• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Þingfarakaupið hækkað langt um meira en lægsti launataxti verkafólks

Í gær var hinn árlegi jóla stjórnar-og trúnaðarráðsfundur Verkalýðsfélags Akraness haldin en á þeim fundi fer formaður yfir það helsta sem gerst hefur í starfsemi félagsins á árinu sem er að líða.

Formaður kom víða við í sinni yfirferð. Sem dæmi má nefna þá kjarasamninga sem félagið hefur gert á árinu en fram kom að félagið gekk frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitafélaga eftir harðvítugar deilur við sambandið vegna kröfu þeirra síðarnefndu um að svokallað Salek samkomulag þyrfti að vera fylgiskjal með samningum. Þessu hafnaði Verkalýðsfélag Akraness algjörlega og neitaði þess vegna að ganga frá samningnum á sínum tíma ef sambandið myndi standa fast á því að gera kröfu um að SALEK yrði fylgiskjal. Þessi ágreiningur endaði með því að VLFA stefndi Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdóm vegna þess að sambandið sagðist verða skuldbundið því að fylgja Salek samkomulaginu en fyrir Félagsdómi drógu fulltrúar Sambands íslenskra sveitafélaga það til baka og var málinu því vísað frá dómi. Í framhaldi af því gekk VLFA frá kjarasamningi við sambandið eftir að þeir féllu frá þeirri kröfu um að Salek samkomulagið yrði fylgiskjal með samningnum.

Formaður fór einnig yfir þá alvarlegu kjaradeilu sem sjómenn eiga nú í við útgerðamenn en eins og flestir vita hafa sjómenn í tvígang fellt kjarasamning og því ljóst að þessi deila er gríðarlega erfið viðfangs enda ber mikið á milli deiluaðila. Fram kom í máli formanns að hann sé kominn inn í samninganefnd sjómanna og muni leggja sitt að mörkum til þess að leysa þá deilu sem í gangi er enda miklir hagsmunir í húfi.

Formaður fór einnig yfir þá misskiptingu sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi og gerði það að umtalsefni að lágmarkstaxtar verkafólks séu alltof lélegir enda eru þeir langt frá þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Fram kom í máli formanns að þegar hækkun þingfarakaups er borið saman við hækkun lágmarkstaxta verkafólks þá komi fram að þingfarakaupið hafi hækkað um 464% en lægsti taxti verkafólks um 306% frá árinu 1996. Fyrir 20 árum var þingfarakaupið 195.000 kr. á mánuði en lægsti launataxti verkafólks var á sama tíma 60.000 kr. Í dag er lágmarkstaxti verkafólks kominn upp í 244.000 kr. en þingfarakaupið er hins vegar komið upp í 1.100.000 króna á mánuði. Þingfarakaupið hefur sem sagt hækkað um 905 þúsund á mánuði á meðan lægsti launataxti verkafólks hækkaði um 184 þúsund. Svo segja áhrifamenn í íslensku samfélagi að lagmarkslaun verkafólks hafi ætíð hækkað sérstaklega umfram aðra hópa samfélagsins. Þessar staðreyndir um þingfarakaupið gagnvart lægsta taxta verkafólks sýnir að það er rakalaus þvæla!

Í yfirferð formanns kom einnig fram að Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið í ströngu við hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn og nefndi hann í því samhengi að félagið hafi verið með fimm dómsmál vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga og innheimtumála vegna vangoldinna launa. Niðurstaða sé komin í tvö af þessum fimm dómsmálum en félagið vann tvö mál fyrir Félagsdómi gegn Norðuráli þar sem ágreiningur var um túlkun á ávinnslu á orlofs-og desemberuppbótum sem og túlkun á ávinnslu á starfsaldri.  Bæði þessi mál vann Verkalýðsfélag Akraness og munu þessir dómar hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá sem heyra undir niðurstöðu dómsins. Einnig hafa þessir dómar umtalsvert fordæmisgildi enda mun Norðurál þurfa að leiðrétta kjör fjölmargra starfsmanna fjögur ár aftur í tímann.

Fram kom í máli formanns að félagið hafi ætíð staðið þétt við bakið á sínum félagsmönnum við að verja réttindi og kjör sín og nefndi formaður að frá árinu 2004 til dagsins í dag sé félagið búið að innheimta tæpar 400 milljónir króna vegna hina ýmsu kjarasamningsbrota fyrir sína félagsmenn. Það kom fram í máli formanns að bara á þessu ári hafi félagið innheimt laun og önnur réttindi sem nemur rúmum 30 milljónum króna. Sem dæmi um það náði VLFA samkomulagi við Akraneskaupstað um að endurgreiða skólaliðum sveitarfélagsins álag vegna aðalhreingerninga sem starfsmenn inna af hendi ári hvert fjögur ár aftur í tímann eða 5,7 milljónir króna í heildina.

Í yfirferðinni kom skýrt fram hjá formanni að félagið stendur mjög vel bæði fjárhagslega og félagslega og mun reyna að halda áfram að berjast fyrir auknum réttindum og kjörum sinna félagsmanna. Það er stefna félagsins að hvika hvergi frá því að verja réttindi okkar félagsmanna og mun félagið alls ekki horfa í krónur og aura við að verja þau réttindi.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image