• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

11
Mar

Þokast lítið áfram

Í gær var haldinn þriðji fundurinn vegna kjaradeilu Norðuráls undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Í heildina hafa nú verið haldnir 18 samningafundir vegna þessarar kjaradeilu. Fyrsti samningafundurinn var haldinn í lok október sl. þannig að samningaviðræður hafa nú staðið yfir í fjóra og hálfan mánuð. Það verður að segjast eins og er að niðurstaðan er frekar rýr fram til þessa.

Formanni félagsins hefur fundist vanta töluvert upp á samningsvilja af hálfu forsvarsmanna Norðuráls til þessa, en ber hins vegar þá von í brjósti sér að þeir fari að skynja að það séu engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra í Alcan í Straumsvík.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur afkoma fyrirtækisins allt frá stofnun þess verið með glæsibrag og hefur fyrirtækið skilað 37 milljörðum í hagnað frá árinu 1998 til 2008. Sem dæmi þá skilaði fyrirtækið mestum hagnaði allra fyrirtækja á Íslandi á árinu 2008 eða sem nemur 16 milljörðum. Árið 2008 var heildarvelta Norðuráls rúmir 47 milljarðar og af því var eins og áður hefur komið fram 16 milljarða hagnaður.

Á árinu 2009 var heildarveltan skv. fréttum 58 til 59 milljarðar. Þannig að það er æði margt sem bendir til þess að hagnaður Norðuráls á síðasta ári hafi verið upp undir 20 milljarða króna. Á þessari forsendu og þeirri bláköldu staðreynd að launakjör starfsmanna Norðuráls eru lakari um tugi þúsunda á mánuði í sumum tilfellum fyrir sama vinnutíma, mun samninganefnd stéttarfélaganna sýna fulla hörku í því að launakjör starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð í eitt skipti fyrir öll við Alcan í Straumsvík.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar á mánudaginn kemur, og einnig óskaði sáttasemjari eftir að deiluaðilar myndu skoða nokkur atriði fram að þeim fundi.

10
Mar

Fundur um skipulagsmál ASÍ

Í gær var haldinn fundur um skipulagsmál Alþýðusambands Íslands á Hótel Hamri, en Alþýðusamband Íslands stendur nú fyrir fundarherferð þar sem fundað er með öllum aðildarfélögum ASÍ um skipulagsmál.

Fundinn í gær sátu fulltrúar frá Verkalýðsfélagi Akraness, Stéttarfélagi Vesturlands og Stéttarfélagi Snæfellinga. Grétar Þorsteinsson, fyrrverandi forseti ASÍ og Magnús Norðdahl, lögmaður fóru yfir núverandi skipulagsmál ASÍ og óskuðu eftir því við fundarmenn hvort þörf væri á að breyta skipulagi Alþýðusambands Íslands. 

Unnið var í hópavinnu á fundinum og komu fjölmargar hugmyndir fram, m.a. kom fram ein hugmynd sem lýtur að því að forseti ASÍ verði kosinn beinni kosningu af öllum félagsmönnum ASÍ í allsherjarkosningu. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að forseti ASÍ er kosinn á ársfundum sambandsins, en það var greinilegt á fundinum í gær að fólk telur fulla þörf á að breyta þessu fyrirkomulagi sem væri fólgið í mun lýðræðislegra kjöri en nú er.

Það er skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að forseti ASÍ þurfi að hafa gott félagslegt umboð og með því að kjósa forsetann í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna þá væri hann svo sannarlega með gott umboð frá sínum félagsmönnum.

Það þarf einnig að ríkja góð sátt um forsetann og á þeirri forsendu er þessi hugmynd mjög álitleg.

Einnig kom fram á fundinum að gerð kjarasamninga verði alfarið áfram í höndum stéttarfélaganna og hlutverk ASÍ snúi meira að samskiptum við ríkisvaldið.

10
Mar

Fundur hjá Ríkissáttasemjara í dag

Í dag kl. 14:00 verður haldinn fundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls, en þetta er þriðji sáttafundurinn sem haldinn er undir handleiðslu sáttasemjara.

Á síðasta fundi setti ríkissáttasemjari deiluaðilum fyrir verkefni, sem var fólgið í því að skoða þrjú ágreiningsefni á milli aðilanna og reyna að finna lausn á þeim. Sá fundur var haldinn í gær í Norðuráli, en það voru formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt aðaltrúnaðarmanni og trúnaðarmanni FIT sem sátu fundinn fyrir hönd samninganefndarinnar. Fyrir hönd Norðuráls sátu starfsmannastjórinn og framkvæmdastjóri Norðuráls fundinn.

Þetta var svosem ágætis fundur, þótt málið sé einfaldlega með þeim hætti að öll þau ágreiningsefni sem uppi eru hanga á einni og sömu spýtunni sem er, eins og margoft hefur komið fram, algjör jöfnun launa við Alcan í Straumsvík.

08
Mar

Akur mun sjá um endurbætur á orlofshúsi félagsins í Ölfusborgum

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú samið við Trésmiðjuna Akur um miklar endurbætur á orlofshúsi félagsins í Ölfusborgum. Frá því núverandi stjórn tók við félaginu hafa önnur orlofshús félagsins öll fengið andlitslyftingu, m.a. verið máluð, skipt um innréttingar og tæki og annað tilfallandi. Er sumarhús félagsins í Ölfusborgum síðasta húsið sem farið verður í þetta veigamiklar umbætur í bili.

Umbæturnar núna eru mjög umfangsmiklar, m.a. er verið að færa til veggi, skipta um eldhús- og baðinnréttingar, flísaleggja allan bústaðinn og setja hitalagnir í gólf. Þessu til viðbótar verður sólstofa byggð við húsið. Áætlað er að endurbæturnar taki allt að 2 mánuði, en húsið verður klárt fyrir sumarúthlutun.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggur mikla áherslu á að eiga í viðskiptum við fyrirtæki og verslanir í heimabyggð. Í þessu verki verður öll vinna við orlofshúsið í Ölfusborgum unnin af heimamönnum, þ.e.a.s. trésmiðir, rafvirkjar, píparar og flísalagningamenn koma allir frá fyrirtækjum á Akranesi. En að sjálfsögðu leggur stjórn félagsins einnig áherslu á að verslanir og fyrirtæki hér í bæ séu að sama skapi samkeppnishæfar um verð og þjónustu.

Rétt er að geta þess að hjá Akri starfa um 15 félagsmenn og er félagið ánægt með að hafa getað komið þessu verkefni til fyrirtækis sem er með þetta marga félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að störfum.

05
Mar

Viðræður ganga hægt

Í gær var haldinn annar sáttafundurinn undir handleiðslu ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Norðuráls.

Á fundinum óskaði ríkissáttasemjari eftir því að samningsaðilar færu yfir stöðuna og kom fram í máli formanns Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt er formaður samninganefndar stéttarfélaganna, að lágmarkskrafa samninganefndarinnar er sú að launakjör starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð við launakjör starfsmanna Alcan í Straumsvík.

Það er alveg ljóst, sé miðað við fyrri viðbrögð forsvarsmanna Norðuráls, að þetta verða gríðarlega erfiðar kjaraviðræður. Í raun og veru er formaður Verkalýðsfélags Akraness undrandi á viðbrögðum fyrirtækisins sökum þeirrar góðu afkomu sem fyrirtækið hefur skilað á liðnum árum og þeirri bláköldu staðreynd að launakjör starfsmanna Norðuráls eru mun lakari en hjá starfsbræðrum þeirra hjá Alcan í Straumsvík.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur látið það koma skýrt fram, bæði hér á heimasíðunni svo og á fundum með forsvarsmönnum Norðuráls og Ríkissáttasemjara að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki hvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að laun starfsmanna Norðuráls verði leiðrétt til samræmis við kjör starfsmanna Alcan í Straumsvík. Enda er það mat formanns að engar forsendur séu fyrir því að Norðurál fái afslátt á þeim kjarasamningi sem nú hefur verið í gildi um alllanga hríð.

Það liggur fyrir að við upphaf samningsins 1998 voru launakjör starfsmanna Norðuráls mun lakari en starfsmanna í sambærilegum verksmiðjum, og það er hlutverk samninganefndar stéttarfélaganna að leiðrétta þennan mun í þessum kjaraviðræðum í eitt skipti fyrir öll.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar næstkomandi miðvikudag, en í millitíðinni hefur hann óskað eftir að samningsaðilar færu yfir tvö til þrjú atriði til að reyna að fækka þeim ágreiningsefnum sem liggja fyrir. Það er einnig alveg ljóst að núna er gríðarlegt álag á ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu flugvirkja og flugumferðastjóra, en báðir þessir hópar hafa boðað til verkfalls. Á þeirri forsendu getur sáttasemjari ekki gefið sér þann tíma sem hann ella þyrfti vegna kjaraviðræðna Norðuráls.

Það er morgunljóst að verulegrar óþreyju er farið að gæta hjá starfsmönnum Norðuráls vegna þessarar kjaradeilu. Í máli þeirra fjölmörgu starfsmanna Norðuráls sem haft hafa samband við formann félagsins kemur fram að þeir eiga afar erfitt með að sætta sig við hversu langan tíma þetta ætlar að taka og leggja mikla áherslu á að samninganefndin sýni fulla hörku í þessum viðræðum hvað varðar jöfnun launa við Alcan. Hafa starfsmennirnir einnig sagt að þeir séu tilbúnir til að sýna það í verki.

04
Mar

Annar fundur með ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls

Samninganefnd stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls munu funda í dag kl. 13 í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu um nýjan kjarasamning Norðuráls. Þetta er annar fundurinn sem haldinn er undir stjórn ríkissáttasemjara.

Nú eru liðnir tveir mánuðir frá því kjarasamningur Norðuráls rann út og skynjar formaður Verkalýðsfélags Akraness greinilega óþreyju hjá starfsmönnum Norðuráls sem binda miklar vonir við nýjan samning.

Krafa stéttarfélaganna er skýr og sanngjörn, að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sama hætti og gerist hjá öðrum sambærilegum stóriðjum eins og t.d. Alcan í Straumsvík. Frá þessari kröfu mun Verkalýðsfélag Akraness ekki með nokkru móti hvika.

02
Mar

Úthlutun orlofshúsa um páska 2010 lokið

Í gær var dregið úr umsóknum um vikudvöl yfir páskana í orlofshúsum Verkalýðsfélags Akraness.

Eins og undanfarin ár var mikil aðsókn í húsin og til að tryggja framgang réttvísinnar við útdráttinn var fulltrúi sýslumanns fenginn til að draga úr umsóknunum.

Búið er að hafa samband við þá sem dregnir voru út og er þeim óskað ánægjulegrar dvalar í orlofshúsum yfir páskana.

01
Mar

Fyrsti fundur með ríkissáttasemjara

Samninganefnd stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls áttu fyrsta fund með ríkissáttasemjara í morgun vegna kjaradeilu um nýjan kjarasamning Norðuráls. Eins og fram kom hér á heimasíðunni í síðustu viku þá ákvað samninganefnd stéttarfélaganna að vísa deilunni til ríkissáttasemjara en búið var að halda 13 samningafundi og var það mat samninganefndarinnar að alltof mikið bæri á milli til að hægt væri að halda áfram án aðkomu ríkissáttasemjara.

Á fundinum í morgun gerðu deiluaðilar ríkissáttasemjara grein fyrir þeim ágreiningi sem nú er uppi og þeim kjarakröfum sem liggja fyrir. Það hefur einnig komið hér fram á heimasíðunni margoft að krafa samninganefndar stéttarfélaganna er að laun starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og í öðrum stóriðjum eins og til að mynda Alcan í Straumsvík. Frá þessari kröfu mun Verkalýðsfélag Akraness ekki hvika. Áætlað er að næsti samningafundur verði á fimmtudaginn kemur.

26
Feb

Kjaradeilu við forsvarsmenn Norðuráls vísað til Ríkissáttasemjara

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi stéttarfélaganna við forsvarsmenn Norðuráls. Á þessum fundi lögðu forsvarsmenn Norðuráls fram nýtt tilboð til handa stéttarfélögunum vegna kjarasamnings Norðuráls. Því miður ber allt of mikið á milli samningsaðila miðað við fyrirliggjandi samningstilboð og á þeirri forsendu ákvað samninganefnd stéttarfélaganna að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.

Héðan í frá mun Ríkissáttasemjari því sjá um verkstjórn kjaraviðræðna. Áttu formaður Verkalýðsfélags Akraness og forstjóri Norðuráls samræður við Ríkissáttasemjara í morgun um næstu skref. Hefur Ríkissáttasemjari nú þegar boðað til næsta fundar á mánudaginn kemur.

Krafa stéttarfélaganna er skýr, það er að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sama hætti og gerist hjá öðrum sambærilegum stóriðjum eins og t.d. Alcan í Straumsvík. Því miður sýna allir launasamanburðir sem gerðir hafa verið að munur á milli þessara verksmiðja er umtalsverður. Þetta vandamál á rætur að rekja aftur til ársins 1998 þegar starfsemi Norðuráls hófst á Grundartanga. Þá, einhverra hluta vegna, var gefinn verulegur afsláttur á kjörum starfsmanna Norðuráls samanborið við aðrar stóriðjur.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að hann muni ekki skrifa undir samning nema í honum felist jöfnuður á við laun í öðrum stóriðjum, það er alger lágmarkskrafa.

Formaður hefur einnig kallað eftir skýringum á því af hverju starfsmenn Norðuráls eigi ekki að njóta sambærilegra kjara og t.d. starfsmann Alcan í Straumsvík. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur rekstur verksmiðjunnar á Grundartanga allt frá því hún hóf starfsemi 1998 verið afar góður. Fyrirtækið skilaði t.d. 16 milljörðum í hagnað á árinu 2008, mest allra fyrirtækja hér á landi og frá árinu 1998 hefur fyrirtækið skilað 37 milljörðum í hagnað. Á þessu sést að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra hjá Alcan í Straumsvík.

26
Feb

Síðasti dagur til að sækja um í páskaúthlutun er í dag

Í dag er síðasti dagur til að sækja um orlofshús í páskaúthlutun. Þau orlofshús sem í boði eru um páskana eru: Húsafell, Svínadalur, Hraunborgir, Ölfusborgir og Akureyri. Tímabilið sem um ræðir er frá miðvikudeginum 31. mars til miðvikudagsins 7. apríl.

Hægt er að sækja um á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13, í síma 4309900 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Dregið verður úr umsóknum á mánudaginn kemur og strax haft samband við þá sem dregnir verða út.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image