• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Nov

Formaður VLFA stýrði miðstjórnarfundi í gær

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er 1. varaforseti ASÍ þurfti að stýra miðstjórnarfundi ASÍ í gær í fjarveru forseta ASÍ en Drífa Snædal var að sinna erlendum embættisverkum í Osló.

 

Það að formaður VLFA hafi verið að stýra miðstjórnarfundi ASÍ í gær sýnir þá gríðarlegu breytingu sem orðið hefur á æðstu forystu ASÍ, en fyrir nokkrum misserum síðan hefði það verið óhugsandi að formaður VLFA ætti eftir að stýra slíkum fundi hjá ASÍ.

 

Þessi mikla breyting sem hefur átt sér stað á forystu Alþýðusambands Íslands eftir þing sambandsins hefur gert það að verkum að það ríkir mikil samstaða og einurð innan miðstjórnar um að láta verkin tala í komandi kjarasamningum.

Á fundinum í gær var samþykkt ályktun þar sem stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd en í umræddri ályktun segir meðal annars:

„Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld sýni í verki vilja sinn til að jafna kjörin og byggja í haginn til framtíðar og komi strax með aðgerðir sem mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.“

 

Undir liðnum önnur mál lagði 1. varaforseti fram tillögu um að fela hagdeild ASÍ að kanna og bera saman útgjaldaliði hjá fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum. Þessir útgjaldaliðir lúta að vaxtakostnaði, leiguverði, matarkostnaði, tryggingum og rekstri bifreiðar svo eitthvað sé nefnt.

Það liggur fyrir að það er mjög dýrt að búa á Íslandi og hefur verið nefnt í því samhengi að það kosti allt að 150 þúsundum meira fyrir fjögurra manna vísitölufjölskyldu að lifa á íslandi miðað við Norðurlöndin og er þá einungis verið að tala um matar-og vaxtakostnað.

 

Þessi tillaga 1. varaforseta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og kom fram í máli miðstjórnarmanna að hagdeild VR hafi t.d. tekið saman að vaxtakostnaður af 30 milljóna húsnæðisláni sé 70 þúsundum hærri í hverjum mánuði miðað við Norðurlöndin og því hægt að styðjast við þá vinnu hjá VR.

Einnig kom fram að miðstjórnarmenn telji mikilvægt að kalla fram þessar tölur til að sýna fram á hversu gríðarlega dýrt er að lifa hér á landi og þessi gögn geta reynst mikilvæg til að sýna fram á mikilvægi þess að rétta hlut launafólks af til að hægt sé að láta enda ná saman frá mánuði til mánaðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image