• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Aug

Krafan í komandi kjarasamningum verður m.a. róttækar kerfisbreytingar

Það verður nú að segjast alveg eins og er að það er eilítið grátbroslegt að forsætisráðherra Íslands skuli hafa kallað eftir því að Gylfi Zoega gerði skýrslu um þjóðhagslegt umhverfi kjarasamninga á komandi vetri.

Það er eins og við manninn mælt þegar kemur að því að semja fyrir íslenskt verkafólk að þá er svigrúmið til launabreytinga ætíð afar takmarkað, en í skýrslunni sem Gylfi Zoega gerði kemur fram að hann telji að svigrúm til launabreytinga sé 4%. Hefði ekki verið þjóðráð fyrir forsætisráðherrann okkar að kalla eftir skýrslu um hvaða áhrif það myndi hafa á vinnumarkaðinn í heild sinni þegar kjararáð hækkaði æðstu ráðmenn þjóðarinnar og forstjóra ríkisstofnanna um 45% eða þegar forstjóri Landsvirkjunar fékk launahækkun sem nam 1,2 milljónum á mánuði sem og bankastjóri Landsbankans.

Nei, núna eru margir lukkuritarar forréttindahópanna kallaðir fram og þeirra hlutverk er að vara við því að íslenskt láglaunafólk fái ekki meira en sem nemur 4% launahækkun því annars sé "stöðugleikanum" illilega ógnað. Það heyrðist ekkert í lukkuriturum forréttindahópsins þegar margir í efri lögum samfélagsins hækkuðu í mánaðarlaunum sem námu frá 250 þúsundum króna uppí allt að 1,2 milljón á mánuði. Það er einnig grátbroslegt að lukkuritarar forréttindahópsins hafa aldrei neinar áhyggjur að stöðugleikanum sé ógnað þegar efrilög samfélagsins taka sér launahækkanir sem nema hundruðum þúsunda á mánuði.  Það er rétt að geta þess að það liggur fyrir að meðallaun forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni eru 4,7 milljónir eða sem nemur tæplega 18- földum lægsta launataxta verkafólks.

Bara þannig að því sé haldið til haga þá er og verður alls ekki samið um 4% launahækkun til handa íslensku verkafólki sem tekur laun sín eftir launatöxtum en rétt er að geta þess að lægsti launataxti verkafólks nemur rétt rúmum 266 þúsundum á mánuði og hæsti virki launataxti verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði slefar rétt rúmum 300 þúsundum á mánuði. En flestir verkamenn á hinum almenna markaði taka laun eftir launatöxtum sem nema frá 270 til 285 þúsund á mánuði.

Að halda það að samið verði um 4% til handa verkafólki sem tekur laun eftir lágmarkstöxtum er fásinna enda verður það aldrei samþykkt og verkafólk er tilbúið að láta kné fylgja kviði við að hækka launataxta sína þannig að þau dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og það geti haldið mannlegri reisn. Enda er það lýðheilsumál að lagfæra og leiðrétta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er eins og áður sagði lýðheilsumál að lagfæra kjör og auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert og það er hægt að gera það á fleiri vegu en með beinum launahækkunum.

Það var því ömurlegt að sjá einn af lukkuriturum forréttindahópsins skrifa að hann hefði bara haft það "skrambi gott" á lágmarkslaunum, en rétt er að geta þess að hér er um hagfræðing Viðskiptaráðs um að ræða.  Formaður félagins vill rifja það upp í þessu samhengi að hann átti orðið fjögur börn 27 ára og þurfti að framfleyta sér og sinni fjölskyldu á verkamannalaunum hér á árum áður og sá tími var svo sannarlega ekki „skrambi góður“ og það síður en svo enda kom það oft fyrir að mörgum dögum fyrir mánaðarmót að ekki voru til fjármunir fyrir nauðþurftum.  Þessi reynsla formanns hefur svo sannarlega hjálpað honum í því starfi sem hann gegnir í dag því það er mikilvægt að þekkja það af eigin raun að ná ekki endum saman frá mánuði til mánaðar.

Kerfisbreytingar

Verkalýðsfélag Akraness vill kalla eftir róttækum kerfisbreytingum. Kerfisbreytingum þar sem hagsmunir almennings verði t.d. teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins. Það er hægt að gera með því að lækka vexti, afnema verðtryggingu og taka húsnæðisliðinn út út lögum um vexti og verðtryggingu. Það er sorglegt að neytendur séu að greiða allt að 110 þúsund meira í vaxtakostnað á mánuði en í sumum af þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við.

Það verður líka að létta á skattbyrði á lág- og lægri millitekjuhópinn en rétt er að rifja upp að árið 1998 var t.d. ekki greiddur skattur af lágmarkslaunum en í dag þarf verkafólk á lágmarkslaunum að greiða um 52 þúsund krónur á mánuði í skatt. Það er verið að skattleggja fátækt á Íslandi sem er sorglegt.

Það er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á því að uppundir 15 þúsund foreldrar hafa misst barnabæturnar sínar á liðnum árum, vegna þess að skerðingarmörk þeirra eru svo skammarlega lág en barnabætur hjá einstaklingi byrja að skerðast við 241 þúsund krónur sem er gjörsamlega galið. Þessu verður að breyta í komandi kjarasamningum þannig að skerðingarmörk barnabóta fari uppí allt að 350 þúsund hjá einstæðu foreldri eða 700 þúsund hjá sambúðarfólki.

Hins vegar blasir við að stærsta áskorun í komandi kjarasamningum verður að koma böndum á húsnæðismarkaðinn og nægir að nefna í því samhengi sú tryllta græðgisvæðing sem er að eiga sér stað á leigumarkaðnum sem hefur leikið lágtekjufólk gríðarlega illa. Enda liggur t.d. fyrir að leiguverð hefur hækkað um 86% frá árinu 2011 og núna er lágtekjufólki gert skylt að leiga tveggja til þriggja herbergja íbúðir á 200 til 300 þúsund á mánuði.

Það er ekki bara það að vaxtakostnaður og leigukostnaður hér á landi sé mörgum tugum þúsunda hærra en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við í hverjum mánuði heldur liggur einnig fyrir að fjögurra manna fjölskylda þarf að greiða um 80 þúsundum meira í matarinnkaup en neytendur á Norðurlöndum. Það er einnig rétt að geta þess að frá árinu 2010 hefur Orkuveita Reykjavíkur hækkað gjaldskrár sínar á heitu vatni um 80%

Það er morgunljóst að kallað verður eftir róttækum kerfisbreytingum þar sem hagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi og því þarf að kalla eftir róttækum aðgerðum við að draga úr kostnaði neytenda við að lifa í þessu landi.

Það er þyngra en tárum taki að hlusta lukkuritara forréttindahópanna tala um að lágtekjufólk hafi hækkað mest í kaupmætti og dregið hafi úr ójöfnuði og misskiptingu. Það blasir við að allur þessi samanburður byggist á prósentuhagfræði en sú hagfræði stenst ekki nokkra skoðun enda fer lágtekjufólk ekki með prósentur og verslar í matinn né greiðir húsleigu með prósentum.  Það verður því að vera skýr krafa í komandi kjarasamningum að samið verði í krónum en ekki prósentum enda eru prósentur aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka ójöfnuð hér á landi.

Staðreyndin er sú að lægsti taxti launafólks er einungis 266 þúsund á mánuði sem er langt undir öllum framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að tala um að það sé bullandi kaupmáttaraukning hjá þeim tekjulægstu er svo sorglegt rugl að það nær ekki nokkru tali.

Sem dæmi þá hafa lægstu launataxtar verkafólks hækkað um 57% frá 2011 en leiguverð hefur hækkað á sama tíma um 86%. En eins og allir vita þá er það tekjulægsta fólkið sem er að langstærstum hluta sem þarf nauðbeygt að vera á leigumarkaði vegna þess að það á hvorki fyrir útborgun til húsakaupa né stenst greiðslumat hjá fjármálastofnunum.

Það þarf að verða þjóðarsátt um að koma þessu fólki verulega til hjálpar í komandi kjarasamningu en eitt er víst að ekki verður nokkur afsláttur gefin í þeirri baráttu í komandi kjarasamningum.

Það liggur fyrir að ef stjórnvöld munu ekki sýna vilja til að taka þátt í því að ráðast í róttækar kerfisbreytingar íslenskum almenningi og lágtekjufólki til góða þá mun verkalýðshreyfingin þurfa að sækja af alefli á atvinnulífið í komandi kjarasamningum til að rétta hlut lágtekjufólks og millitekjufólks af. Núna er boltinn hjá stjórnvöldum og því hvílir hinn ímyndaði stöðugleiki og friður á vinnumarkaði á herðum stjórnvalda!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image