• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Formenn VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness funda í dag Nýkjörinn formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir
09
Mar

Formenn VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness funda í dag

Það má klárlega halda því fram að straumhvörf hafi orðið í íslenskri verkalýðsbaráttu þegar kom í ljós að B-listi undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur hafi borið sannfærandi sigur í stjórnarkjöri í stéttarfélaginu Eflingu. En sigur Sólveigar var gríðarlega stór þar sem hennar listi fékk 80,17% greiddra atkvæða og því liggur algerlega fyrir að umboð hennar getur vart verið skýrara.

Um leið og það lá fyrir að B-listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur ætlaði að bjóða fram til stjórnarkjörs í Eflingu og það lá fyrir að áherslur B-listans samræmdust algjörlega áherslum Verkalýðsfélags Akraness ákvað formaður að styðja B-listafólk opinberlega enda mikilvægt að fólk sem hefði sömu sýn og við í VLFA næði kjöri þar. Það var ekki bara að formaður lýsti opinberlega yfir stuðningi við Sólveigu Önnu og hennar fólk heldur fór formaður einnig með henni á þrjá vinnustaði til að fara yfir þá miklu baráttu sem þarf til að ná árangri við að lagfæra kjör íslensks verkafólks.  

Það má segja að við sem höfum stjórnað Verkalýðsfélagi Akraness frá árinu 2004 höfum beðið eftir þessum degi lengi enda liggur fyrir núna að nýr meirihluti hafi náð yfirhöndinni innan ASÍ.  Meirihluti þar sem formenn þeirra stéttarfélaga hafa sömu sýn, áherslur og stefnur þegar kemur að því að lagfæra kjör lágtekjufólks og kröfur á hendur stjórnvöldum. Þessi meirihluti samanstendur af VR, Eflingu, Framsýn og Verkalýðsfélagi Akraness en þessi fjögur stéttarfélög hafa 53% vægi innan ASÍ. Þessu til viðbótar liggur fyrir að fleiri stéttarfélög, sérstaklega innan Starfsgreinasambands Íslands, munu að öllum líkindum taka undir þessar nýju áherslur og stefnubreytingar sem þessi félög munu leggja áherslu á. 

Hver hefði trúað því að þessar gríðarlegu breytingar myndu eiga sér stað á forystu tveggja stærstu stéttarfélaga innan ASÍ? Í fyrra vann Ragnar Þór Ingólfsson glæsilegan sigur til formennsku í VR en vinátta og sameiginleg sýn á stéttarfélagsbaráttu formanns VLFA og VR hefur verið til staðar frá því hann tók við formennsku. Eftir þennan mikla sigur Sólveigar Önnu til formennsku í Eflingu styrkist staða þessa bandalags til mikilla muna enda hefur Sólveig Anna sömu sýn á hvernig heyja á verkalýðsbaráttu eins og formenn VR og VLFA.

Það er morgunljóst að með þessum glæsilegu sigrum Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu til formanns í tveimur af stærstu stéttarfélögum á Íslandi hafa verið send skýr skilboð um að svokallaðri samræmdri láglaunastefnu verði algjörlega hafnað og krafa um markvissari og róttækari  verkalýðsbaráttu verði tekin upp þar sem unnið verði af alefli að því að lagfæra kjör lágtekjufólks.

Það er líka ljóst að Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld verða að opna augun fyrir þeim staðreyndum að þessi meirihluti mun ekki og ætlar sér ekki að sætta sig við þá misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuð sem hefur fengið að viðgangast í íslensku samfélagi í marga áratugi.

Krafan verður skýr. Lagfæra þarf lægstu tekjur þannig að ráðstöfunartekjur þeirra hækki umtalsvert.  Það er hægt að gera bæði með krónutöluhækkunum sem og breytingu á skattkerfinu þar sem horft verður á að létta á skattbyrði þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er líka mikilvægt fyrir stjórnvöld að átta sig á því að meirihluti innan ASÍ mun ekki láta þetta skefjalausa dekur við fjármálaöflin átölulaust lengur. Dekur sem byggist á okurvöxtum, verðtryggingu og því að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu.  Einnig er morgunljóst að taka verður á hinum tryllta leigumarkaði þar sem græðgivæðingin hefur svo sannarlega tekið sér bólfestu enda nægir að nefna í þessu samhengi að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 75% frá árinu 2011 á meðan lægstu laun hafa einungis hækkað um 52% á sama tíma. Svo tala menn um fordæmalausa kaupmáttaraukningu hjá þeim tekjulægstu!

Já það er af nægu að taka en eitt af því sem þessi meirihluti mun klárlega leggja áherslu á er að samið verði um krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og eykur á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Í dag ætla formenn VLFA, VR og nýkjörinn formaður Eflingar að funda og fara yfir stöðuna og stilla saman strengi sína en það er ljóst að þessir formenn hafa sömu sýn á hvernig eigi að fara í næstu kjarasamningsgerð en kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verða lausir um áramótin næstu.

En eitt er víst að Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld skulu átta sig á því að þessi hópur mun taka upp ný vinnubrögð þar sem ekki verður liðið að byrja kjarasamningsviðræður í nóvember og ljúka þeim mörgum mánuðum eftir að kjarasamningar runnu út. Slík vinnubrögð og eftirgjöf er liðin og núna verður aldrei liðið að kjarasamningar verði ekki klárir um leið og nýr samningur rennur út.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image