• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Aug

Formaður fundar með forstjórum Elkem.

Í síðustu viku óskaði Gestur Pétursson forstjóri Elkem Ísland eftir fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness en í för með Gesti var Helge Aasen aðalforstjóri Elkem.  Þetta var mjög góður fundur þar sem farið var yfir hin ýmsu mál er tengjast starfsemi og hagsmunum starfsmanna Elkem Ísland.  Sem betur fer hefur rekstur Elkem Ísland gengið nokkuð vel á undanförnum misserum þrátt fyrir lækkun á afurðaverði  kísiljárns á heimsmarkaði.

Eins og flestir vita þá liggja hagsmunir starfsmanna og stéttarfélaga saman að stórum hluta með fyrirtækjum. Góð afkoma og góð rekstrarskilyrði leiða oftast af sér meiri möguleika fyrir stéttarfélögin á sækja aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja til aukinna launabreytinga. Einnig hafa góð rekstrarskilyrði í för með sér meiri möguleika fyrir fyrirtæki til þess að vaxa og fjölga störfum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að raforkusamningur Elkem Ísland er að renna út á næstu árum og því mjög mikilvægt að fyrirtækið nái samkomulagi við Landsvirkjun um nýjan raforkusamning og má sá samningur ekki ógna atvinnuöryggi starfsmanna eða skerða rekstrarskilyrði fyrirtækisins.

Einnig var rætt um að kjarasamningur starfsmanna rennur út 31. janúar 2017 og munu viðræður um nýjan kjarasamning hefjast þegar líður á árið.  Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur enda skiptir gríðarlega miklu máli að góð og hreinskipt samskipti séu við æðstu stjórendum fyrirtækja.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image