• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jan

Laun starfsmanna Norðuráls hækka um tæp 9% frá 1. janúar 2017

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Norðurál 17. mars 2015 og er óhætt að segja að sá kjarasamningur sé svo sannarlega búinn að vera starfsmönnum hagfelldur. 

En í þessum kjarasamningi var samið um að laun starfsmanna Norðuráls myndu taka hækkunum samkvæmt launavísitölu sem þýðir að laun starfsmanna Norðuráls munu hækka frá og með 1. janúar 2017 um rétt tæp 9%.  

Þetta þýðir að byrjandi á vöktum hjá Norðuráli hækkar með öllu um 45 þúsund á mánuði og verða heildarlaun hans rétt rúmar 570 þúsund á mánuði fyrir 184 tíma í vaktavinnu. Starfsmaður á vöktum sem unnið hefur í 10 ár mun hækka um 53 þúsund á mánuði og verða heildarlaun hans rétt tæpar 667 þúsund á mánuði með öllu. Ef hann hefur lokið bæði grunn- og framhaldsnámi Stóriðjuskólans þá verða heildarlaun hans alls 761 þúsund fyrir 182 tíma vinnu á mánuði.

Rétt er að vekja athygli á því að orlofs- og desemberuppbætur munu hækka samtals úr 371.376 kr. í 403.574 kr. og mun því hvor fyrir sig nema 201.787 kr. og eru því að hækka um 32.198 kr. á ári.

Það er ljóst að þessi samningur sem Verklýðsfélag Akraness gerði við forsvarsmenn Norðuráls hefur reynst hagfelldur, en þetta er fyrsti kjarasamningur hjá verkafólki og iðnaðarmönnum þar sem laun starfsmanna taka hækkunum samkvæmt launavísitölunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image