• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Sep

Stefnir að öllum líkindum í hörð verkfallsátök sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi!

Eins og flestir landsmenn vita þá hafa sjómenn verið kjarasamningslausir í hartnær 6 ár eða nánar til getið frá 1. janúar 2011. Rétt er að geta þess að sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sem og flest önnur sjómannafélög fólu Sjómannasambandi Íslands samningsumboð til kjarasamningsgerðar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Þann 24. júní síðastliðinn undirritaði Sjómannasamband Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi nýjan kjarasamning, en því miður var innihald þess samnings afar rýrt enda var samningurinn kolfelldur af sjómönnum í atkvæðagreiðslu sem lauk 8. ágúst síðastliðinn.

Í ljósi þeirrar stöðu að sjómenn höfnuðu algerlega þeim kjarasamningi sem undirritaður var 24. júní var reynt til þrautar að ná fram viðbót við samninginn en algerlega án árangurs og því hefur nú slitnað uppúr viðræðum við útgerðarmenn. Það er morgunljóst að reiði kraumar meðal sjómanna vegna þess skeytingarleysis sem þeir finna frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og þeirra atriða sem sjómenn telja að þurfi að koma til svo hægt sé að ganga frá nýjum sanngjörnum kjarasamningi.

Þau atriði sem sjómenn telja að þurfi að koma til svo hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi eru þessi helst:

- Verðlagsmálin
- Mönnunarmálin
- Afnám á nýsmíðaálagi
- Bætur vegna afnáms á sjómannaafslætti
- Hækkun á fatapeningum
- Sjómenn fái orlofs- og desemberuppbætur eins og annað launafólk
- Tekið sé á miklum kostnaði sjómanna vegna fjarskipta

Á þessu sést að það ber töluvert á milli aðila og að sjálfsögðu eru sum þessara mála stærri en önnur eins og verðlagsmálin, en sjómenn vilja að sjálfsögðu að markaðsverð á sjávarafurðum verði látið gilda enda munar allt að 30% á uppgjörsverði til sjómanna og markaðsverði. Sjómenn eru líka afar ósáttir við að þurfa að greiða 10% af sínum launum vegna nýsmíðaálags í 7 ár og það án þess að eignast neitt í viðkomandi skipi.

Bara til að benda á óréttlætið sem felst í þessu nýsmíðaálagi þá er ekkert óalgengt að dregið sé af sjómanni vegna nýsmíðaálagsins sem nemur uppundir 7 milljónum á 7 ára tímabili vegna endurnýjunar á fiskiskipi og það án þess að sjómaðurinn eignist neina hlutdeild í viðkomandi skipi! Þetta væri svipað og ef flugstjórar, flugfreyjur og flugvirkjar greiddu 10% af sínum launum til vinnuveitenda sinna Icelandair og Wow air svo fyrirtækin geti endurnýjað flugflota sinn! Eða að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn yrðu látnir greiða 10% af sínum launum vegna byggingar á nýjum Landsspítala. Það sjá allir skynsamir menn að þetta nýsmíðaálag er afar óréttlátt svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er líka rétt að rifja upp að árið 2009 var sjómannaafslátturinn tekinn af sjómönnum í þrepum og er hann nú allur dottinn út en við það varð sjómannastéttin af 1,6 milljarði án þess að nokkrar bætur kæmu til handa sjómönnum vegna þessa.

Það er líka rétt að vekja sérstaka athygli á því að sjómönnum hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum. Árið 2009 voru þeir um 6.000 en árið 2014 hafði þeim fækkað niður í 4.400. Það liggur fyrir að útgerðarmenn hafa verið að fækka verulega um borð í fiskiskipaflotanum og tala sjómenn núna um að þessi fækkun sé farin að ógna öryggi þeirra um borð í skipunum. Þess vegna leggja sjómenn mikla áherslu á að fá í kjarasamninginn ákvæði sem kveður á um lágmarksmönnun um borð í fiskiskipum.

Að þessu sögðu liggur fyrir að himinn og haf skilur á milli deiluaðila í kjaradeilu sjómanna við útgerðamenn og hafa aðildarfélög Sjómannasambands Íslands því hafið undirbúning að kosningu um allsherjarverkfall sjómanna. Kosning um verkfall hefst eftir helgi og samþykki sjómenn það mun verkfall hefjast 10. nóvember klukkan 23.00. Rétt er að geta þess að um rafræna kosningu verður að ræða og munu kjörgögn berast sjómönnum eftir helgina með leiðbeiningum um hvernig á að kjósa. Sjómannadeild VLFA vill vekja athygli á því að þeir sjómenn sem telja sig ekki hafa fengið kjörgögn í hendurnar fyrir lok næstu viku skulu setja sig í samband við skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness. Rétt er að taka það fram að smábátasjómenn heyra ekki undir þennan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og eru því ekki að kjósa um verkfall, enda fara kjör þeirra eftir öðrum kjarasamningi.

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness skorar á alla sjómenn að kjósa og sýna afstöðu sína í verki með því að segja já við verkfalli því við viljum fá sanngjarnan og réttlátan kjarasamnig við útgerðarmenn, en rétt er að geta þess að útgerðin skilar hreinum hagnaði sem nemur einum milljarði í hverri viku!

06
Sep

Myndir úr dagsferð eldri félagsmanna komnar á heimasíðuna

Fimmtudaginn 1. september bauð Verkalýðsfélag Akraness félagsmönnum sínum 70 ára og eldri ásamt mökum í dagsferð um Suðurland. Slíkar dagsferðir eru farnar árlega og eru ómissandi þáttur í starfsemi félagsins. Yfir 100 manns tóku þátt í þessari skemmtilegu ferð í ár og eins og oft áður var leiðsögumaður í ferðinni Björn Ingi Finsen.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði og verður ferðasagan sögð hér á heimasíðunni um leið og ritun hennar lýkur. Myndir úr ferðinni eru hins vegar komnar á sinn stað hér á heimasíðunni og er hægt að skoða þær með því að smella hér.

30
Aug

Stjórn VLFA ályktar um ofurbónusa

Á stjórnarfundi Verkalýðsfélags Akraness sem lauk rétt í þessu var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld og Alþingi að leggja án tafar fram lagafrumvarp sem kveður á um 95% skatt á fyr­ir­hugaðar ofurbónusa til starfs­manna eign­ar­halds­fé­laga Kaupþings og LBI.

 

Stjórn VLFA minnir á að föllnu bankarnir skildu eftir sig slóð eyðileggingar þar sem m.a. upp undir 10 þúsund fjölskyldur misstu heimili sitt á nauðungaruppboði vegna þess að verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust á nokkrum mánuðum. Þá voru einnig þúsundir launamanna sem misstu atvinnuna og kaupmáttur launa féll eins og steinn.

Að lykilstjórnendur eign­ar­halds­fé­laga Kaupþings og LBI skuli voga sér að ætla að misbjóða siðferðiskennd landsmanna í ljósi þeirrar eyðileggingar og þjáningar sem föllnu bankarnir lögðu á almenning og heimili þessa lands er gjörsamlega óskiljanlegt.

Það er greinilegt að græðgin og spillingin er aftur að skjóta föstum rótum í fjármálakerfinu. Slík spilling og græðgi mun almenningur ekki sætta sig við!

Ályktun

Akranesi 30. ágúst 2016

"Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á Alþingi að setja lög sem kveða á um 95% skatt á fyrirhugaða milljarðabónusa sem stjórnarmenn föllnu bankanna hafa í hyggju að greiða sér út á næstunni.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness telur mikilvægt að minna á að gömlu viðskiptabankarnir þrír bera ábyrgð á og skildu eftir sig slóð eyðileggingar í íslensku samfélagi. Eyðileggingin birtist m.a. í því að kaupmáttur launafólks féll eins og steinn, verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust á nokkrum mánuðum sem leiddi til þess að uppundir 10 þúsund fjölskyldur misstu heimili sitt á uppboð, sparnaður almennings og eldri borgara gufaði að stórumhluta upp að ógleymdu því að lífeyrir launafólks hefur verið skertur um allt að 200 milljarða vegna 500 milljarða taps lífeyrissjóðanna á glórulausum fjárfestingum í fjármálakerfinu.

Í ljósi þessarar eyðileggingar föllnu bankanna á íslensku samfélagi skorar stjórn Verkalýðsfélags Akraness á Alþingi Íslendinga að leggja nú þegar fram frumvarp að lögum sem kveður á um 95% skatt á þessa ofurbónusa sem nokkrir einstaklingar hafa í hyggju að skammta sér.

Stjórn VLFA harmar það að stjórnir föllnu bankanna ætli að misbjóða íslenskum almenningi með þessari sjálftöku sem einkennist af græðgi og spillingu. "

29
Aug

Ferð eldri félagsmanna VLFA 1. september nk.

Á fimmtudaginn kemur verður haldið í hina árlegu ferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Ferð þessi hefur ávallt verið vel sótt og ekki hægt að segja annað en að hennar sé af flestum félagsmönnum þessarar deildar beðið með ákveðinni eftirvæntingu. Fullbókað er nú í ferðina en lagt verður af stað frá Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum kl  08:30 og er ferðinni að þessu sinni heitið um Suðurlandið. Leiðsögumaður í ár er Björn Ingi Finnsen. Boðið verður upp á hádegisverð og aðrar veitingar um kaffileytið en áætluð heimkoma er á milli 18:30-19:30. Spáin fyrir Suðurlandið á fimmtudaginn er ágæt eða austlæg, breytileg átt 3-8 m/s en hætta á smáskúrum. Hiti á bilinu 9-13 stig.

19
Aug

Formaður með kynningu á fiskvinnslunámskeði

Nú stendur yfir fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn Akraborgar en það er flott fyrirtæki sem framleiðir m.a. niðursuðuvörur úr fisklifur sem bæði er flutt á erlenda markaði sem og innlendan.  Hjá Akraborg starfa um 30 starfsmenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og taka starfsmenn laun eftir kjörum fiskvinnslufólks. Rétt er að geta þess að Akraborg er með bónuskerfi sem byggist á afköstum og er meðalbónus starfsmanna um eða yfir 600 krónur á tímann.

Formaður félagsins mun í dag halda kynningu á námskeiðinu um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði en einnig kynna hvaða þjónustu og réttindi félagsmenn VLFA eiga með því að vera félagsmenn VLFA. 

Í maí var haldið fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda og er óhætt að segja að fiskvinnslufyrirtæki á Akranesi standi sig mjög vel í að uppfylla skyldur sínar við að halda fiskvinnslunámskeið eins og kveðið er á um í kjarasamningum VLFA við Samtök atvinnulífsins en að afloknu námskeiði hækka starfsmenn um nokkra launaflokka.

11
Aug

Sjómenn kolfelldu nýgerðan kjarasamning

Í gær kom í ljós að fé­lags­menn Sjó­manna­sam­bands Íslands kolfelldu nýgerðan kjara­samn­ing við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi með 445 at­kvæðum gegn 223.

Verkalýðsfélag Akraness er hluti af Sjómannasambandi Íslands en upp undir 100 sjómenn tilheyra sjómannadeild VLFA.  Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness fól sjómannasambandinu samningsumboð fyrir hönd félagsins en sambandið sá um þessa kjarasamningsgerð.  Það liggur fyrir eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni að innihald þessa samnings var einfaldlega alltof rýnt og er það ástæðan fyrir því að sjómenn felldu samninginn.

Formaður VLFA telur að verðlagsmál á sjávarafurðum og lágmarksmönnun á fiskskipum hafi fyrst og fremst ráðið því að sjómönnum hugnaðist ekki þessi samningur.  Rétt er að geta þess að sjómenn hafa verið með lausan kjarasamning frá 1. janúar 2011.  Núna er morgunljóst að vinna þurfi úr þeirri stöðu sem upp er komin og allt eins líklegt að sjómenn grípi til verkfallsvopnsins til að reyna að knýja fram sínar eðlilegu kröfur.

10
Aug

Formaður fundar með forstjórum Elkem.

Í síðustu viku óskaði Gestur Pétursson forstjóri Elkem Ísland eftir fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness en í för með Gesti var Helge Aasen aðalforstjóri Elkem.  Þetta var mjög góður fundur þar sem farið var yfir hin ýmsu mál er tengjast starfsemi og hagsmunum starfsmanna Elkem Ísland.  Sem betur fer hefur rekstur Elkem Ísland gengið nokkuð vel á undanförnum misserum þrátt fyrir lækkun á afurðaverði  kísiljárns á heimsmarkaði.

Eins og flestir vita þá liggja hagsmunir starfsmanna og stéttarfélaga saman að stórum hluta með fyrirtækjum. Góð afkoma og góð rekstrarskilyrði leiða oftast af sér meiri möguleika fyrir stéttarfélögin á sækja aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja til aukinna launabreytinga. Einnig hafa góð rekstrarskilyrði í för með sér meiri möguleika fyrir fyrirtæki til þess að vaxa og fjölga störfum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að raforkusamningur Elkem Ísland er að renna út á næstu árum og því mjög mikilvægt að fyrirtækið nái samkomulagi við Landsvirkjun um nýjan raforkusamning og má sá samningur ekki ógna atvinnuöryggi starfsmanna eða skerða rekstrarskilyrði fyrirtækisins.

Einnig var rætt um að kjarasamningur starfsmanna rennur út 31. janúar 2017 og munu viðræður um nýjan kjarasamning hefjast þegar líður á árið.  Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur enda skiptir gríðarlega miklu máli að góð og hreinskipt samskipti séu við æðstu stjórendum fyrirtækja.

28
Jul

Sérfræðingur í vinnurétti staðfestir áhyggjur Verkalýðsfélags Akraness

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýst yfir gríðarlegum áhyggjum af þeim hugmyndum sem forysta ASÍ vinnur að með því að setja hér á laggirnar nýtt vinnumarkaðsmódel eins getið er um í svokölluðu Salek samkomulagi. Stjórn félagsins telur engum vafa undirorpið að með þeim hugmyndum sé verið að skerða gróflega samningsrétt stéttarfélaga og alls launafólks ef það verður að veruleika.

Í gær staðfesti Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í vinnumarkaði, í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut áhyggjur stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að Salek samkomulagið muni skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna. Lektorinn sagði m.a. orðrétt: "Með þjóðarsáttarsamningunum 1990 var ekkert verið að kippa samningsréttinum frá stéttarfélögunum og ef menn ætla að gera það með Saleksamkomulaginu sem ég sé ekki alveg hvernig þeir ætla að gera þá verða þeir að breyta vinnulöggjöfinni. Því það er alveg skýrt að samningsrétturinn liggur hjá stéttarfélögunum samkvæmt vinnulöggjöfinni."

Þarna hittir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson naglann á höfuðið, það þarf að breyta vinnulöggjöfinni til að hægt sé að skerða samningsrétt stéttarfélaganna og launafólks alls. En takið eftir það liggur fyrir að forysta ASÍ og þeir sem standa að Salek samkomulaginu hafa tilkynnt og það kemur meira segja fram í Salek samkomulaginu að breyta þurfi vinnulöggjöfinni til að festa Salek samkomulagið í sessi eins segir orðrétt í samkomulaginu.

Í þættinum benti Gylfi einnig réttilega á að það er alls ekki nóg að taka einungis einn þátt úr norræna vinnumarkaðsmódelinu en sleppa öllum öðrum þáttum eins og t.d. varðandi vaxtakjör, frían eða gjaldítinn aðgang að heilbrigðiskerfi, barnabætur og margt annað. Gylfi segir vinnumarkaðinn hér ólíkan því sem tíðkast þar. Það var gríðarlega mikilvægt að fá staðfestingu á því frá sérfræðingi í vinnurétti að Salek samkomulagið muni leiða til skerðingar á samningsfrelsi stéttarfélaga og um leið staðfestir hann áhyggjur stjórnar Verkalýðsfélags Akraness hvað varðar skaðsemi Salek samkomulagsins gagnvart samningsfrelsinu.

Hversu sorglegt er það á 100 ára afmælisári Alþýðusambands Íslands að núverandi forysta ASÍ skuli vinna að því skerða gróflega frjálsan samningsrétt aðildarfélaga sinna, en eins og allir vita þá hefur frjáls samningsréttur verið hornsteinn verkalýðsbaráttunar á Ísland í ein 100 ár. Forysta ASÍ mætti frekar leggja áherslu á að félagsmenn þeirra fái aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja en auknum arðgreiðslum til fyrirtækja, en arðgreiðslur fyrirtækja námu 215 milljörðum árið 2014 á meðan launahækkanir á sama tíma numu 35 milljörðum!  Þessi aðferðafræði forystu ASÍ að vilja kenna launahækkunum félagsmanna sinna um óstöðugleika og verðbólguþrýsting gengur ekki upp í ljósi þess að arðgreiðslur námu 215 milljörðum á sama tíma og laun hækkuðu um einungis 35 milljarða samkvæmt fréttablaði ríkisskattsjóra.

25
Jul

Tenging við launavísitölu í kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál skilað um 6,4% fyrstu 6 mánuðina.

Það er óhætt að segja að kjarasamningurinn sem Verkalýðfélag Akraness gerði 17. mars 2015 við forsvarsmenn Norðuráls sé svo sannarlega að svínvirka, en samningurinn hefur skilað starfsmönnum góðum ávinningi.  Í þessum samningi var í fyrsta skipti gengið frá því að launahækkanir taki mið af hækkun launavísitölunnar en í heildina gaf samningurinn á árinu 2015 starfsmönnum um 16% launahækkun.  Á árinu 2015 höfðu laun starfsmanna ekki bara hækkað um 16% heldur fengu starfsmenn einnig 300.000 kr. eingreiðslu samhliða kjarasamningnum í mars í fyrra. Á þessu eina ári hafa starfsmenn á vöktum í kerskála því hækkað með öllu um frá tæpum 72.000 kr. upp í 86.000 kr. á mánuði.

Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hefur launavísitalan gefið starfsmönnum 6,4% og enn eru 6 mánuðir eftir af launavísitölutímabilinu. Það má því allt eins reikna með því að 1. janúar 2017 muni laun starfsmanna Norðuráls hafa hækkað um allt að 10% ef sama ferð verður á launavísitölunni eins og verið hefur fyrstu 6 mánuði þessa árs.  Rétt er að geta þess að heildarlaun byrjanda í Norðuráli á 12 tíma vöktum í kerskála fyrir 182 tíma á mánuði eru núna komin upp í 525.940 kr. og starfsmaður sem er með lengsta starfsaldurinn er kominn upp í tæpar 633.000 kr. Þeir sem hafa lokið báði grunn og framhaldsnámi Stóriðjuskólans eru með tæpar 700 þúsund í heildarlaun með öllu fyrir 182 tíma vinnu á mánuði.

28
Jun

Nýr kjarasamningur sjómanna undirritaður

Sjómannasamband Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness undirritaði nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). En eins og flestir muna rann kjarasamningur sjómanna út 1. janúar 2011 og hafa sjómenn því verið með lausan kjarasamning í 5 og hálft ár.

Það verður því miður að segjast að innihald þessa samnings sé fremur rýrt, enda er ekki tekið á stóru málunum eins og til dæmis mönnunarmálum og verðlagsmálum á sjávarafurðum. Þó er rétt að geta þess að í samningnum var gerð bókun sem kveður á um athugun á lágmarksmönnun um borð í uppsjávarskipum, ísfiskstogurum og dagróðrarbátum. Einnig er í þessari bókun kveðið á um að hvíldartími sjómanna verði skoðaður. Örlitlar bætur koma til vegna afnáms sjómannaafsláttar og nemur sú upphæð 500 kr. fyrir hvern lögskráningardag í skattfrjálsan frádrátt frá tekjum vegna fæðiskostnaðar. Rétt er einnig að geta þess að kauptrygging hækkar um rúm 23%, en eins og flestir sjómenn vita þá hefur sú hækkun fremur litla þýðingu í ljósi þess að sjómenn eru á aflahlut og í frekur fáum tilfellum reynir á kauptrygginguna.

Eins og áður sagði er þessi samningur að mati formanns VLFA fremur rýr og óttast formaður að þessi samningur verði ekki samþykktur af hálfu sjómanna, enda er eins og áður sagði ekki tekið á stærstu kröfum þeirra þótt vissulega beri að fagna því að málið sé sett í farveg með áðurnefndum bókunum.

Lesa má samninginn hér og er mikilvægt að sjómenn kynni sér vel og rækilega innihald hans. Kosið verður sameiginlega meðal allra sjómanna sem eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands og fólu sambandinu umboð til kjarasamningsgerðarinnar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image