• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Feb

Formenn VR og VLFA funduðu með Sólveigu Önnu, formannsefni Eflingar

Í dag áttu formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR afar góðan og ánægjulegan þriggja tíma fund með Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem býður sig fram sem formannsefni í kjöri til stjórnar í stéttarfélaginu Eflingu sem er stærsta stéttarfélagið innan Starfsgreinasambands Íslands.

Umræðan á fundinum snerist um mörg hagsmunamál alþýðunnar eins og mikilvægi þess að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Einnig var rætt um mikilvægi þess að verkalýðshreyfingin láti til sín taka hvað varðar hið tryllta umhverfi sem nú ríkir á húsnæðis-og leigumarkaðnum sem og það okurvaxta- og verðtryggingar umhverfi sem íslenskur almenningur þarf að búa við. Einnig var rætt um lífeyrissjóðskerfið en það er ljóst að verkalýðshreyfingin getur látið margt jákvætt til sín taka hvað það varðar eins og til dæmis að beita sér fyrir aukinni lýðræðisvæðingu innan sjóðanna sem og að fá lífeyrissjóðina til að taka þátt í fjármögnun á lítt hagnaðardrifnum leigufélögum.

Eins og áður sagði var þetta virkilega ánægjulegur fundur enda virðist vera ótrúlegur samhljómur í áherslum í framboði Sólveigar í mjög mörgum hagsmunamálum er lúta að hagsmunum launafólks og formanna VR og Verkalýðsfélags Akraness.

Formaður VLFA skynjaði gríðarlegan kraft, vilja og þor hjá Sólveigu Önnu til að láta virkilega gott af sér leiða nái hún kjöri sem formaður Eflingar og er formaður ekki í neinum vafa um að nái framboð hennar kjöri mun það hafa gríðarlega jákvæð áhrif á íslenska verkalýðshreyfingu.

Það mun svo sannarlega geta skipt sköpum fyrir þær hugsjónir og þau baráttumál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið fyrir á liðnum árum ef ný forysta með þann nýja kraft sem þau hafa boðað verður að veruleika innan Eflingar.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í íslenskri verkalýðsbaráttu þegar og ef Efling verður komin með nýja forystu eins og VR, forystu sem tekur undir með Verkalýðsfélagi Akraness að hafna þessari brauðmolahagfræði sem æðsta forysta ASÍ hefur reynt að innleiða undir forystu forseta ASÍ.

Það er morgunljóst í huga formanns VLFA að það verður að skipta um skipstjóra í brúnni á ASÍ skútunni því skipstjóri sem fiskar ekkert og nýtur ekki trausts áhafnar, er með allt í skrúfunni með þeim afleiðingum að skútan rekur nánast stjórnlaus upp í brimgarðinn, verður að víkja.

Með breytingu á forystu Eflingar í takt við breytingarnar hjá VR ásamt nokkrum stéttarfélögum á landsbyggðinni sem eru mótfallin brauðmolakenningunni mun skapast gríðarlegt tækifæri til sóknar þar sem brauðmolakenningunni verður sturtað niður!  Teknar verða upp nýjar og kröftugar baráttuaðferðir við að lagfæra lágmarkskjör, skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks ásamt því að berjast gegn græðgivæðingu á húsnæðis-og leigumarkaði sem og okurvöxtum og afnámi verðtryggingar.

Já mitt mat er að það eru virkilega bjartir tímar fyrir alþýðu þessa lands ef framboð Sólveigar nær kjöri enda er það mat formanns VLFA að ef hún nær kjöri þá muni hún jafnvel eftir að leiða íslenska verkalýðsbaráttu á komandi árum. Það er ljóst að ef þessi félög sem hafa sömu hugsjónir og áherslur taka höndum saman þá munu umtalsverðar jákvæðar breytingar eiga sér stað í íslenskri verkalýðsbaráttu og já þá kemur vor í verkó!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image