• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

06
Nov

Stefnan gegn SALEK hópnum að verða klár

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness ákveðið í samráði við lögmenn félagsins að stefna öllum aðilum SALEK samkomulagsins, sem undirritað var 27. október síðastliðinn. Það er mat félagsins að þetta SALEK samkomulag sé skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaganna enda kemur fram í samkomulaginu að fyrirfram sé búið að ákveða hverjar launabreytingar eigi að vera í þeim frjálsu samningum sem félagið er að gera og á eftir að gera. 

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að á formannafundi ASÍ þann 28. október síðastliðinn kom fram hjá nokkrum formönnum, meðal annars Aðalsteini Baldurssyni formanni Framsýnar á Húsavík, Finnbirni Hermannssyni formanni Byggiðnar og einnig Kristjáni Þórði Snæbjörnssyni formanni RSÍ, að klárt mál væri að SALEK samkomulag aðila vinnumarkaðarins væri skerðing á samningsrétti stéttarfélaganna. Hinsvegar heldur forseti Alþýðusambandsins því fram að samkomulagið innihaldi ekki skerðingu á samningsrétti en það er mat formanns VLFA að þar sé hann að tala gegn betri vitund því flestum ber saman um að hér sé um skerðingu á samningsrétti frjálsra stéttarfélaga að ræða. Hvernig má líka annað vera þegar búið er að ákveða fyrirfram nákvæmlega samkvæmt rammasamkomulaginu sem undirritað var 27. október, hverjar kostnaðarbreytingarnar mega vera? Og ekki bara það heldur kemur skýrt fram í rammasamkomulaginu að allir aðilar að samkomulaginu séu skuldbundnir til að fylgja því eftir í hvívetna. Og því til viðbótar hafa aðilar rammasamkomulagsins skuldbundið sig til að láta það einnig gilda fyrir alla þá sem standa utan samkomulagsins. Hugsið ykkur að það sé búið að skuldbinda aðila sem eru ekki einu sinni aðilar að þessu samkomulagi til að taka þeim launabreytingum sem þessir tilteknu aðilar hafa ákveðið. Að sjálfsögðu getur slíkt ekki staðist frjálsan rétt stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Það liggur líka fyrir að það eru veruleg áhöld um hvaða umboð forseti ASÍ hafði til að ganga frá umræddu rammasamkomulagi því nánast engin lýðræðisleg umræða fór fram hjá aðildarfélögum ASÍ hvað þetta samkomulag varðar, hvað þá kosningar eða annað slíkt. Til dæmis var samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands tilkynnt um að forsetinn væri að fara að undirrita þetta samkomulag nánast 5 mínútum áður en undirskriftin átti að eiga sér stað.

Núna eru lögmenn félagsins að leggja lokahönd á stefnuna en hún verður klár til birtingar á mánudaginn og það er morgunljóst að hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir allt íslenskt launafólk og öll stéttarfélög í landinu enda er með þessu rammasamkomulagi verið að fótum troða frjálsan rétt stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar.

05
Nov

Hugmyndir um að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði á kostnað launahækkana

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá hefur Verkalýðsfélag Akraness falið lögmönnum félagsins að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort svokallað rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þetta SALEK samkomulag verður ekki öðruvísi skilið en að verið sé að skerða samningsrétt stéttarfélaganna gríðarlega. Enda segir í samkomulaginu að mótuð hafi verið sameiginleg launastefna til ársloka 2018 og Samtök atvinnulífsins, ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga skuldbindi sig til að framfylgja þessari launastefnu gagnvart öllum þeim hópum og einnig þeirra sem standa utan samkomulagsins. Takið eftir, Alþýðusambandið er búið að gera rammasamkomulag við þessa aðila þar sem samningsrétturinn er nánast tekinn af stéttarfélögunum og það án þess að hafa neitt umboð til þess eða að kosningar hafi verið framkvæmdar til að veita slíkt umboð. Þessi vinnubrögð eru stórundarleg þó ekki sé fastar að orði kveðið í ljósi þess að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur hafa stéttarfélögin frjálsan samningsrétt.

Eins og kom einnig fram hér í gær var formanni tilkynnt þegar hann átti fund við forsvarsmenn launanefndar sveitarfélaganna og ríkissáttasemjara í gær að búið væri að ákveða að svigrúm til launahækkana væri einungis rúm 20% því 11,4% áttu að dragast frá vegna fyrri launahækkana sem komið hafa fram í kjarasamningum frá nóvember 2013. Að sjálfsögðu var þetta ekki skilið öðruvísi af hálfu formanns en að hér væri búið að ákveða fyrirfram í gegnum þetta rammasamkomulag hverjar launahækkanirnar ættu að vera þrátt fyrir að samningsrétturinn sé sjálfstæður hjá VLFA eins og öllum öðrum stéttarfélögum á Íslandi samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Það magnaðasta í þessu öllu saman er að formaður VLFA fékk tölvupóst frá forsvarsmönnum launanefndar sveitarfélaga í gærkvöldi þar sem skýrt var frá því að aðilar rammasamkomulagsins hefðu komið saman og ákveðið að breyta viðmiðum frá árinu 2013 hvað varðar sveitarfélögin sem gerði það að verkum að frádrátturinn fór úr 11,4% í 6,3%. Formaður spyr sig eðlilega: Er þetta tilviljun að aðilar SALEK hópsins hafi verið kallaðir saman og frádrátturinn sé lækkaður úr 11,4% í 6,3%. Nei, fjandakornið ekki og má ætla að það hafi gripið um sig einhver hræðsla hjá þessum aðilum sem hljóta að sjá það hvernig þeir hafa skert kjarasamningsrétt sjálfstæðra stéttarfélaga.

Það er fleira sem hefur verið rætt inni í þessum reykfylltu bakherbergjum SALEK hópsins. Eitt af því sem formaður hefur heyrt er að hugmyndir séu um að hækka eigi iðgjöld í samtryggingarlífeyrissjóðinn úr 12% upp í 15,5% á kostnað almennra launahækkana. Formaður trúir ekki öðru en að þessar breytingar fari klárlega í almenna atkvæðagreiðslu því hann er sannfærður um að það er enginn vilji á meðal launafólks að setja meira inn í þá hít sem lífeyrissjóðskerfið er á meðan kerfið hefur ekki getað sýnt fram á sjálfbærni. Ef það er til svigrúm hjá atvinnurekendum til að hækka iðgjöld þá væri miklu nær að nota þá fjármuni annað hvort til almennra launahækkana eða þá að þeir verði eyrnamerktir í séreignarlífeyrissjóð hvers launamanns. En að ætla sér að hækka iðgjöldin um 3,5% í áföngum á kostnað almennra launahækkana er algjörlega galið því hugmyndir eru líka um að hækka töku lífeyris úr 67 árum upp í 70 ár í þrepum og hjá opinbera geiranum úr 65 árum upp í 67 ár. Það er bjargföst skoðun formanns að það sé enginn vilji hjá launafólki til að setja meira inn í samtryggingarþátt lífeyrissjóðsins. Við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum í hruninu og búið er að skerða lífeyrisréttindi um 200 milljarða síðan þá.

Formaður skorar á allt launafólk að vera vel vakandi yfir því sem er að gerast á íslenskum vinnumarkaði því það er markmið þessara aðila að festa hér í sessi samræmda láglaunastefnu til eilífðarnóns. Stöndum saman öll sem eitt og komum í veg fyrir að slíkt gerist.

04
Nov

SALEK samkomulaginu verður vísað til félagsdóms

Rétt í þessu sleit Verkalýðsfélag Akraness viðræðum við launanefnd sveitarfélaga vegna kjarasamnings sem félagið er með við sambandið vegna starfsmanna sem vinna hjá Akraneskaupstað. Þetta gerði formaður vegna þess að nú liggur fyrir að launanefnd sveitarfélaga vísar í rammasamkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins sem svokallaður SALEK hópur gerði og var undirritað 27. október síðastliðinn.

Forsvarsmenn launanefndar sveitarfélaga segja að í samkomulaginu sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu sé kveðið á um að mörkuð hafi verið samræmd launastefna þar sem tekið skal tillit til launabreytinga sem átt hafa sér stað frá nóvember 2013 og í þessu rammasamkomulagi er kveðið á um að heildar kostnaðaráhrif kjarasamningsins megi ekki vera hærri en 32% í árslok 2018.

Nú hefur komið í ljós að kostnaðaraukinn frá nóvember 2013 fram að núverandi kjaraviðræðum er 11% sem þýðir að starfsmönnum sveitarfélaga vítt og breitt um landið stendur einungis til boða rúm 20% til ársloka 2018.  Með öðrum orðum, forseti Alþýðusambands Íslands var búinn að semja fyrirfram um hverjar heildar launahækkanir til handa starfsmönnum sveitafélaganna mega vera og það þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um sjálfstæðan samningsrétt stéttarfélaganna samkvæmt lögum.

Það er morgunljóst að þetta rammasamkomulag SALEK hópsins stenst alls ekki lög um stéttarfélög og vinnudeilur enda er þar skýrt  kveðið á um að það séu stéttarfélögin sem fara með samningsumboðið fyrir hönd sinna félagsmanna. Á þeirri forsendu stenst það ekki eina einustu skoðun að meðal annars forseti ASÍ sé búinn að ganga frá rammasamkomulagi fyrir öll aðildarfélög innan ASÍ sem kveður á um hvert hámark launahækkana getur orðið. Ekki bara það heldur eru þessir snillingar líka búnir að ákveða hvaða launahækkanir fyrri kjarasamninga skuli dragast frá þeim samningum sem nú eru lausir. Hvernig í himninum getur slíkt staðist frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna á Íslandi sem kveðið er á um í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur?

Það má líka spyrja sig hvað ef getið hefði verið um í þessu rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins að allar launahækkanir á næstu árum yrðu frystar? Það er í raun og veru jafn fáránlegt og að ákveða fyrirfram hverjar hámarkslaunahækkanir mega vera að frádregnum einhverjum fyrirfram gefnum launahækkunum fyrri ára.

Formaður fór ítarlega yfir það með forsvarsmönnum launanefndar sveitarfélaga og ríkissáttasemjara að það sem hér væri búið að gerast í svokölluðum SALEK hóp væri klárt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Í rammasamkomulaginu væri samningsrétturinn fótum troðinn þar sem búið væri að ákveða fyrirfram, án vitneskju stéttarfélagsins, um að 11% skuli koma til frádráttar á því sem um kann að semjast. Ekki bara að það komi til frádráttar heldur er þetta rammasamkomulag líka þannig uppbyggt að það má ekki semja um meira en 32% til ársloka 2018 og það þrátt fyrir að stéttarfélögin séu með frjálsan samningsrétt. Er nokkur furða að helstu forsvarsmenn launagreiðenda á Íslandi skuli fagna þessu samkomulagi eins og enginn sé morgundagurinn?

Á þessari forsendu sem hér hefur verið rakin hefur félagið falið lögmönnum félagsins að láta á það reyna fyrir félagsdómi hvort svokallaður SALEK hópur hafi heimild til að skerða og fótum troða samningsrétt frjálsra stéttarfélaga jafn illilega og kveðið er á um í umræddu rammasamkomulagi. Samkomulagi sem ekki einu sinni hefur farið til atkvæðagreiðslu á meðal almennra félagsmanna Alþýðusambands Íslands. Grundvallaratriðið er það að fulltrúar atvinnulífsins, ríkis og sveitafélaga vísa nú eðlilega í umrætt rammasamkomulag og segjast vera búnir að ganga frá samkomulagi um hverjar launahækkanirnar eiga að vera til ársins 2018. Formaður ítrekar það að þessi vinnubrögð standast enga skoðun, engin lög og eru siðferðislega röng enda er verið að fótum troða lýðræðislegan rétt frjálsra stéttarfélaga til kjarasamningsgerðar.

Lögmenn félagsins eru sammála formanni hvað þessa túlkun varðar og hefur þetta mál verið sett í forgang hjá þeim og vænta má að málinu verði stefnt fyrir félagsdóm innan fárra daga.

Formaður sá sig knúinn til þess í ljósi þess að honum var stillt upp við vegg á grundvelli þessa rammasamkomulags um launahækkanir að slíta þessum viðræðum við launanefnd sveitarfélaga. Enda er það sorglegt til þess að vita að forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands skuli vega svo illilega að sjálfstæði sinna eigin stéttarfélaga með þeim hætti sem birtist í þessu rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins.

28
Oct

Samningaréttur launafólks verður skertur

Það er óhætt að segja að það gangi mikið á á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir en svokallaður SALEK hópur undirritaði í gær nýtt samkomulag undir yfirskriftinni "betri vinnubrögð, betri árangur." Þetta samkomulag var síðan til umfjöllunar á formannafundi Alþýðusambands Íslands í dag. Það er skemmst frá því að segja að formaður Verkalýðsfélags Akraness ber verulegan kvíðboga fyrir þeirri hugmyndafræði sem liggur á bakvið þetta nýja vinnumarkaðslíkan. Vinnumarkaðslíkan sem byggist á því sem gerist á hinum Norðurlöndunum en talað er um að sett verði á laggirnar svokallað þjóðhagsráð aðila vinnumarkaðarins sem muni hafa það hlutverk að meta í hvert sinn sem kjarasamningar eru lausir hvert svigrúm til launahækkana sé.

Það er vonlaust að ætla sér að taka einn þátt út úr norræna vinnumarkaðslíkaninu og heimfæra það yfir á íslenskt fyrirkomulag eins og þann þátt er lýtur að þjóðhagsráðinu. Ef að menn ætla að hverfa til norræna módelsins þá verður að taka alla þá þætti sem eru inni í því módeli og nægir að nefna í því samhengi að launamunur á milli Norðurlandanna og Íslands er í kringum 30-60%. Það er ekkert verið að tala um í þessu nýja vinnumarkaðslíkani að jafna þennan mun, það er verið að tala um að semja um afar hóflegar launahækkanir í anda þess svigrúms sem þjóðhagsráð mun komast að en það svigrúm verður mjög líklega í anda þess sem Seðlabankinn, Samtök atvinnulífsins og fjármálaráðuneytið hafa ætíð komist að þegar samningar eru lausir. Nánast undantekningalaust hafa þeir talað um að svigrúmið sé 3-3,5%. Formaður óttast það að ef þetta vinnumarkaðslíkan verður að veruleika þá sé búið að hlekkja íslenskt launafólk við samræmda láglaunastefnu og ekki verði heimilt að taka tillit til sterkrar stöðu einstaka atvinnugreina og fyrirtækja þegar kemur að mótun kröfugerðar. Semsagt, ekki megi sækja aukna hlutdeild til fyrirtækja sem skila milljörðum eða jafnvel tugum milljarða í hagnað því allir eigi að hlíta því sem þjóðhagsráð ákveður á hverjum tíma fyrir sig.

Það kom fram á formannafundi ASÍ áðan að það er ljóst að samningsréttur stéttarfélaganna verður skertur ef þetta nýja vinnumarkaðslíkan verður að veruleika. Eins og áður sagði þá er ekki nóg að taka einn þátt upp sem tengist norræna módelinu, það þarf að horfa til margra þátta, ekki bara þess mikla launamunar sem er á milli Norðurlandanna og Íslands hvað laun varðar heldur einnig þátta eins og þeirra sem tengjast vöxtum, verðtryggingu og öðru er viðkemur húsnæðismálum neytenda. Svo ekki sé talað um kostnaðarhlutdeild í heilbrigðisþjónustunni.

Já, það er ekki gott að taka einungis þann þátt út þar sem íslensku launafólki verða skammtaðar launahækkanir af hópi aðila sem sitja í svokölluðu þjóðhagsráði á sama tíma og laun margra launamanna duga vart fyrir framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Formaður biður allt launafólk að fylgjast vel með umræðunni og reyna að tryggja með afgerandi hætti að hér sé ekki verið að skerða samningsrétt stéttarfélaganna, samningsrétt sem gerir meðal annars mögulegt að sækja á atvinnugreinar sem hafa skilað góðri afkomu og eru vel aflögufærar til að bæta kjör sinna starfsmanna. Það liggur fyrir að ef Verkalýðsfélag Akraness hefði fylgt eftir samræmdu launastefnunni sem var fyrst mótuð 2011 þá væru laun starfsmanna í stóriðjunum á Grundartanga 1 milljón króna lakari á ársgrundvelli en þau eru í dag. Og það er þetta sem Verkalýðsfélag Akraness hræðist innilega enda byggist hræðslan á því að verða hlekkjuð við samræmda láglaunastefnu næstu áratugina. Formaður er svosem ekki hissa þó fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, stjórnvalda, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila atvinnulífsins skuli fagna þessu samkomulagi enda er það og verður að mati formanns á kostnað íslensks launafólks.

23
Oct

Heimsókn frá Drífanda

Í dag komu starfsmenn og trúnaðarmenn stéttarfélagsins Drífanda, Vestmannaeyjum í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness. Fengu gestirnir kynningu á starfsemi félagsins og snæddu saman hádegisverð. Að því loknu skoðaði hópurinn Safnasvæðið á Akranesi.

Samskipti milli þessara stéttarfélaga hafa ætíð verið góð og uppbyggileg enda hafa félögin sameiginlegra hagsmuna að gæta og hafa staðið saman í baráttunni fyrir bættum hag launafólks. Bæði félögin hafa innan sinna raða félagsmenn úr ýmsum atvinnugreinum og má þar nefna sjávarútveginn sérstaklega, en stór hópur beggja félaga hefur atvinnu af sjósókn og fiskvinnslu og skipta málefni þessa hóps því bæði félögin gríðarmiklu máli.

Það er alltaf gagnlegt að funda með fulltrúum annarra félaga, ræða málefni sem helst brenna á fólki hverju sinni og treysta böndin enn frekar, og eru fulltrúum Drífanda færðar bestu þakkir fyrir góða og gagnlega heimsókn.

22
Oct

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings við Akraneskaupstað

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti fund með launanefnd sveitarfélaganna hjá ríkissáttasemjara í gær en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni vísaði félagið kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Farið var yfir stöðuna en það er ljóst að töluverðrar óþreyju er farið að gæta hjá þeim starfsmönnum sem vinna eftir kjarasamningi VLFA við Akraneskaupstað og vonast menn til þess að hægt verði að ganga frá kjarasamningi eins fljótt og kostur er. Það er æði margt í stöðunni sem bendir til þess að kjarasamningur við sveitarfélögin verði með sambærilegu sniði og kauphækkunum og Starfsgreinasamband Íslands samdi um við ríkið fyrir rúmri viku síðan. Sá kjarasamningur gaf í heildina tæp 30% til handa ófaglærðu starfsfólki sem starfar hjá ríkinu.

Það eru fleiri mál sem tengjast þessum kjarasamningi. Þau mál tengjast sérmálum sem Verkalýðsfélag Akraness er með við Akraneskaupstað og hefur formaður átt þónokkuð marga fundi með bæjarstjóra, formanni bæjarráðs og starfsmönnum Akraneskaupstaðar þar sem reynt hefur verið að afgreiða þau sérmál þannig að þau muni ekki flækjast fyrir þegar kjarasamningurinn við launanefnd sveitarfélaga verður klár. Eitt af þeim málum sem um ræðir lýtur að starfsmönnum á leikskólum en þeir hafa verið með sérákvæði sem kveður á um 4% álag en samkvæmt núgildandi sérákvæði er þetta ákvæði dottið út en VLFA er að vinna ötullega að því að þetta ákvæði muni halda sér áfram. Hefur formaður meðal annars gert bæjaryfirvöldum grein fyrir því að félagið muni ekki ganga frá kjarasamningi ef þetta ákvæði verður ekki frágengið sem og nokkur önnur ákvæði. En formaður er nokkuð vongóður með að farsæl niðurstaða fáist ef marka má þá fundi sem hann hefur átt með forsvarsmönnum bæjaryfirvalda en það skýrist á næstu dögum.  

22
Oct

Fundað vegna netkostnaðar sjómanna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hafa sjómenn gagnrýnt nokkuð harðlega þann mikla kostnað sem þeir þurfa að greiða vegna netnotkunar á sjó. Á þeirri forsendu átti formaður fund með forsvarsmönnum HB Granda og fulltrúa frá Radíómiðlun til að fara yfir þessi mál. Formaður viðurkennir fúslega að hann hefur ekki ýkja mikla þekkingu á þeirri tækni sem fólgin er í þeim tæknibúnaði sem til þarf til að ná netsambandi úti á sjó. Hinsvegar er alveg ljóst að miðað við upplýsingar frá sjómönnum þá er sá kostnaður sem þeir eru að greiða gríðarlega hár. Mjög algengt er að sjómenn séu að borga þetta frá nokkur þúsund krónum upp í jafnvel fleiri tugi þúsunda á mánuði.

Skýringin sem formaður fær er að kostnaður við gervihnattasamband geri þennan kostnað þetta háan en hinsvegar kemur fyrir að skipin geta oft notað 3G til að komast í samband. En einhverra hluta vegna greiða sjómennirnir sama gjald þó slík tenging sé til staðar. Sjómennirnir eru að greiða 10 krónur fyrir hvert Mb. en í landi er hægt að fá það fyrir rétt rúma 3 aura. Það er æði margt sem þarf að fara yfir í þessu máli og útskýra og á þeirri forsendu ætlar HB Grandi að skoða þessi mál betur og í framhaldinu stendur til að funda með öllum áhöfnum á skipum HB Granda og fara yfir og svara spurningum hvað þessi mál varðar. Formaður trúir ekki öðru en að hægt sé að ná verulegri hagræðingu og lækkun á þessari þjónustu til handa sjómönnum því eins og staðan er í dag er þessi kostnaður alltof alltof mikill. Hinsvegar ber öllum saman um að þessi þjónusta sé mikilvæg og skipti miklu máli fyrir sjómenn að geta verið í betra sambandi við umheiminn þegar þeir gegna sínu mikilvæga starfi sem sjómennskan er, fjarri heimahögum.

20
Oct

Stjórnarkjör VLFA

Á fundi sínum þann 22. september síðastliðinn lagði stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fram framboðslista til stjórnar félagsins næstu tvö árin. Auglýst var eftir öðrum framboðum hér á heimasíðunni og í Póstinum. Þar sem ekki bárust aðrir listar til kjörstjórnar telst listi stjórnar og trúnaðarráðs vera sjálfkjörinn til næstu tveggja ára. 

Listann má sjá með því að smella hér.

15
Oct

Töluverð andstaða við hugmyndir SALEK hópsins á þingi SGS

Rétt í þessu lauk þriggja daga þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Hotel Natura. Verkalýðsfélag Akraness átti 6 fulltrúa á þessu þingi en þeir voru auk formanns félagsins Hafsteinn Þórisson, Bjarni Ólafsson, Jóna Adolfsdóttir, Guðrún Linda Helgadóttir og Hafþór Pálsson. Það hefur verið viðtekin venja að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness hafa ætíð komið á þessi þing til þess að segja sitt álit og taka þátt í þeirri umræðu sem á þingunum fer fram. Á þessu þingi var engin untantekning þar á og flutti formaður meðal annars ræðu en þar fór hann víða um og sagði meðal annars að stigin hefðu verið nokkur jákvæð skref í síðustu kjarasamningum í þá átt að lagfæra laun þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Það kom einnig skýrt fram í hans máli að töluvert er enn í land með að launataxtar og lágmarkslaun séu þannig úr garði gerð að þau dugi fyrir þeim lágmarks framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.


Formaður fór einnig yfir þær hugmyndir sem hafa mikið verið í fréttum að undanförnu og lúta að vinnu svokallaðs SALEK hóps þar sem talað er um að taka upp nýtt vinnumarkaðslíkan hér á landi í anda þess sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Það kom skýrt fram hjá formanni að þessar hugmyndir eru stórhættulegar fyrir íslenska verkalýðshreyfingu og geta að mati hans og reyndar miklu fleiri ógnað tilvist og tilverurétti stéttarfélaganna. Hugmyndirnar ganga meðal annars út á það að það verði fámennur hópur væntanlega hagfræðinga innan úr verkalýðshreyfingunni og launþegamegin sem ákveða hvert svigrúm til launahækkana getur verið. Þetta myndi til að mynda þýða að ef þessi hópur myndi komast að því að svigrúmið væri 3,5% þá yrði það svigrúmið sem stéttarfélögin myndu hafa til samningsgerðar. Það er klárt mál að þetta myndi rýra samningsrétt stéttarfélaganna stórkostlega og myndi meðal annars leiða til þess að stéttarfélög sem hafa sterk og öflug fyrirtæki innan síns félagssvæðis hefðu ekki tök á að sækja sérstaklega um launahækkanir vegna góðrar afkomu fyrirtækjanna. Semsagt, nýja vinnumarkaðslíkanið gengur út á að fest verði í sessi svokölluð samræmd láglaunastefna á íslenskum vinnumarkaði. Töluverð umræða varð á þinginu um þessa hugmynd um nýtt vinnumarkaðslíkan og það er morgunljóst ef marka má viðbrögð margra sem tóku til máls að mönnum hugnast ekki þessar hugmyndir þó vissulega megi finna aðila sem vilja láta skoða þetta nánar. Allavega er eitt ljóst, að Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei taka þátt í því að samningsréttur stéttarfélaganna verði rýrður með þessum hætti og formaður fór yfir það á þinginu að ef Verkalýðsfélag Akraness hefði farið í einu og öllu eftir samræmdu launastefnunni sem um var samið 2011 og 2013 þá væru laun starfsmanna á Grundartanga 1 milljón króna lakari á ársgrundvelli en þau eru í dag. Á þessu sést hvílík vá getur verið fyrir dyrum ef þetta vinnumarkaðsfyrirkomulag verður fest hér í sessi.

Þingið var nokkuð gott og ríkti nokkuð góð samstaða á því en fjölmörg mál voru til umræðu er lutu til dæmis að atvinnumálum, húsnæðismálum og félagslegum undirboðum. Það kom skýrt fram á þinginu að félagslegum undirboðum verða stéttarfélögin að mæta af fullum þunga og koma algjörlega í veg fyrir að ringulreiðin sem ríkti á íslenskum vinnumarkaði vegna félagslegra undirboða á árunum 2005, 2006 og 2007 endurtaki sig. Eins og áður sagði var samstaðan nokkuð góð á þinginu enda bar það yfirskriftina "Sterkari saman." Framundan eru mörg aðkallandi verkefni og því mikilvægt að yfirskrift þingsins verði félögunum að leiðarljósi í þeirri vinnu.  

09
Oct

Vaktabónus bræðslumanna HB Granda hækkar um 100%

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gekk frá samkomulagi í gær við forstjóra HB Granda, Vilhjálm Vilhjálmsson, um hækkun á vaktabónusi til handa bræðslumönnum. Samkomulagið gengur út á að vaktabónusinn er hækkaður um 100% en fyrir samninginn voru greiddar 1.686 kr. fyrir hverja vakt fyrstu 50 vaktirnar sem staðnar eru á hverju ári en eftir samkomulagið er greitt fyrir þær 3.372 kr. á hverja vakt. Frá 51. vakt voru greiddar 1.003 kr. fyrir hverja vakt en eftir samkomulagið er þessi upphæð komin upp í 2.006 kr. Vaktafjöldi starfsmanna er í kringum 150-180 á ársgrundvelli og þessi hækkun þýðir því að árslaun starfsmanna eru að hækka um eða yfir 200.000 kr. á ári eða sem nemur á annan tug þúsunda á mánuði. Rétt er að geta þess að þetta samkomulag gildir afturvirkt frá 1. maí á þessu ári.  

Þetta samkomulag er gert þrátt fyrir að kjarasamningur bræðslumanna sé ekki laus og er þetta viðleitni fyrirtækisins til að gera vel við starfsmenn þegar vel gengur. Þetta er líka gert til að mæta því að bónus fiskvinnslufólks í HB Granda var hækkaður allverulega í síðustu samningum, eins og fram kom hér á heimasíðunni, þegar Verkalýðsfélag Akraness gekk frá sérstökum samningi vð forsvarsmenn fyrirtækisins. Það er alltaf ánægjulegt þegar forsvarsmenn fyrirtækja samþykkja að deila góðri afkomu til starfsmanna eins og nú er verið að gera og það þrátt fyrir að samningar séu ekki lausir.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image