• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Formaður með erindi í Háskóla Íslands Hérna er Gylfi Dalmann í viðtali hjá Sigurjóni M. Egilssyni
28
Sep

Formaður með erindi í Háskóla Íslands

Síðastliðinn mánudag óskaði Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands sem kennir nú vinnumarkaðsfræði í meistaranámi, eftir því að formaður Verkalýðsfélags Akraness kæmi og hitti nemendur eina kennslustund. Gylfi hefur í gegnum árin nokkrum sinnum óskað eftir slíkum heimsóknum og að sjálfsögðu hefur formaður félagsins tekið jákvætt í það, en þetta er í sjötta sinn á nokkrum árum sem hann hittir nemendur Gylfa í þessum tilgangi.

Tilgangur heimsóknarinnar var sá að fara yfir stöðu verkalýðshreyfingarinnar, mikilvægi hennar og hin ýmsu mál er lúta að starfsemi hreyfingarinnar. Formaður fór víða í klukkustundarlöngu erindi sínu og eðli málsins samkvæmt fjallaði hann mikið um svokallað Salek samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld reyna nú að koma á hér á landi. 

Fram kom í máli formanns að stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness telur að þær hugmyndir sem eru uppi um nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd séu ein sú mesta ógn sem launafólk og stéttarfélögin hafi staðið frammi fyrir frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Fór formaður yfir það að VLFA telur að nýtt vinnumarkaðsmódel muni leiða til mikillar skerðingar á samningsfrelsi launafólks og stéttarfélaganna enda snúast hugmyndir um nýtt vinnumarkaðslíkan um að færa ákvörðunartöku um hámarkslaunabreytingar yfir á miðstýrt apparat sem aðilar Salek samkomulagsins eru að móta og koma sér saman um. 

Formaður fór líka yfir að hugmyndir eru uppi um að breyta vinnulöggjöfinni til þess að festa nýtt samningalíkan í sessi. Formaður sagði í erindi sínu að samningsfrelsi launafólks væri hornsteinn íslenskrar verkalýðsbaráttu og það samningsfrelsi megi ekki skerða með nokkrum hætti.

Formaðurinn fór líka yfir skýrslu sem Steinar Holden frá Óslóar Háskóla gerði fyrir aðila Salek samkomulagsins og fjallaði um hugmyndir um nýtt vinnumarkaðsmódel. Í skýrslunni kemur skýrt fram að samningsfrelsi verður stórlega skert ef þessar hugmyndir ná fram að ganga enda gengur nýtt samningalíkan útá að festa í sessi samræmda láglaunastefnu þar sem öllum verður skylt að semja um hóflegar launahækkanir og nefndi formaður í erindi sínu að í skýrslu Steinars hefðu orðin "hóflegar launahækkanir" komið 19 sinnum fyrir í 20 blaðsíðna skýrslu!

Formaður fór líka yfir það vaxtaokur og verðtryggingarofbeldi sem íslenskur almenningur hefur þurft að þola hér á landi í tugi ára með skelfilegum lífsgæðamissi fyrir neytendur. Hann nefndi að það væri gríðarlega mikilvægt að lækka vexti og afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum neytenda. Hann sagði líka að okurvextir og verðtrygging væru ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk sem auðvelt væri að breyta. Vilji, kjarkur og þor er allt sem þarf til þess.

Þetta var afar skemmtileg stund að mati formanns enda fékk hann margar spurningar tengdar hinum ýmsu málefnum hreyfingarinnar. Svona tækifæri eru líka ágæt til að koma upplýsingum á framfæri um starfsemi íslenskrar verkalýðshreyfingar. Starfsemi verkalýðshreyfingarinnar er mikilvæg og verður mikilvæg áfram, en það kom fram í máli formanns að það er grundvallaratriði fyrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni að hlusta vel á rödd alþýðunnar því það er alveg morgunljóst að hægt er að gera betur í hinum ýmsu baráttumálum er lúta að hagsmunum launafólks og nægir að nefna í því samhengi kjör þeirra sem hvað höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image