• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jul

VLFA mun stefna Norðuráli fyrir Félagsdóm

Í gær fundaði formaður með framkvæmdastjóra og mannauðsstjóra Norðuráls þar sem farið var yfir hin ýmsu mál. Þau kynntu fyrir formanni átak fyrirtækisins í öryggismálum sem ber heitið „Öll saman“ en það gengur út á að gera vinnustaðinn eins öruggan og kostur er og að allir komi ætíð heilir heim.

Einnig fóru þau yfir hugsanlega stækkun á Steypuskálanum en það er framkvæmd sem mun kosta allt að 12 milljarða króna en ef af stækkuninni verður þá mun hún taka allt að tvö ár í framkvæmd. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir enda mun stækkun á Steypuskálanum leiða til fjölgunar á starfsmönnum og getur sú fjölgun numið allt að 30 til 40 starfsmönnum.

Formaður tók einnig upp mál á fundinum sem lýtur að ágreiningi sem félagið hefur átt við forsvarsmenn fyrirtækisins um túlkun á grein 2.13.5 í kjarasamningi félagsins við Norðurál en þetta er grein sem lýtur að svokölluðum vikulegum frídegi eða með öðrum orðum að ef starfsmenn vinna samfellt í 7 daga þá eigi þeir rétt frítöku sem nemur 8 tímum á dagvinnulaunum.

Um þetta mál hefur verið ágreiningur en fyrirtækið telur að þessi grein kveði ekki á um skyldu fyrirtækisins til greiðslu með þeim hætti sem VLFA telur að eigi að vera ef menn vinna meira en 7 daga samfellt.

Formaður fór yfir með framkvæmdastjóra og mannauðstjóra Norðuráls að nýlega hafi VLFA unnið svona mál fyrir Hæstarétti þar sem viðurkennt væri að ef starfsmenn vinna meira en 7 daga samfellt og starfsmenn fá ekki vikulegan frídag þá beri að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir það.

En stjórnendur og lögmenn Norðuráls telja hins vegar að grein í samningi Norðuráls sé ekki eins og í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði og því eigi þessi dómur ekki við hvað starfsmenn Norðuráls varðar. Þessu er Verkalýðsfélag Akraness algerlega ósammála og því var það niðurstaðan að VLFA og Norðurál eru sammála um að vera ósammála um túlkun á þessari grein og fá dómstóla til að skera úr um hvort VLFA eða Norðurál hafi rétt fyrir sér í þessu máli.

Því mun VLFA stefna Norðuráli fyrir félagsdóm vegna þessa ágreinings í haust til að fá niðurstöðu í málið og er það gert í fullri sátt við forsvarsmenn Norðuráls enda eru dómstólar til þess að skera úr ágreiningi um túlkun á kjarasamningum ef aðilar koma sér ekki saman um túlkun.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image