• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Nov

Fundað í Ráðherrabústaðnum

Fundur var haldinn með stjórnvöldum, sveitarfélögunum, atvinnurekendum og forystumönnum opinberu félaganna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær.

Fyrir hönd Alþýðusambandsins voru forseti ASÍ ásamt fyrsta og öðrum varaforseta ASÍ og einnig var Ragnar Þór Ingólfsson viðstaddur fyrir hönd VR.

Á fundinum var farið yfir upplýsingaöflun stjórnvalda um tekjuþróun og stöðu ólíkra tekjuhópa. Sem og fóru fram umræður um tekjuþróun og jöfnuð. Einnig var staða húsnæðismála til umfjöllunar á fundinum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er fyrsti varaforseti ASÍ lýsti á fundinum yfir áhyggjum sínum yfir hversu skammur tími væri til stefnu til að ná niðurstöðu í kjaraviðræðum enda ekki margir virkir vinnudagar þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út.

Hann gerði einnig grein fyrir mikilvægi þess að stjórnvöld taki á vaxtastiginu, verðtryggingunni og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Formaður VLFA og fyrsti varaforseti ASÍ nefndi að bara í síðasta mánuði hefðu verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um tæpa 10 milljarða vegna þess að neysluvísitalan hækkaði um 0,57% á milli mánaða. Hann nefndi að þetta sé álíka há upphæð og auðlindagjöld í sjávarútvegi nemi á þessu ári.

Hann fór einnig yfir þá staðreynd að raunvextir sem íslenskum neytendum er boðið upp á hér á landi séu um 3% hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við sem þýðir að íslensk heimili sem skulda 1900 milljarða eru að greiða 66 milljörðum meira í vaxtakostnað heldur en t.d. neytendur á Norðurlöndunum.

Hann nefndi það sérstaklega að hann vonaði að Seðlabankinn myndi ekki eyðaleggja partíið áður en það hæfist með því að koma með stýrivaxtahækkun því ef svo væri yrði það hálfgerð stríðsyfirlýsing við verkalýðshreyfinguna enda markmið komandi kjarasamninga að vextir lækki í stað þess að þeir hækki.  

Það er ljóst í huga formanns VLFA og fyrsta varaforseta ASÍ að tímaglasið er að tæmast til að hægt sé að koma í veg fyrir hörð átök á íslenskum vinnumarkaði og ljóst að bæði stjórnvöld og atvinnurekendur þurfa að girða sig í brók ef ekki á að stefna í ein hörðustu átök sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði í áratugi.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image