• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Oct

VLFA höfðar fimm dómsmál vegna ágreinings um túlkun kjarasamninga

Það er óhætt að segja að nóg sé að gera hjá Verkalýðsfélagi Akraness um þessar mundir við réttindagæslu fyrir okkar félagsmenn en félagið rekur nú þrjú mál fyrir dómstólum og tvö önnur eru á leið fyrir Héraðsdóm Vesturlands. Þessi fimm mál tengjast þremur fyrirtækjum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness og lúta að ágreiningi um greiðslu á hvíldartímum, vikulegum frídegi, uppsagnarfresti, túlkun á útreikningi á orlofs- og desemberuppbótum og túlkun á því hvernig ávinnsla á starfsaldri er reiknuð út.

Eins og áður sagði þá eru þrjú mál nú þegar fyrir dómstólum og núna er lögmaður félagsins að undirbúa stefnu á fyrirtækið Skagann ehf. m.a. vegna ágreinings um greiðslu á áunnum hvíldatímum og vikulegum frídegi og skerðingar á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.

Þau fyrirtæki sem Verkalýðsfélag Akraness hefur stefnt vegna áðurnefnds ágreinings eru auk Skagans ehf, Norðurál og Hvalur hf. Það er ljóst að hér er um mikla fjárhagslega hagsmuni um að ræða og ef þessi mál vinnast öll þá er einnig ljóst að þau munu hafa fordæmisgildi sem mun þýða að fjárhagslega geta þessi mál numið mörgum milljónum jafnvel vel á annan tug milljóna króna.

Rétt er að geta þess málflutningur fyrir Félagsdómi vegna tveggja mála er lúta að túlkun á útreikningi á orlofs- og desemberuppbótum fer fram á miðvikudaginn í næstu viku, en það mál er höfðað gegn Norðuráli. Og síðan er félagið með annað mál sem tekið verður fyrir 25. október gegn Norðuráli og lýtur að ávinnslu á réttindum vegna starfsaldurs.

Síðan er einnig rétt að geta þess að aðalmeðferð í máli sem félagið höfðaði gegn Hval hf. meðal annars vegna skerðingar á hvíldartímum og vikulegum frídegi verður væntanlega fyrir jól í Héraðsdómi Vesturlands.

Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að standa ætíð þéttan vörð um réttindi okkar félagsmanna og ef við teljum að verið sé að brjóta á réttindum okkar fólks þá að sjálfsögðu fer félagið af fullum þunga í að fá niðurstöðu í slík mál og ef ekki tekst að ná samkomulagi við fyrirtækin þá endar slíkur ágreiningur eðli málsins samkvæmt fyrir dómstólum. Verkalýðsfélag Akraness horfir ekki í krónur og aura við að verja hagsmuni sinna félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image