• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Feb

Samið um 4% álag fyrir starfsmenn á leikskólum Akraneskaupstaðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir harða kjaradeilu vegna svokallaðs Salek samkomulags. Eins og einnig hefur komið fram þá féll Samband íslenskra sveitarfélaga frá því að samkomulagið þyrfti að vera hluti af kjarasamningi og einnig breytti það inngangi samningsins sem gerði það að verkum að félagið var tilbúið til að ganga frá nýjum kjarasamningi. Kosningu um kjarasamninginn er nú lokið og var hann samþykktur með rúmlega 97% atkvæða.

Rétt er að geta þess að samhliða þessum kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga gekk Verkalýðsfélag Akraness frá samkomulagi við Akraneskaupstað vegna svokallaðra sérákvæða sem gilda bara fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar. Sum ákvæði var félagið með fyrir, svosem sumaruppbót upp á 26.585 kr. sem og júníuppbót til þeirra sem voru í starfi fyrir 30. mars 2005. Nemur sú uppbót 6% af heildarlaunum. Einnig tókst að ná fram í þessu sérsamkomulagi sem formaður gerði við bæjarstjóra, aukavaktarfríi vegna vaktavinnufólks sem starfar á dvalarheimilinu Höfða. 

Þessu til viðbótar gekk félagið frá sérákvæði fyrir ófaglært starfsfólk á leikskólum bæjarins og nemur það álag 4% og mun það verða greitt afturvirkt frá 1. janúar 2015 í næstu útborgun. Þessi 4% eru að skila umræddum starfsmönnum rúmlega 12.000 kr. launahækkun á mánuði og afturvirknin mun nema í kringum 160.000 kr. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gildir kjarasamningurinn frá 1. maí 2015 þannig að starfsmaður í fullu starfi er að fá hækkun á sínum grunnlaunum um á bilinu 25.000 til 28.000 kr. og afturvirknin mun skila starfsmönnum í kringum 235.000 kr. Starfsmaður í fullu starfi á leikskóla mun því fá uppundir 400.000 kr. vegna afturvirkninnar. Það er ljóst að slík upphæð skiptir fólk máli. 

Félagið er ánægt með að hafa getað gengið frá þessum sérmálum við Akraneskaupstað og samstarfið við fulltrúa Akraneskaupstað þau Regínu Ásvaldsdóttur, Ólaf Adolfsson og Steinar Adolfsson var til mikillar fyrirmyndar enda laut þessi kjaradeila ekki beint að bænum heldur sogaðist bærinn inn í hana vegna Salek samkomulagsins sem Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að. Vill félagið þakka bæjaryfirvöldum fyrir sinn þátt í lausn á deilunni. Hér má sjá myndir frá undirritun samkomulagsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image