• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
May

Prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og ójafnaðar!

Eins og flestir vita þá gerði Alþýðusamband Íslands gjörsamlega óskiljanlega hræðsluáróðursauglýsingu fyrir nokkrum dögum síðan. Þar var varað við því að launafólki sækti fram með of miklar launakröfur því slíkt myndi einungis leiða til aukinnar verðbólgu, kollsteypna og annara óáran í íslensku efnhagslífi. Með öðrum orðum þá var forysta ASÍ að taka undir allar þær áróðursauglýsingar sem Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér í aðdraganda kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði, til að mynda á árin 2013 og 2015.

En það var svo sannarlega fleira í þessu áróðursmyndbandi frá ASÍ sem Verkalýðsfélag Akraness gerir mjög alvarlegar athugsemdir við en það er t.d. sú dæmalausa fullyrðing að kjarabætur snúist ekki um krónur heldur hvað fæst fyrir þær og það sé kaupmátturinn sem skipti öllu máli.  Þetta er með svo miklum ólíkindum enda er grundvallaratriði að þær krónur sem launafólk fær séu nógu margar til að duga í það minnsta fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út, en það liggur fyrir að slíku er alls ekki til að dreifa hjá þeim sem taka laun eftir lágmarkstöxtum.

Það er líka dapurlegt þegar forysta ASÍ heldur því fram að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að hækka lágmarkslaun umfram aðra hópa í íslensku samfélagi en það er gert með því að reyna að blekkja almenning og launafólk og vísa meðaltöl sem byggjast á prósentuhækkunum en ekki hversu margar krónur lágtekjufólk hefur fengið í vasann. Það vita það allir sem vita vilja að enginn brauðfæðir fjölskyldu sína með prósentum eða greiðir leigu eða aðra reikninga heimilsins með prósentum alltaf eru það krónurnar sem eru til í launaumslaginu sem ráða því hvort fólk nær endum saman frá mánuði til mánaðar.  

Það er svo mikil blekking þegar því er haldið að almenningi að lægstu laun hafi hækkað umfram aðra hópa í íslensku samfélagi og því er rétt að skoða það nánar. Árið 1998 eða fyrir 20 árum síðan voru lágmarkslaun 70.000 kr. en eru í dag 300.000 og hafa því hækkað um 230.000 á þessum 20 árum. En hvað skyldi forstjóri Eimskips hafa verið með í laun árið 1998, jú hann var með 2,3 milljónir en er með í dag 8,3 milljónir og hefur því hækkað á þessum 20 árum um 6 milljónir á mánuði. Það sama má segja um fjölmarga forstjóra íslenskra fyrirtækja, þeir hafa allir hækkað um margar milljónir á mánuði á þessum 20 árum á meðan lágmarkslaun hafa einunigs hækkað um 230.000 kr.

Það er líka rétt að geta þess að þingfarakaupið var 225.000 árið 1998 en er í dag 1,1 milljón og hefur því hækkað um 875.000 kr. á meðan lágmarkslaun hafa hækkað um 230.000 kr. Svo voga menn sér að segja að lágmarkslaun hafi hækkað sérstaklega umfram aðra hópa í íslensku samfélagi! Málið er að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að stórauka ójöfnuð í íslensku samfélagi og ef við ætlum að taka á þessari misskiptingu þá verðum við að hætta að semja í prósentum og semja þess í stað í krónutölum.

Formaður VLFA hefur sett upp sviðmynd 50 ár fram í tímann þar sem gert er ráð fyrir að samið yrði um 3,5% á hverju ári á þessum 50 árum, en þessi sviðmynd byggist á þremur dæmum, það eru lágmarkslaun, meðallaun ríkisforstjóra og meðallaun forstjóra á almenna markaðnum. En eins og flestir vita þá eru lágmarkslaunin 300.000, meðallaun ríkisforstjóra 1,7 milljón og meðallaun forstjóra er um 3 milljónir á mánuði. Það er afar ógnvænlegt að sjá hvernig krónutölumisskipting verður á þessum 50 árum en í dag er krónutölumunur á milli lágmarkslauna og ríkisforstjóra 1,4 milljónir á mánuði. Ef við höldum áfram að semja í prósentum og semjum að meðaltali um 3,5% hækkun á ári þá verður krónutölumunurinn orðin 7,8 milljónir eftir 50 ár, lágmarkslaun rétt tæpar 1,7 milljón á mánuði og takið eftir að árið 2068 verða lágmarkslaun ekki búin að ná þeim launum sem ríkisforstjórar eru með í dag. Takið líka eftir að mánaðarleg laun ríkisforstjóra verða orðin 9,5 milljónir á mánuði eftir 50 ár.  En ef við skoðum launaþróun forstjóra á almenna vinnumarkaðnum þá verða þeir komnir uppí 16,7 milljónir á mánuði ef samið verður um 3,5% næstu 50 árin.

Á þessu sést algerlega sú gríðarlega misskipting sem á sér stað þegar samið er um í prósentum enda hækka lágmarkslaun um einungis 1,4 milljónir á meðan ríkisforstjórar hækka um 7,8 milljónir og forstjórar á almenna vinnumarkaðnum hækka um 13,7 milljónir. Það er ekki nokkur vafi á að prósentuhækkanir eru knýja áfram þá skefjalausu misskiptingu á milli þeirra ríku og þeirra sem eru á lakari launum ef ekkert verður að gert og eina leiðin er að hætta alfarið að semja í prósentum og semja eingöngu í krónutölum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image