• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Feb

Safnað var fyrir neyðarvarnakerru á Akranesi

Verkalýðsfélag Akraness fékk ábendingu eftir námskeið sem haldið var fyrir sjálfboðaliða í neyðarvörnum á vegum Rauða krossins um að það vantaði hér á Akranesi svokallaða neyðarvarnakerru. Slík kerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum.

Eftir þessa ábendingu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fara á fulla ferð við að reyna að safna fyrir slíkri kerru en hún kostar um 1,5 milljón og getur skipt miklu máli ef til dæmis kemur til rýminga, hópslysa, lokana á vegum eða annarra alvarlegra atburða. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað strax að styrkja þetta verkefni um 200.000 kr. en ákvað jafnframt að leita til þeirra öflugu fyrirtækja sem eru á okkar starfssvæði. Sendi formaður eftirfarandi aðilum tölvupóst með ósk um að þeir myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið: HB Grandi, Norðurál, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstaður. Það er skemmst frá því að segja að það tók þessa aðila ekki langan tíma að svara kalli Verkalýðsfélags Akraness til að leggja þessu brýna verkefni lið og voru allir tilbúnir til að leggja í púkkið til að hægt væri að kaupa þessa neyðarvarnakerru. Þessu til viðbótar hafði Slysavarnardeildin Líf samband og óskaði einnig eftir að fá að styrkja þetta verkefni. 

Nú hefur Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri neyðarvarnasviðs Rauða krossins, pantað kerruna frá Þýskalandi og verður hún klár til afhendingar Rauða krossinum hér á Akranesi á vormánuðum en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. Það er afar ánægjulegt hversu vel gekk að fjármagna þetta verkefni og þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er fyrir hvert sveitarfélag að hafa öflug fyrirtæki innan sinna vébanda sem eru tilbúin til að leggja brýnum samfélagslegum verkefnum lið þegar eftir því er leitað. Í þessu tilfelli skorti ekki vilja hjá þessum áðurnefndu fyrirtækjum, Akraneskaupstað og Slysavarnadeildinni Líf. 

Félagið vill ítreka þakklæti sitt til þeirra sem lögðu þessu málefni lið því það er hverju sveitarfélagi mikilvægt að hafa góða almannavarnaumgjörð því alltaf getum við átt von á því að einhverjar hamfarir eða slys eigi sér stað þar sem grípa þarf til slíks neyðarbúnaðar eins og er í umræddri neyðarvarnakerru.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image