• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Aug

Stjórn VLFA ályktar um ofurbónusa

Á stjórnarfundi Verkalýðsfélags Akraness sem lauk rétt í þessu var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld og Alþingi að leggja án tafar fram lagafrumvarp sem kveður á um 95% skatt á fyr­ir­hugaðar ofurbónusa til starfs­manna eign­ar­halds­fé­laga Kaupþings og LBI.

 

Stjórn VLFA minnir á að föllnu bankarnir skildu eftir sig slóð eyðileggingar þar sem m.a. upp undir 10 þúsund fjölskyldur misstu heimili sitt á nauðungaruppboði vegna þess að verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust á nokkrum mánuðum. Þá voru einnig þúsundir launamanna sem misstu atvinnuna og kaupmáttur launa féll eins og steinn.

Að lykilstjórnendur eign­ar­halds­fé­laga Kaupþings og LBI skuli voga sér að ætla að misbjóða siðferðiskennd landsmanna í ljósi þeirrar eyðileggingar og þjáningar sem föllnu bankarnir lögðu á almenning og heimili þessa lands er gjörsamlega óskiljanlegt.

Það er greinilegt að græðgin og spillingin er aftur að skjóta föstum rótum í fjármálakerfinu. Slík spilling og græðgi mun almenningur ekki sætta sig við!

Ályktun

Akranesi 30. ágúst 2016

"Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á Alþingi að setja lög sem kveða á um 95% skatt á fyrirhugaða milljarðabónusa sem stjórnarmenn föllnu bankanna hafa í hyggju að greiða sér út á næstunni.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness telur mikilvægt að minna á að gömlu viðskiptabankarnir þrír bera ábyrgð á og skildu eftir sig slóð eyðileggingar í íslensku samfélagi. Eyðileggingin birtist m.a. í því að kaupmáttur launafólks féll eins og steinn, verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust á nokkrum mánuðum sem leiddi til þess að uppundir 10 þúsund fjölskyldur misstu heimili sitt á uppboð, sparnaður almennings og eldri borgara gufaði að stórumhluta upp að ógleymdu því að lífeyrir launafólks hefur verið skertur um allt að 200 milljarða vegna 500 milljarða taps lífeyrissjóðanna á glórulausum fjárfestingum í fjármálakerfinu.

Í ljósi þessarar eyðileggingar föllnu bankanna á íslensku samfélagi skorar stjórn Verkalýðsfélags Akraness á Alþingi Íslendinga að leggja nú þegar fram frumvarp að lögum sem kveður á um 95% skatt á þessa ofurbónusa sem nokkrir einstaklingar hafa í hyggju að skammta sér.

Stjórn VLFA harmar það að stjórnir föllnu bankanna ætli að misbjóða íslenskum almenningi með þessari sjálftöku sem einkennist af græðgi og spillingu. "

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image