• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Jun

Formenn Starfsgreinasambands Íslands funduðu á Bifröst

Nú er nýlokið Formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem stóð yfir í gær og í dag á Bifröst í Borgarfirði. Fundurinn var nokkuð góður en þar fór formaður Verkalýðsfélags Akraness yfir atriði sem félagið vill leggja áherslu á í komandi kjarasamningum. En fram kom í hans máli að aðkoma stjórnvalda þarf klárlega að verða umtalsverð í komandi kjarasamningum enda vill VLFA kalla eftir umtalsverðum kerfisbreytingum þar sem horft verði til hagsmuni almennings en ekki fjármálakerfisins.

Formaður fór yfir að félagið vill kalla eftir vaxtalækkun, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. Formaður greindi frá því að frá árinu 2013 til loka árs 2017 hefur bara húsnæðisliðurinn valdið því að verðtryggðarskuldir heimilanna hafa hækkað um 118 milljarða. Það kom einnig fram í máli formanns að raunvextir á Íslandi eru um 3,5% hærri miðað við nágrannalöndin sem við viljum bera okkur saman við. Það þýðir að ár hvert er íslenskur almenningur að greiða um 70 milljörðum meira í vexti en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Það kom líka fram hjá formanni að hann vill að Verkamannabústaðakerfið verði endurreist og hefur formaður VR verið að vinna að hugmyndum þar að lútandi og hefur verið kynnt ýmsum aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar. Þessar hugmyndir hjá VR eru virkilega spennandi en eins og margoft hefur komið fram opinberlega hefur Verkalýðsfélag Akraness og VR unnið náið saman að hugmyndum að áherslum í komandi kjarasamningum.

Það kom líka skýrt fram hjá formanni að VLFA vill að samið verði um í krónutölum en ekki prósetum því prósentur eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og geir ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Eitt af þeim málum sem var á dagkrá fundarins var kynning hjá Stefáni Ólafssyni prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um þróun ójöfnuðar á Íslandi síðustu áratugi útfrá viðamiklum rannsóknum sínum.

En í lokin á þeirri kynningu fór hann yfir þau hræðsluáróðursmyndbönd sem forysta ASÍ hefur verið að deila á samfélagsmiðlum . Það eru ekki ýkjur að segja að eftir yfirferð Stefáns var boðskapur forseta ASÍ og margumræddra myndbanda gjörsamlega jarðaður og má segja að Stefán Ólafsson hafi gjörsamlega rassskellt forseta og forystu ASÍ enda kom fram í máli hans að í grundvallaratriðum væru sá boðskapur sem fram kemur í myndböndum frá ASÍ kolrangur og stæðist ekki skoðun.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur undir þau orð sem Stefán Ólafsson sagði að það væri eins og myndböndin frá ASÍ væru unnin og kæmu frá forystu Samtaka atvinnulífsins en ekki forystu verkafólks!

Þessi niðurstaða frá prófessornum er algerlega í anda þeirrar gagnrýni sem fram koma frá Verkalýðsfélagi Akraness, Eflingar, Framsýnar og VR hvað þessi hræðsluóróðursmyndbönd varðar.

Það er ekkert skrýtið að VR, Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness hafi lagt fram vantraust á forseta ASÍ enda ljóst að hann vinnur gegn hagsmunum félagsmanna sinna eins og þessi afhjúpun á erindi frá Stefáni Ólafssyni prófessor sannar!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image