• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jan

Dómur fellur í SALEK málinu í dag

Nú hefur borist tilkynning frá Félagsdómi um að dómsuppkvaðning verði kl. 16:30 í dag í máli vegna SALEK samkomulagsins. Það tók Félagsdóm ekki langan tíma að komast að niðurstöðu en formaður hefur verulegar áhyggjur af því að niðurstaðan sé sú að SALEK samkomulagið heyri ekki undir Félagsdóm heldur almenna dómstóla. Rétt er að geta þess að það var aðalkrafa Sambands íslenskra sveitarfélaga að þessu máli yrði vísað frá á grundvelli þess að málið heyrði ekki undir Félagsdóm.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur lýst mikilli furðu yfir því að það skuli hafa verið aðalkrafa Sambands íslenskra sveitarfélaga að beita fyrir sig frávísun í þessu veigamikla máli en ástæðan er einföld, Samband íslenskra sveitarfélaga þorði ekki að fá efnislega niðurstöðu í þessu eina mesta hagsmunamáli sem lýtur að samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga. Það er einungis tilfinning formanns að svona muni dómurinn falla því það er ljóst að það yrði mjög erfitt fyrir Félagsdóm að komast að þeirri niðurstöðu að þetta SALEK samkomulag sem skerðir samningsrétt stéttarfélaganna sé skuldbindandi og í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur og ákvæði stjórnarskrár Íslands sem lúta að samningsfrelsi.

Það verður forvitnilegt að sjá niðurstöðu Félagsdóms því hér er eins og áður sagði um eitt mesta hagsmunamál að ræða sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir í áraraðir ef ekki áratugi því þetta samkomulag er að marka vörðu að því að taka smátt og smátt samningsréttinn af stéttarfélögunum og færa hann yfir til fámenns hóps í íslensku samfélagi. Ef að málinu verður vísað frá þá er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun halda áfram með málið fyrir almennum dómstólum því það er mat félagsins að þetta SALEK samkomulag sé gróft brot á samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga.    

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image