• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Feb

VLFA lýsir yfir stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík

Rétt í þessu lauk sameiginlegum aðalfundi deilda Verkalýðsfélags Akraness (nema sjómannadeildar). Auk venjubundinna aðalfundarstarfa var eðli málsins samkvæmt rædd sú alvarlega staða sem upp er komin hjá þeim sem starfa í Alcan í Straumsvík. Nú hafa starfsmenn þar verið samningslausir í 14 mánuði en þeir hafa mætt afar óbilgjarnri kröfu af hálfu eigenda Alcan. 

Þessi krafa byggist á því að vilja verktakavæða störf sem unnin eru daglega inni í fyrirtækinu, störf eins og í mötuneyti, við ræstingar og hliðgæslu og telja sig með þessu geta sparað sér uppundir 40 milljónir á ári. Með þessari kröfu vilja þeir gjaldfella laun sem unnin eru í þessum störfum um allt að 30-40% og að þeir sem starfi við þessi störf lúti kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði sem eru í mörgum tilfellum langtum lakari en gerist í kjarasamningum tengdum stóriðjum. 

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa haldið því fram að þeir séu eina fyrirtækið á Íslandi sem hafi slíkar kvaðir en slíkt stenst ekki eina einustu skoðun enda liggur fyrir að til dæmis eru öll dagleg störf hjá Norðuráli á Grundartanga unnin af starfsmönnum sem taka laun eftir kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál. Það eru einungis verktakar sem koma í tímabundin verkefni inn á svæðið sem ekki taka laun eftir þessum kjarasamningi. Enda kæmi það aldrei til greina hjá Verkalýðsfélagi Akraness að gjaldfella laun með því að samþykkja að hverfa frá stóriðjusamningi yfir í kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði. Slíkt myndi eins og áður hefur komið fram leiða til tekjulækkunar upp á 30-40%. 

Það eru fleiri stóriðjufyrirtæki á Grundartanga eins og til dæmis Elkem Ísland. Þar eru þeir með mötuneyti og ræstingu í verktöku en Verkalýðsfélag Akraness tryggði með afgerandi hætti að þeir sem starfa við þau störf njóta mjög sambærilegra kjara og þeir sem starfa almennt inni á svæðinu. Þeir njóta mun hærri grunnlauna, þeir njóta ferðapeninga, bónusa og þeir njóta miklu hærri orlofs- og desemberuppbóta en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Það er annað verktakafyrirtæki að nafni Snókur sem starfar inni hjá Elkem Ísland og þar gilda sömu laun og greidd eru hjá Elkem Ísland. Þessu til viðbótar eiga Norðurál og Elkem Ísland sameiginlegt fyrirtæki sem heitir Klafi og sér um allar út- og uppskipanir og það sama gildir þar, þau kjör sem gilda í stóriðjunum á Grundartanga gilda einnig fyrir starfsmenn Klafa og því er það fjarri lagi hjá forsvarsmönnum Alcan að um störf sem sinnt er í stóriðjum vítt og breitt um landið gildi kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi réttindabarátta skiptir gríðarlega miklu máli, að stéttarfélögin standi fast í lappirnar og láti ekki eigendur erlendra auðhringja skerða laun þeirra sem starfa í stóriðjunum með slíkum hótunum eins og þeir hafa viðhaft í þessari deilu. Laun í stóriðjum hafa almennt verið mun betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði eins og áður sagði og það er skemmst frá því að segja að kjarasamningar Norðuráls og Alcan í straumsvík runnu út á nákvæmlega sama tíma eða nánar tiltekið 1. janúar 2015. Verkalýðsfélag Akraness gekk frá fantagóðum samningi við forsvarsmenn Norðuráls, samningi sem er launavísitölutryggður og skilaði starfsmönnum Norðuráls 16% hækkun á fyrsta ári auk 300.000 kr. eingreiðslu á hvern einasta starfsmann sem starfar hjá fyrirtækinu. Einnig er rétt að geta þess að félagið gekk líka frá afar góðum samningi við Elkem Ísland á Grundartanga. Launakjör Elkem Íslands og Norðuráls eru orðin 12-14% betri en hjá Alcan í Straumsvík eins og staðan er í dag. 

Aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness telur afar brýnt að starfsmenn standi fast í lappirnar og gefi ekki eftir í þessari deilu enda er þessi óbilgjarna krafa forsvarsmanna Alcan fólgin í því að gjaldfella stórkostlega kjör þeirra sem heyra undir mötuneyti, ræstingar og hliðgæslu. Slíkt má aldrei gerast og lýsir fundurinn yfir afdráttarlausum stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík og sendir þeim baráttukveðjur í þessari erfiðu kjaradeilu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum. 


Ályktun.

Aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir fullkomnum stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík í þeirri erfiðu kjaradeilu sem þeir eiga nú í við eigendur fyrirtækisins. Sú krafa sem forsvarsmenn fyrirtækisins eru með um að verktakavæða störf í mötuneyti, ræstingu og hliðgæslu er afar ógeðfelld enda hefur hún þann tilgang að gjaldfella þau störf sem þar eru unnin. 

 

Það er algjörlega óviðunandi og óþolandi að erlendur auðhringur skuli haga sér hér með þeim hætti sem hér hefur birst og fari ekki eftir þeim meginreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og því ekkert annað í stöðunni hjá starfsmönnum en að sýna fyrirtækinu fullkomna hörku til að brjóta fyrirætlanir þeirra á bak aftur. 

Aðalfundurinn skorar á eigendur Alcan í Straumsvík að ganga frá kjarasamningum við starfsmenn álversins og hverfa frá því að reyna að gjaldfella laun íslensks verkafólks og iðnaðarmanna sem byggð hafa verið upp í stóriðjunum á liðnum árum og áratugum. 

 

Aðalfundurinn telur verulega hættu á að ef að þessi græðgivæðing um að gjaldfella laun með verktakavæðingu verður að veruleika geti hún haft alvarlegar afleiðingar gagnvart öðrum kjarasamningum í stóriðjum og því mikilvægt að stéttarfélög sem eiga aðild að stóriðjusamningum standi þétt saman með starfsmönnum Alcan í að brjóta þessa fyrirætlan á bak aftur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image