• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Dec

VLFA vann tvö mál gegn Norðuráli fyrir Félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Norðuráli vegna ágreinings í tveimur málum vegna túlkunar á greinum í kjarasamningi félagsins við Norðurál. Fyrra málið laut að túlkun á réttindaávinnslu starfsmanna til greiðslu orlofs- og desemberuppbóta og seinna málið laut að túlkun á ávinnslu á starfsaldurhækkunum. 

Það er skemmst frá því að segja að Félagsdómur féllst á allar dómskröfur Verkalýðsfélags Akraness í báðum málunum. Norðuráli var gert að greiða Verkalýðsfélagi Akraness 500.000 kr. í málskostnað fyrir hvort málið fyrir sig og var Norðuráli því gert að greiða VLFA samtals 1.000.000 kr. í málskostnað. 

Það er ljóst að umtalsverðir hagsmunir voru í húfi í þessum málum og þá sér í lagi hvað varðar túlkun á réttindaávinnslu starfsmanna til greiðslu á orlofs- og desemberuppbótum. Enda liggur fyrir að um háar upphæðir er að ræða enda eru orlofs- og desemberuppbætur samtals fyrir fullt starf hjá Norðuráli í dag 370.916 kr. eða 185.458 kr. hvor um sig.

Verkalýðsfélag Akraness valdi mál eins starfsmanns til að fara með sem prófmál fyrir félagsdóm til að fá úr því skorið hvort hann ætti rétt á hlutfalli af orlofs- og desemberuppbótum fyrir árin 2014 og 2015 og eins og áður sagði féllst félagsdómur á allar kröfur félagins og mun Norðurál þurfa að greiða umræddum starfsmanni um 200.000 krónur og að sjálfsögðu mun félagið fara fram á að dráttavextir verði greiddir af þeirri upphæð.

Það er morgunljóst að þessi dómur um réttindaávinnslu á orlofs- og desemberuppbótum hefur fordæmisgildi og ljóst að mun fleiri starfsmenn munu eiga rétt til greiðslu á orlofs- og desemberuppbótum en fyrirtækið hefur talið hingað til. Það liggur fyrir að VLFA mun gera kröfu á að allir starfsmenn sem samkvæmt dómnum eiga rétt á orlofs- og desemberuppbótum muni fá þær leiðréttar 4 ár aftur í tímann og er því ljóst er að um umtalsverðar upphæðir getur verið að ræða sem mun klárlega skipta þá starfsmenn sem þar heyra undir töluverðu máli.

Verkalýðsfélag Akraness var búið að reyna ítrekað að leysa þetta mál í sátt og samlyndi við forsvarsmenn fyrirtækisins en þeir töldu að þeim bæri ekki að greiða þetta og því fór Verkalýðsfélag Akraness með málið fyrir dómstóla sem hafa nú kveðið upp sinn endanlega útskurð. Það liggur fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei sætta sig við að brotið sé á réttindum okkar félagsmanna og ef félagið telur að brot hafi verið framin þá reynir félagið að sjálfsögðu að finna lausn á því. Ef það ekki tekst þá fer félagið með slík mál fyrir dómstóla. 

Í gegnum árin hefur félagið stefnt þó nokkrum fyrirtækjum vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga og vangoldinna launa og núna er félagið t.d. með eitt mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands og tvö önnur á leið þangað. Það mikilvægt að atvinnurekendur átti sig á því vel og rækilega að VLFA hefur ekki og mun ekki sætta sig við að brotið sé á réttindum sinna félagsmanna.  

Hægt er lesa dómana í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image