• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jul

Starfsmenn Hvals hf. geta valið á milli Verkalýðsfélags Akraness og Stéttarfélags Vesturlands

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá meinaði Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðfélagi Akraness á yfirstandandi hvalvertíð.

Ástæða fyrir því að forsvarsmenn Hvals hf. meinuðu starfsmönnum um að vera í VLFA liggur fyrir að mati formanns VLFA en það liggur í því að félagið stefndi Hval hf. vegna brota á kjörum starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningi sem og vegna brota á greinum í gildandi kjarasamningi.

En eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness þetta mál bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti og þurfti Hvalur hf. að greiða starfsmanni um 700 þúsund krónur með dráttarvöxtum. En rétt er að geta þess að fordæmisgildi dómsins er gríðarlegt enda allir ráðningarsamningar starfsmanna nákvæmlega eins og því mun þessi dómur getað kostað Hval hf. allt að 300 milljónir.

Til að reyna að ná sér niður á Verkalýðsfélagi Akraness þá vildi Hvalur hf. meina öllum starfsmönnum að vera í VLFA og tjáðu forsvarsmenn Hvals hf. starfsmönnum að þeir yrðu að vera í Stéttarfélagi Vesturlands. Rétt er að vekja athygli á því enn og aftur að Hvalstöðin í Hvalfirði er að félagssvæði beggja stéttarfélaganna þ.e.a.s VLFA og Stéttarfélags Vesturlands, einnig eru bæði stéttarfélögin með gildandi kjarasamning um þau störf sem innt eru að hendi í Hvalstöðinni.

Rök Hvals hf. fyrir því að starfsmenn mættu ekki vera í VLFA var sú að fyrirtækið reyndi að telja starfsmönnum í trú um að í gildi væri kjarasamningur frá árinu 1977 þar sem kveðið væri á um að forgangur að störfum í Hvalstöðinni tilheyrði Verkalýðsfélaginu Herði sem sameinaðist Stéttarfélagi Vesturlands árið 2006.

Að sjálfsögðu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness þessu harðlega, enda ekkert annað en dulbúnar hefndaraðgerðir vegna þess að VLFA stóð sína vakt við að verja réttindi sinna félagsmanna með því að höfða dómsmál vegna vangoldina launa eins og áður sagði sem vannst fyrir Hæstarétti.

Þessu grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals hf. mætti Verkalýðfélag Akraness af fullri hörku og stefndi Hval hf. fyrir félagsdóm en málið verður tekið þar fyrir í ágúst. En núna berast fréttir af því að forsvarsmenn Hvals hf. séu að bakka í þessu máli vegna þess að VLFA lætur ekki vaða yfir sig þegar kemur að réttindum sinna félagsmanna.

En samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur fengið frá starfsmönnum þá eiga starfsmenn núna að skrifa á blað sem forsvarsmenn Hvals hf. hafa dreift, í hvoru stéttarfélaginu starfsmenn vilja vera. En rétt er að geta þess að yfir 50 starfsmenn Hvals hf.  höfðu undirritað beiðni sem VLFA útbjó fyrir þá, þar sem þeir óskuðu eftir að vera í Verkalýðsfélagi Akraness.

Formaður hefur t.d. fundað með starfsmönnum vegna þessa máls og það var gríðarlega ánægjulegt að verða vitni að þeirri miklu samstöðu starfsmanna í þessu máli enda neituðu þeir að skrifa undir ráðningarsamninga þar sem kveðið var á um að þeim væri hafnað að greiða til VLFA.

Það lítur allt út fyrir að núna muni starfsmenn geti valið á milli VLFA og Stéttarfélags Vesturlands og því ljóst að festa starfsmanna og Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli hefur sett þetta mál í þennan farveg sem nú virðist liggja fyrir. Það er mikilvægt fyrir atvinnurekendur að átta sig á því að VLFA lætur ekki vaða yfir sig og félagið vílar ekki fyrir sér að mæta slíku ofbeldi atvinnurekenda að fullri hörku

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image