• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Aðalfundur sjómanna haldinn í gær í skugga verkfalls

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær en auk venjubundinna aðalfundastarfa þá var verkfall og kjaradeila við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að sjálfsögðu aðalumræðuefnið.

Eins og allir vita liggur nú fyrir að sjómenn hafa fellt tvo kjarasamninga sem gerðir voru og því morgunljóst að innhald í nýjum kjarasamningi þarf að vera mun innihaldsríkara en síðasti samningur sem felldur var með 80% atkvæða.

Sjómenn í sjómannadeild Verkalýðsfélagi Akraness hafa samþykkt að leggja áherslu á 5 atriði til að hægt verði að ná í gegn nýjum kjarasamningi en þau atriði sem um ræðir eru:

 

°              Sjómannaafslátturinn komi aftur inn

°              Olíuviðmiði verði breytt

°              Fæði sjómanna verði frítt

°              Hlífðarfatnaður verði sjómönnum að kostnaðarlausu

°              Netkostnaður verði lækkaður verulega

 

Þetta eru þau atriði sem sjómenn telja mikilvægt að náist fram til að hægt verði að ganga frá nýjum samningi og er það mat formanns að útgerðarmenn eigi alveg að geta komið til móts við þessar kröfur sjómanna.

Það er ríkir mikil samstaða á meðal sjómanna um að ná viðunandi kjarasamningi en það er hins vegar mikilvægt að almenningur átti sig á því mikilvæga og fórnfúsa starfi sem sjómenn þessa lands vinna og það oft á tíðum við mjög erfiðar aðstæður.

Það kom t.d. fram á fundinum í gær að sjómenn þurfi jafnvel að greiða allt að 100.000 kr. á mánuði fyrir það eitt að vera um borð í fiskiskipi.  Þessar 100.000 krónur liggja í fæðiskostnaði, hlífðarfatnaði og netkostnaði en það eru ekki margar starfsstéttir sem þurfa að greiða slíkar upphæðir fyrir það eitt að mæta í vinnuna!

Það má heldur ekki gleyma því að árið 2009 voru kjör sjómanna rýrð um 30 þúsund krónur eða yfir 300 þúsund á ári þegar sjómannaafslátturinn var afnumin í þrepum.  Um það ríkir mikil óánægja á meðal sjómanna og benda þeir t.d. á að þegar eftirlitsmenn frá Fiskistofu koma með þeim í túra þá fá þeir greidda skattfrjálsa dagpeninga.

Það liggur fyrir að djúpstæður ágreiningur er á milli sjómanna og útgerðamanna í þessari kjaradeilu og allt eins líklegt að þetta verkfall geti orðið nokkuð langvinnt en næsti fundur hefur verið boðaður af ríkissáttasemjara þann 5. janúar næstkomandi.     

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image