• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
May

Bjarg íbúðafélag byggir 33 íbúðir á Akranesi

Akranesbær og Bjarg Íbúðafélag hafa gert samkomulag um uppbyggingu á 33 íbúðum að Asparskógum 12, 14 og 16.  Hönnun á íbúðunum er komin vel á veg og reiknað er með fyrstu skóflustungu á þessu ári.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, "Almene boliger". Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.

 

Skilyrði fyrir úthlutun

Bjarg starfar samkvæmt lögum um almennar íbúðir. Í lögunum eru tilgreind tekju-og eignamörk ásamt viðmiði um greiðslubyrði leigu, skulu árstekjur leigjenda almennra íbúða ekki nema hærri fjárhæð en:
5.105.000 kr. ári (eða 425.417 kr. á mánuði) fyrir hvern einstakling
7.148.000 kr. á ári (eða 595.667 kr. á mánuði) fyrir hjón og sambúðarfólk
1.276.000 kr. á ári (eða 106.333 kr. á mánuði) fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu.
Hámarks heildareign heimilis má ekki vera hærri en 5.510.000 kr.
Greiðslubyrði leigu skal að jafnaði ekki fara 25-30% af heildartekjum leigutaka að teknu tilliti til húsnæðisbóta.

Annað skilyrði fyrir úthlutun er að hafa verið fullgildur félagsmaður aðildarfélaga ASÍ eða BSRB s.l. 24 mánuði miðað við úthlutun.

 

Sótt er um íbúð hjá Bjargi í tveimur skrefum

Umsókn um íbúð gerist í tveimur skrefum. Í fyrsta skrefi skráir umsækjandi sig inn á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi. Eingöngu er tekið við skráningum rafrænt í gegnum "mínar síður" á heimasíðu Bjargs, bjargibudafelag.is. Skráningum á biðlista hjá Bjargi er almennt raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla staðfestingargjalds er frágengin. Undantekning er að þær skráningar sem berast fyrir 31. júlí 2018 fara í pott og verður þeim sem þá hafa skráð sig raðað í númeraröð með úrdrætti.


Í öðru skrefi sendir umsækjandi inn umsókn í ákveðna staðsetningu en í hvert sinn sem íbúðir eru lausar til umsókna sendir Bjarg póst á alla á biðlista með nánari upplýsingum. Ef áhugi er á tiltekinni staðsetningu þarf að senda umsókn. Úthlutun hlýtur sá umsækjandi sem uppfyllir öll skilyrði um úthlutun hefur lægsta númer á biðlista og að teknu tilliti til forgangs. Sótt er um ákveðna íbúðartegund/íbúðarstærð sem hentar út frá fjölskyldustærð og í tilteknu húsi. Ekki er hægt að velja ákveðnar íbúðir sérstaklega.

Umsækjendur bera sjálfir ábyrgð á að þeir uppfylli öll skilyrði um úthlutun svo skoða þarf vel hver þau skilyrði eru í úthlutunarreglum Bjargs. Ekki er staðfest fyrr en við úthlutun hvort umsækjandi uppfylli í reynd öll skilyrði fyrir úthlutun.

 

Uppbygging íbúða Bjargs
Bjarg hefur þegar hafið framkvæmdir á 238 íbúðum á tveimur stöðum innan Reykjavíkur, í Spönginni Grafarvogi og í Úlfarsárdal. Afhending fyrstu íbúða í Reykjavík er áætluð í júní 2019. Þá áformar félagið umfangsmiklar framkvæmdir á næstu misserum en reiknað er með að rúmlega 400 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok 2018 og rúmlega 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum. Íbúðir í fyrsta áfanga verða meðal annars í Reykjavík, á Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og Sandgerði. Þá á félagið í viðræðum við sveitafélög víðar á landinu.

Hagsýni, skynsemi og gæði eru höfð að leiðarljósi við hönnun íbúðanna til að halda leiguverði niðri og er þar m.a. horft til fermetrafjölda. Íbúðir eru því ekki stórar, um verður að ræða 45 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 70 fermetra þriggja herbergja íbúðir, 85 fermetra fjögurra herbergja íbúðir og 100 fermetra fimm herbergja íbúðir.

Nánari upplýsingar á heimsíðu félagsins, bjargibudafelag.is.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image