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka um rúm 11% og verða hvor fyrir sig 202.000 kr. eða samtals 404.000 kr á ári.

Samningurinn verður kynntur ítarlega fyrir starfsmönnum á þriðjudaginn, 16. maí, þar sem formaður mun fara yfir þau atriði sem náðust. Eins og áður sagði náðust helstu atriðin þó alltaf sé það þannig í kjarasamningsgerð að menn hefðu viljað fá enn meira. En heilt yfir er þessi kjarasamningur mjög góður að mati formanns.   

11
May

Forstjóri HB Granda boðar formann VLFA og trúnaðarmenn á fund kl. 14:15 í dag

Eins og flestir vita þá tilkynntu forsvarsmenn HB Granda í lok mars að þeir hefðu áform um að leggja niður landvinnsluna á Akranesi og segja allt að 100 manns upp störfum. Verkalýðsfélag Akraness og forsvarsmenn Akraneskaupstaðar mótmæltu þessum áformum harðlega og óskuðu eftir því við fyrirtækið að það myndi fresta þessum áformum og hefja viðræður við Akraneskaupstað. Grundvöllur þeirra viðræðna var að kanna hvað það væri sem til þyrfti svo að fyrirtækið myndi hætta við þessi áform sín og með því bjarga þeim störfum sem hér væru undir.

Viðræður á milli Akraneskaupstaðar og forsvarsmanna HB Granda hafa staðið yfir á undanförnum vikum en rétt í þessu hafði forstjóri HB Granda, Vilhjálmur Vilhjálmsson, samband við formann félagsins og óskaði eftir fundi kl. 14:15 og í kjölfarið verður fundað með starfsmönnum kl. 15. Formaður veit ekki hvert tilefni fundarins er en það er ljóst að það tengist þessum áformum og því er það einlæg von Verkalýðsfélags Akraness að tíðindin verði jákvæð þannig að hægt verði að bjarga þeim mikilvægu störfum sem hér eru undir. Eins og áður sagði eru þetta uppundir 100 manns sem starfa í landvinnslunni en með afleiddum störfum eru uppundir 150 störf sem um ræðir.

Eins og áður sagði er ekkert annað í stöðunni en að vona það besta enda er það einlægur vilji Verkalýðsfélags Akraness að við Akurnesingar verðum áfram hluti af þessu öfluga fyrirtæki sem HB Grandi er og skiptir það okkur Akurnesinga gríðarlega miklu máli.

03
May

Uppfærðir kauptaxtar sem gilda frá 1. maí 2017

Á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness má nú finna uppfærða kauptaxta sem gilda á hinum almenna vinnumarkaði frá 1. maí 2017 samkvæmt samningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá janúar 2016. Almenn hækkun er 4,5% og lágmarkslaun fyrir fullt starf eru frá 1. maí 280.000 kr.

Einnig hafa kauptaxtar starfsfólks sem vinnur almenn landbúnaðarstörf verið uppfærðir og gilda þeir frá sama tíma.

Yfirlit yfir alla kauptaxta má finna hér og hvetur Verkalýðsfélag Akraness félagsmenn sína til að fylgjast vel með að launahækkanir séu samkvæmt kjarasamningum.

02
May

1. maí 2017 - Hátíðarræða Ólafs Arnarsonar, formanns Neytendasamtakanna

Góðir félagar!

Það er mér sönn ánægja og heiður að fá að vera með ykkur hér í dag, á alþjóðlegum baráttudegi verkamanna, og flytja ávarp í nafni Neytendasamtakanna. Öll erum við neytendur og barátta fyrir bættum kjörum verkafólks er öðrum þræði barátta fyrir hagsmunum neytenda.

Ísland er gjöfult land og þjóðartekjur á hvern landsmann eru með því hæsta sem þekkist um víða veröld. Næstum alla 20. öldina var sjávarútvegurinn aðal aflgjafi verðmætasköpunar hér á landi. Síðustu áratugi hefur fjölbreytnin aukist. Fyrst kom stóriðjan og þó að nú séu blikur á lofti varðandi framtíð orkufrekrar stóriðju á Íslandi megum við ekki gleyma því að stóriðjan hefur fært þjóðinni viðbótarstoð undir gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins og skapað verðmæt störf á landsbyggðinni. Hugvitið leggur í dag sitt til og á síðustu árum hefur ferðaþjónustan vaxið eins og gorkúla, en sú staðreynd er óhnikuð að engin atvinnugrein hér á landi skapar jafn mikil verðmæti með jafn lítilli fjárfestingu og sjávarútvegurinn.

Undanfarin ár hafa verið gósentíð fyrir íslenskan sjávarútveg. Eftirspurn eftir íslenskum sjávarafurðum hefur verið mikil erlendis og eftir hrunið var krónan verðlítil þannig að samkeppnisstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja var gríðarlega sterk.

En það er vitlaust gefið í íslenskum sjávarútvegi. Hér er ég ekki að tala um að ekki sé nauðsynlegt að vera með einhvers konar kvótakerfi. Það er ósköp eðlilegt að takmarka aðgengi að takmarkaðri auðlind en það er ekki eðlilegt – það er ekki réttlátt – að færa örfáum aðilum afnotaréttinn nánast án endurgjalds.

Frá hruni hefur stórútgerðin nýtt sér þessi hagstæðu skilyrði vel. Flotinn hefur verið endurnýjaður fyrir tugi milljarða og er það vel. En á sama tíma kaupir stórútgerðin upp hverja atvinnugreinina á fætur annarri með kvótagróða auk þess sem eigendur greiða sér tugi milljarða í arðgreiðslur.

Ekki er nóg með að útgerðin fái niðurgreiddan aðgang að auðlindinni í sjónum heldur fær hún einnig að selja aflann til eigin vinnslu á verði sem oft er tugum prósentum lægra en markaðsverð. Með því er verið að hlunnfara sjómenn því laun sjómanna reiknast af aflaverðmæti við skipshlið.

En eru þessi stóru og sterku fyrirtæki þá ekki kjölfestan í byggðarlögunum hringinn í kringum landið? Við getum spurt Þorlákshafnarbúa að því. Við getum spurt Ísfirðinga og Grímseyinga. Við getum spurt okkur sjálf þeirrar spurningar og svarið við henni er auðfundið.

Aldeilis ekki!

Þegar kvótahagsmunirnir rekast á hagsmuni fólksins sem í sveita síns andlits hefur stritað á gólfinu í fiskvinnslunni eru það alltaf hagsmunir fólksins á gólfinu sem víkja. Það þarf jú að borga eigendum arðinn sinn, annað væri samfélagslega óábyrgt segja menn. Hvernig ættu fjárfestar annars að fást til að leggja höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar til fjármagn? Gagnvart sérhagsmununum verða hagsmunir byggðarlaganna og fólksins sem þar býr léttvægir.

1. gr. laga um stjórnun fiskveiða hljóðar svo:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Er það í samræmi við þessa lagagrein að handhafar kvótans skilja hvert byggðarlagið á fætur öðru eftir kvótalaust í hlekkjum atvinnuleysis og vonleysis þegar það hentar í stað þess að vera ábyrgir samfélagsþegnar í sínum byggðarlögum? Er það þannig sem skal tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu?

Undanfarin misseri hefur mikið kapp verið lagt á Salek módelið fyrir íslenskan vinnumarkað. Það hefur verið kallað norrænt vinnumarkaðsmódel og stundum stöðugleikamódel. Stöðugleikinn á víst að vera fyrir launafólkið, fyrir neytendur í landinu.

En það er fullkomin fölsun að kenna Salek við norrænt vinnumarkaðsmódel. Trúir því annars einhver að norræn stöðugleiki byggi á þeim hornsteini að frysta laun almenns launafólks undir hungurmörkum?

Sú falsframsetning á norrænu stöðugleikamódeli sem hér á landi er nefnt Salek horfir algerlega fram hjá lykilatriðum norræns stöðugleika.

Norræn stöðugleiki byggir ekki á sultarlaunum almennings þó hann einkennist af hóflegum launahækkunum.

Það er stöðugleikinn sem framkallar hóflegar launahækkanir en ekki öfugt.

Áður en við komum á norrænum stöðugleika á íslenskum vinnumarkaði verðum við að byrja á því að koma vaxtaumhverfi í svipað horf hér á landi og er á Norðurlöndum.

Við verðum fyrst að tryggja fólki laun sem duga fyrir framfærslu og svo getum við farið að tala um stöðuleikamódel og hóflegar launahækkanir. Þetta snýst ekki bara um launin. Afnám verðtryggingar og vaxtaokurs skiptir jafnmiklu máli og launahækkanir.

Við verðum að tryggja almenningi traust framboð af húsnæði á eðlilegum kjörum. Það er ekki hægt í því verðtryggða vaxtaokurumhverfi sem íslenskum neytendum er boðið upp á! Það er ekki hægt á meðan skipulagsyfirvöld þjóna bröskurum en ekki heimilum landsins!

Það er með ólíkindum að árið 2017 skuli ástandið í húsnæðismálum á Íslandi vera orðið verra en það var fyrir 60 árum. Ungt launafólk getur ekki lengur fest kaup á húsnæði. Fjármagnskostnaður, lóðaskortur og samkrull skipulagsyfirvalda og braskara hefur gert þak yfir höfuðið að forréttindum hinna efnameiri. Og ekki er leigumarkaðurinn skjól fyrir þá sem ekki geta fest kaup á húsnæði. Það er dýrara að vera á leigumarkaði en að kaupa og fáir möguleikar á langtímaleigu en samt eiga margir engan annan kost en að leigja og oft til skamms tíma í senn.

Lífeyrissjóðum er lögum samkvæmt bannað að fjárfesta í húsnæði en þeir mega fjárfesta í fasteignafélögum sem braska á kostnað neytenda og almenns launafólks. Þeir mega fjármagna fasteignafélögin upp í topp en þeir mega ekki byggja húsnæði til að leigja sjóðsfélögum sínum. Það er kaldhæðnislegt að lög skuli leyfa lífeyrissjóðum að skaffa bröskurum eldsneyti á fasteignabálið en banni þeim að taka þátt í slökkvistarfinu til að skapa hér heilbrigðan og aðgengilegan húsnæðismarkað fyrir fólkið í landinu.

Það er ekki lögmál að bankar þurfi að hagnast um tugi og hundruð milljarða á hverju einasta ári í einu fámennasta landi veraldar! Okurvestir, verðtrygging og gjaldtökufrumskógur skapar ofurhagnað bankakerfisins og á kostnað íslenskra neytenda og launþega.

Íslendingar þurfa að borga hverja íbúð þrisvar vegna verðtryggingar og vaxtaokurs á meðan aðrir Norðurlandabúar þurfa bara að borga einu sinni eða svo fyrir sína íbúð. Á meðan svo er, er tómt mál að tala um norrænt stöðugleikamódel hér á landi.

Til eru þeir verkalýðsforingjar, þó þeim fari raunar fækkandi, sem telja það vera sitt hlutverk að halda niðri launum sinna félagsmanna í þágu stöðugleika. Þessir sömu leiðtogar hnussa og hneykslast yfir því að einhverjum skuli detta í hug að það sé hlutverk verkalýðsleiðtoga að skora vaxtaokur og verðtryggingu á hólm. Þessir verkalýðsforingjar eru risaeðlur. Þeir tilheyra liðinni tíð. Sem betur fer vex þeim mönnum nú fiskur um hrygg sem skilja að stærstu hagsmunamál íslenskrar alþýðu, íslenskra neytenda, felast í því að koma böndum á vaxtaokur og afnema verðtryggingu. Að tryggja nægilegt framboð af íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Á þessu þarf að byrja og síðan fylgir norræni stöðugleikinn í kjölfarið.

Ykkar áræðni og kröftugi formaður og leiðtogi, Vilhjálmur Birgisson, hefur verið í brjósti þeirrar fylkingar sem barist hefur fyrir bættum kjörum og réttlæti til handa íslensku launafólki. Sú barátta er neytendabarátta. Í raun má segja að Vilhjálmur sé einhver ötulasti baráttu maður fyrir réttindum íslenskra neytenda sem fyrirfinnst. Ég hef fengið að ganga samhliða honum nokkurn spöl í þeirri löngu göngu, sem að lokum mun leiða okkur til sigurs fyrir íslenskan almenning – fyrir almannahagsmuni gegn sérhagsmunum.

Verkalýðsbarátta og baráttan fyrir réttindum og hagsmunum neytenda er barátta heildarinnar gegn sérhagsmunum. Baráttan gegn þeim áróðri að hungurlaun verkafólks séu nauðsynleg í þágu stöðugleikans og baráttan gegn því hugarfari að hægt sé að bjóða fólki upp á okur og skort á húsnæðismarkaði.

Ísland er gjöfult land og hér getur farið vel um okkur öll. Við megum aldrei falla fyrir fagurgala þeirra sem reyna að telja okkur trú um að stöðugleikinn verði helst byggður á bognum bökum íslenskrar alþýðu.

Það er ekki sósíalismi að krefjast þess að eigandi auðlindar fái greitt fullt verð fyrir afnot af henni. Það er ekki sósíalismi að hafna því að almannaeign sé gefin örfáum aðilum til afnota. Það er argasti pilsfaldakapitalismi að sömu fyrirtæki og fá gefins aðgang að þjóðarauðlindinni skuli svo geta skilið byggðarlögin eftir slypp og snauð þegar þeim hentar það.

Við skulum ekki gleyma því að brauðmolarnir sem hrökkva af stjórnarborðum stórfyrirtækjanna gagnast engum – þeir næra enga aðra en kjölturakkana sem liggja flatir undir þeim borðum.

Ísland er gjöfult land og við getum við öll dafnað vel. Það þarf hins vegar að skipta kökunni rétt. Það gerum við með því að rukka markaðsverð fyrir afnot að auðlindum þjóðarinnar. Það gerum við með því að þola ekki vaxtaokur og verðtryggingu í skjóli fákeppni á fjármálamarkaði. Það gerum við með því að hafna okri og skorti á húsnæðismarkaði. Þetta er ekki sósíalismi – þetta er réttlæti!

 

Með samstöðunni berjumst við til sigurs!

Ég óska ykkur til hamingju með baráttudag verkafólks!

01
May

1. maí 2017 - Ávarp formanns Verkalýðsfélags Akraness

Kæru vinir og félagar.

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum innilega til hamingju með 1. maí sem er eins og við öllu vitum, baráttudagur verkalýðsins.

Það er öllum ljóst að baráttu verkalýðsfélaga við að sækja auknar kjarabætur og réttindi til handa sínum félagsmönnum lýkur aldrei, enda má þeirri baráttu aldrei ljúka. Það er þjóðarskömm að til séu launataxtar á íslenskum vinnumarkaði sem duga alls ekki fyrir þeim lágmarksframfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Það er lýðheilsumál að laun dugi þannig að fólk geti framfleytt sér og sinni fjölskyldu og haldið mannlegri reisn.

En að semja um kaup og kjör er alls ekki eina baráttan sem stéttarfélögin kljást við í sínum störfum, það þarf jú líka að verja réttindin sem náðst hafa í kjarasamningum. Því miður er það alltof algengt að verið sé að brjóta á réttindum launafólks og trúið mér að hafi ég haft  vafa um tilvist og tilgang stéttarfélaga þegar ég tók við formennsku í Verklýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003 þá hvarf sá vafi strax.

Af hverju segi ég þetta, jú vegna þess að á þessum 13 árum síðan ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness höfum við innheimt yfir 400 milljónir vegna kjarasamningsbrota á okkar félagssvæði.  Já, takið eftir 400 milljónir og eru þetta allt brot þar sem atvinnurekendur hafa sagt við okkar félagsmenn: við erum að greiða ykkur rétt og eftir gildandi kjarasamningum. En eftir skoðun félagsins á öllum þessum málum kom í ljós að slíkt var ekki rétt og því hafa fjölmargir atvinnurekendur þurft að leiðrétta og lagfæra laun sem nema áðurnefndri upphæð. Já leikurinn á milli atvinnurekenda og launamannsins er afar ójafn þegar upp kemur ágreiningur um kaup og kjör og því er gríðarlega mikilvægt að launafólk sé aðilar að öflugum stéttarfélögum sem hafa kjark og þor til að standa upp í hárinu á sterkum atvinnurekendum sem oft á tíðum hafa lífsviðurværi heilu byggðarlaganna í hendi sér.

Já Verkalýðsfélag Akraness vílar ekki fyrir sér að standa grjótfast fyrir þegar kemur að því að verja réttindi okkar félagsmanna og fara með mál fyrir dómstóla ef svo ber undir. Á síðustu mánuðum hefur félagið unnið tvö mál fyrir dómstólum, annað málið skilaði yfir 30 milljónum til þeirra starfsmanna sem heyrðu undir dóminn og hitt um 12 milljónum. Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að horfa ekki í krónur og aura við að verja réttindi okkar félagsmanna og sem dæmi er félagið í dag með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir okkar fólks eru undir.

 

Kæru vinir og félagar.

Yfirskrift 1. maí er „Húsnæðisöryggi sjálfsögð mannréttindi.“ Ég get svo sannarlega tekið undir þetta slagorð enda ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði. Við búum við okurvexti og verðtryggingu en ég veit að Ólafur Arnarson hagfræðingur og formaður Neytendasamtakanna mun koma inn á þessi mál í ræðu sinni á eftir. Já ég tek undir að húsnæðisöryggi séu sjálfsögð mannréttindi en atvinnuöryggi á líka að vera sjálfsögð mannréttindi.

En á síðustu vikum hafa óveðursský hrannast upp í atvinnumálum okkar Akurnesinga. Á árshátíðum, þorrablótum, útihátíðum og öðrum sambærilegum mannfögnuðum hefur eftirfarandi lag ómað: „Kátir voru karlar á Kútter Haraldi, til fiskiveiða fóru frá Akranesi“Hver hefði trúað því fyrir nokkrum áratugum síðan að árið 2017 stefni í það að landvinnslu á sjávarafurðum verði hætt á Akranesi.

Hugsið ykkur, í aldanna rás hefur samfélagið okkar verið kallað Skipaskagi, já Skipaskagi en í dag líður nánast yfir bæjarbúa ef þeir sjá skip koma hér til löndunar. Við sem erum eldri en tvævetur munum þegar nokkrar frystihúsrútur gengu um bæinn til að keyra fiskvinnslufólk til og frá vinnu og lífæð samfélagsins var vinnsla sjávarafurða. Hver man ekki eftir öllum frystihúsunum sem voru hér með starfsemi á síðustu öld, Haförninn, Heimaskagi, Þórður Óskarsson og að sjálfsögðu Haraldur Böðvarsson. Nú stefnir í að þetta sé allt farið, þökk sé fiskveiðistjórnunarkerfinu. Fiskvinnsla var og er fjöregg okkar Skagamanna og þau lífsgæði sem við búum nú við og teljum svo sjálfsögð væru ekki til staðar ef vinnsla á sjávarafurðum hefði ekki farið fram í okkar góða samfélagi.

Það er svo dapurt og nöturlegt til þess að vita hvernig fyrirkomulag á stjórnun fiskveiða hefur farið með hinar dreifðu byggðir þessa lands þar sem örfáir einstaklingar hafa getað tekið ákvörðun um að færa aflaheimildir á milli landssvæða eða til höfuðborgarsvæðisins, tekið lífsviðurværi af fiskvinnslufólki og sjómönnum og skilið heilu byggðarlögin eftir rúst. Með öðrum orðum farið um eins og skýstrókar og selt eða sogað allar aflaheimildir í burtu því þeir vilja græða meira í dag en í gær! 

Ég vil rifja það upp að árið 2002, áður en Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda, þá var Akranes þriðja stærsta verstöð landsins og á Akranesi var landað yfir 167 þúsund tonnumHaraldur Böðvarsson var með um 350 manns á launaskrá og greiddi yfir 2 milljarða í laun og var stærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi.

Því miður stefnir æði margt í að verið sé að skrifa síðasta kaflann hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi því mér sýnist að forsvarsmenn HB Granda ætli sér að leggja niður landvinnsluna og með því mun yfir 100 ára sögu fiskvinnslu ljúka. Það er svo sorglegt ef uppundir 100 manns missa vinnuna og margir þeirra hafa helgað líf sitt fyrirtækinu og eru með tugi ára í starfsreynslu. Það er stórhættulegt ef þessi gríðarlega þekking hjá þessu fiskvinnslufólki tapast og þráðurinn rofnar hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi  En við megum ekki gefast upp og við eigum ekki að láta þessa græðgispunga komast upp með þetta.

Já við eigum ekki að gefast upp og við eigum að biðla til og krefjast þess að Alþingi Íslendinga standi vörð um atvinnuöryggi fiskvinnslufólks vítt og breitt um landið og ég vil minna þingheim á 1. grein um stjórn fiskveiða en þar segir orðrétt:  

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Kæru félagar og vinir ég tel einungis eitt geta bjargað okkur frá því að fjöreggi okkar Skagamanna blæði endanlega út en það er að Alþingi setji lög sem kveði á um byggðarfestu á aflaheimildum og farið verði þannig eftir 1. gr. um stjórn fiskveiða þar sem fram kemur að nytjastofnar eigi að treysta atvinnu og byggð í landinu.

Stöndum saman Skagamenn og verjum atvinnuöryggi okkar fólks með kjafti og klóm ef því er að skipta því atvinnuöryggi eru sjálfsögð mannréttindi.

Takk fyrir!

27
Apr

Aðalfundur félagsins verður haldinn 11. maí

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn fimmtudaginn 11. maí næstkomandi kl. 17:30 í Gamla kaupfélaginu. Meðfylgjandi er auglýsing vegna aðalfundar og eru félagsmenn hvattir til að mæta. 

Rekstur Verkalýðsfélags Akraness hefur gengið vel á undanförnum árum og er félagið gríðarlega sterkt, ekki bara félagslega heldur einnig fjárhagslega. Rekstrarafgangur félagsins á síðasta ári nam rétt tæpum 109 milljónum og er eigið fé félagsins tæpir 1,3 milljarðar króna. Það er stefna félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu í formi hækkunar á styrkjum úr sjúkrasjóði eða aukningu á orlofshúsakostum en þannig hefur það verið í mörg ár. Vegna góðrar afkomu á síðasta ári verður fæðingarstyrkur félagsins hækkaður úr 85.000 kr. í 100.000 kr. og ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá nemur heildarstyrkurinn 200.000 kr. Einnig verður gleraugnastyrkur félagsins hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. 

Allir sjóðir félagsins voru með jákvæða rekstrarniðurstöðu þrátt fyrir að útgjöld úr sjúkrasjóði hafi aukist um 22,5% á milli ára en það endurspeglast meðal annars í því að félagið lætur félagsmenn njóta góðrar afkomu eins og áður sagði.  

Það er gríðarlega mikilvægt að stéttarfélög séu fjárhagslega sterk enda kom það bersýnilega í ljós í verkfalli sem sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness átti aðild að en í því verkfalli greiddi félagið yfir 30 milljónir í verkfallsstyrki til þeirra sjómanna sem tilheyrðu því. Svo ekki sé talað um fjárhagslega getu félagsins til að fara með mál fyrir dómstóla en í dag er félagið með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem verið er að sækja og verja réttindi félagsmanna. Á þessum forsendum meðal annars skiptir miklu máli að vera með fjárhagslegan styrk til að takast á við slík krefjandi verkefni. 

Verkalýðsfélag Akraness er mjög ánægt með hvernig til hefur tekist á undanförnum árum við að byggja félagið upp og gera það að því afli sem það er í dag.

27
Apr

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, ræðumaður á Akranesi 1. maí

Baráttudagur verkalýðsins er eins og allir vita á mánudaginn næstkomandi þann 1. maí og mun Verkalýðsfélag Akraness ásamt stéttarfélögum á svæðinu standa fyrir hefðbundinni dagskrá. Að venju verður safnast saman við Kirkjubraut 40 kl. 14 og gengin kröfuganga sem er hringur í kringum neðri Skagann. Gengið verður við kröftugan undirleik Skólahljómsveitar Akraness og að göngu lokinni verður baráttudagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3. hæð Kirkjubrautar 40. 

Ræðumaður dagsins er enginn annar en Ólafur Arnarson, hagfræðingur og formaður Neytendasamtakanna. Eins og flestir vita þá er Ólafur kröftugur baráttumaður fyrir bættum hag heimilanna, neytenda og íslensks launafólks. Hann er einnig einn harðasti baráttumaður fyrir því að tekið verði á okurvöxtum fjármálakerfisins og að verðtrygging verði afnumin.  

Verkalýðsfélag Akraness hvetur alla til að taka þátt í þessum mikilvæga degi því að baráttunni fyrir bættum kjörum íslensks launafólks lýkur aldrei en því miður eru allt of margir sem taka laun sem eru langt undir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og því mikilvægt að fólk standi saman í því að leiðrétta og bæta kjör íslensks launafólks. Félagið hvetur alla til að taka þátt í þessum mikilvæga degi.  

26
Apr

Formaður félagsins hélt erindi fyrir Kiwanisklúbbinn á Akranesi

Það gerist nokkuð oft að óskað er eftir því að formaður Verkalýðsfélags Akraness haldi erindi hjá hinum ýmsu félagasamtökum og nánast undantekningalaust verður formaður við þeirri beiðni en hann hefur haldið erindi víða í gegnum árin þar sem málefni verkalýðshreyfingarinnar og hagsmunir launafólks eru til umfjöllunar. 

Síðastliðinn mánudag hélt formaður eitt slíkt erindi en meðlimir í Kiwanisklúbbnum á Akranesi óskuðu eftir að formaður héldi erindi um verkalýðshreyfinguna og baráttumál verkafólks og að sjálfsögðu varð formaður við því erindi. Formaður fjallaði um ýmislegt í þessu erindi, meðal annars um starfsemi Verkalýðsfélags Akraness og mikilvægi stéttarfélaga á Íslandi. Nefndi hann sem dæmi að frá því að ný stjórn tók við VLFA þann 19. nóvember 2003 þá hefur félagið innheimt vegna ýmissa kjarasamningsbrota fyrir sína félagsmenn yfir 400 milljónir króna. 

Hann ræddi einnig um vexti og verðtryggingu og upplýsti í erindi sínu að það hefur verið mikið baráttumál VLFA að tekið sé hér á okurvöxtum fjármálakerfisins og verðtryggingu. Einnig fjallaði hann um lífeyrissjóðskerfið og nefndi sérstaklega í því samhengi að kerfið sé farið að vinna gegn hagsmunum launafólks í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir eiga orðið stóra hluti í mörgum fyrirtækjum á Íslandi þar sem sjóðirnir æpa á góða arðsemi sem bitnar á sjóðsfélögunum sjálfum í formi hærra vöruverðs og að kaupgjaldi er haldið niðri. 

Það er alltaf ánægjulegt að halda slík erindi og kynna starfsemi félagsins og kom fram í máli formanns að Verkalýðsfélag Akraness er gríðarlega sterkt bæði félagslega og fjárhagslega og hefur látið til sín taka í mörgum málum er lúta að hagsmunum launafólks á Íslandi og oft á tíðum langt umfram stærð félagsins.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image