• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

25
Jan

Páskar 2018

Nú er opið fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins í páskavikunni. Um er að ræða vikuleigu frá 28. mars til 4.apríl.

Þar sem alltaf er mikil ásókn í dvöl í orlofshúsum þessa viku er sá háttur hafður á að þeir sem hafa áhuga leggja inn umsókn í pott. Einn pottur er fyrir hvert hús, og hægt er að sækja um á ákveðnum stöðum eða þeim öllum. Dregið er úr pottunum af handahófi, punktastaða skiptir ekki máli og ekki eru dregnir af punktar við úthlutun. Hringt er í þann sem dreginn er út og geti hann ekki nýtt sér vikuna, er dregið aftur. Greiða þarf leigu strax.

Tekið er á móti umsóknum á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 og í síma 4309900. Einnig er hægt að senda nafn, kennitölu og símanúmer á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. til og með 28. febrúar 2018 en dregið verður þann 1. mars 2018.

 

25
Jan

Laun starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga hækka um 5,51%

Verkalýðsfélag Akraness gekk frá góðum kjarasamningi fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga í fyrra og núna liggur fyrir hverjar launabreytingar fyrir þetta ár verða en þær gilda frá 1. janúar 2018.

Starfsmenn hækka í launum um 5,51% auk þess sem þeir fá eingreiðslu sem nemur 120 þúsundum vegna breytinga á launatímabili

Laun byrjanda sem starfar sem ofngæslumaður á þrískiptum vöktum munu hækka um 30 þúsund með öllu og ofngæslumaður með 10 ára starfsreynslu um rúmar 35 þúsund krónur á mánuði.

Heildarlaun byrjanda sem starfar sem ofngæslumaður hjá Elkem verða frá og með 1. janúar 2018 rétt rúmar 500 þúsund krónur á mánuði og hjá ofngæslumanni með 10 ára starfsreynslu rétt tæpar 600 þúsund krónur.

Rétt er að vekja athygli á að vinnuskyldan á bakvið þessi laun hjá ofngæslumönnum á þrískiptum vöktum er 146 vinnustundir á mánuði auk 24 skilatíma á ári til námskeiðshalds. Heildarvinnutími á mánuði með skilatímum er því 148 tímar.

Auk þessa munu orlofs-og desemberuppbætur einnig hækka um 5,51% og verða því 213.130 hvor fyrir sig eða 426.260 kr. samtals á ári.

 

24
Jan

Laun starfsmanna Norðuráls hækka frá tæpum 40 þúsundum upp í 45 þúsund á mánuði

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá taka launahækkanir starfsmanna Norðuráls hækkunum launavísitölunnar frá desember til desember ár hvert.

Nú liggur fyrir samkvæmt hækkun á launavísitölunni að laun starfsmanna Norðuráls munu hækka frá og með 1. janúar 2018 um 6,51%

Það þýðir að byrjandi á vöktum í kerskála er að hækka í heildarlaunum með öllu um 40 þúsund krónur á mánuði og starfsmaður með 10 ára starfsreynslu um rúmar 45 þúsund krónur.

Samkvæmt þessu mun byrjandi á vöktum í kerskála vera með í heildarlaun með öllu fyrir 182 vinnustundir rétt tæpar 610 þúsund krónur en starfsmaður með 10 ára starfsreynslu er með rétt rúmar 733 þúsund krónur á mánuði.

Iðnaðarmenn byrjandi á vöktum er að hækka um tæp 50 þúsnd á mánuði og iðnaðarmaður með 10 ára starfsreynslu á vöktum er að hækka um tæp 60 þúsund á mánuði.

Samkvæmt þessu mun iðnaðarmaður sem er byrjandi á vöktum vera með í heildarlaun með öllu fyrir 182 vinnustundir rétt um 780 þúsund krónur á mánuði en iðnaðarmaður með 10 ára starfsreynslu er með rétt tæpar 950 þúsund krónur á mánuði með öllu.

Það verður að segjast alveg eins og er að þessi launavísitölutenging hefur svo sannarlega skilað starfsmönnum Norðuráls góðum launahækkunum en í fyrra hækkuðu laun starfsmanna um 9% og núna um 6,51%

Rétt er að geta þess að orlofs-og desemberuppbætur hækka líka um 6,51% þannig að þær verða 214.923 kr. hvor fyrir sig eða samtals 429.466 kr. á ári.

Nýjar launatöflur munu birtast inni á heimasíðu félagsins á næstu dögum.

 

23
Jan

Starfsmenn GMR fá þrjár milljónir vegna uppsagnarfrests

Eins og ætíð þegar fyrirtæki verða gjaldþrota þá kemur það í hlut stéttarfélaganna að verja áunnin réttindi sinna félagsmanna. 

Þessi réttindi lúta yfirleitt að því að tryggja að starfsmenn fái öll þau vangreiddu laun sem þeir eiga inni og þann uppsagnarfrest sem þeir hafa áunnið sér samkvæmt gildandi kjarasamningum.

Í þessari viku náði félagið að ganga frá greiðslu frá Ábyrgðarsjóði launa á uppsagnarfresti til handa starfsmönnum sem störfuðu hjá GMR Endurvinnslufyrirtækinu á Grundartanga en fyrirtækið varð gjaldþrota 1. febrúar 2017. Heildargreiðslan til þeirra starfsmanna sem áttu rétt á launum í uppsagnarfrestinum nam rétt tæpum 3 milljónum og hefur þeim greiðslum nú verið komið til starfsmanna.

Hinsvegar er rétt að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert athugasemdir við útreikning frá skiptastjóra á uppsagnarfresti starfsmanna vegna þess að skiptastjóri tók ekki tillit til þess að starfsmönnum var sagt upp störfum 25. janúar 2017 og því vantaði fjóra daga upp á kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest að mati VLFA . Það er því mat félagsins að það vanti um eina milljón til að uppfylla greiðslur vegna uppsagnarfrests til starfsmanna.

Það er ljóst að mati VLFA að skiptastjóri túlkar uppsagnarfrest í kjarasamningum kolrangt enda miðast uppsagnarfrestur ætíð við mánaðarmót og því áttu starfsmenn GMR rétt til launa frá 25. janúar og uppsagnarfresturinn byrjaði síðan að telja frá mánaðarmótum.

VLFA hefur falið lögfræðingi félagsins að gera kröfu á Ábyrgðarsjóð launa hvað varðar þessa daga sem upp á vantar og málið er nú komið í lögfræðilega meðferð.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir launafólk að geta leitað til stéttarfélaga sinna í málum sem þessum til að tryggja að öllum réttindum sé til haga haldið þegar fyrirtæki verða gjaldþrota.

 

22
Jan

Dómsuppkvaðning í málum vegna Skagans hf.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness fyrirtækinu Skaganum hf. fyrir hönd tveggja félagsmanna sinna eftir að ágreiningur kom upp vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti og greiðslu fyrir skerðingar á hvíldartíma. Félagið reyndi ítrekað að ná sátt við fyrirtækið í þessum ágreiningi en án árangurs og því var félagið nauðbeygt að stefna fyrirtækinu og fá niðurstöðu fyrir dómstólum.

Síðastliðinn föstudag var dómsuppkvaðning í Héraðsdómi Reykjavíkur og vann Verkalýðsfélag Akraness annað málið en fyrirtækið var sýknað í hinu málinu.

Málið sem félagið vann laut að því að starfsmanni Skagans var sagt upp störfum og átti starfsmaðurinn ekki að fá greiddan uppsagnarfrest. Ástæða þess að fyrirtækið ætlaði ekki að greiða uppsagnarfrestinn var atvik sem átti sér stað í frítíma starfsmannsins.

Dómurinn var sammála þeim rökum Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli um að fyrirtækinu kæmi ekki við það sem starfsmenn gera í sínum frítíma, en orðrétt segir m.a. í dómnum: „Ekki verður fallist á að umrætt atvik hafi réttlætt fyrirvaralausa uppsögn án greiðslu í uppsagnarfresti“.

Um erlendan starfsmanna var að ræða og vék dómari einnig að því í niðurstöðu dómsins að útskýra þurfi með afgerandi hætti hvað stendur í uppsagnarbréfi þannig það sé yfir allan vafa hafið að erlendir starfsmenn viti hvað þeir eru að skrifa undir, en um þetta segir í niðurstöðu dómsins: „Þó að stefnandi skilji að einhverju leyti íslensku og tali ensku verður ekki fallist á að með undirskrift hans á uppsögnina hafi falist að hann samþykki að fallast á að afsala sér launagreiðslum í uppsagnarfresti þó að hann hafi staðfest að hafa skilið að verið væri að segja sér upp en móðurmál hans er pólska, enda leitaði hann til Verkalýðsfélagsins til þess að fá upplýsingar um hvað fælist í uppsögninni“.

Skaginn var dæmdur til að greiða starfsmanninum tæpar 400 þúsund í uppsagnarfrest og 400 þúsund í málskostnað.

Hitt málið laut að starfsmanni sem átti að mati Verkalýðsfélags Akraness inni umtalsverðan rétt vegna skerðingar á hvíldartímum, en stór hluti af skerðingunni var vegna vinnu sem hann innti að hendi þegar verið var að setja nýjan búnað um borð í Málmey Sk 1.

Það er skemmst frá því að segja að Skaginn var sýknaður af þessari kröfu en Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar ákveðið í samráði við umræddan starfsmann að áfrýja þeim dómi til Landsréttar enda telur félagið niðurstöðu þess dóms kolrangan. Málið laut að því að starfsmanninum var falið að fara í sjóferð með Málmey SK 1 en verið var að setja nýja vinnslubúnað um borð, þann fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Vinnslubúnaðurinn byggir á Sub-chilling tækni þeirri er Skaginn 3X hefur þróað undanfarin misseri. Sub-chilling tæknin gerir m.a. notkun íss við geymslu fersks fisks óþarfa með tilheyrandi lækkun kostnaðar við veiðar og vinnslu.

Þessi vinnuferð kallaði á gríðarlega mikla vinnu þar sem vinnudagarnir voru langir og til mikillar skerðingar kom á hvíldartímum. Fyrirtækið hélt því fram að búið væri að greiða hvíldartímana en ekkert í málsgögnum studdi við þann málflutning forsvarsmanna fyrirtækisins.

Dómur tók vitnisburð forsvarsmanna Skagans trúanlegan en dómaranum fannst í ýmsum atriðum framburður starfsmannsins ekki trúverðugur þrátt fyrir að málflutningur forsvarsmanna Skagans hefi alls ekki verið byggður á neinum haldbærum gögnum.

Dómurinn er svo rangur að okkar mati að það nær ekki nokkurri átt enda héldu forsvarsmenn fyrirtækisins því fram að starfsmaðurinn hefði skrifað 186 tímum meira en hann vann og án þess að þeir hafi gert neinar athugsemdir við tímaskráninguna á sínum tíma. Þeir héldu því fram að starfsmaðurinn hefði „sennilega“ skrifað þessa umfram tíma vegna þess að hann hefði verið að rukka hvíldartímana. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness átti í ítarlegum samskiptum við forsvarmenn fyrirtækisins áður en málið fór fyrir dóm með von um að hægt yrði að leysa málið og aldrei var vikið að því að starfsmaðurinn hafi skrifað fleiri tíma en hann vann. Öll þessi samskipti eru til og voru lögð fram fyrir dóminn.

Málatilbúnaður forsvarsmanna fyrirtækisins var afar ótrúverðugur svo ekki sé fastar að orði kveðið, en fyrirtækið hélt því fram í aðalmeðferðinni að launakerfi fyrirtækisins væri ekki nægilega gott þannig að það gat ekki reiknað launin nema með ákveðnum fjölda tíma á sólarhring og því hefði launadeildin þurft að „blöffa“ launakerfið og færa umfram tíma yfir á aðra daga.

Hugsið ykkur fyrirtæki eins og Skaginn3X sem hefur fengið margvísleg verðlaun fyrir að hanna háþróaðan tæknibúnað um borð í íslensk skip sem og hátæknibúnað sem seldur er erlendis segist vera með svo vanþróað launakerfi að það geti ekki tekið við öllum tímum sem starfsmenn inna af hendi fyrir fyrirtækið og þurfi að blöffa kerfið til að láta það ganga upp. Þetta er alls ekki trúverðugt hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins enda sýnist formanni að það eina sem forsvarsmenn hafi náð að blöffa var dómarann í málinu!

Dómurinn kemur reyndar inná þetta með launakerfið og einnig inn á að ráðningarsamningar sem gerðir voru við starfsmanninn hafi verið ólöglegir. Þrátt fyrir það kemst dómurinn að þessari niðurstöðu að sýkna beri fyrirtækið og starfsmaðurinn hafi verið ótrúverðugur. En vegna þess að launakerfið var ekki að uppfylla lágmarksskyldur og ráðningarsamningurinn stóðst ekki grundvallarréttindi kjarasamninga var málskostnaður felldur niður.

Eins og áður sagði þá munum við klárlega áfrýja þessari niðurstöðu til Landsdóms og er lögmaður félagsins nú þegar byrjaður að undirbúa þá áfrýjun.

05
Jan

Yfir 40% félagsmanna nýttu sér styrki úr sjúkrasjóði félagsins

Á árinu 2017 greiddi sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness rétt tæpar 70 milljónir út í formi styrkja og sjúkradagpeninga. En það voru 1.245 félagsmenn sem nýttu sér þjónustu sjúkrasjóðs félagsins eða sem nemur rúmum 40% félagsmanna.

Verkalýðsfélag Akraness greiddi líka út námsstyrki til 343 félagsmanna eða 10% af félagsmönnum úr starfsmenntasjóði sem félagið er aðili að og nam sú upphæð 18,7 milljónum. 

Félagsmenn VLFA geta sótt um margvíslega styrki úr sjúkrasjóði félagsins en þessir styrkir eru fyrir utan sjúkradagpeninga sem koma þegar veikindarétti hjá atvinnurekenda er lokið má helst nefna eftirfarandi styrki:

·         Fæðingarstyrkur

·         Heilsuefling – líkamsrækt

·         Gleraugnastyrkur

·         Sálfræðiþjónusta

·         Styrkur vegna heilsufarsskoðunar

·         Dánarbætur

·         Heyrnatækjastyrkur

·         Göngugreining

Þetta eru þeir styrkir sem félagsmenn nýta hvað helst úr sjúkrasjóði félagsins en af þessum 70 milljónum sem greiddar voru út þá námu sjúkradagpeningar vegna veikinda 35 milljónum og þar á eftir kom greiðsla vegna fæðingarstyrkja upp á tæpar 8 milljónir. Heilsufarsstyrkurinn var einnig vel nýttur en um 430 félagsmenn nýttu sér þennan styrk. Meðal þess sem félagsmenn geta nýtt þann styrk í er kostnaður vegna tannlækninga en greiðsla vegna þessa styrks nam tæpum 7 milljónum. 296 félagsmenn nýttu sér heilsueflingarstyrkinn og voru greiddar rúmar 5 milljónir vegna heilsueflingar félagsmanna.

Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá hversu vel félagsmenn nýta sér styrki sem félagið býður upp á enda voru eins og áður sagði yfir 40% félagsmenn sem nýttu sér þessa þjónustu félagsins.

Að lokum er rétt að geta þess að verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness greiddi uppundir 40 milljónir úr sjóðnum vegna verkfalls sjómanna við útgerðarmenn á síðasta ári. En verkfall sjómanna var lengsta verkfall í 37 ára sögu ríkissáttasemjara en verkfallið stóð yfir í 10 vikur.

Við sem stjórnum Verkalýðsfélagi Akraness erum nokkuð stolt af þeirri þjónustu sem félagið býður sínum félagsmönnum upp á en alltaf má gera betur og félagið bætir nánast alltaf einhverjum réttindum úr sjóðum félagsins við á hverju ári.

02
Jan

Jólatrúnaðarráðsfundur VLFA

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hélt sinn árlega jólatrúnaðarráðsfund milli jóla og nýárs en á þeim fundi fer formaður yfir starfsemi félagsins á árinu sem er að líða.

Það er óhætt að segja að það sé ekki lognmolla í kringum starfsemi félagsins og fór formaður t.d. yfir það að á árinu þurfti félagið að innheimta fyrir félagsmenn vegna kjarasamningsbrota rétt tæpar 48 milljónir. Stærsta einstaka málið nam 30 milljónum en það var vegna ágreinings um túlkun á útreikningi á orlofs-og desemberuppbótum til handa sumarstarfsmönnum í Norðuráli. En það mál fór fyrir Félagsdóm sem staðfesti allar kröfur félagsins.

Það kom líka fram í erindi formanns að félagið hefur innheimt vegna réttinda- og kjarasamningsbrota yfir 530 milljónir frá því ný stjórn tók við félaginu árið 2004.

Formaður fór líka yfir kjarasamninga sem félagið kom að á árinu 2017 og bar þar hæst kjarasamningsdeilu sjómanna við útgerðamenn en sú deila endaði með 10 vikna löngu verkfalli sem er lengsta verkfall í 37 ára sögu ríkissáttasemjara en því lauk með undirritun kjarasamnings 19. febrúar 2017.

Einnig gerði hann grein fyrir kjarasamningum sem gerðir voru við Elkem Ísland og Klafa á Grundartanga en það voru mjög góðir kjarasamningar þar sem laun starfsmanna hækkuðu umtalsvert og einnig náðist að launavísitölutengja báða þá samninga með sama hætti og gert var hjá Norðuráli árið 2015. Einnig var samið um að koma á fót svokölluðum Elkem-skóla sem mun tryggja starfsmönnum 10% launahækkun að loknu fullu námi í bæði grunn- og framhaldsnámi. Einnig fór formaður yfir kjarasamninginn sem gerður var fyrir starfsmenn síldarbræðslunnar en hann skilaði um 10% upphafshækkun.

Formaður fór einnig yfir þau dapurlegu tíðindi þegar HB Grandi tilkynnti að fyrirtækið hefði ákveðið að hætta allri landvinnslu á bolfiski á Akranesi en við þá ákvörðun töpuðust um 100 störf. Það kom fram í máli formanns að það væri sorglegt að fyrirtæki sem hefði verið stofnað 1904 og hefði lifað af tvær heimsstyrjaldir skuli hafa dáið vegna fyrirkomulags á stjórnun fiskveiða þar sem útgerðamenn geta tekið einhliða ákvarðanir um að flytja starfsemi eða selja aflaheimildir með þeim afleiðingum að sjómenn, fiskvinnslufólk og byggðarlög verða fyrir miklum skelli fjárhagslega sem andlega.

En það kom líka fram hjá formanni að félagið er gríðarlega sterkt félagslega sem fjárhagslega og veittir sínum félagsmönnum góða og trygga þjónustu á margvíslegan hátt.   

22
Dec

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar öllum félagsmönnum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 

19
Dec

VLFA hefur innheimt 48 milljónir fyrir félagsmenn vegna kjarasamningsbrota á árinu sem senn er á enda

Á árinu sem nú er senn á enda hefur Verkalýðsfélag Akraness náð að leiðrétta og verja réttindi sinna félagsmanna um sem nemur rætt tæpum 48 milljónum króna.

Allt eru þetta mál þar sem félagsmenn hafa komið og óskað eftir liðsinni félagsins við ná fram rétti sínum eftir að atvinnurekendur hafa hafnað greiðsluskyldu vegna hinna ýmsu mála. Sum þessara mála hefur tekist að leysa með samtölum við atvinnurekendur en sum hafa þurft að fara í lögfræðilegar innheimtur og nokkur fyrir dómstóla.

Stærsta einstaka leiðréttingin vannst fyrir félagsdómi en hún nam 30 milljónum og dreifðist á þá sem höfðu starfað í sumarafleysingum hjá Norðuráli á síðustu 4 árum. En málið laut að ágreiningi vegna túlkunar á útreikningi á orlofs-og desemberuppbótum og einnig á ávinnslu á starfsaldurhækkunum hjá Norðuráli.

Þessar leiðréttingar og hagsmunagæsla sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess fyrir félagsmenn að vera aðilar að öflugum stéttarfélögum sem eru tilbúin að vaða eld og brennistein til að verja réttindi sinna félagsmanna.

Frá árinu 2004 til dagsins í dag hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt og leiðrétt kjarasamningsbrot fyrir sína félagsmenn um sem nemur tæpum 540 milljónum króna!

Í dag er félagið með 7 mál fyrir dómstólum, 6 mál fyrir Héraðsdómi og eitt fyrir Hæstarétti en það mál vann félagið fyrir Héraðsdómi Vesturlands fyrr í sumar en atvinnurekandinn áfrýjaði því máli til Hæstaréttar.

Formanni er það algerlega til efs að nokkurt stéttarfélag sé með jafn mörg mál fyrir dómstólum eins og Verkalýðsfélag Akraness, allavega ekki miðað við stærð.

18
Dec

Helgi í Góu í heimsókn á skrifstofu VLFA

Í síðustu viku fékk formaður VLFA afar góða heimsókn á skrifstofu félagsins en þar kom baráttumaður fyrir bættum kjörum eldri borgara, enginn annar en Helgi í Góu. Óskaði hann eftir að hitta formanninn til að fara yfir þau baráttumál sem hann hefur verið að benda á árum og áratugum saman en þau lúta að því að lífeyrissjóðirnir taki virkan þátt í því að búa hér til hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara.

Helgi lagði fram teikningar og ýmsar hugmyndir hvað það varðar en það er skemmst frá því að segja að þessi baráttumál Helga samrýmast algjörlega hugsunum stjórnar Verkalýðsfélags Akraness sem hefur meðal annars bent á að lífeyrissjóðirnir eigi að taka þátt í að byggja upp lítt hagnaðardrifin leigufélög til hagsbóta og útleigu fyrir hinn almenna sjóðsfélaga. Þetta var virkilega góður fundur og góð heimsókn og mun formaður reyna að koma þessum áherslum Helga í Góu á framfæri þar sem það á við.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image