• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Feb

Kynningarfundur var haldinn í gær vegna kjarasamnings við Akraneskaupstað

Í gær hélt Verkalýðsfélag Akraness kynningarfund fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar vegna nýgerðs kjarasamnings sem félagið gerði við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir skemmstu. Formaður fór yfir helsta innihald samningsins en byrjaði á því að þakka starfsmönnum kærlega fyrir skilninginn og stuðninginn sem var fólginn í þeirri biðlund sem starfsmenn Akraneskaupstaðar sýndu félaginu í þessari erfiðu kjaradeilu. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni snerist sú deila að litlu leyti um launabreytingar en aðallega um Salek samkomulagið. Það hefur líka komið fram hér að þetta mál fór fyrir Félagsdóm en niðurstaðan var sú að Samband íslenskra sveitarfélaga féll frá því að gera kröfu um að Salek samkomulagið yrði fylgiskjal og inngangi samningins hjá VLFA var breytt miðað við aðra samninga sem Sambandið hafði gert. Formaður tók fram að það er gríðarlega mikilvægt að vera með félagsmenn sem hafa þennan skilning og styðja félagið sitt í orði og á borði þegar á reynir. 

Það voru einnig nokkur sérákvæði sem félagið þurfti að berjast fyrir, meðal annars sérákvæði sem lýtur að 4% álagi fyrir starfsmenn í leikskólum en félagið gekk frá slíku samkomulagi við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar og mun það gilda fyrir alla starfsmenn sem nú eru í starfi og verður leiðrétt afturvirkt til 1. janúar 2015. Það mun skila starfsmönnum á leikskólum afturvirkni sem nemur um 73.000 kr. fyrir fullt starf. Algengt er að starfsmenn í fullu starfi muni fá leiðréttingu sinna launa þetta í kringum 220-250.000 kr. enda gildir samningurinn frá 1. maí 2015. Það var ánægjulegt að heyra að starfsmenn voru ánægðir með þá staðfestu sem félagið hefur sýnt í þessu máli en þokkalega góð mæting var á kynningarfundinn og virtust félagsmenn sem taka laun eftir þessum kjarasamningi almennt vera nokkuð sáttir með þá vinnu sem félagið hefur innt af hendi í þessu máli. Sérstaklega var mikil ánægja vegna sérákvæðanna því það var ekki bara þetta 4% álag sem félagið náði til handa starfsmönnum á leikskólum heldur einnig auka vaktafrí fyrir starfsmenn sem starfa í vaktavinnu á dvalarheimilinu Höfða. 

Hægt verður að kjósa um samninginn til kl. 12 á hádegi á morgun, föstudag, á skrifstofu félagsins en þeir sem mættu á kynningarfundinn kusu í gær að aflokinni kynningu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image