• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jan

Sjómenn - VLFA boðar til áríðandi fundar!

Vegna alvarlegar stöðu sem upp er komin í samningaviðræðum á milli sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var ákveðið að fresta samningaviðræðum fram til mánudags.

Öll stéttarfélög sjómanna hafa ákveðið að funda með sjómönnum næstu daga til að fara yfir stöðuna og greina sjómönnum frá því hvað hefur áunnist í þessum viðræðum og hvað standi útaf til að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Á þeirri forsendu boðar Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness til áríðandi fundar með sjómönnum sem tilheyra VLFA næsta föstudag klukkan 14:00 á Gamla Kaupfélaginu. Á fundinum mun formaður félagsins fara ítarlega yfir það sem hefur áunnist og hvað standi útaf.

Eins og flestum sjómönnum er kunnugt þá eru kröfur sjómanna í aðalatriðum fimmþættar: 

  • Bætur komi að fullu vegna afnáms sjómannaafsláttar
  • Breyting komi á olíuviðmiði
  • Sjómenn fái frítt fæði
  • Sjómenn fái frían vinnufatnað
  • Net- og fjarskiptakostnaður sjómanna lækki


Einnig er rétt að geta þess að þau atriði sem voru komin inn í kjarasamningum sem felldur var síðast myndu halda sér þar sem það á við.

Það er mat formanns VLFA að útgerðamenn eigi vel að geta komið til móts við þessar kröfur, enda eru þær sanngjarnar og réttmætar. Það er rétt að geta þess að tekist hefur að þoka þremur af þessum fimm atriðum verulega áleiðis en eftir standa tvö atriði sem útgerðamenn hafa hafnað og því eru þessar viðræður komnar uppvið vegg eins og staðan er núna.

Það er mikilvægt að sjómenn sjái sér fært að mæta á fundinn til að ræða þessa alvarlegu stöðu sem upp er komin í viðræðunum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image