• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Feb

SALEK samkomulagið ekki skuldbindandi

Á föstudaginn tók Félagsdómur mál Verkalýðsfélags Akraness fyrir. Eins og fram hefur komið þá stefndi félagið Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna þeirrar kröfu að SALEK samkomulagið yrði fylgiskjal með kjarasamningi sem félagið er að gera við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar. 

Forsaga þessa máls er að forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa margoft sagt að SALEK samkomulagið sé skuldbindandi og forsenda þess að Verkalýðsfélag Akraness geti fengið kjarasamning við Sambandið og ef félagið samþykki ekki að rammasamkomulagið verði fylgiskjal með kjarasamningnum þá fái félagið ekki kjarasamning fyrir félagsmenn sína sem starfa hjá Akraneskaupstað. En með því að samþykkja fylgiskjal með kjarasamningi þá verður fylgiskjalið ígildi kjarasamnings samkvæmt dómsorði Félagsdóms. Með öðrum orðum, félagið væri þá að viðurkenna að til dæmis samræmd launastefna gilti fyrir alla kjarasamninga sem félagið ætti eftir að gera til 2018. 

Það ótrúlega í þessu máli er að þrátt fyrir að það liggi fyrir í fundargerð ríkissáttasemjara sem og í tölvupósti og í skriflegu svarbréfi frá Sambandinu að SALEK samkomulagið sé skuldbindandi með öllu að þeirra mati þá sögðu forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga eiðsvarnir frammi fyrir Félagsdómi að slíkt væri ekki rétt og SALEK samkomulagið væri ekki skuldbindandi heldur einungis stefnuviðmið sem Sambandið hefði sett sér. Á þessari forsendu vísaði Félagsdómur málinu frá og kemur fram hjá Félagsdómi að í ljósi þess að ekki sé ágreiningur um að SALEK samkomulagið sé skuldbindandi þá beri að vísa málinu frá. Það er ótrúlegt að verða vitni að því í ljósi fyrirliggjandi gagna þar sem forsvarsmenn Sambandsins hafa ítrekað sagt og haldið því fram að samkomulagið sé skuldbindandi að þeir breyti málflutningi sínum fyrir dómi og segi þvert á það sem þeir hafa áður sagt og gögn staðfesta. 

Það vekur furðu formanns VLFA að dómurinn skuli ekki hafa átalið þetta misræmi í vitnisburði og fyrirliggjandi gögnum í dómsorði en samkvæmt upplýsingum formanns þá vegur vitnisburði fyrir dómi þyngra en fyrirliggjandi sönnunargögn. En það er ljóst að forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga verða að eiga það við sína samvisku að hafa breytt vitnisburði sínum frá því sem þeir hafa áður sagt. Í ljósi þess að hér virðist vera um risastóran misskilning að ræða hvað varðar skuldbindinguna þá má ætla að afar auðvelt verði að ganga frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem þetta fylgiskjal og inngangur samningsins verða látin víkja enda einungis um viðmið Sambandsins að ræða en ekki skuldbindingu eins og áður sagði. 

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á morgun og mun þá koma í ljós hvort Sambandið hefur í hyggju að standa við stóru orðin sem sögð voru eiðsvarin fyrir Félagsdómi um að þetta rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október sé óskuldbindandi og hafi þar af leiðandi enga þýðingu hvað þennan kjarasamning varðar. Eins og áður sagði mun það koma í ljós á þeim fundi en félagið mun klárlega halda áfram að leita réttar síns í þessu máli því um leið og fylgiskjalið er orðið hluti af kjarasamningi þá hefur það sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur samkvæmt niðurstöðu Félagsdóms. Á þeirri forsendu er útilokað að samþykkja rammasamkomulagið vegna þess að þá væri félagið að binda aðra kjarasamninga sem það á eftir að gera til ársloka 2018. Slíkt er algjörlega andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskránni enda væri verið að skerða samningsfrelsi vegna þeirra samninga sem eftir eru.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image