• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Apr

Fundur hjá Ríkissáttasemjara

Fundur hófst hjá Ríkissáttasemjara klukkan 09:00 í morgun vegna kjaraviðræðna við Norðurál. Þótt samkomulag hafi þegar tekist um ákveðin mikilvæg atriði í samningalotu síðustu viku, þá hefur ekki enn tekist að ná samkomulagi um stóra málið, launalið samningsins.

Miðað við viðbrögð forsvarsmanna Norðuráls í lok sáttafundar síðastliðinn föstudag þá var formaður félagsins ekki bjartsýnn fyrir fundinn í morgun. Krafa samninganefndar stéttarfélaganna er skýr og afar sanngjörn: að laun starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð á við laun starfsmanna í sambærilegum stóriðjufyrirtækjum. Frá þessari kröfu verður ekki hvikað.

16
Apr

13 tíma samningalotu lauk í gærkvöldi án samnings

Samningafundi sem stóð í nær 13 klukkustundir lauk hjá Ríkissáttasemjara á ellefta tímanum í gærkvöldi án þess að undirritaður væri nýr kjarasamningur við Norðurál.

Því miður náðist ekki að klára nýjan samning í gærkvöldi eins og vonir samninganefndarinnar stóðu til. Það sem út af stendur núna er launaliðurinn, en því miður ber enn töluvert á milli samningsaðila og það er dapurlegt að verða vitni að því að samningsvilji eigenda þessa fyrirtækis virðist því miður vera af skornum skammti.

Það liggur fyrir að launakjör starfsmanna Norðuráls eru mun lakari en hjá starfsbræðrum þeirra bæði hjá Elkem Ísland og Alcan og það er orðið tímabært að eigendur Norðuráls geri sér grein fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness og samninganefndin í heild sinni mun ekki sætta sig við slíkan ójöfnuð.

Rétt er þó að geta þess að nokkur mikilvæg réttindamál áunnust í samningalotu gærdagsins, en aðalmálið sem er launaliðurinn virðist ætla að verða afskaplega þungur í skauti fyrir eigendur þessa fyrirtækis.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á mánudaginn kl. 09:00 og það er öllum ljóst, bæði samninganefnd fyrirtækisins, samninganefnd stéttarfélaganna og Ríkissáttasemjara, að úrslitatilraun um hvort samningsaðilar leysa þessa deilu eður ei mun verða gerð á mánudaginn.

Því miður er formaður samninganefndar ekki bjartsýnn, miðað við viðbrögð eigenda fyrirtækisins í lok fundar í gær. En það er orðið tímabært að þeir menn sem ráða þessu ferli fari að opna augun fyrir því að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsmenn annarra sambærilegra verksmiðja.

Það mun aldrei líðast að rekinn verði einhver láglaunastefna í stóriðjum þessa lands. Álverðið í dag er 2.400 dollarar, gengi dollars gagnvart íslensku krónunni er útflutningsfyrirtækjum afar hagkvæmt og rekstur Norðuráls frá upphafi hefur skilað eigendum þessa fyrirtækis tugum milljarða í hagnað. Á þessum forsendum munu stéttarfélögin alls ekki hvika frá sinni sanngjörnu kröfu um jöfnun launa á við önnur stóriðjufyrirtæki.

15
Apr

Fyrri úthlutun sumarsins 2010 lokið

Fyrri úthlutun orlofshúsa sumarið 2010 er nú lokið og gekk vonum framar. Í fyrsta sinn var nú hægt að skila umsóknum á Félagavefnum og bárust um helmingur umsókna á þann hátt sem er mun hærra hlutfall en vonast var eftir.

Svarbréf til allra umsækjenda, hvort sem þeir fengu úthlutað eða ekki, voru póstlögð í gær. Þeir sem fengu úthlutað geta nú þegar séð bókun sína á Félagavefnum (undir Orlofshús og Bókunarsaga) og geta á sama stað greitt með greiðslukorti. Einnig er hægt að ganga frá greiðslu með millifærslu í heimabanka eða á skrifstofu félagsins. Ganga verður frá greiðslu fyrir eindaga sem er 23. apríl.

Eftir eindaga verða ógreiddar bókanir felldar niður og teknar til endurúthlutunar. Allir þeir sem ekki fengu úthlutað í fyrri úthlutun eru sjálfkrafa með í endurúthlutun og einnig geta þeir sem voru seinir fyrir skilað inn umsókn. Þeim sem eiga inni umsókn í endurúthlutun er bent á að hægt er að breyta umsókninni fyrir endurúthlutunina til að auka möguleika á að fá úthlutað. Nú þegar er hægt að sjá á Félagavefnum (undir Orlofshús og Laus orlofshús) hvaða vikur gengu ekki út í fyrri úthlutun. Eftir eindaga, 23. apríl, mun þessum lausu vikum fjölga umtalsvert þegar búið er að fella niður ógreiddar bókanir.

Frestur til að skila nýjum eða breyttum umsóknum í endurúthlutun er til miðnættis 28. apríl. Endilega hafið samband við skrifstofu ef aðstoðar er þörf við umsóknarferlið eða ef spurningar vakna við notkun Félagavefsins..

14
Apr

Úrslitastund á morgun

Á morgun rennur upp úrslitastund varðandi hvort deiluaðilar vegna kjarasamnings Norðuráls muni ná saman eða ekki en ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar kl. 10 í fyrramálið.

Það er alveg ljóst að ennþá ber töluvert í milli samningsaðila í stórum málum og nægir að nefna í því samhengi launaliðinn en ljóst er samkvæmt því tilboði sem forsvarsmenn Norðuráls hafa lagt fram að umtalsverður munur er ennþá á milli deiluaðila. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni er meginkrafa samninganefndar stéttarfélaganna að starfsmenn Norðuráls njóti sömu kjara og starfsbræður þeirra í Alcan í Straumsvík.

Það er einnig ljóst að frá þessari kröfu um jöfnun launa við verksmiðjur í sambærilegum iðnaði verður ekki hvikað. Með öðrum orðum: Það verður ekki skrifað undir kjarasamning þar sem jöfnun launa er ekki að eiga sér stað. Þessu sjónarmiði hefur margoft verið komið fram við forsvarsmenn fyrirtækisins og ríkissáttasemjara er það kunnugt enda eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara heldur en aðrir starfsmenn í sambærilegum iðnaði.

13
Apr

Árið 2008 höfðu greiningardeildir bankanna áhyggjur af kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík voru í útvarpsviðtali í Íslandi í bítið í morgun þar sem skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var til umfjöllunar.

Fram kom í máli formanns félagsins að honum væri það minnistætt þegar verið var að ganga frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði árið 2008, þá heyrðust varnaðarorð frá greiningardeildum bankanna. Byggðust þau varnaðarorð á því að launafólk þyrfti að semja með hófstilltum hætti til að ná tökum á verðbólgunni og stuðla að stöðugleika til lengri tíma litið.

Þetta sögðu snillingarnir sem voru í greiningardeildum bankanna í byrjun árs 2008, með öðrum orðum var aðalmálið hjá þeim að vara verkalýðshreyfinguna við að fara fram á miklar launabætur til handa sínu fólki. Á sama tíma var verið að ræna bankana innan frá en aðaláhyggjur greiningadeildanna voru launahækkanir verkafólks.

Græðgin var allsráðandi í bankakerfinu og nægir að nefna eins og fram kemur í rannsóknarskýrslunni að ráðningarsamningur Lárusar Welding var metinn á 5,1 milljarð króna. Ekki má gleyma launakjörum Bjarna Ármannssonar en á árinu 2004 var hann með 9 milljónir á mánuði en einungis þremur árum seinna voru launin orðin 50 milljónir á mánuði. Þetta kallar maður alvöru starfsaldurshækkun.

Krafan er skýr frá íslensku verkafólki: að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessum hlutum verði látnir sæta þeirri ábyrgð og það eins fljótt og kostur er. Grundvallaratriðið er að eigur þessara manna sem bera ábyrgð á þessu verði frystar hið snarasta á meðan á rannsókninni stendur. Það er óþolandi að verða vitni að því eins og fram kemur í rannsóknarskýrslunni að Lárus Welding tæmdi bankareikning sinn, 318 milljónir, á sama tíma og hann sagði við alþjóð að allt væri í stakasta lagi í bankanum. Þetta gerðu Elín Sigfúsdóttir og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar hjá Landsbankanum einnig en þau komu greiðslum í séreignalífeyrissjóðum sínum í skjól. Fram kemur einnig í rannsóknarskýrslunni að margir af æðstu stjórnendum bankanna hafi verið að setja eigur sínar yfir á maka sína, augljóslega til að reyna að skjóta einhverju undan.

12
Apr

Síðasti dagur að skila umsóknum um orlofshús

Í dag er síðasti skiladagur umsókna um orlofshús Verkalýðsfélags Akraness sumarið 2010. Hægt er að skila á opnunartíma skrifstofu til kl. 16:00. Einnig verður hægt að skila á félagavefnum til miðnættis í kvöld.

Starfsfólk skrifstofu mun í fyrramálið hefjast handa við frágang úthlutunar. Allar umsóknir verða skráðar inn í orlofshúsakerfi félagsins sem raðar þeim upp í röð eftir punktastöðu félagsmanns og úthlutar eftir því. Ef vel gengur verður þessari vinnu lokið á miðvikudag og þá verður öllum umsækjendum sent bréf, hvort sem þeir fá úthlutað eður ei.

Fái félagsmaður úthlutað skal hann ganga frá greiðslu eigi síðar en 23. apríl. Hægt er að greiða á skrifstofu félagsins, með millifærslu í banka, eða greiða með korti á félagavefnum.

10
Apr

Búið að fresta samningafundi Norðuráls

Forsvarsmenn Norðuráls hafa óskað eftir því að samningafundinum sem ríkissáttasemjari var búinn að boða til nk. mánudag verði frestað fram til miðvikudags.

Ástæðan er sú að þeir segjast þurfa meiri tíma til að svara efnislega þeim kröfum sem stéttarfélögin hafa sett fram.  Það er ríkissáttasemjari einn sem getur heimilað slíka frestun þar sem hann sem stjórnar alfarið viðræðum og fundartímum. Sáttasemjari hefur samþykkt að fresta fundi fram á miðvikudag.

Það er því ljóst að algjör úrslitastund mun renna upp í þessum kjaraviðræðum á miðvikudaginn kemur og vonandi fara forsvarsmenn Norðuráls að sýna meiri samningsvilja en þeir hafa gert hingað til.

09
Apr

Úrslitastund á mánudaginn næstkomandi

Eins og fram hefur komið hér á síðunni var samningafundur í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar við Norðurál haldinn í dag. Á fundi, sem haldinn var sl. miðvikudag, lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram nýtt tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls hafa haft til skoðunar síðan þá. Á fundinum í dag kom svar við tilboði stéttarfélaganna frá forsvarsmönnum Norðuráls. 

Því miður þá ber enn töluvert mikið á milli í launaliðnum á því tilboði sem forsvarsmenn Norðuráls lögðu fram í dag og er morgunljóst að þar er ekki um að ræða jöfnun launakjara við Alcan og Elkem. 

Það eru mikil vonbrigði að forsvarsmenn Norðuráls skuli ekki hafa sýnt meiri samningsvilja á þessum fundi en raunin varð.  Ríkissáttasemjari ákvað að boða til næsta fundar á mánudaginn kemur.

Það er hvellskýrt af hálfu formanns Verkalýðsfélags Akraness að um úrslitatilraun verður að ræða á mánudaginn kemur, hvort deiluaðilar muni ná saman eða ekki. Það kom einnig fram hjá formanni félagsins á fundinum í dag að ekki verður kvikað frá þeirri sanngjörnu kröfu að starfsmenn Norðuráls njóti sambærilegra kjara og starfsbræður þeirra í Alcan og Elkem.  Það er einlæg von formanns félagsins að forsvarsmenn Norðuráls fari að átta sig á því að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn þeirra njóti ekki sömu kjara og starfsbræður þeirra í Alcan í Straumsvík.

Verkalýðsfélag Akraness mun alls ekki sætta sig við það ef stefna Norðuráls verður sú að gera störf í stóriðjum að láglaunastörfum.  Launakostnaður í Norðuráli var einungis 7% af heildarveltu á árinu 2008 og ljóst að mörg fyrirtæki myndu vilja sjá slíkar tölur í sínum efnahagsreikningum.

09
Apr

Fundur að hefjast hjá Ríkissáttasemjara

Núna klukkan 10 er að hefjast samningafundur í húsakynnum Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar við Norðurál. Á síðasta fundi, sem haldinn var sl. miðvikudag, lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram nýtt tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls hafa haft til skoðunar síðan þá. Á fundinum í dag munu forsvarsmenn Norðuráls svara tilboði stéttarfélaganna efnislega.

Að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega mikilvægt að á næstu dögum náist niðurstaða hjá samningsaðilum þar sem mikillar óþreyju gætir nú hjá starfsmönnum Norðuráls sem hafa verið með lausan kjarasamning síðan um áramót.

09
Apr

Góður rekstur Verkalýðsfélags Akraness

Á fundum allra stjórna Verkalýðsfélags Akraness í gærkvöldi kynntu endurskoðendur félagsins ársreikninga 2009. Það verður að segjast alveg eins og er að afkoma félagsins var afar góð á síðasta ári þrátt fyrir þær hremmingar sem gengið hafa yfir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar.

Sem dæmi þá lækka iðgjaldatekjur ekki á milli ára, þrátt fyrir mikinn samdrátt á vinnumarkaðnum heilt yfir og sýnir það þann styrk sem félagið býr yfir og nokkuð stabílt atvinnuástand. Það er alveg ljóst að veiðar á hval höfðu töluverð áhrif, enda höfðu upp undir 100 manns atvinnu af hvalnum og voru meðaltekjur þeirra sem þar störfuðu yfir 500.000 krónur á mánuði.

Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins, en heildarrekstrarafgangur samstæðunnar nam rúmum 95 milljónum króna. Það er gríðarlegur styrkur í því fyrir Verkalýðsfélag Akraness að afkoman skuli vera jafn góð og raun ber vitni enda hefur stjórn félagsins undanfarin ár aukið við hina ýmsu þjónustu til handa félagsmönnum í ljósi góðrar afkomu. Á það jafnt við um sjúkrasjóð félagsins sem og hina ýmsu möguleika í orlofsmálum, nægir þar að nefna Veiðikort, Útilegukort og gistingu á Edduhótelum. Þetta er ekki hægt að gera nema þegar rekstur félagsins er jafn góður og raun ber vitni um.

Það er allt í lagi að rifja það upp að þegar núverandi stjórn tók við í lok árs 2003, þá var félagið rekið á yfirdrætti. Á þessum rúmum 6 árum hefur núverandi stjórn tekist að snúa rekstri félagsins algerlega við, bæði félagslega og fjárhagslega. Á þessum tíma hefur félagsmönnum líka fjölgað umtalsvert eða um 87%. Þetta sýnir að fólk telur hag sínum vel borgið í sterku og öflugu stéttarfélagi.

Aðalfundur félagsins verður haldinn miðvikudaginn 21. apríl kl. 18:00  í Gamla kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi. Skorar stjórn félagsins á félagsmenn að mæta, en boðið verður upp á kvöldverð að loknum fundi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image