• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
May

Nýr kjarasamningur Elkem kynntur fyrir starfsmönnum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir starfsmenn Elkem Ísland á föstudaginn en formaður félagsins var í gær að kynna samninginn fyrir starfsmönnum Elkem. Þessi kjarasamningur er að mati formanns félagsins mjög góður enda er hann í anda þess samnings sem gerður var fyrir starfsmenn Norðuráls. Ofngæslumenn eru til dæmis að hækka um 9% í heildarlaunum á fyrsta ári samningsins. Heildarlaun ofngæslumanns með 10 ára starfsreynslu voru fyrir samninginn fyrir utan desember- og orlofsuppbætur 517.609 kr. en fara upp í 564.988 kr. sem er tæplega 50.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum eða eins og áður sagði 9,15%

Í samningnum var bónuskerfið lagfært en það getur gefið að hámarki 10,5% Samningsaðilar eru sammála um að það eigi að skila starfsmönnum um eða yfir 80% af hámarkinu sem eru 8,4%. Gamla bónuskerfið var ekki að virka sem skyldi en sá bónus gaf 5,6% að meðaltali á síðasta samningstíma. Orlofs- og desemberuppbætur hækka umtalsvert eða úr rúmum 181.000 kr. hvor fyrir sig eða samtals 362.000 kr. í 202.000 kr. eða samtals 404.000 kr. sem þýðir að hækkun orlofs- og desemberuppbóta nemur 11,3% á fyrsta ári. En orlofs- og desemberuppbætur hjá stóriðjunum á Grundartanga eru langtum hærri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum samningi náðist líka í gegn svokallaður Elkem skóli sem er starfstengt nám sem er tvískipt, annars vegar grunnnám og hinsvegar framhaldsnám og spannar hvort námið fyrir sig 3 annir. Að afloknum skólanum munu starfsmenn fá 5% hækkun fyrir hvort námið fyrir sig eða samtals 10% sem þýðir að þegar starfsmenn hafa lokið bæði grunn- og framhaldsnámi þá mun það skila þeim uppundir 60.000 kr. launahækkun.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. febrúar 2017 en hann gildir til 31. mars 2019 og munu hækkanir í samningnum verða með sambærilegum hætti og gerist hjá Norðuráli á Grundartanga fyrir árið 2018. Ástæða þess að samningurinn gildir bara til 31. mars 2019 er sú að þá rennur raforkusamningur Elkem við Landsvirkjun út og eins og staðan er núna ríkir töluverð óvissa varðandi raforkumál fyrirtækisins þar sem það hefur ekki enn náð samningum við Landsvirkjun. Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verulegar áhyggjur af þeim málum enda hefur okkar atvinnusvæði orðið fyrir nægum áföllum að undanförnu og nægir að nefna í því samhengi uppsagnir uppundir 100 starfsmanna í landvinnslu HB Granda.

En eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að samið var á hinum almenna vinnumarkaði um aukið framlag í lífeyrissjóði sem verður komið upp í 3,5% í júlí 2018. Þetta aukaframlag munu starfsmenn Elkem mega nota í sína eigin séreign allt þar til lögum um lífeyrissjóði verður breytt og ef þeim verður breytt. Semsagt, þeir mega ráða hvort þeir setji þetta í samtryggingu síns lífeyrissjóðs eða í séreignina sem þeir eru nú þegar með hver fyrir sig.

Formaður kynnti þennan samning í gær á tveimur fjölmennum fundum og eru starfsmenn nú að kjósa um samninginn. Kosningu lýkur á næsta föstudag kl. 13:30 og mun niðurstaðan liggja fyrir um kl. 14.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image