• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
May

1. maí 2017 - Ávarp formanns Verkalýðsfélags Akraness

Kæru vinir og félagar.

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum innilega til hamingju með 1. maí sem er eins og við öllu vitum, baráttudagur verkalýðsins.

Það er öllum ljóst að baráttu verkalýðsfélaga við að sækja auknar kjarabætur og réttindi til handa sínum félagsmönnum lýkur aldrei, enda má þeirri baráttu aldrei ljúka. Það er þjóðarskömm að til séu launataxtar á íslenskum vinnumarkaði sem duga alls ekki fyrir þeim lágmarksframfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Það er lýðheilsumál að laun dugi þannig að fólk geti framfleytt sér og sinni fjölskyldu og haldið mannlegri reisn.

En að semja um kaup og kjör er alls ekki eina baráttan sem stéttarfélögin kljást við í sínum störfum, það þarf jú líka að verja réttindin sem náðst hafa í kjarasamningum. Því miður er það alltof algengt að verið sé að brjóta á réttindum launafólks og trúið mér að hafi ég haft  vafa um tilvist og tilgang stéttarfélaga þegar ég tók við formennsku í Verklýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003 þá hvarf sá vafi strax.

Af hverju segi ég þetta, jú vegna þess að á þessum 13 árum síðan ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness höfum við innheimt yfir 400 milljónir vegna kjarasamningsbrota á okkar félagssvæði.  Já, takið eftir 400 milljónir og eru þetta allt brot þar sem atvinnurekendur hafa sagt við okkar félagsmenn: við erum að greiða ykkur rétt og eftir gildandi kjarasamningum. En eftir skoðun félagsins á öllum þessum málum kom í ljós að slíkt var ekki rétt og því hafa fjölmargir atvinnurekendur þurft að leiðrétta og lagfæra laun sem nema áðurnefndri upphæð. Já leikurinn á milli atvinnurekenda og launamannsins er afar ójafn þegar upp kemur ágreiningur um kaup og kjör og því er gríðarlega mikilvægt að launafólk sé aðilar að öflugum stéttarfélögum sem hafa kjark og þor til að standa upp í hárinu á sterkum atvinnurekendum sem oft á tíðum hafa lífsviðurværi heilu byggðarlaganna í hendi sér.

Já Verkalýðsfélag Akraness vílar ekki fyrir sér að standa grjótfast fyrir þegar kemur að því að verja réttindi okkar félagsmanna og fara með mál fyrir dómstóla ef svo ber undir. Á síðustu mánuðum hefur félagið unnið tvö mál fyrir dómstólum, annað málið skilaði yfir 30 milljónum til þeirra starfsmanna sem heyrðu undir dóminn og hitt um 12 milljónum. Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að horfa ekki í krónur og aura við að verja réttindi okkar félagsmanna og sem dæmi er félagið í dag með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir okkar fólks eru undir.

 

Kæru vinir og félagar.

Yfirskrift 1. maí er „Húsnæðisöryggi sjálfsögð mannréttindi.“ Ég get svo sannarlega tekið undir þetta slagorð enda ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði. Við búum við okurvexti og verðtryggingu en ég veit að Ólafur Arnarson hagfræðingur og formaður Neytendasamtakanna mun koma inn á þessi mál í ræðu sinni á eftir. Já ég tek undir að húsnæðisöryggi séu sjálfsögð mannréttindi en atvinnuöryggi á líka að vera sjálfsögð mannréttindi.

En á síðustu vikum hafa óveðursský hrannast upp í atvinnumálum okkar Akurnesinga. Á árshátíðum, þorrablótum, útihátíðum og öðrum sambærilegum mannfögnuðum hefur eftirfarandi lag ómað: „Kátir voru karlar á Kútter Haraldi, til fiskiveiða fóru frá Akranesi“Hver hefði trúað því fyrir nokkrum áratugum síðan að árið 2017 stefni í það að landvinnslu á sjávarafurðum verði hætt á Akranesi.

Hugsið ykkur, í aldanna rás hefur samfélagið okkar verið kallað Skipaskagi, já Skipaskagi en í dag líður nánast yfir bæjarbúa ef þeir sjá skip koma hér til löndunar. Við sem erum eldri en tvævetur munum þegar nokkrar frystihúsrútur gengu um bæinn til að keyra fiskvinnslufólk til og frá vinnu og lífæð samfélagsins var vinnsla sjávarafurða. Hver man ekki eftir öllum frystihúsunum sem voru hér með starfsemi á síðustu öld, Haförninn, Heimaskagi, Þórður Óskarsson og að sjálfsögðu Haraldur Böðvarsson. Nú stefnir í að þetta sé allt farið, þökk sé fiskveiðistjórnunarkerfinu. Fiskvinnsla var og er fjöregg okkar Skagamanna og þau lífsgæði sem við búum nú við og teljum svo sjálfsögð væru ekki til staðar ef vinnsla á sjávarafurðum hefði ekki farið fram í okkar góða samfélagi.

Það er svo dapurt og nöturlegt til þess að vita hvernig fyrirkomulag á stjórnun fiskveiða hefur farið með hinar dreifðu byggðir þessa lands þar sem örfáir einstaklingar hafa getað tekið ákvörðun um að færa aflaheimildir á milli landssvæða eða til höfuðborgarsvæðisins, tekið lífsviðurværi af fiskvinnslufólki og sjómönnum og skilið heilu byggðarlögin eftir rúst. Með öðrum orðum farið um eins og skýstrókar og selt eða sogað allar aflaheimildir í burtu því þeir vilja græða meira í dag en í gær! 

Ég vil rifja það upp að árið 2002, áður en Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda, þá var Akranes þriðja stærsta verstöð landsins og á Akranesi var landað yfir 167 þúsund tonnumHaraldur Böðvarsson var með um 350 manns á launaskrá og greiddi yfir 2 milljarða í laun og var stærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi.

Því miður stefnir æði margt í að verið sé að skrifa síðasta kaflann hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi því mér sýnist að forsvarsmenn HB Granda ætli sér að leggja niður landvinnsluna og með því mun yfir 100 ára sögu fiskvinnslu ljúka. Það er svo sorglegt ef uppundir 100 manns missa vinnuna og margir þeirra hafa helgað líf sitt fyrirtækinu og eru með tugi ára í starfsreynslu. Það er stórhættulegt ef þessi gríðarlega þekking hjá þessu fiskvinnslufólki tapast og þráðurinn rofnar hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi  En við megum ekki gefast upp og við eigum ekki að láta þessa græðgispunga komast upp með þetta.

Já við eigum ekki að gefast upp og við eigum að biðla til og krefjast þess að Alþingi Íslendinga standi vörð um atvinnuöryggi fiskvinnslufólks vítt og breitt um landið og ég vil minna þingheim á 1. grein um stjórn fiskveiða en þar segir orðrétt:  

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Kæru félagar og vinir ég tel einungis eitt geta bjargað okkur frá því að fjöreggi okkar Skagamanna blæði endanlega út en það er að Alþingi setji lög sem kveði á um byggðarfestu á aflaheimildum og farið verði þannig eftir 1. gr. um stjórn fiskveiða þar sem fram kemur að nytjastofnar eigi að treysta atvinnu og byggð í landinu.

Stöndum saman Skagamenn og verjum atvinnuöryggi okkar fólks með kjafti og klóm ef því er að skipta því atvinnuöryggi eru sjálfsögð mannréttindi.

Takk fyrir!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image