• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Mar

Aðalmálflutningur fyrir Héraðsdómi Vesturlands gegn Hval hf. flutt í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Hval hf. fyrir félagsmann sinn en málið vannst bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti en endalegur dómur fyrir Hæstarétti var kveðinn upp 14. júní 2018.

Rétt er að geta þess áður en lengra er haldið að Verkalýðsfélag Akraness ákvað að fara með eitt mál sem prófmál fyrir dómstóla til að láta á það reyna hvort félagið hefði rétt fyrir sér um að Hvalur væri að brjóta á starfsmönnum.  Það er einnig rétt að geta þess að þau túlkunaratriði sem farið var með fyrir dómstóla voru í öllum atriðum eins hjá öllum starfsmönnum enda ráðningarsamningar starfsmanna allir eins.

Aðalkrafa félagsins sem staðfest var í Hæstarétti byggðist á því að í ráðningarsamningi starfsmanna er getið um að fyrir hverja 12 tíma vakt séu greiddar 33.142 kr. á virkum dögum og 36.997 kr. fyrir helgarvaktir.

Í öðrum lið í ráðningarsamningi starfsmanna kveður á um að í sérstakri greiðslu séu greiddar 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.

Ágreiningurinn laut að því að Hvalur hf. vildi meina að þessi sérstaka greiðsla upp á 5.736 kr. fyrir hverja vakt vegna skerðingar á hvíldartíma og ferða til og frá vinnustað hafi verið inni í vaktakaupinu, en dómurinn tók undir það með VLFA að starfsmenn hefðu klárlega mátt skilja ráðningarsamninginn þannig að þessi greiðsla væri til viðbótar vaktarkaupinu.

Ein af kröfum félagsins til viðbótar aðalkröfunni um sérstöku greiðsluna var að þegar starfsmaður hefur unnið samfellt í sjö daga, eigi hann rétt til greiðslu á 8 tímum í dagvinnu vegna skerðingar á vikulegum frídegi. En í grein 2.4.3 í kjarasamningi SGS og SA segir að á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k einn vikulegan frídag.

Hvalur hf. vildi meina að hvergi í kjarasamningum væri kveðið á um að greiða ætti fyrir dagvinnu aukalega þó vikulegur frídagur væri ekki tekinn. Hæstiréttur tók undir þessi sjónarmið Hvals hf. en sagði hins vegar að það væri á ábyrgð fyrirtækisins að starfsmaðurinn fengi umræddan vikulega frídag og því bæri Hval hf. að greiða starfsmanninum 8 tíma í dagvinnu fyrir þá daga þar sem vinna var meira en sjö dagar samfellt.

Með þessu hefur Hæstiréttur kveðið upp með afgerandi hætti að ef launafólk vinnur meira en sjö daga samfellt þá beri atvinnurekendum að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir hverja sjö daga sem unnir eru samfellt.  En orðrétt segir í dómi Hæstaréttar:  Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umræddir frídagar séu launaðir er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á því að gagnáfrýjandi fegni þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga" 

Þetta var algjör tímamótadómur hvað þetta varðar, enda hæstiréttur búinn að kveða endanlega upp að greiðsluskylda atvinnurekanda er til staðar ef starfsmaður vinnur meira en sjö daga samfellt og fær ekki umræddan vikulega frídag.

Það var strax ljóst að þessi dómur hefur klárlega fordæmisgildi gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015 en dómurinn getur náð til allt að 200 starfsmanna eða svo. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að hagsmunir allra starfsmanna geti numið allt að 400 milljónum.

Eftir að þessi fordæmisgefandi Hæstaréttardómur féll 14. júní í fyrra eygði formaður Verkalýðsfélag Akraness þá von að siðferðiskennd forstjóra Hvals væri þannig að hann myndi una niðurstöðu Hæstaréttar og leiðrétta vangreidd laun allra starfsmanna sem hefðu verið hlunnfærðir samkvæmt dómnum fyrir hvalvertíðarnar 2013, 2014 og 2015.

Nei, siðferðisvitund forstjóra Hvals var ekki á þeim stað að viðurkenna og una niðurstöðu Hæstaréttar þrátt fyrir að allir starfsmenn séu með eins ráðningarsamninga sem deilt var um.  Forstjóri Hvals hafnaði að leiðrétta laun allra starfsmanna og á þeirri forsendu varð Verkalýðsfélag Akraness að stefna Hval aftur fyrir dómstóla og nú fyrir hönd allra félagsmanna sinna. 

Aðalmálflutningur í því máli var í gær fyrir Héraðsdómi Vesturlands en núna var eina málsvörnin hjá forsvarsmönnum Hvals að starfsmenn hefðu sýnt af sér tómlæti með því að hafa ekki gert athugasemdir við að sérstaka greiðslan hafi ekki verið greidd og vegna skerðingar á svokölluðum vikulegum frídegi.

Það er þyngra en tárum taki að forstjóri Hvals ætli að reyna að koma sér undan að greiða starfsmönnum vangreidd laun sem Hæstiréttur hefur dæmt fyrirtækinu að greiða einum starfsmanni en ítreka að allir ráðningarsamningar starfsmanna eru eins.

Það er eins og áður sagði dapurlegt að fyrirtækið ætli sér að reyna að víkja sér undan dómi Hæstaréttar og bera fyrir sig tómlæti starfsmanna en starfsmenn höfðu ekki hugmynd að fyrirtækið væri að hlunnfara þá samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi.

Í málflutningsræðu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness kom skýrt fram að ekki er hægt að krefjast tómlætis starfsmanna í ljósi þess að þeir höfðu ekki hugmynd um að verið væri að brjóta á réttindum þeirra.  Tómlæti getur ekki átt við að okkar mati nema starfsmenn hafi vitað að verið væri að brjóta á réttindum þeirra og þeir hafi ekkert aðhafst fyrir en mörgum árum seinna.

Það yrði slæmt fordæmi ef dómstólar myndu taka undir sjónarmið Hvals um tómlæti því þá myndi það þýða að atvinnurekendur gætu ástundað að brjóta vísvitandi á réttindum starfsmanna með von um að þeir myndu ekki átta sig á brotunum fyrr en of seint og komast þannig hjá því að fara eftir gildandi kjarasamningum og ráðningarsamningum.

Formaður er vongóður um að félagið vinni þetta mál enda getur eins og áður sagði ekki verið um tómlæti að ræða hjá starfsmönnum sem vissu ekki að verið væri að brjóta á rétti þeirra, en um leið og það uppgötvaðist árið 2015 var farið í að leita réttar fyrir dómstólum.

Dómur mun væntanlega falla eftir fjórar til sex vikur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image