• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jun

Almenna leigufélagið vill ekki að flutningsgjaldið verði tekið fyrir hjá Kærunefnd húsamála!

Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur Almenna leigufélagið rukkað leigjendur sína um 120.350 króna flutningsgjald fyrir það eitt að óska eftir flutningi á milli íbúða hjá félaginu. Rétt er að geta þess að ekkert er getið til um slíkt flutningsgjald í leigusamningum hjá Almenna leigufélaginu.

Það var félagsmaður Verkalýðsfélags Akraness sem leitaði til félagsins eftir að Almenna leigufélagið stofnaði kröfu í heimabanka viðkomandi félagsmanns eftir að hann hafði fengið að flytja sig á milli íbúða innan sömu blokkar.

Verkalýðsfélag Akraness í samráði við félagsmanninn ákváðu að fela lögmanni VLFA að kæra þetta flutningsgjald til kærunefndar húsamála enda er það mat lögmanns félagsins að þetta gjald standist ekki lagalegar heimildir.

RUV fjallaði um þetta mál 2. maí og þar var vitnað í skriflegt svar frá Maríu Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins, sem sagði að gjaldið sé rukkað vegna þeirrar þjónustu sem félagið veiti leigjendum sínum vilji þeir til dæmis stækka eða minnka við sig á meðan samningstíma þeirra stendur.

Einnig sagði María Björk lögfræðinga leigufélagsins ekki sammála því að flutningsgjaldið standist ekki skoðun. Þvert á móti eigi þau sér fordæmi hér á landi. „Leigufélagið Klettur, sem Íbúðalánasjóður átti og rak á árunum 2014-2016 innheimti sambærilegt gjald. Fjárhæð þess var jöfn einum auka leigumánuði fyrir þá íbúð sem flutt var úr. Við ákváðum að hafa þetta fast gjald kr. 120.000 til þess að halda kostnaði fyrir leigjendur í lágmarki.“

Enn fremur sagði María Björk að kærunefnd húsamála verði að vísa kærunni frá þar sem gjaldið falli ekki undir lög um húsaleigu. „Þessi þjónusta fellur ekki undir húsaleigulög og því teljum við kærunefndina ekki geta fjallað um það. Þetta er ekki atriði sem snertir leigusamninginn heldur er þetta þjónusta sem félagið býður viðskiptavinum sínum upp á. Þeir hafa svo fullt val um hvort þeir nýta sér hana eða ekki.“

Á þessum svörum frá framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins þá telur félagið sig hafa fulla heimild til að rukka þetta flutningsgjald og vísar í fordæmi hvað það varðar.

Það magnaða í þessu máli er að eftir að lögmaður Verkalýðsfélags Akraness kærði þetta mál til kærunefndar húsmála þá felldi Almenna leigufélagið flutningsgjaldið niður hjá umræddum félagsmanni og bað hann afsökunar eins og kemur fram í málsgögnum og ekki bara það heldur bauð honum helmingsafslátt á leiguverði í einn mánuð.

Það er greinilegt að Almenna leigufélagið vill alls ekki að málið verði tekið fyrir af hálfu kærunefndar húsmála en félagsmaðurinn þáði að gjaldið yrði fellt niður en neitaði að draga málið til baka frá kærunefnd húsamála enda afar brýnt að fá niðurstöðu um hvort þetta gjald sem ugglaust fjöldi leigjenda hefur þurft að greiða standist lagalegar heimildir.

Málið er núna í meðferð hjá kærunefnd húsamála til úrskurðar en ljóst er að Almenna leigufélagið hræðist málið og reynir allt til að fá því vísað frá.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image