• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Apr

Aðalfundur félagsins verður haldinn 11. maí

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn fimmtudaginn 11. maí næstkomandi kl. 17:30 í Gamla kaupfélaginu. Meðfylgjandi er auglýsing vegna aðalfundar og eru félagsmenn hvattir til að mæta. 

Rekstur Verkalýðsfélags Akraness hefur gengið vel á undanförnum árum og er félagið gríðarlega sterkt, ekki bara félagslega heldur einnig fjárhagslega. Rekstrarafgangur félagsins á síðasta ári nam rétt tæpum 109 milljónum og er eigið fé félagsins tæpir 1,3 milljarðar króna. Það er stefna félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu í formi hækkunar á styrkjum úr sjúkrasjóði eða aukningu á orlofshúsakostum en þannig hefur það verið í mörg ár. Vegna góðrar afkomu á síðasta ári verður fæðingarstyrkur félagsins hækkaður úr 85.000 kr. í 100.000 kr. og ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá nemur heildarstyrkurinn 200.000 kr. Einnig verður gleraugnastyrkur félagsins hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. 

Allir sjóðir félagsins voru með jákvæða rekstrarniðurstöðu þrátt fyrir að útgjöld úr sjúkrasjóði hafi aukist um 22,5% á milli ára en það endurspeglast meðal annars í því að félagið lætur félagsmenn njóta góðrar afkomu eins og áður sagði.  

Það er gríðarlega mikilvægt að stéttarfélög séu fjárhagslega sterk enda kom það bersýnilega í ljós í verkfalli sem sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness átti aðild að en í því verkfalli greiddi félagið yfir 30 milljónir í verkfallsstyrki til þeirra sjómanna sem tilheyrðu því. Svo ekki sé talað um fjárhagslega getu félagsins til að fara með mál fyrir dómstóla en í dag er félagið með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem verið er að sækja og verja réttindi félagsmanna. Á þessum forsendum meðal annars skiptir miklu máli að vera með fjárhagslegan styrk til að takast á við slík krefjandi verkefni. 

Verkalýðsfélag Akraness er mjög ánægt með hvernig til hefur tekist á undanförnum árum við að byggja félagið upp og gera það að því afli sem það er í dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image