• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

27
Apr

1. maí hátíðarhöld á Akranesi

Að venju munu Verkalýðsfélag Akraness, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, VR, FIT Félag iðn- og tæknigreina, Kennarasamband Íslands og Sjúkraliðafélag Íslands standa fyrir dagskrá á hátíðar- og baráttudegi verkafólks þann 1. maí.

Safnast verður saman við Kirkjubraut 40, kl. 14:00 og genginn hringur á neðri-Skaga. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40.

Ræðumaður dagsins er Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Grundartangakórinn og Kvennakórinn Ymur munu syngja nokkur lög. Að dagskrá lokinni verður gestum boðið upp á kaffihlaðborð.

1. maí-nefndin býður öllum börnum frítt í bíó í Bíóhöllinni kl. 15:00.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna og taka þátt í hátíðardagskránni.

23
Apr

Kynningar á kjarasamningi ganga mjög vel

Formaður félagsins hefur verið að kynna nýgerðan kjarasamning fyrir starfsmönnum Norðuráls og hófust kynningarnar kl. 6 að morgni sumardagsins fyrsta og stóðu nánast samfleytt til 22 um kvöldið. Kynningarnar eru nú orðnar tíu samtals. Nú þegar er búið að kynna samninginn fyrir yfir 60% af starfsmönnum. Restin af kynningunum mun fara fram á mánudag og þriðjudag en hægt verður að kjósa um samninginn til kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 28. apríl.

Almennt virðast þeir starfsmenn sem hafa hlýtt á þær kynningar sem lokið er vera ánægðir með innihald samningsins. Það má kannski segja að það sé ekkert skrýtið í ljósi þeirra staðreyndar að meginmarkmið stéttarfélaganna náðust fram í þessum samningi. Laun starfsmanna eru að hækka umtalsvert í þessum samningi en almennt eru starfsmenn í vaktavinnu að hækka frá 30 þúsund krónum upp í 34 þúsund krónur á mánuði. Einnig var samið um eingreiðslu upp á 150 þúsund krónur og samningurinn gildir frá 1. janúar 2010 sem gerir það að verkum að verði samningurinn samþykktur getur starfsmaður með 3 ára starfsreynslu í kerskála átt von á endurgreiðslu sem nemur tæpum 300 þúsund krónum um miðjan maí.

Síðan má ekki gleyma einu stóru atriði sem náðist fram sem er verkfallsréttur en slíkan rétt hafa starfsmenn ekki haft frá því að verksmiðjan var byggð 1998.

22
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gærkvöldi

Í gærkvöldi var Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn á Gamla Kaupfélaginu. Á fundinum fór formaður félagsins yfir starfsemi og verkefni félagsins frá síðasta aðalfundi og endurskoðendur kynntu afkomu félagsins. Það er skemmst frá því að segja að afkoma félagsins var afskaplega góð á síðasta ári eins og reyndar á undanförnum árum, en heildarrekstrarafgangur samstæðunnar var tæpar 100 milljónir. Félagið tapaði ekki einni einustu krónu vegna efnahagshrunsins þar sem allir fjármunir félagsins hafa ávallt verið ávaxtaðir með besta og tryggasta hætti sem mögulegt er hverju sinni.

Endurskoðendur félagsins fóru yfir ársreikninga félagsins og í yfirferð þeirra kom m.a. fram að allir sjóðir félagsins eru reknir með rekstrarafgangi. Það er gríðarlega mikilvægt að rekstur félagsins skuli vera með þessum hætti því fjárhagslega sterkt og sjálfstætt félag er engum háð og betur í stakk búið til að styðja við sína félagsmenn og berjast fyrir réttindum þeirra af öllum kröftum.

Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir þær gríðarlegu breytingar Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið á undanförnum árum. Ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig félagslega. Félagsmönnum hefur t.a.m. fjölgað mjög ört undanfarin ár og eru núna tæplega 3.000 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness en voru rúmlega 1.600 þegar ný stjórn tók við árið 2003. Einnig hefur þjónusta við félagsmenn tekið algjörum stakkaskiptum.

  

Það var afar ánægjulegt að heyra hversu ánægðir fundarmenn voru með starfsemi félagsins og gerir slíkt ekkert annað en að efla stjórnir og starfsmenn félagsins enn frekar til dáða.

22
Apr

Gleðilegt sumar

Stjórnir og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum öllum nær og fjær gleðilegs sumars, með þökk fyrir liðinn vetur. 

21
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn í kvöld

 Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn í kvöld kl. 18:00. Fundurinn verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi og er, eins og alltaf, opinn öllum félagsmönnum.

Dagskrá fundarins er á þessa leið:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu
  3. Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins
  4. Önnur mál

Eftir fundinn verður boðið upp á kvöldverð. Félagsmenn sem áhuga hafa á starfsemi félagsins eru eindregið hvattir til að mæta.

20
Apr

Samningur Norðuráls undirritaður í nótt

Klukkan 1 í nótt var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir starfsmenn Norðuráls en þá hafði fundur staðið yfir samfleytt í tæpa 15 klukkutíma.

Meginkröfur stéttarfélaganna náðust fram í þessari mjög erfiðu kjaradeilu. Samningurinn mun gefa starfsmönnum á 1. ári 11,2% launahækkun, en inni í þeirri tölu er eingreiðsla upp á kr. 150.000 sem verður til greiðslu í maí 2010.

Heildarlaun vaktavinnumanna á 5 ára taxta í dag með öllu eru kr. 406.418. Þau munu hækka í kr. 439.418 eða sem nemur kr. 33.000 á mánuði. Laun eru að hækka um kr. 30.000 og upp í tæpar 34.000 kr. á mánuði. Samningurinn mun gilda frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2014. Hafa ber það í huga að launaliðurinn verður laus um næstu áramót og verður þá samið um hvernig þróun launaliða skuli háttað á samningstímanum.

Eitt gríðarlega mikilvægt atriði náðist fram í þessum kjarasamningum, en það var að nú munu starfsmenn Norðuráls eiga verkfallsrétt eins og flestir aðrir launþegar þessa lands. En eins og flestir vita þá var gengið frá því í kjarasamningum 1998 að starfsmenn Norðuráls höfðu ekki slíkan rétt. Nú er, eins og áður sagði, búið að ná þessum rétti aftur inn og var það ekki átakalaust.

Á heildina litið er formaður Verkalýðsfélags Akraness mjög sáttur með þennan samning, enda náðust fram allflestar meginkröfur okkar eins og áður hefur komið fram. Þessi barátta hefur staðið yfir frá 30. október 2009 eða í tæpt hálft ár og er ein sú alerfiðasta kjaradeila sem formaður hefur tekið þátt í að leysa frá því hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness.

Nú er verið að undirbúa kynningar á þessum samningi og munu flestar kynningarnar fara fram á vinnustaðnum og í vinnutíma. Verður fyrsta kynningin á fimmtudagsmorgun kl. 06:00 og verða kynningar nánast linnulaust allan þann dag. Kynningar munu einnig fara fram á föstudag og mánudag og síðustu kynningarnar verða þriðjudaginn 27. apríl. Hægt verður að kjósa um samninginn að lokinni hverri kynningu fyrir sig og einnig hjá aðaltrúnaðarmanni.

Formaður félagsins vill fyrir hönd samninganefndarinnar þakka starfsfólki Ríkissáttasemjara fyrir frábær störf. Það er alveg ljóst að þar er mikið fagfólk á ferð enda voru öll vinnubrögð af hálfu starfsfólksins og sáttasemjara til mikillar fyrirmyndar í þessari erfiðu deilu.

Upplýsingar um tímasetningar allra kynninga sem framundan eru fyrir starfsfólk Norðuráls má finna hér. 

Hægt er að skoða meginniðurstöður samningsins með því að smella á meira.

Megin niðurstöður samningsins eru eftirfarandi:

·         4,7% grunnlaunahækkun frá 1. 1. 2010

·         3,75% hækkun á bónus frá 1.1. 2010 (hámarksbónus verður 11,25%)

.         Nýir bónusar bætast við í tengslum við ristíma og ristíðni

·         Bónus reiknast af föstum launum, þ.m.t. ferðapeningum

·         150.000 kr. eingreiðsla í maí 2010

·         Uppfærð slysa- og sjúkratryggingarákvæði til samræmis við almenna samninga

·         Aukin réttindi vegna veikinda barna

·         Norðurál mun greiða í starfsmenntasjóði og endurhæfingarsjóð

·         Verkfallsákvæði hefur verið tekið inn

·         Launaliðurinn gildir til eins árs, þ.e. til 31. des 2010

·         Samningurinn í heild sinni gildir til 31. des 2014

19
Apr

Fundur hjá Ríkissáttasemjara

Fundur hófst hjá Ríkissáttasemjara klukkan 09:00 í morgun vegna kjaraviðræðna við Norðurál. Þótt samkomulag hafi þegar tekist um ákveðin mikilvæg atriði í samningalotu síðustu viku, þá hefur ekki enn tekist að ná samkomulagi um stóra málið, launalið samningsins.

Miðað við viðbrögð forsvarsmanna Norðuráls í lok sáttafundar síðastliðinn föstudag þá var formaður félagsins ekki bjartsýnn fyrir fundinn í morgun. Krafa samninganefndar stéttarfélaganna er skýr og afar sanngjörn: að laun starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð á við laun starfsmanna í sambærilegum stóriðjufyrirtækjum. Frá þessari kröfu verður ekki hvikað.

16
Apr

13 tíma samningalotu lauk í gærkvöldi án samnings

Samningafundi sem stóð í nær 13 klukkustundir lauk hjá Ríkissáttasemjara á ellefta tímanum í gærkvöldi án þess að undirritaður væri nýr kjarasamningur við Norðurál.

Því miður náðist ekki að klára nýjan samning í gærkvöldi eins og vonir samninganefndarinnar stóðu til. Það sem út af stendur núna er launaliðurinn, en því miður ber enn töluvert á milli samningsaðila og það er dapurlegt að verða vitni að því að samningsvilji eigenda þessa fyrirtækis virðist því miður vera af skornum skammti.

Það liggur fyrir að launakjör starfsmanna Norðuráls eru mun lakari en hjá starfsbræðrum þeirra bæði hjá Elkem Ísland og Alcan og það er orðið tímabært að eigendur Norðuráls geri sér grein fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness og samninganefndin í heild sinni mun ekki sætta sig við slíkan ójöfnuð.

Rétt er þó að geta þess að nokkur mikilvæg réttindamál áunnust í samningalotu gærdagsins, en aðalmálið sem er launaliðurinn virðist ætla að verða afskaplega þungur í skauti fyrir eigendur þessa fyrirtækis.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á mánudaginn kl. 09:00 og það er öllum ljóst, bæði samninganefnd fyrirtækisins, samninganefnd stéttarfélaganna og Ríkissáttasemjara, að úrslitatilraun um hvort samningsaðilar leysa þessa deilu eður ei mun verða gerð á mánudaginn.

Því miður er formaður samninganefndar ekki bjartsýnn, miðað við viðbrögð eigenda fyrirtækisins í lok fundar í gær. En það er orðið tímabært að þeir menn sem ráða þessu ferli fari að opna augun fyrir því að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsmenn annarra sambærilegra verksmiðja.

Það mun aldrei líðast að rekinn verði einhver láglaunastefna í stóriðjum þessa lands. Álverðið í dag er 2.400 dollarar, gengi dollars gagnvart íslensku krónunni er útflutningsfyrirtækjum afar hagkvæmt og rekstur Norðuráls frá upphafi hefur skilað eigendum þessa fyrirtækis tugum milljarða í hagnað. Á þessum forsendum munu stéttarfélögin alls ekki hvika frá sinni sanngjörnu kröfu um jöfnun launa á við önnur stóriðjufyrirtæki.

15
Apr

Fyrri úthlutun sumarsins 2010 lokið

Fyrri úthlutun orlofshúsa sumarið 2010 er nú lokið og gekk vonum framar. Í fyrsta sinn var nú hægt að skila umsóknum á Félagavefnum og bárust um helmingur umsókna á þann hátt sem er mun hærra hlutfall en vonast var eftir.

Svarbréf til allra umsækjenda, hvort sem þeir fengu úthlutað eða ekki, voru póstlögð í gær. Þeir sem fengu úthlutað geta nú þegar séð bókun sína á Félagavefnum (undir Orlofshús og Bókunarsaga) og geta á sama stað greitt með greiðslukorti. Einnig er hægt að ganga frá greiðslu með millifærslu í heimabanka eða á skrifstofu félagsins. Ganga verður frá greiðslu fyrir eindaga sem er 23. apríl.

Eftir eindaga verða ógreiddar bókanir felldar niður og teknar til endurúthlutunar. Allir þeir sem ekki fengu úthlutað í fyrri úthlutun eru sjálfkrafa með í endurúthlutun og einnig geta þeir sem voru seinir fyrir skilað inn umsókn. Þeim sem eiga inni umsókn í endurúthlutun er bent á að hægt er að breyta umsókninni fyrir endurúthlutunina til að auka möguleika á að fá úthlutað. Nú þegar er hægt að sjá á Félagavefnum (undir Orlofshús og Laus orlofshús) hvaða vikur gengu ekki út í fyrri úthlutun. Eftir eindaga, 23. apríl, mun þessum lausu vikum fjölga umtalsvert þegar búið er að fella niður ógreiddar bókanir.

Frestur til að skila nýjum eða breyttum umsóknum í endurúthlutun er til miðnættis 28. apríl. Endilega hafið samband við skrifstofu ef aðstoðar er þörf við umsóknarferlið eða ef spurningar vakna við notkun Félagavefsins..

14
Apr

Úrslitastund á morgun

Á morgun rennur upp úrslitastund varðandi hvort deiluaðilar vegna kjarasamnings Norðuráls muni ná saman eða ekki en ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar kl. 10 í fyrramálið.

Það er alveg ljóst að ennþá ber töluvert í milli samningsaðila í stórum málum og nægir að nefna í því samhengi launaliðinn en ljóst er samkvæmt því tilboði sem forsvarsmenn Norðuráls hafa lagt fram að umtalsverður munur er ennþá á milli deiluaðila. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni er meginkrafa samninganefndar stéttarfélaganna að starfsmenn Norðuráls njóti sömu kjara og starfsbræður þeirra í Alcan í Straumsvík.

Það er einnig ljóst að frá þessari kröfu um jöfnun launa við verksmiðjur í sambærilegum iðnaði verður ekki hvikað. Með öðrum orðum: Það verður ekki skrifað undir kjarasamning þar sem jöfnun launa er ekki að eiga sér stað. Þessu sjónarmiði hefur margoft verið komið fram við forsvarsmenn fyrirtækisins og ríkissáttasemjara er það kunnugt enda eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara heldur en aðrir starfsmenn í sambærilegum iðnaði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image