• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Sérfræðingur í vinnurétti staðfestir áhyggjur Verkalýðsfélags Akraness Skjáskot úr viðtalinu á Þjóðbraut
28
Jul

Sérfræðingur í vinnurétti staðfestir áhyggjur Verkalýðsfélags Akraness

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýst yfir gríðarlegum áhyggjum af þeim hugmyndum sem forysta ASÍ vinnur að með því að setja hér á laggirnar nýtt vinnumarkaðsmódel eins getið er um í svokölluðu Salek samkomulagi. Stjórn félagsins telur engum vafa undirorpið að með þeim hugmyndum sé verið að skerða gróflega samningsrétt stéttarfélaga og alls launafólks ef það verður að veruleika.

Í gær staðfesti Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í vinnumarkaði, í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut áhyggjur stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að Salek samkomulagið muni skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna. Lektorinn sagði m.a. orðrétt: "Með þjóðarsáttarsamningunum 1990 var ekkert verið að kippa samningsréttinum frá stéttarfélögunum og ef menn ætla að gera það með Saleksamkomulaginu sem ég sé ekki alveg hvernig þeir ætla að gera þá verða þeir að breyta vinnulöggjöfinni. Því það er alveg skýrt að samningsrétturinn liggur hjá stéttarfélögunum samkvæmt vinnulöggjöfinni."

Þarna hittir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson naglann á höfuðið, það þarf að breyta vinnulöggjöfinni til að hægt sé að skerða samningsrétt stéttarfélaganna og launafólks alls. En takið eftir það liggur fyrir að forysta ASÍ og þeir sem standa að Salek samkomulaginu hafa tilkynnt og það kemur meira segja fram í Salek samkomulaginu að breyta þurfi vinnulöggjöfinni til að festa Salek samkomulagið í sessi eins segir orðrétt í samkomulaginu.

Í þættinum benti Gylfi einnig réttilega á að það er alls ekki nóg að taka einungis einn þátt úr norræna vinnumarkaðsmódelinu en sleppa öllum öðrum þáttum eins og t.d. varðandi vaxtakjör, frían eða gjaldítinn aðgang að heilbrigðiskerfi, barnabætur og margt annað. Gylfi segir vinnumarkaðinn hér ólíkan því sem tíðkast þar. Það var gríðarlega mikilvægt að fá staðfestingu á því frá sérfræðingi í vinnurétti að Salek samkomulagið muni leiða til skerðingar á samningsfrelsi stéttarfélaga og um leið staðfestir hann áhyggjur stjórnar Verkalýðsfélags Akraness hvað varðar skaðsemi Salek samkomulagsins gagnvart samningsfrelsinu.

Hversu sorglegt er það á 100 ára afmælisári Alþýðusambands Íslands að núverandi forysta ASÍ skuli vinna að því skerða gróflega frjálsan samningsrétt aðildarfélaga sinna, en eins og allir vita þá hefur frjáls samningsréttur verið hornsteinn verkalýðsbaráttunar á Ísland í ein 100 ár. Forysta ASÍ mætti frekar leggja áherslu á að félagsmenn þeirra fái aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja en auknum arðgreiðslum til fyrirtækja, en arðgreiðslur fyrirtækja námu 215 milljörðum árið 2014 á meðan launahækkanir á sama tíma numu 35 milljörðum!  Þessi aðferðafræði forystu ASÍ að vilja kenna launahækkunum félagsmanna sinna um óstöðugleika og verðbólguþrýsting gengur ekki upp í ljósi þess að arðgreiðslur námu 215 milljörðum á sama tíma og laun hækkuðu um einungis 35 milljarða samkvæmt fréttablaði ríkisskattsjóra.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image