• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Feb

Staðan áfram alvarleg í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Núna eru liðnir rétt rúmlega tveir mánuðir síðan verkfall hófst hjá sjómönnum, en það var eins og flestir muna þann 14. desember á síðasta ári. Frá því verkfall hófst hefur linnulaust verið reynt að ná kjarasamningi til handa sjómönnum, en þeir hafa verið samningslausir frá 1. janúar 2011 eða í rétt rúm 6 ár.

Kröfur sjómanna til lausnar þessarar deilu voru mótaðar inni í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og meðal annars hefur Verkalýðsfélag Akraness haldið fjóra kynningar- og stöðufundi þar sem ákvarðanir hafa verið teknar um ýmis atriði er lúta að kröfugerðinni sem og önnur mál sem komið hafa upp í þessarar kjaradeilu. Þau atriði sem um ræðir eru eftirfarandi:

- Bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar
- Breyting á olíuviðmiði
- Frítt fæði
- Frír vinnufatnaður
- Lækkun á net- og fjarskiptakostnaði

Það er skemmst frá því að segja að síðustu þrjú atriðin hafa þokast ágætlega áfram, en eftir standa hins vegar tvö efstu atriðin en þeim hafa útgerðarmenn til þessa ekki verið tilbúnir að mæta. 

Samninganefnd sjómanna lagði fram hugmynd um að útgerðamenn greiddu sjómönnum dagpeninga, en til að það gæti gengið upp þá þurfa stjórnvöld að vera tilbúin að veita sambærilegar skattaívilnanir og annað launafólk nýtur þegar það starfar víðs fjarri sínu heimili. Lengi vel höfnuðu sjávarútvegs- og fjármálaráðherrar þessu alfarið en formaður félagsins hefur gagnrýnt þá ákvörðun harðlega í fjölmiðlum undanfarið. Það var því afar ánægjulegt að sjá í fréttum í gær og í morgun að stefnubreyting er að verða hjá stjórnvöldum hvað þetta varðar, því það er réttindamál að sjómenn njóti sömu réttinda og annað launafólk í formi þess að fá dagpeninga frádráttarbæra frá skatti vegna fæðiskostnaðar. Mikilvægt er að það komi fram að sjómenn eru ekki að biðja um neina ölmusu, heldur er krafa gerð á útgerðirnar um greiðslu dagpeninganna, og að þeir dagpeningar verði síðan meðhöndlaðir á sama hátt og hjá öðru launafólki vegna fæðiskostnaðar sem þeir þurfa að bera.

Þann 9. febrúar kom samninganefnd sjómanna síðast saman með útgerðarmönnum, en sá fundur var árangurslaus. Mánudaginn 13. febrúar ákvað samninganefnd sjómanna að leggja fram lokatilboð til útvegsmanna og var það algjörlega klárt að hér væri um lokatilboð að ræða og ekki yrði hvikað frá því tilboði. Var þetta viðleitni samninganefndar sjómanna til að sýna þá ábyrgð að finna lausn á deilunni, en því miður virðist vera sem útvegsmenn hafi slegið á þá sáttahönd. Það er aldrei gagnlegt til árangurs að leggja fram gagntilboð við lokatilboði, en það gerðu útvegsmenn hins vegar seinnipartinn í gær. Þessu gagntilboði var hafnað snarlega af samninganefnd sjómanna og ítrekað enn og aftur að með lokatilboðinu hefðu sjómenn hefðu sett strik í sandinn hvað varðar frekari viðræður um þau atriði sem í því komu fram.

Staðan er því núna í þessum töluðu orðum þannig að boltinn er hjá útgerðarmönnum. Það er þeirra að taka ákvörðun um að ganga að lokatilboði sjómanna og er því morgunljóst að ábyrgð útvegsmanna á lausn þessarar deilu liggur öll hjá þeim því eins og áður kom fram þá kemur ekki til greina hjá sjómönnum að hvika frá lokatilboðinu sem lagt var fram mánudaginn 13. febrúar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image