• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Nýr kjarasamningur sjómanna undirritaður Víkingur AK leggst drekkhlaðinn að bryggju á Akranesi
28
Jun

Nýr kjarasamningur sjómanna undirritaður

Sjómannasamband Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness undirritaði nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). En eins og flestir muna rann kjarasamningur sjómanna út 1. janúar 2011 og hafa sjómenn því verið með lausan kjarasamning í 5 og hálft ár.

Það verður því miður að segjast að innihald þessa samnings sé fremur rýrt, enda er ekki tekið á stóru málunum eins og til dæmis mönnunarmálum og verðlagsmálum á sjávarafurðum. Þó er rétt að geta þess að í samningnum var gerð bókun sem kveður á um athugun á lágmarksmönnun um borð í uppsjávarskipum, ísfiskstogurum og dagróðrarbátum. Einnig er í þessari bókun kveðið á um að hvíldartími sjómanna verði skoðaður. Örlitlar bætur koma til vegna afnáms sjómannaafsláttar og nemur sú upphæð 500 kr. fyrir hvern lögskráningardag í skattfrjálsan frádrátt frá tekjum vegna fæðiskostnaðar. Rétt er einnig að geta þess að kauptrygging hækkar um rúm 23%, en eins og flestir sjómenn vita þá hefur sú hækkun fremur litla þýðingu í ljósi þess að sjómenn eru á aflahlut og í frekur fáum tilfellum reynir á kauptrygginguna.

Eins og áður sagði er þessi samningur að mati formanns VLFA fremur rýr og óttast formaður að þessi samningur verði ekki samþykktur af hálfu sjómanna, enda er eins og áður sagði ekki tekið á stærstu kröfum þeirra þótt vissulega beri að fagna því að málið sé sett í farveg með áðurnefndum bókunum.

Lesa má samninginn hér og er mikilvægt að sjómenn kynni sér vel og rækilega innihald hans. Kosið verður sameiginlega meðal allra sjómanna sem eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands og fólu sambandinu umboð til kjarasamningsgerðarinnar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image