• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Aug

Skertar atvinnuleysisbætur vegna séreignargreiðslna

Verkalýðsfélag Akraness hvetur þá félagsmenn sem eru 60 ára eða eldri og hafa verið að fá atvinnuleysisbætur ásamt því að fá greiddan séreignarlífeyrissparnað til að kanna hvort bætur þeirra hafi verið skertar vegna þessa.

En breytingar voru gerðar á lögum um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 70/2010, sem tóku gildi í júní sl. Breytingar þessar fela meðal annars í sér að þeir sem eru 60 ára eða eldri og hafa fengið skertar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á tímabilinu 1. mars 2009 til dagsins í dag, vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði, geta átt rétt á endurgreiðslu úr Atvinnuleysis-tryggingasjóði sem nemur fjárhæð skerðingarinnar. Þetta á hins vegar ekki við um þá sem eru yngri en 60 ára þar sem greiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum skerða ekki greiðslur til þeirra úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Félagsmönnum er bent á að til að fá þetta leiðrétt þá verða þeir sem telja að um skerðingu hafi verið að ræða að sækja um endurútreikning á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hægt er að nálgast umsóknareyðublað hér.  
Nauðsynlegt er að láta kvittun eða greiðsluyfirlit vegna greiðslna úr séreignarlífeyrissjóði fylgja með umsókn um endurútreikning.

Starfsmenn félagsins hafa einnig verið að aðstoða nokkara einstaklinga að sækja um umrædda leiðréttingu og þeim félagsmönnum sem telja sig eiga rétt á leiðréttingu er velkomið að fá aðstoð við að fylla út umsóknarblað.

Framangreind breyting var m.a. gerð eftir að Verkalýðsfélag Akraness gerði athugasemdir við þessa skerðingu af hálfu hins opinbera.  Halldór Grönvold hjá ASÍ fylgdi síðan málinu eftir með þessum jákvæða árangri. Þrátt fyrir óskir  ASÍ um að Greiðslustofa Vinnumálastofnunar myndi sjá um framkvæmdina, þannig að endurgreiðsla færi fram sjálfkrafa Þá var ekki fallist á það. Því þurfa einstaklingar að sækja sérstaklega um þessa endurgreiðslu.


Þarna getur verið um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir viðkomandi einstaklinga og er bent á að umsóknarfrestur er til 1. september nk.

Allar frekari upplýsingar um málið og framkvæmdina má fá á vef Vinnumálastofnunar: http://www.vinnumalastofnun.is/frettir/nr/2163/  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image