• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Jun

Réttast væri að afturkalla aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Eins og fram kom í fréttum í gær þá hefur þýska þingið sett fram það skilyrði fyrir fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu að Íslendingar hætti hvalveiðum.

Svona hótanir er alls ekki hægt að láta átölulaust. Ef að þetta er það sem koma skal í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu þá er það skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að afturkalla eigi aðildarumsókn tafarlaust. Ef við Íslendingar höfum ekki heimild til að nýta okkar fiskistofna að höfðu samráði og tillögu frá Hafrannsóknarstofnun Íslands þá höfum við ekkert inn í Evrópusambandið að gera.

Það voru 150 manns sem höfðu atvinnu af hvalveiðum í fyrra í það minnsta og meðallaun starfsmanna í hvalstöðinni í Hvalfirði og á Akranesi voru nálægt 600 þúsund krónum þó vissulega hafi mikil vinna legið að baki þeim tekjum. Við getum ekki undir nokkrum kringumstæðum látið aðrar þjóðir segja okkur hvort við megum nýta okkar auðlindir þegar í ljós hefur komið að stofnarnir þola þær veiðar sem stundaðar eru. Og einnig er rétt að benda á það gríðarlega atvinnuleysi sem herjar á okkur Íslendinga um þessar mundir.

Ef þetta er það sem koma skal í þessum aðildarviðræðum þá virðist ekki vera von á góðu fyrir okkur Íslendinga og því ítrekar formaðurinn þá skoðun sína að betra sé að afturkalla aðildarumsóknina heldur en að liggja undir svona hótunum.

14
Jun

Fundað með lögmanni Samtaka atvinnulífsins

Formaður félagsins fundaði í dag með lögmanni Samtaka atvinnulífsins, Ragnari Árnasyni, vegna málefna starfsmanna ISS á Grundartanga vegna fyrirtækjasamnings áðurnefndra starfsmanna. Örlítill ágreiningur hefur verið um túlkun á fyrirtækjasamningnum og hvernig launahækkunum skuli háttað til handa starfsmönnum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá yfirtók ISS rekstur mötuneytis og ræstingar hjá Elkem Ísland en reksturinn hafði áður verið hjá fyrirtæki að nafni Fang sem var í 100% eigu Elkem Ísland. Ágreiningurinn hefur staðið um að öll þau réttindi sem starfsmenn höfðu hjá Fangi færðust yfir til hins nýja rekstraraðila.

Fundurinn var nokkuð góður og eru hugmyndir að lausn á málinu nú til skoðunar hjá félaginu og mun formaður funda með starfsmönnum um eða eftir helgi um þær tillögur sem liggja nú fyrir af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

10
Jun

Einstaklingsstyrkir hækka til félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness

Stjórnir Landsmenntar og Sveitamenntar hafa ákveðið að taka upp eftirfarandi viðbót við reglur sjóðanna um afgreiðslu einstaklingsstyrkja: Starfstengt réttindanám: Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu þrjú ár eiga rétt á styrk allt að kr. 132.000.- fyrir eitt samfellt námskeið/nám samkvæmt nánari reglum sjóðsins.

Reglan taki gildi f.o.m. 1. júlí 2010 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem hefjast eftir þann tíma. Þar sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að þessum tveimur fræðslusjóðum gildir hún fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá sveitarfélögum og á almenna vinnumarkaðinum eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og SGS.  

09
Jun

Fundur með sérkjaramönnum

Á mánudaginn síðastliðinn hélt formaður Verkalýðsfélags Akraness fund með svokölluðum sérkjaramönnum í Norðuráli. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins tilkynnt þessum aðilum að þeir muni ekki fá svokallaða eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur sem um samdist í síðustu samningum.

Eins og einnig hefur komið fram hér á síðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að sækja þessa eingreiðslu fyrir sérkjaramennina í gegnum dóm og voru þeir aðilar sem sátu fundinn á mánudaginn því sammála að leita réttar síns fyrir dómsstólum með þetta mál. Það ríkti góð samstaða á fundinum um að stéttarfélögin myndu gæta að hagsmunum sérkjaramanna í þessu máli sem og öðrum málum er lúta að réttindum þeirra.

07
Jun

Tveir merkir sjómenn heiðraðir í gær

Í hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju í gær voru heiðraðir merkismenn í tilefni sjómannadagsins. Þeir sem heiðraðir voru eru þeir Sigurður Jóhannsson fyrrv. bátsmaður og Böðvar Þorvaldsson fyrrv. stýrimaður.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi þar sem Jóhann Matthíasson formaður Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness lagði blómsveig að því eftir stutta athöfn.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnisvarða um látna sjómenn.

Akraneskaupstaður bauð síðan þeim sem heiðraðir voru og mökum þeirra til kvöldverðar á Galito og ber að þakka fyrir það.

Hins vegar er ekki annað hægt en að harma það að hér á Akranesi hafi ekki verið haldin nein dagskrá eins og undanfarin ár í tilefni sjómannadagsins en undanfarin ár hefur sveitarfélagið staðið fyrir dagskrá undir heitinu Hátíð hafsins en að þessu sinni var ákveðið að standa ekki fyrir dagskrá vegna sparnaðar. 

Bæjaryfirvöld flögguðu ekki einu sinni íslenska fánanum í tilefni dagsins, sem er móðgun við alla íslenska sjómenn.

Einnig má spyrja af hverju Faxaflóahafnir halda afar veglega dagskrá í Reykjavík en ekki á Akranesi?  Erum við Akurnesingar ekki hluti af Faxaflóahöfnum? 

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

04
Jun

Í morgun fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá Verkalýðsfélagi Akranesi

Í morgun fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá Verkalýðsfélagi Akranesi í tilefni sjómannadagsins sem er á sunnudaginn. Jóhann Örn Matthíasson formaður sjómannadeildar og Tómas Rúnar Andrésson  færðu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk.

Börnin á Teigaseli gerðu sér glaðan dag í tilefni dagsins og hittu þeir félagar börnin á hafnarsvæðinu þar sem þau skemmtu sér við pokahlaup og ýmsa aðra leiki tengda sjómannadeginum. Einnig komu þeir færandi hendi á Vallarsel, Garðasel og Akrasel.

03
Jun

Launahækkanir frá 1. júní 2010

Þann 1. júní hækkuðu laun hjá félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði. Um er að ræða hækkanir sem upphaflega áttu að koma til framkvæmda 1. janúar síðastliðinn en var frestað í tengslum við gerð stöðugleikasáttmálans á síðasta ári. Þessari hækkanir munu gilda út samningstímann sem er í flestum tilfellum til 30. nóvember 2010.

Rétt er að geta þess að fjölmörg fyrirtæki á félagssvæði VLFA komu með allar sínar launahækkanir eins og samningurinn frá 17. febrúar 2008 kvað á um.  Þau fyrirtæki sem frestuðu ekki launahækkunum þurfa eðlimálsins samkvæmt ekki að koma með taxtahækkanir núna enda voru þau búin að hækka laun sinna starfsmanna.


Hækkanir lágmarkstaxta nema almennt kr. 6.500,- en laun allra sem eru við störf á almenna vinnumarkaðnum hækka um a.m.k. 2,5%. Launataxtar hjá ríki og sveitarfélögum hækka einnig þann 1. júní en þær hækkanir koma fyrst og fremst á lægri taxtana. Hæstu launataxtar ríkis og sveitarfélaga taka ekki hækkunum að þessu sinni.


Þann 1. júní hækka einnig lágmarkstekjur sem greiða má fyrir fullt starf en þær verða kr. 165.000,- á mánuði. Það á við um alla launþegar sem orðnir eru 18 ára og hafa starfað a.m.k. fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki. 
 

Yfirlit um launahækkanir:
Almennt verkafólk, verslunarfólk, starfsfólk veitinga- og gistihúsa, bifreiðastjórar, aðstoðarmenn í iðnaðarstörfum, iðnverkafólk og aðrir á almennum vinnumarkaði, launataxtar hækka um kr. 6.500,-

Iðnaðarmenn án sveinsprófs, launataxtar hækka um kr. 9.450,-

Skrifstofufólk og iðnaðarmenn, launataxtar hækka um kr. 10.500,-

Laun þeirra sem fá greitt umfram kauptaxta hækka um 2,5%.

Kauptaxtar frá 1. júní
Laun skv. kjarasamningi VLFA og Samtaka atvinnulífsins sem starfa á almennum markaði frá 1. júní 2010.

Laun skv. kjarasamningi VLFA og Samtaka atvinnulífsins sem starfa á veitinga- og gistihúsum frá 1. júní 2010.



Laun skv. kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og ríkisins frá 1. júní 2010.

Laun skv. kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins frá 1. júní 2010. 

02
Jun

Sérkjaramenn Norðuráls fá ekki eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur, málið fer fyrir dóm

Rétt í þessu var að ljúka fundi sem formaður Verkalýðsfélags Akraness átti með mannauðsstjóra Norðuráls, Rakel Heiðmarsdóttur, og lögmanni fyrirtækisins, Árna Vilhjálmssyni. Gengið var frá kjarasamningi við fyrirtækið ekki alls fyrir löngu, kjarasamningi sem gaf starfsfólki góðar launahækkanir enda var hann samþykktur með 85% atkvæða.

Hins vegar bárust formanni þau válegu tíðindi að fámennur hópur starfsmanna sem eru svokallaðir sérkjaramenn en tilheyra margir hverjir samt sem áður stéttarfélögunum, hafi ekki fengið umsamda eingreiðslu að fjárhæð 150.000 krónur eins og aðrir starfsmenn. Þetta gerði Verkalýðsfélag Akraness alvarlegar athugasemdir við og á þeim forsendum var þessi fundur í dag. Þau rök sem Verkalýðsfélag Akraness lagði fram í dag eru að mati formanns alveg hvellskýr, að fyrirtækinu ber að greiða þessa umræddu eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur. Félagið mun fara með þetta mál fyrir dóm til að innheimta þessa eingreiðslu því lögmaður fyrirtækisins féllst ekki á rök félagsins.

Í sérkjarasamningi þessara starfsmanna sem um ræðir er kveðið á um að það sem ekki er getið um í sérkjarasamningnum skuli gilda hinn svokallaði aðalkjarasamningur Norðuráls við stéttarfélögin. Sérkjaramenn hafa ætíð fengið allar launahækkanir sem um hefur verið samið frá 1998 og á þeirri forsendu er rík hefð fyrir því hvernig þetta hefur verið framkvæmt. Þessu til viðbótar voru sumir sérkjaramenn á kynningarfundum um gerðan kjarasamning og einnig á kjörskrá og greiddu atkvæði um samninginn. Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að boða sérkjaramenn til fundar á mánudaginn næstkomandi klukkan 19 á Gamla kaupfélaginu þar sem farið verður yfir þessi mál og önnur mál sem einnig eru grafalvarleg og lúta að samningum sérkjaramanna.

31
May

Jákvæð tíðindi að hvalveiðar muni hefjast í júní

Það var afar ánægjulegt að lesa viðtal við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals, þar sem hann staðfestir að veiðar á hval muni hefjast í kringum miðjan júní. En eins og fram kom hér á heimasíðunni var komin upp óvissa með komandi hvalavertíð vegna lagafrumvarps um hvalveiðar sem lagt var fram en nú hefur verið tekin ákvörðun um að fresta þessu frumvarpi fram á haust.

Það eru 150 manns sem munu fá vinnu í kringum þessar veiðar og það er morgunljóst að það er afar jákvætt að fá þessi störf á þessum tímum þegar atvinnuleysi er umtalsvert á okkar svæði. Tekjumöguleikar þeirra sem starfa við hvalvinnsluna eru umtalsverðir en meðallaun hjá þeim sem tilheyrðu Verkalýðsfélagi Akraness í fyrra voru 571 þúsund krónur en rétt er að geta þess að gríðarleg vinna lá að baki þeim launum.

28
May

Undirbúningur á kröfu á hendur þrotabúi BM Vallár byrjaður

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Arion banki yfirtekið rekstur þrotabús Smellinns og um leið tryggt áframhaldandi rekstur þess. Af 20 starfsmönnum sem störfuðu hjá Smellinn voru 15 endurráðnir og er félagið núna að hefja vinnu við að undirbúa kröfur á þrotabúið því ljóst er að sumir starfsmenn muni eiga útistandandi launakröfur á þrotabúið. Lögmaður félagsins mun aðstoða það við að útbúa þessar kröfur.

Einnig liggur fyrir að sumir starfsmenn hafa lækkað í launum og þar af leiðandi þarf að gera kröfur á þrotabúið varðandi þann mismun sem fólginn er í lækkun launa og þeim uppsagnarfresti sem starfsmenn eiga. Formaður mun vera í sambandi við starfsmenn eftir helgi varðandi gögn sem félagið þarf að fá til að geta reiknað út nákvæmar kröfur til handa starfsmönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image