• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær Frá fundinum í gær
12
May

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær. Það er skemmst frá því að segja að atburðir dagsins í gær settu mark sitt á fundinn en öllum starfsmönnum í landvinnslu HB Granda, 86 manns, var sagt upp störfum.

Þrátt fyrir að þetta mál hafi mikið verið rætt á aðalfundinum þá fór formaður að venju yfir skýrslu stjórnar. Kom fram í hans máli að félagið stendur gríðarlega vel, ekki bara fjárhagslega heldur einnig félagslega. Rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins nam 109 milljónum króna en það hefur verið stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu félagsins með einum eða öðrum hætti, til dæmis í formi hækkunar á styrkjum og öðru sem tengist réttindum félagsmanna í félaginu.

Eins og áður sagði var afkoman góð og því var fæðingarstyrkur félagsmanna hækkaður úr 85.000 kr. í 100.000 kr. og ef báðir foreldrarnir eru í félaginu nemur heildarupphæðin 200.000 kr. Einnig var gleraugnastyrkurinn hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. 

Það kom einnig fram að réttindabarátta félagsins og vinna við varðveislu réttinda félagsmanna hefur verið gríðarlega mikil á liðnum misserum. Félagið rekur nú þrjú mál fyrir dómstólum og hefur frá því að núverandi stjórn tók við árið 2003 innheimt yfir 400 milljónir vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota.

Að sjálfsögðu voru málefni líðandi stundar ofarlega í huga fundarmanna eins og áður kom fram og var sú ákvörðun forsvarsmanna HB Granda að hætta hér landvinnslu eftir yfir 100 ára vinnslu á sjávarafurðum fordæmd harðlega. Fram kom í máli formanns að árið 2002 hafi 170.000 tonnum verið landað á Akranesi, 350 manns hafi þá starfað hjá Haraldi Böðvarssyni og fyrirtækið verið langstærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi með greiðslur sem námu 2 milljörðum króna. Núna væri öll vinnslan að fara héðan og var það mat fundarmanna að það væri ekki hægt að láta slíkt átölulaust. Því var sett fram áskorun til félagsins um að fordæma þessi vinnubrögð harðlega enda liggur fyrir að þær forsendur fyrir þessu sem HB Granda menn gefa sér virðast ekki standast eina einustu skoðun.

Það kom fram í máli formanns að lega Akraness varðandi fiskimið væri mjög hagstæð þar sem veiðar á uppsjávarafla færu að stórum hluta fram við suðurströndina en þrátt fyrir stutta siglingu til Akraneshafnar tækju forsvarsmenn HB Granda ákvörðun um að sigla hringinn í kringum landið með þær afurðir. Vakti hann einnig athygli á því að eftir að HB Granda var gert skylt að fara með beinabræðsluna úr Norðurgarði í Reykjavík þá hefur fyrirtækið þurft að keyra þúsundum tonna af beinum til bræðslu á Akranesi og nam þessi flutningur um 15.000 tonnum í fyrra. Það er óhætt að segja að frá því sameining HB og Granda átti sér stað árið 2004 hafa allar hagræðingaraðgerðir fyrirtækisins bitnað á okkur Akurnesingum. Hér að neðan má sjá ályktun fundarins varðandi ákvörðun HB Granda.

Ályktun aðalfundar Verkalýðsfélags Akraness vegna ákvörðunar HB Granda

"Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness, haldinn þann 11. maí 2017, fordæmir ákvörðun HB Granda um að ætla sér að hætta landvinnslu á Akranesi og færa störfin til Reykjavíkur. Það er mat fundarins að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi ekki sýnt fram á þá hagræðingu sem slíkar aðgerðir eiga að leiða af sér. Aðalfundurinn skorar á Alþingi Íslendinga að byggðafesta aflaheimildir og standa vörð um dreifða byggð í landinu og trygga atvinnu eins og kveðið er á um í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Fundurinn telur það nöturlegt þegar aðilar sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins geta tekið ákvörðun um að svipta fólk lífsviðurværi sínu og skilja samfélögin eftir í sárum. Því ítrekar fundurinn áskorun til Alþingis um að tekið verði á þessari meinsemd við stjórnun fiskveiða."  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image