• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Feb

Kjarasamningur við Samband íslenskra sveitarfélaga undirritaður - SALEK samkomulagið ekki fylgiskjal

Í gær undirritaði Verkalýðsfélag Akraness  nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað. Eins og margoft hefur komið fram á heimasíðu félagsins þá var djúpstæður ágreiningur á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og VLFA vegna þess að krafa Sambandsins var að SALEK samkomulagið sem undirritað var 27. október yrði fylgiskjal með kjarasamningnum. Það var eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness gat ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við enda ljóst að með slíku væri SALEK samkomulagið orðið ígildi kjarasamnings. Ástæðan fyrir því að félagið hafnaði slíkri kröfu var að félagið taldi að með SALEK samkomulaginu í heild sinni væri verið að skerða og takmarka samningsfrelsi stéttarfélagsins gróflega. 

Á þeirri forsendu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að stefna Sambandinu og gerði þá skýlausu kröfu að SALEK samkomulagið væri óskuldbindandi og ólögmætt en grundvöllur fyrir málsókninni á sínum tíma var að Samband íslenskra sveitarfélaga kvað skýrt á um að SALEK samkomulagið væri skuldbindandi. En eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hurfu forsvarsmenn Sambandsins frá því að SALEK samkomulagið væri skuldbindandi, það væri einungis stefnumið. Á þeirri forsendu ákvað Félagsdómur að vísa málinu frá á grundvelli þess að Sambandið viðurkenndi að samkomulagið væri óskuldbindandi. 

Í gær féll Samband íslenskra sveitarfélaga semsagt frá því að SALEK samkomulagið yrði viðhengi við kjarasamninginn og þegar það lá orðið fyrir þá var félagið tilbúið til þess að skrifa undir kjarasamninginn því krafa VLFA var alltaf að SALEK samkomulagið yrði ekki fylgiskjal með samningnum. Rétt er að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness er fyrsta félagið sem Sambandið gerir samning við þar sem SALEK samkomulagið er ekki með sem fylgiskjal. 

Það var aldrei ágreiningur um þær launabreytingar sem stóðu til boða enda var VLFA búið að samþykkja að ganga að þeim launabreytingum sem Sambandið hafði sett upp enda rúmaðist sú launastefna innan þeirra væntinga sem félagið hafði til launahækkana til handa þeim starfsmönnum sem starfa hjá Akraneskaupstað. Aðalmálið var að fylgiskjalið myndi ekki fylgja með og að það væri óskuldbindandi. Eins og áður sagði þá féll Sambandið frá þessari kröfu sinni og því leystist málið á þann hátt sem VLFA hafði ætíð verið tilbúið til að ganga að. 

Samningurinn er með sambærilegum hætti hvað launabreytingar og innihald varðar eins og önnur stéttarfélög hafa gert við Samband íslenskra sveitarfélaga. Laun munu hækka um að lágmarki 25.000 kr. eða að lágmarki um 7,7% og þetta mun gilda afturvirkt til 1. maí 2015 samkvæmt undirrituðu loforði frá bæjarstjóra Akraness. Frá 1. júni 2016 hækka laun um 15.000 kr. eða að lágmarki 5,5%, frá 1. júní 2017 um 2,5% auk 1,7% vegna jöfnunar á bilum milli launaflokka í launatöflu og frá 1. júni 2018 um 2%. En vegna þess að kjarasamningurinn gildir til 31. mars 2019 þá kemur eingreiðsla upp á 42.500 kr. 1. febrúar 2019 og greiðist hún hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018. 

Desemberuppbætur munu verða með eftirfarandi hætti á samningstímanum:

  • Á árinu 2016 106.250 kr. 
  • Á árinu 2017 110.750 kr. 
  • Á árinu 2018 113.000 kr.

Orlofsuppbætur munu verða með eftirfarandi hætti á samningstímanum:

  • Á árinu 2016 44.500 kr. 
  • Á árinu 2017 46.500 kr. 
  • Á árinu 2018 48.000 kr. 

Félagið gekk einnig frá nokkrum sérmálum beint við Akraneskaupstað og má helst nefna í því samhengi að félagið náði að tryggja að 4% aukaálag til handa ófaglærðum starfsmönnum á leikskólum mun halda sér fyrir þá starfsmenn sem nú eru í starfi og hefja störf til 1. janúar 2018. En þetta er svokallað sólarlagsákvæði og verður greitt aftur í tímann frá 1. janúar 2015. 

Verkalýðsfélag Akraness vill þakka félagsmönnum sínum fyrir stuðninginn og skilninginn á því að þessar kjarasamningsviðræður hafi dregist þetta lengi en án þessa skilnings og stuðnings hefði þetta verið mun erfiðara en ella. Það er ekkert smá mál fyrir eitt stéttarfélag að standa í slíkri réttindabaráttu sem er fólgin í því að berjast fyrir samningsfrelsi sinna félagsmanna og þurfa að fara með slík mál fyrir dómstóla með öllum þeim töfum sem það veldur á launahækkunum til handa þeim félagsmönnum sem ágreiningurinn nær til. 

Baráttunni gegn SALEK samkomulaginu er hvergi nærri lokið þó þessi orrusta hafi unnist að hluta til því það er ljóst að þessir aðilar sem standa að rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins eru að marka vörður að því að skerða og takmarka samningsfrelsi stéttarfélaganna leynt og ljóst. Nú liggur fyrir að kosið verður sérstaklega um breytingar á nýju vinnumarkaðslíkani á árinu 2017 en það vinnumarkaðslíkan gerir ráð fyrir því að sett verði á laggirnar svokallað þjóðhagsráð sem mun ákvarða hámarks launabreytingar og stéttarfélögum á að vera skylt að halda sig innan þess. Eins og áður sagði er þessari baráttu ekki lokið og mun Verkalýðsfélag Akraness halda áfram að standa vaktina hvað varðar samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga og launamanna. 

Félagið mun halda kynningarfund að Jaðarsbökkum miðvikudaginn 10. febrúar kl. 17 og hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu. Einnig verður hægt að kjósa um samninginn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness á Sunnubraut 13 en kosningu lýkur kl. 12 föstudaginn 12. febrúar. Þessi stutti tími til kosninga er hafður til þess að gera launafulltrúum Akraneskaupstaðar færi á því að reikna launin aftur í tímann þannig að hægt verði að greiða leiðréttinguna með næstu útborgun.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image