• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Laun háseta eru ekki 2,3 milljónir eins og SFS ýjar að! Myndin sýnir meðaltal launa háseta sem eru í verkfalli, samanborið við það sem frkvstj. SFS heldur fram að séu meðallaun sjómanna
06
Jan

Laun háseta eru ekki 2,3 milljónir eins og SFS ýjar að!

Það verður að segjast alveg eins og er að grein sem birtist í gær eftir framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að sjómenn séu með hærri laun en læknar hafi valdið gríðarlegri reiði á meðal sjómanna. Í greininni er sagt að meðallaun sjómanna árið 2014 hafi verið 2,1 milljón á mánuði og á árinu 2015 hafi meðallaun sjómanna verið komin uppí 2,3 milljónir. 

Þessi samanburður er með svo miklum ólíkindum að það nær ekki nokkru tali enda eru þessi meðallaun í engu samræmi við þau laun sem hásetar t.d. á ísfisktogurum og frystiskipum hafa. Í greininni er framkvæmdastjórinn að tala um meðaltal tekjuhæstu sjómanna landsins og inní þessu meðaltali eru t.d. skipstjórar, yfirvélstjórar og aðrir yfirmenn á fiskiskipum sem eru ekki einu sinni verkfalli. Í greininni er ýjað að því að þetta séu meðallaun háseta sem eru í verkfalli og vinnubrögð af þessu tagi eru til skammar og gera ekkert annað en að hleypa illu blóði í sjómenn og það eðlilega.

Verkalýðsfélag Akraness gerði stutta athugun á iðgjaldaskrá félagsins og skoðaði hver meðallaun háseta á ísfisktogurum og frystiskipum hafi verið á þessum árum. Þá kemur í ljós að meðallaun háseta á þessum tveimur útgerðaflokkum árið 2014 voru 1,1 milljón á mánuði en ekki 2,1 milljón eins og framkvæmdastjóri SFS gaf í skyn. Árið 2015 voru meðallaun háseta á þessum skipum 1,2 milljónir en ekki 2,3 milljónir eins og framkvæmdastjóri SFS ýjaði að. Á árinu 2016 eru hásetar á ísfisks- og frystitogurum að meðaltali með 994 þúsund á mánuði!

Rétt er að geta þess sérstaklega að inní þessum launum er orlof sem þýðir að meðalmánaðarlaun háseta á árinu 2016 án orlofs voru 865 þúsund á mánuði. Það líka rétt að geta þess að frá þessum launum dragast síðan fæðis-, fata- og netkostnaður sem getur numið tugum þúsunda í hverjum mánuði!  

Á þessu sést að þessi grein framkvæmdastjóra SFS er með ólíkindum, enda munar meira en helmingi á þeim meðallaunum sem SFS ýjar að því að hásetar í verkfalli séu með, og niðurstöðu skoðunar VLFA á meðallaunum háseta innan raða sjómannadeildar félagsins.

Það er fórn að vera sjómaður við Íslandsstrendur enda vinna sjómenn við hættulegar, krefjandi og erfiðar aðstæður. Það liggur t.d. fyrir að sjómenn þurfa eðlilega að láta af störfum mun fyrr en starfsfólk sem vinnur í landi. Ástæðan fyrir þessu er að sjómannsstarfið er erfitt og krefjandi og kallar algerlega á að sjómenn séu vel á sig komnir líkamlega.

Það er líka rétt að geta þess  að sjómenn hafa mun minni möguleika á að taka þátt í uppeldi barna sinna og horfa á þau vaxa úr grasi. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á þessari fórn sem sjómenn færa við sín störf eins t.d. að vera staddir úti á rúmsjó þegar alvarlegir atburðir gerast í fjölskyldu sjómanna. Dæmi eru um sjómenn sem hafa misst einhvern nákomin og það tekur kannski einhverja daga að komast heim til fjölskyldunnar. Svona dæmi hafa svo sannarlega gerst, eins og til dæmis sjómaður sem tilheyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Hann var á kolmunnaveiðum við Færeyjar þegar hann fékk tilkynningu um að dóttir hans hefði látist í bílslysi og það tók sjómanninn um tvo sólarhringa að komast heim í faðm fjölskyldu sinnar.

Fórn sjómanna birtist víðar, eins og í öryggismálum því það er ekkert grín að veikjast alvarlega eða slasast um borð í skipi úti á ballarhafi víðsfjarri allri læknisþjónustu. Við slíkar aðstæður þurfa sjómenn að reiða sig algerlega á kraftaverkamennina sem starfa á þyrlum Landhelgisgæslunnar, enda eru þyrlurnar lífæð sjómanna ef einhver vá á sér stað um borð í fiskiskipum. Þessar fórnir íslenskra sjómanna eru blákaldar staðreyndir sem ekki á að gera lítið úr og því mikilvægt að kjör og aðbúnaður sjómanna sé með þeim hætti að sómi sé af.

Að þessu öllu sögðu þá sér allt vitiborið fólk að laun sjómanna, sem eru núna þetta í kringum 865 þúsund á mánuði fyrir utan orlof, eru laun sem ekki er hægt að tala um sé góð miðað við þær fórnir sem þeir leggja á sig. Fyrir það eitt að mæta til skips greiða þeir auk þess tugi þúsunda í fæðis- fata- og netkostnað.

Það er morgunljóst að sjómenn munu hvergi hvika frá sanngjörnum kröfum sínum og eru svo sannarlega tilbúnir að taka þann slag alla leið!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image